Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Um Eyjamið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. apríl 2017 kl. 11:03 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. apríl 2017 kl. 11:03 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólameistari;

Um Eyjamið

Inngangur

Fyrr á tímum og allt fram á okkar daga notfærðu sjómenn sér kennileiti á landi eða mið til þess að staðsetja grunn og fiskisæla staði. Þaðan höfum við orðið fiskimið sem hefur víðtæka merkingu og getur verið heiti eða staðsetning á einstöku miði, t.d. færamiði, en nær einnig yfir stórt svæði, t.d. er talað um Íslandsmið og Eyjamið.
Staðarlína skips er lína á yfirborði jarðar sem skipið er statt í. Þegar tekið er mið er ekki notað neitt tæki, eins og t.d. áttaviti sem getur haft skekkju. Glöggt og gott mið er því öruggust allra staðarlína.

Mið

Mið er það kallað þegar tvö kennileiti ber saman. Miðið getur verið tvö innsiglingarmerki eða leiðarvörður eða það eru tvö kennileiti á landi. Miðið er nákvæmast þegar strax sést hvort skipið er úr miðinu eða til hliðar við það. Þá er sagt að miðið „dragi vel.“ Það gerist þegar svonefndur forpunktur (merki eða kennileiti miðsins sem næst er) er nálægt skipinu og langt er á milli merkja, frá formerki til bakmerkis miðsins. Við Þrídranga, sérstaklega sunnan við Drangana, eru mörg grunn, varasöm og stórhættuleg skipum, þegar brim og stórsjór er af suðvestri. Stóridrangur, sem er stærstur Þrídranga, þar sem er viti og nú á seinni árum einnig þyrlupallur, er þá forpunktur, en bakmerkið er fjarlæg fjöll á landi (t.d. Þríhyrningur) eða kennileiti á Heimaey eða í einhverri útey Vestmannaeyja. Mið þessi eru mjög nákvæm.
Nýtísku staðarákvörðunartæki, eins og lóran og GPS, sem gefa upp stað skips í breidd og lengd, stefnur, vegalengdir o.s.frv. til ákvörðunarstaða, hafa nú komið í stað hinna gömlu fiskimiða. Það getur þó verið mikið hagræði, auk þess sem það er mjög skemmtilegt, að þekkja gömlu færamiðin ásamt miðum á grunnum og festum.

Örnefni

Góð og nauðsynleg undirstaða þess að þekkja fiskimið er að þekkja umhverfi sitt og örnefni; nöfn á kennileitum. Í Vestmannaeyjum er mikið af örnefnum sem auk annars voru áður fyrr notuð til þess að finna gjöful mið og varast hættur, en í fjallaferðum til þess að staðsetja veiðistaði og ofanferðir eins og það er kallað þar sem farið er niður í bergið eftir fugli eða eggjum, hvort sem farið er í sigaböndum, laus og með stuðningi af bandi eða alveg laus. Segja má að víðast hvar í úteyjum hafi hver þúfa haft nafn.
Til þess að verða góður fiskimaður fyrr á tíð varð að vera miðaglöggur eins og það var kallað, þegar formenn þekktu vel til miða og voru eftirtektarsamir. Vestmannaeyjamið eru sérstaklega fjölbreytileg, en gæta verður vel að því að festa ekki eða eyðileggja veiðarfæri í hraunum og tindum þar sem fiskur gefur sig oft best. Fyrir tíma ratsjár og nákvæmra staðsetningartækja höfðu þeir sem þekktu mið, er leiddu framhjá þessum festum, mikla unun af að fiska á Eyjamiðum. Einkum gat verið vandasamt að toga nálægt hraunum, en það var einnig skemmtilegt, jafnvel í tregfiski, þegar varð að toga og snúa eftir nákvæmum miðum. Um þetta vitna íslenskir og erlendir sjómenn þegar þeir tala um fiskimiðin umhverfis Vestmannaeyjar. Þar gilti ekkert hér um bil, annaðhvort var togað á sléttum sandbotni eða varpan fór í varasama festu eða hraun, hengilrifnaði og tapaðist iðulega þó aðeins skeikaði nokkrum metrum. Í stórviðrum og aftaka brimi eru hættuleg grunnbrot frá mörgum þessara klakka og grunna sem geta grandað stórum skipum. Sennilega hafa farist fleiri skip á þeim en nokkurn grunar. Breski togarinn Eske fórst t.d. á Helguskerjum, norðan við Geldung, og álitið var að þýskur togari, Ísland, hafi farist nokkru fyrir 1930 með manni og mús í grunnbrotum af Rófuboða sem er austur af Ellirey.
Með staðsetningartækjum eins og ratsjá, lóran og dýptarmælum, sem komu í öll fiskiskip eftir miðja öldina, heyrði þessi forna þekking sögunni til. Með asdikki eða fiskrita, sem sýnir fjarlægðir, miðanir og stefnur til hraunsnaga, grunna og klakka á hafsbotni, gátu þeir sem þekktu ekki neitt til miða þrætt framhjá festum og lagt veiðarfæri á þröngar slóðir eða togað með botnvörpu á milli hrauna.
Nöfn gömlu fiskimiðanna gegna þó áfram mjög mikilvægu hlutverki í daglegri umræðu. Örnefnin gefa hafinu og landinu líf, eru varðveitt í kortum og leiðsögubókum og segja mikla sögu. Íslenskir og erlendir skipstjórar áttu sínar eigin miðabækur, margar mjög vandaðar og listilega útfærðar með teikningum og lýsingum af miðunum. Ástæða er til að hvetja þá sem eiga miðabækur að varðveita þær vel. Þær segja mikla sögu.
Í bók dr. Þorkels Jóhannessonar um örnefni í Vestmannaeyjum, sem kom út 1938, er vitnað í miðaskrá Vestmannaeyjaprestanna sr. Jóns Austmanns (f. 1782 - d. 1858) og sr. Brynjólfs Jónssonar (f. 1826 - d. 1884) sem sátu að Ofanleiti.
Haustið 1929 mældi danska varðskipið Hvid björnen eða Hvítabjörninn eins og Íslendingar nefndu skipið, mörg grunn vestur af Eyjum.
Hvidbjörnen, sá fyrsti í röðinni með þessu nafni, var þá nýsmíðaður og útbúinn fyrsta bergmálsdýptamæli sem settur var í danskt skip. Sjómælingar þessar voru gerðar að ábendingum Þorsteins Jónssonar í Láufási sem hafði með glöggum miðum á grunnum umhverfis Eyjarnar sannreynt að þau voru ekki merkt í sjókort yfir Eyjamið. Þorsteinn ritaði um sjómælingar Hvítabjarnarins í Vestmannaeyjablaðið Víði hinn 8. nóvember 1930 og taldi þar upp 15 grunn ásamt miði og dýpi á þeim. Þetta var Eyjasjómönnum til mikils hagræðis og öryggis. Þessi grein Þorsteins ásamt korti yfir gömlu handfæramiðin og greinarkorni eftir mig um íslensk sjókort birtist í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1965.

