Blik 1962/Fram til dáða

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. mars 2010 kl. 15:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. mars 2010 kl. 15:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1962/Fram til dáða“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



Fram til dáða



ctr


Við skólaslit 1961 færðu tíu ára gagnfræðingar skólanum málverk að gjöf. (Sjá bls. 286 hér í ritinu).
Einn þeirra gefendanna, sem fjarverandi voru við skólaslitin, var Erlingur Gissurarson frá Vegbergi í Eyjum. Hann gat ekki komið því við að heimsækja æskustöðvarnar og hitta gamla skólafélaga.
Fyrir 12 árum lærðu þeir piltar, sem voru í verklegu námi í Gagnfræðaskólanum, meðferð véla og hirðingu. Kennsla þessi, sem var þáttur í viðleitni skólans til þess að undirbúa nemendur sem bezt í þátttöku þeirra í atvinnulífi bæjarins, fór fram í kjallaraherbergi í íbúðarhúsi skólastjórans, þar sem skólinn hafði jafnframt netaverkstæði og lét kenna piltum gerð dragnóta o.fl. þvílikt. Páll Scheving, vélstjóri, kenndi piltunum meðferð vélanna og annað, sem að þeim laut, en vélarnar átti skólinn, — bífvél og bátavél.
Á s.1. sumri vorum við hjónin á ferð um Vestfirði. Þá henti það óhapp, að bifreið okkar bilaði á Dynjandisheiði nokkuð ofan við fossinn Dynjanda í Arnarfirði. Langt var til næsta þorps og því hætt við, að torvelt myndi að fá viðgerð á næstu dægrum. Bifreið, sem þarna bar að, flutti farþegana niður af heiðinni og að hinu glæsilega raforkuveri í Arnarfirði, Mjólkárvirkjuninni. Í von um einhverja fyrirgreiðslu, t.d. með hjálp síma, var knúið dyra á vistlegu húsi, sem stendur nálægt raforkuverinu. Spurt var eftir stöðvarstjóranum. Í sömu andrá bar þar að bifreið. Út úr henni steig stöðvarstjórinn, sem ég þóttist kannast við, enda reyndist hér vera kominn einn af elztu nemendum mínum í Gagnfræðaskólanum, 10-ára gagnfræðingurinn Erlingur Gissurarson.
Hér verður að gera langt mál stutt. Erlingur opnaði heimili sitt fyrir okkur hjónunum.
Nemandinn, sem fyrir 10 árum lærði undirstöðu að hirðingu og meðferð aflvéla í kjallaraherberginu í Goðasteini, var orðinn stöðvarstjóri orkuversins mikla, sem veitir öllum Vestfirðingum ljós og yl.
Bifreiðin bilaða var sótt upp á heiðina, og hóf Erlingur stöðvarstjóri þegar viðgerð á henni. Virtist sem allt léki í höndum hans, en varahluti þurfti að fá úr Reykjavík, svo að fullnaðarviðgerð dróst á langinn.
Þegar við kvöddum heimili Erlings Gissurarsonar, flaug mér í hug, að ef til vill hefði honum vaknað áhugi á vélum við kennsluna í kjallaraherberginu heima í Goðasteini fyrir 12 árum og sá neisti, sem þar glæddist, valdið mestu um, að Erlingur hélt áfram náminu og öðlaðist að lokum réttindi til að fara með þær risavöxnu vélar, sem stærstar eru allra aflvéla á Vestfjörðum.
Um leið og þessi fáu orð eru sögð, viljum við hjónin færa Erlingi og fjölskyldu hans beztu þakkir okkar fyrir hinar alúðlegu móttökur og alla fyrirgreiðslu og hjálp, — fyrir alla rausn og gestrisni.

S.J.J.