Blik 1974/Skýrsla um matsveinanámskeið G. í V. 1938

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. maí 2010 kl. 20:39 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. maí 2010 kl. 20:39 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1974/Skýrsla um matsveinanámskeið G. í V. 1938“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



Skýrsla um matsveinanámskeið

Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1938



Námskeiðið hófst 18. október og því lauk 7. desember. Það var því starfrækt í 50 daga. Húsrúm hafði það að Breiðabliki, skólahúsi gagnfræðaskólans.
Þessir piltar sóttu námskeiðið:

Nemendur og kennari Matsveinanámskeiðs Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum haustið 1938.
- Aftari röð frá vinstri: Ingi Stefánsson, Þórður Sveinsson, Björn Bergmundsson, Eyjólfur Jónsson.
- Fremri röð frá vinstri: Gunnlaugur Sigurðsson, Jón Pálsson, Sigurþór Sigurðsson, Guðmundur Kristjánsson, og Ingólfur Ólafsson.

Björn Bergmundsson, f. 26. sept, 1914, frá Vestmannaeyjum.
Eyjólfur Jónsson, f. 27. marz 1912, frá Vestmannaeyjum.
Guðmundur Kristjánsson, f. 11. maí 1914, frá Vestmannaeyjum.
Gunnlaugur Sigurðsson, f. 20. maí 1920, frá Vestmannaeyjum.
Ingi Stefánsson, f. 7. ágúst 1918, frá Vestmannaeyjum.
Ingólfur Ólafsson, f. 23. jan. 1915, frá Vestmannaeyjum.
Jón Pálsson, f. 20. des. 1919, frá Norðfirði.
Þórður Sveinsson, f. 3. okt. 1902, frá Vestmannaeyjum.

Þetta var kennt að matargerð:
1. að laga 12 kjötrétti.
2. — — 14 fiskrétti.
3. — — 10 síldarrétti.
4. — — 6 búðingarétti.
5. — — 14 súpurétti.

Áherzla var lögð á að nota garðávöxt í réttina, svo sem kartöflur, gulrófur, rauðrófur, gulrætur, hvítkál, blómkál og grænkál. Allan brauðbakstur önnuðust piltarnir sjálfir undir handleiðslu matreiðslukennarans og lærðu að baka rúgbrauð, hveitibrauð og alls konar kaffibrauð. Áherzla lögð á nýtni, hreinlæti og reglusemi.
Matreiðslukennari var hr. Sigurþór Sigurðsson matsveinn í Reykjavík. Reyndist ágætur í starfinu.
Piltarnir lögðu til efni í fæðið. Námskeiðið var að öðru leyti kostað af Vestmannaeyjabæ og ríkissjóði.
Ásamt matargerðinni lærðu piltarnir íslenzku, reikning og bókfærslu samtals 6 stundir á viku. Bókfærslukennslan miðaði að því, að piltarnir gætu fært heimilisdagbók og fylgzt með tekjum og gjöldum síns eigin heimilis, en jafnframt fært dagbók yfir matvælakaup á útilegubátum eða öðrum fiskiskipum.
Bóklega námið kenndi undirritaður.
Piltarnir stunduðu námið af alúð og samvizkusemi og með starfsgleði.
Allir Eyjabúar viðurkenna, að matreiðslunámskeið gagnfræðaskólans sé nauðsynlegt atvinnulífi bæjarins og einn þáttur í því að efla sjómannastéttina hér og gera hana færari í sínu starfi. Ég skal fljótt viðurkenna, að þetta starf nær skammt og betur má ef duga skal. Svona námskeið er aðeins einn þátturinn í alhliða fræðslustarfi, sem þyrfti að eiga sér stað hér í Eyjum fyrir sjómannastéttina, og hún er vissulega þess verð, að fyrir hana sé starfað. En við þurfum líka að geta veitt ungum stúlkum hér húsmæðrafræðslu, búið þær undir húsmóðurstarfið. Víða úti um land hafa konur tekið að sér forustuna um þessa fræðslu. Ekki er vonlaust um, að það geti einnig orðið hér. Konurnar finna bezt, hvar skórinn kreppir að. Við þyrftum að geta starfrækt bér húsmæðraskóla þegar næsta haust, þó ekki væri nema tvo til þrjá mánuði. Hálfnað verk þá hafið er.

Þ.Þ.V.
(Víðir, 31. des. 1938).