Jónína Árnadóttir (Sjónarhól)
Jónína Árnadóttir húsfreyja á Húsavík og á Sjónarhól, fæddist 12. janúar 1864 og lést 2. júní 1947.
Faðir hennar var Árni bóndi í Holti í Mýrdal, f. 15. maí 1825 í Mörk á Síðu, d. 24. nóvember 1878 í Holti, Oddsson bónda og meðhjálpara í Þykkvabæ í Landbroti 1835, f. 28. júní 1795, d. 23. nóvember 1859, Jónssonar bónda og meðhjálpara, lengst á Kirkjubæjarklaustri, f. 1. maí 1758, d. 22. september 1840 í Þykkvabæ, Magnússonar á Bakka í Öxnadal Magnússonar, (dótturbarn Bjarna „gamla“ Rafnssonar), og konu Jóns Magnússonar, Guðríðar húsfreyju, f. 1772, d. 12. nóvember 1860 í Hörgsdal á Síðu, Oddsdóttur.
Móðir Árna í Holti og fyrri kona Odds Jónssonar var Oddný húsfreyja, f. 1787 í Hrífunesi í Skaftártungu, d. 3. september 1851 í Þykkvabæ, Árnadóttir bónda í Hrífunesi, f. 1741 á Herjólfsstöðum í Álftaveri, d. 16. júní 1811 í Hrífunesi, Árnasonar, og konu Árna í Hrífunesi, Kristínar húsfreyju, f. 1758, d. 17. júní 1811 í Hrífunesi, Sigurðardóttur.
Tíli Oddsson bóndi í Norðurgarði, f. 1832, drukknaði 1883, var sonur Odds í Þykkvabæ og því föðurbróðir Jónínu Árnadóttur á Sjónarhól.
Móðir Jónínu á Sjónarhól og kona Árna í Holti var Helga húsfreyja í Holti, f. 2. nóvember 1827 í Arnardrangi í Landbroti, d. 5. maí 1912 á Kálfafelli í Fljótshverfi, Jónsdóttir prests lengst og síðast í Kálfholti í Holtum, f. 12. október 1801, d. 27. júlí 1863, Sigurðssonar, Hálfdánarsonar, en sr. Jón var almennt talinn sonur sr. Jóns skálds á Bægisá Þorlákssonar, og móðir sr. Jóns, Helga Magnúsdóttir frá Auðnum í Öxnadal, var bústýra hjá sr. Jóni á Bægisá.
Kona sr. Jóns í Kálfholti (9. nóvember 1826) og móðir Helgu í Holti, móður Jónínu á Sjónarhól var Guðný húsfreyja, f. 16. nóvember 1797 í Seglbúðum í Landbroti, d. 17. janúar 1877, Jónsdóttir bónda og meðhjálpara, lengst á Kirkjubæjarklaustri, f. 1. maí 1758, d. 22. september 1840 í Þykkvabæ, Magnússonar á Bakka í Öxnadal Magnússonar og konu Jóns Magnússonar, Guðríðar húsfreyju, f. 1772, d. 12. nóvember 1860 í Hörgsdal, Oddsdóttur.
Guðný prestkona og Oddur í Þykkvabæ voru því systkinabörn.
Jónína Árnadóttir var með foreldrum sínum í Holti til 1874, var niðursetningur og síðan vinnukona í Stóra-Dal 1874-1885/6, vinnukona í Nykhól í Mýrdal 1885/6-1893.
Hún kom frá Austfjörðum 1897 til Húsavíkur og var þar húsfreyja í Ólabæ 1897-1902; ásamt Einari og þrem börnum sínum.
Hún fluttist til Eyja eftir lát Einars; var þar ekkja á Sjónarhól 1910, eigandi hússins, með tveim dætrum sínum, Jóhönnu og Margréti, en Bjarni Marinó var í fóstri hjá Ingvari föðurbróður sínum í Hólshúsi.
Jónína var gift húsfreyja á Sjónarhól 1920, kona Sigurðar Ólafssonar.
Hún fluttist til Reykjavíkur 1938. Þar var hún á Elliheimilinu 1939 til æviloka.
Jónína Árnadóttir var tvígift:
I. Fyrri maður hennar var Einar Árnason frá Búastöðum Einarssonar, f. 25. mars 1862, d. 24. ágúst 1902.
Börn þeirra Einars:
1. Guðrún Helga, f. 13. mars 1894. Hún fór víða utanlands.
2. Jóhanna Margrét, síðar Hansen, f. 23. mars 1898 á Húsavík, d. 29. nóvember 1979, giftist dönskum matreiðslumanni.
3. Bjarni Marinó sjómaður, verkamaður, umsjónarmaður, f. 27. september 1900 á Húsavík, síðast í Reykjavík, d. 25. febrúar 1971. Hann var alinn upp í Hólshúsi hjá Gróu og Ingvari Árnasyni föðurbróður sínum.
4. Margrét Sigurlaug, f. 17. október 1902 á Húsavík, síðast á Elliheimilinu Grund, d. 6. ágúst 1985.
II. Síðari maður Jónínu var Sigurður Ólafsson sjómaður frá Ossabæ í Landeyjum, f. 8. nóvember 1870, d. 2. maí 1950. Þau voru barnlaus. Hjá þeim 1920 var Sigurður Kristjánsson, barn, síðar framreiðslumaður, síðast í Reykjavík, f. 13. febrúar 1918, d. 21. nóvember 1980, dóttursonur Jónínu, sonur Guðrúnar Helgu.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
- Manntöl.
- Íslendingabók.is.
- Garður.is
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.