Blik 1973/Bryggjurnar í Neskaupstað 1939

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. janúar 2010 kl. 12:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. janúar 2010 kl. 12:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1973 ==Bryggjurnar í Neskaupstað== <br> <br> ctr|600px<br> <big>Af skiljanlegum ástæðum hef ég jafnan án...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



Bryggjurnar í Neskaupstað



ctr

Af skiljanlegum ástæðum hef ég jafnan ánægju af að birta í Bliki myndir frá æskuslóðum mínum. Það hef ég gert, hafi ég átt þess kost.
Hér birtum við mynd, sem að öllum líkindum á ekki sinn líka í öllu landinu. Það eru vélbátabryggjur Norðfirðinga árið 1939. Björn Björnsson heitir mætur maður, áður kaupmaður á Nesi í Norðfirði um árabil, nú búsettur í Reykjavík. Honum er ýmislegt gott til listar lagt. M.a. er hann myndasmiður með afbrigðum. Kunnar eru víða t.d. fuglamyndir hans. Hér birtum við mynd eftir B.B. Myndina hefur hann gefið Bliki svona upp á gamlan kunningsskap okkar, síðan ég dvaldist þarna strákurinn.
Ég hef tölusett bryggjurnar og vona, að lesendur Bliks, sem kynnu að hafa áhuga á þessu sögulega fyrirbrigði, geti áttað sig til fulls á myndinni og sögulegu gildi hennar út frá tölunum og skýringunum við þær.
Skýringarnar:

