Höskuldur Rafn Kárason
Höskuldur Rafn Kárason var fæddur á Siglufirði 12. maí 1950 og lést 31. maí 2008. Hann á fjögur börn, þau heita Guðrún Sonja, Kári, Ármann og Jónas. Höskuldur var kvæntur Sigurleif Guðfinnsdóttur og þau eiga saman Ármann og Jónas. Höskuldur og Sigurleif búa á Vallargötu 14.
Hann starfaði sem vinnueftirlitsmaður ríkisins á Suðurlandi og var formaður Sjálfsbjargar í Vestmannaeyjum.
Hann var meistari í rennismíði, sjúkraliði, vélavörður og var að smíða klukkur og penna. Hann var einnig mikill áhugamaður um ættfræði.
Frekari umfjöllun
Höskuldur Rafn Kárason frá Siglufirði, kennari, rennismiður, sjúkraliði, eftirlitsmaður, forstöðumaður fæddist á Snorrabraut 7 þar 12. maí 1950 og lést 31. maí 2008.
Foreldrar hans voru Kári Sumarliðason verkamaður, f. 16. júní 1916, d. 20. mars 1990, og kona hans Margrét Guðlaug Bogadóttir húsfreyja, f. 16. apríl 1915, d. 10. mars 2000.
Bróðir Höskuldar sammæðra er Theodór Þráinn Bogason maður Birnu Berg Bernódusdóttur frá Nýborg, f. 8. september 1938.
Höskuldur var með foreldrum sínum í æsku.
Hann fluttist til Reykjavíkur um tvítugt, varð sjúkraliði 1975.
Eftir flutning til Eyja lærði hann rennismíði í Völundi og fékk meistararéttindi 1982.
Höskuldur vann á Sjálfsbjargarheimilinu í Reykjavík og var sölumaður hjá versluninni Remedíu.
Í Eyjum vann hann á Sjúkrahúsinu um skeið, en vann svo hjá Völundi, en 1981 hóf hann störf hjá Fiskiðjunni og vann þar í nokkur ár.
Á árinu 1986 réðst hann til starfa hjá Vinnueftirliti Ríkisins og var tæknifulltrúi þess, vann síðan í Eyjum og víða um land á vegum þess. Einnig var hann stundakennari við Framhaldsskólann í Eyjum og kenndi þar ýmsar greinar, m.a. rennismíði, einnig kenndi hann á námskeiðum fyrir fiskvinnslufólk og samdi námsefni fyrir þau.
Þá tók Höskuldur þátt í ýmsum félagsstörfum. Hann sat í stjórn Málm- og skipasmíðasambands Íslands. Hann tók þátt í stofnun Íþróttafélags fatlaðara í Reykjavík 30. maí 1974 og í Vestmannaeyjum 1979. Hann starfaði með Sjálfsbjörgu í Reykjavík og Vestmannaeyjum og sat m.a. í stjórn Sjálfsbjargar í Vestmannaeyjum í nokkur ár.
Hann starfaði með Kiwanisklúbbunum Esju í Reykjavík og Helgafelli í Vestmannaeyjum, sat í stjórn Knattspyrnufélagsins Týs og var um árabil formaður Sveinafélags járniðnaðarmanna í Vestmannaeyjum. Höskuldur var virkur félagi í starfi Kórs Landakirkju frá 1978 fram til dánardags og sat í stjórn kórsins um tíma.
Hann eignaðist barn með Víólu Pálsdóttur 1969.
Með fyrri konu sinni Guðrúnu Steinunni Jónasdóttur eignaðist hann eitt barn.
Þau Sigurleif giftu sig 1977, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í Lambhaga við Vesturveg 19, í Hrauntúni 41 og Vallargötu 14
Höskuldur lést 2008.
Sigurleif býr við Hásteinsveg 64.
I. Barnsmóðir Höskuldar var Víóla Viktoría Pálsdóttir, f. 8. ágúst 1950, d. 11. september 1999.
Barn þeirra :
1. Guðrún Sonja Kristinsdóttir. Fósturfaðir hennar Kristinn Rögnvaldsson.
II. Fyrri kona Höskuldar er Guðrún Steinunn Jónasdóttir, f. 13. febrúar 1950.
Barn þeirra:
2. Kári Höskuldsson starfsmaður Skipalyftunnar, öryrki, f. 26. september 1975. Kona hans Guðný Bjarnadóttir.
III. Síðari kona Höskuldar, (26. nóvember 1977), er Sigurleif Guðfinnsdóttir húsfreyja, sjúkraliði, forstöðumaður, f. 18. nóvember 1956.
Börn þeirra:
1. Ármann Höskuldsson lögregluþjónn, sjúkraflutningamaður á Selfossi, f. 20. október 1977, d. 23. apríl 2023. Barnsmóðir hans Rakel Guðmundsdóttir. Kona hans Bjarnheiður Hauksdóttir.
2. Jónas Höskuldsson starfsmaður Securitas, f. 13. mars 1988. Kona hans Kristbjörg Árný Jensen.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Morgunblaðið 7. júní 2008. Minning.
- Prestþjónustubækur.
- Sigurleif.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.