„Hvar af örnefnin eru dregin“ Sumarið 1961 var ég við sjómælingar við Vestmannaeyjar á mælingarbátnum Tý. Það var skemmtilegt starf og mjög góð reynsla. Ég fann þá hvað gömlu miðin voru glögg og nákvæm. Mér til ánægju og fróðleiks safnaði ég nokkrum heimildum um Eyjamið sem eftir á að hyggja hefðu mátt vera miklu meiri, en margir heimildarmanna eru nú látnir.
Ágæt sjókort hafa verið gefin út yfir miðin fyrir austan og vestan Eyjar. Þeirra best og nákvæmast er sjókort nr. 321 frá Sjómælingum Íslands sem nefnist Vestmannaeyjar. Kortið var fyrst gefið út árið 1977 og er í mælikvarðanum 1:50.000. Það er með öllum þekktum grunnum í kringum Eyjarnar fram til útgáfuársins og síðan hafa bæst við nokkrar leiðréttingar og eitt þekkt grunn í Vesturflóanum, svonefndur ólánsstandur. Það gæti verið forvitnilegt að vita eitthvað meira um nafngiftir þessara grunna eða „Hvar af örnefni séu dregin“ eins og séra Gizzur Pétursson, prestur að Ofanleiti 1687-1717, ritaði í Vestmannaeyjalýsingu, stuttu eftir 1700. Saga nokkurra þessara miða er kunn, en svo er grafið og gleymt hvernig heiti annarra urðu til. Einnig hafa heiti færst til og gerist slíkt á okkar dögum, bæði á sjó og landi. Sumir gæta ekki nægilegrar vandvirkni og nákvæmni, slá fram nýjum nöfnum í hálfkæringi þar sem gömul og gróin nöfn voru fyrir og getur slíkt valdið miklum ruglingi, en oft fer þá forgörðum merkileg saga og vitneskja sem örnefnin geyma.