1 Bryggja sameiningarfélagsins, sem átti v/b Þór, þ.e. Eiríks Þorleifssonar í Dagsbrún og sona hans, Björns og Stefáns.
2 Bryggja Lúðvíks Sigurðssonar útgerðarmanns. Hann gerði út tvo vélbáta um langt árabil og var einn kunnasti útgerðarmaður á Nesi á sínum tíma.
3 Bryggja Sigfúsar kaupmanns Sveinssonar. Hann var kaupmaður og útgerðarmaður og að bryggju hans lögðust hafskip.
4 Bryggja Brynjólfs Björnssonar í Byggðarholti og Snorra sonar bans.
5 Bryggja Bergs smiðs Eiríkssonar á Þórhóli og Ásgeirs sonar hans.
6 Bryggja Sverris Sverrissonar útgerðarmanns í Sverrishúsi.
7 Bryggja Péturs útgerðarmanns Sveinbjarnarsonar á Kvíabóli.
8 Bryggja Svavars Víglundssonar útgerðarmanns, bróður míns.
9 Bryggja Haraldar Brynjólfssonar útgerðar- og fiskimatsmanns á Kvíabóli.
10 Bryggja Þorláks Gíslasonar útgerðarmanns í Sandhól.
11 Bryggja Gísla Hjálmarssonr frá Brekku í Mjóafirði, sem flutti til Norðfjarðar fyrir aldamótin og hóf þar útgerðarrekstur, einmitt þarna á Stekkjarncsinu. Þarna hóf Gísli útgerð gufubáts síns, sem hann keypti frá Noregi árið 1899 og var knúinn gufuvél. Bátinn kallaði hann Norðfjörð. Útgerð hans varði þrjú ár eða svo. Útgerðarmaðurinn byggði þarna sjóhús, sem jafnframt var vörugeymsluhús, pall framanvið það og svo bryggju. (sjá viðtal við Guðjón skipstj. Hjörleifsson: Fyrsta vélskipið. Sjómannadagurinn 1968).
12 Bryggja Konráðs kaupmanns og útgerðarmanns Hjálmarssonar frá Brekku í Mjóafirði, bróður Gísla (nr. 11). Þetta var hafskipabryggja. Á myndinni sjást leifar þessarar bryggju. Efst við hana er Bryggjuhúsið svo kallaða, með íbúðum handa verkafólki á efri hæð og þurrkfiskgeymslu á neðri hæð.
13 Bryggjan horfin. Þarna stóð spölkorn innan við bryggju K.H. bryggja Vigfúsar Sigurðssonar útgerðarmanns og formanns á Hóli, fóstra míns. Þarna var athafnasvæði mitt á bernsku- og æskuárunum við línuna og aðgerðina. Og svo hóf ég þarna sjómennsku frá bryggju þessari á fyrsta styrjaldarárinu 1914, þá fjórtán ára.
14 Bryggja Jóns kaupmanns Ísfeld frá Hesteyri í Mjóafirði.
15 Bryggja Björns útgerðar- og fiskimatsmanns Jónassonar, sem gerði út v/b Fram, einn af fyrstu vélbátunum, sem keyptir voru til kauptúnsins skömmu eftir aldamótin.
16 Bryggja eða bryggjur Stefáns kaupmanns og útgerðarmanns Stefánssonar, sem var einn af allra fyrstu vélbátaeigendunum í kauptúninu í Norðfirði. Bátur hans hét Hrólfur Gautreksson, sem síðar hlaut nafnið Gauti. Innan við bryggju Stefáns kaupmanns var um nokkurt árabil lítil bryggja, sem Sveinn útgerðarmaður Sveinbjörnsson átti. Hann var Mjófirðingur, frá Kolableikseyri þar í sveit.
17 Bryggja Jóns skipstjóra og útgerðarmanns Benónýssonar í Vík. Hann gerði út vélbát sinn Svein Viðfjörð frá fyrsta tugi aldarinnar. Rétt innnan við bryggju „Jóns Ben“ var bryggja Björns útgerðarmanns Bjarnasonar frá Krossi. Hann gerði út v/b Haka og bjó í Vík, skammt innan við íbúðarhús „Jóns Ben“.
18 Bryggja Sigfúsar útgerðarmanns Jónssonar í Sandbrekku („Fúsa í Vík“).
19 Bryggja Guðjóns útgerðarmanns og skipstjóra Símonarsonar.
20 Bryggja bræðranna Kristjáns og Jóhanns Eyjólfssona, — sameignarmanna um útgerð sína. Þeir voru frá Seli í Hellisfirði.
21 Bryggja bræðranna Ársæls og Þorsteins Júlíussona frá Mjóafirði. Þeir voru sameignamenn um útgerð. Þarna var áður lítil bryggja og útgerðarstöð Stefáns formann Benjamínssonar, sem var tengdafaðir þessara bræðra. Hann drukknaði við kollsiglingu á árabát sínum innan við Norðfjarðarhorn á unglingsárum mínum.
Milli bryggjanna nr. 20 og 21 var lítil bryggja, sem Jón Þórðarson trésmíðameistari á Akri átti.
Innan við bryggju 21, — milli nr. 21 og 22, — var lítil bryggja, sem Marteinn Magnússon útgerðarmaður á Sjónarhól átti.
22 Enoksbryggjan og síðar Huginsbryggjan, kennd við bátana, sem lögðu þar upp afla sinn. Eigendur þessara vélbáta voru bræðurnir og sameignarmennirnir Sveinn og Guðmundur Magnússynir frá Mel í Norðfirði.
23 Bryggja Sæmundar kaupmanns Þorvaldssonar. Þessa bryggju átti áður Jónas kaupmaður Andrésson, þegar hann verzlaði í húsum þeim, sem S.Þ. eignaðist síðar.
24 Bryggja útgerðar- og sameignarmannanna Magnúsar Hávarðssonar og Jóns Sveinssonar á Tröllanesi. Þeir gerðu út vélbátinn Kraka, sem þeir keyptu til landsins nokkru eftir aldamótin.
25 Bryggja Sigurðar útgerðarmanns Hinrikssonar frá Tröllanesi. Áður var þarna bryggja útgerðarmannanna Vilhjálms Stefánssonar í Hátúni og Hinriks Þorsteinssonar, fyrrum bónda á Krossi í Mjóafirði. Þeir gerðu út vélbátinn Göngu-Hrólf („Hrólf“), en hann var einn af allra fyrstu vélbátunum, sem keyptur var til Norðfjarðar.
26 Bryggja Benedikts útgerðarmanns og skipstjóra Benediktssonar frá Borgareyri í Mjóafirði.
27 Bryggja Ármanns útgerðarmanns Magnússonar á Tindum. Áður var þarna bryggja og útgerðarstöð Sveins útgerðarmanns Árnasonar frá Grænanesi og þá kölluð Glaðheimsbryggjan eftir útgerðarstöðinni. Hann gerði út v/b Trausta. Skammt innan við þessa bryggju var bryggja Jóseps Halldórssonar útgerðarmanns frá Sandvíkurseli. Stutt bryggja, sem ber í efri hluta bryggju nr. 27.
28 Bryggja Lárusar Ásmundssonar útgerðarmanns að Sjávarborg. Skammt innan við þessa bryggju var Framnessbryggjan, — bryggja bræðranna Óskars og Hinriks Sigurðssona, sem gerðu út v/b Friðþjóf um árabil.
29 Bryggja Stefáns útgerðarmanns og skipstjóra Höskuldssonar. Áður bryggja útgerðarfélagsins Haföldunnar (1931—1935).
30 Bryggja B.P. (Olíufélagsins).
31 Bryggja Ölvers útgerðarmanns Guðmundssonar. Milli bryggjanna nr. 30 og 31 var svo kölluð Nýhafnarbryggja.
32 Bryggja Gísla útgerðarmanns Bergsveinssonar, — Bjargarbryggjan .
33 Bryggja Vigfúsar útgerðarmanns Guttormssonar á Strönd.
34 Bryggja Jakobs Jakobssonar, útgerðarmanns og skipstjóra á Strönd.
35 Shell-bryggjan (Olíufélagsins).
Frá Shellbryggjunni rennum við svo huga inn eftir ströndinni. Enn eru ótaldar fimm bryggjur, sem ekki sjást á myndinni. Þær eru þessar taldar í röð inn að botni fjarðarins:
36 Bryggja Ásmundar útgerðarmanns Guðmundssonar í Skuld.
37 „Gúanó-“bryggjan framan við fiskimjölsverksmiðjuna. Þar er nú bryggja hins mikla fiskvinnslufyrirtækis þeirra Norðfirðinga, Síldarvinnslunnar.
38 Bryggja Jóns útgerðarmanns í Götu Einarssonar.
39 Bryggja Gísla útgerðarmanns Kristjánssonar frá Sandhúsi í Mjóafirði. Hús hans og útgerðarstöð þarna hét að Bjargi. Kunnasta síldarskip hans var v/s Sæfinnur.
40 Bryggja Ragnars útgerðarmanns Bjarnasonar í Naustahvammi.

Systursonur minn, Aðalsteinn Halldórsson, kaupmaður, Melbæ í Norðfirði, hefur veitt mér fræðslu um bryggjurnar, þar sem þekking mín og minni hrökk ekki til. Kann ég honum beztu þakkir fyrir. Þ. Þ. V.


Gömul mynd af þekktum Eyjamönnum: Frá vinstri: Árni Sigurðsson (frá Nýborg) smiðs og útvegsbónda Sveinssonar, Engilbert Gíslason, síðar kunnur málarameistari og listmálari. - Sitjandi: Þórarinn Gíslason frá Lundi. - Myndin mun vera um 80 ára gömul. (leiðr., sjá Blik 1974, bls. 175)