Kjartan Ólafsson (kennari)
Kjartan Ólafsson kennari fæddist á Torfastöðum í Fljótshlíð 3. ágúst 1917 og lést 13. desember 1969.
Foreldrar hans voru Ólafur Sigurðsson bóndi, f. 24. febrúar 1865, d. 30. janúar 1946 og kona hans Aðalheiður Jónsdóttir, f. 12. október 1873, d. 24. ágúst 1933.
Kjartan lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum 1933, kennaraprófi 1944.
Hann var kennari við Barnaskólann 1945- 1956 og Barnaskólann í Hafnarfirði frá 1956. Kennari var hann við kvöldskóla iðnaðarmanna í Eyjum 1945-1954. Bókari var hann við Sparisjóð Vestmannaeyja 1946-1956, endurskoðandi Kaupfélags Verkamanna 1950-1952 og Kaupfélags Vestmannaeyja 1953-1956. Hann var virkur félagsmaður í samtökum barnakennara í Eyjum.
Á yngri árum tók hann ríkan þátt í íþróttastarfi í Eyjum.
Kjartan var með afbrigðum handlaginn og vann oft á sumrum við iðnaðarstörf, einkum múrvinnu allskonar.
Eiginkona hans, frá 30. janúar 1943, var Sigríður Elísabet Bjarnadóttir húsfreyja ættuð frá Hafnarfirði, f. 6. mars 1915, d. 5. nóvember 1971.
Börn þeirra eru Inga Þyrí, f. 1943, Erna Björg, f. 1947 og Gréta, f. 1962.