Magnús Kristleifur Magnússon
Magnús Kristleifur Magnússon fæddist 4. nóvember 1890 og lést 25.maí 1972. Hann var fæddur að Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum og byrjaði ungur að róa á áraskipum sumar og vetur frá heimabyggð sinni.
Til Vestmannaeyja kom Magnús fyrst til vertíðarstarfa árið 1918 og var þá með Guðjóni á Sandfelli. Magnús og Þórður Gíslason stofnsettu fyrsta netaverkstæðið í Vestmannaeyjum árið 1939 þeir nefndu það Netagerð Magnúsar og Þórðar en síðar fékk þetta fyrirtæki nafnið Veiðarfæragerð Vestmannaeyja. Magnús var mikill sómamaður sem vann að sjávarútveginum alla ævi bæði á sjó og í landi. Hann kenndi lengi ungum Eyjamönnum verklega sjóvinnu, fyrst við verknámsdeild Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum þar sem kennd var netabæting og felling neta. Við stofnun Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1964 kenndi hann ásamt sonum sínum og Hallgrími Þórðarsyni fjölbreytta verklega sjóvinnu fram á síðustu æviár.
Kona Magnúsar var Þuríður Guðjónsdóttir. Þau bjuggu að Vestmannabraut 76. Börn þeirra voru
- Ingveldur G.K., f. 27. nóvember 1919. d. 14. mars 2002
- Guðjón (Gaui Manga) f. 4. apríl 1921. d. 4. janúar 2001
- Magnús Kristleifur, f. 23. júlí 1929, d. 8. október 1965.
- Jón Ragnar Björnsson, uppeldissonur, f. 3. janúar 1940. d. 20. október 2009
Myndir
Heimildir
- Minnig um mann. Magnús K. Magnússon, Sigmar Þór Sveinbjörnsson. [1]