Grunn og standar

Grunnin, tindar, hæðir og hraun á Eyjamiðum, rísa sums staðar eins og oddhvassir prjónar upp frá sléttum sjávarbotninum, t.d.
Eystri-Mannklakkur o.fl. Til viðmiðunar á hæð þessara standa getur verið gott að hafa í huga að ljóshæð Þrídrangavitans er 36 metrar yfir sjávarmál og Hábrandurinn er 90 metra hár.
Brœðrabreki: Ef nöfn á grunnum eða boðum eru ekki rituð nákvæmlega við grunnin á sjókortum geta nöfnin, ef svo má segja, farið á flakk. Eitt af þessum nöfnum er Bræðrabreki. Ýmist er þetta heiti haft um hraunflákann umhverfis Þorsteinsboða eða um einstaka stand. Þorsteinsboði heitir eftir Þorsteini í Láufási og er á suðvestur-norðaustur sprungustefnunni, 3,5 sjómílur vestur af Álsey og 5 sjómílur suður af Þrídröngum. Klakkarnir eru þrír og er sá hæsti um 60 metra hár. Dýpið er 22 metrar á þeim grynnsta, 26 metrar á öðrum og 40 metra dýpi er á þeim syðsta en á milli klakkanna er 80 metra dýpi. Góð mið á línulögn eru til umhverfis hraunflákann Bræðrabreka: Austurbrún hraunsins er Hæna aðeins föst við Ufsaberg, en sé lagt austan við er Hæna aðeins laus. Vestan við Bræðrabreka er Hábarð laust innan við (norðan við) Grasleysu. Lögn sunnan við Bræðrabreka er: Rifar í á Litla-Geldungi, en vegna þess að þetta er óglöggt að nóttu til er oftast, þegar sér vel til miða, lagt undan opnu gati á Súlnaskeri. Norðan við Bræðrabreka er: Skítaskora á Suðurey frammi (yddir á hana norður úr Álsey).
Þorsteinn í Laufási talar um Bræðrabrekagrunn sem einstakan klakk, stand eða boða, en þau heiti finnst mér lýsa betur klettum sem rísa nærri lóðrétt upp af hafsbotni en heitið grunn. Eftir minni málvitund er grunnið stærra um sig og sami skilningur er lagður í það orð af Róbert Dan Jenssyni, forstöðumanni Sjómælinga Íslands. Hér má nefna dýpri Mannklakk, en hann rís eins og áður segir snarbrattur í nærri 45 metra hæð, frá yfir 90 metra dýpi og upp á 48 metra dýpi þar sem hefur mælst grynnst á honum.
Í merkri sjálfsævisögu sinni „Formannsævi í Eyjum,“ sem kom út árið 1950, segir Þorsteinn eftir að hann hefur lýst árangurslausri leit að Bræðrabreka með danska varðskipinu Hvidbjörnen haustið 1929 og nokkrum árum síðar með Friðrik V. Ólafssyni á Ægi: „en það fór á sömu leið (og 1929). Við fundum ekki svo mikið grunn, að hætta gæti stafað af því. Þó er þarna mjór drangur í sjónum, sem á er um 9 faðma dýpi.“ Þó að tiltölulega góðar sjómælingar séu á miðunum unhverfis Vestmannaeyjar og sjókort nýútgefin, álítur Róbert Dan Jensson ekki fráleitt að „mjór drangur“ eins og Þorsteinn í Laufási lýsir gæti fundist í Vesturflóanum á mælingarskipi með fjölgeislasónar (multibeam sonar) og sérstökum tölvustýrðum dýptarmæli. Með eldri aðferðum og tækjum við sjómælingar sigldu sjómælingarskip á sömu stefnu, í ákveðinni línu, og með vissu millibili eru gerðar nákvæmar staðarákvarðanir; síðan er snúið yfir á gagnstæða stefnu. Standur, eins og Þorsteinn í Laufási lýsir, gæti hæglega lent á milli lína ef hann er, svo dæmi sé tekið, eins lítill um sig og Nótaboði og fleiri standar á Eyjamiðum.
En hvaðan kemur nafnið Bræðrabreki? Ég hefi heyrt sögn um þá nafngift sem verður birt síðar ef ég fæ staðfestingu á henni eða ef mér berast fleiri sagnir um nafnið. Fróðlegt væri að heyra meira um Bræðrabrekann.

Ólánssandur: Hann kom í sjókort árið 1985, mældur inn af Hauki Sigurðssyni frá Stakkagerði, sem var ásamt Eiði Marinóssyni og fleiri Eyjamönnum á Kristínu VE 40, sem Sjómælingar Íslands höfðu leigt þá um sumarið. Annað miðið á Ólánsstandi er: „Slakkann á Suðurey ber yfir Þjófanef á Álsey.“ Ólánsstandur var þó þekktur löngu fyrr meðal sjómanna í Eyjum. Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, gaf klakknum þetta nafn þegar hann var spurður um heiti á honum og er það réttnefni þar sem standurinn er á góðri togslóð vestur af Breka og bátar festu þarna iðulega veiðarfæri.
Oddsstaðaklakkur: Mörg miðin draga nafn af kennileitum sem þau voru staðsett með á sínum tíma. Þau eru nú víða horfin. Svo dæmi sé tekið annað miðið á Oddsstaðaklakki sem er 15 metra hár standur norður af Faxaskeri á 26 metra dýpi. Miðið var „Oddsstaðir við Ystaklett“ og klakkurinn kendur við býlið Oddsstaði sem fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973. Hið sama á við um Presthúsaklakk og fleiri mið.
Ægisklakkur: Gott dæmi um þessa bröttu og einstöku standa á Eyjamiðum er Ægisklakkur, 56 metra hár klettur sem kom fyrst inn á sjókort árið 1960. Ægisklakkur er fyrir sunnan Einidrang, rúma eina sjómílu suður af Hvítbjarnarboða þar sem hann er grynnstur (12 m dýpi). En Hvítbjarnarboði er varasamt grunn, eina sjómílu suður af Einidrangi, nær yfir 1,2 sjómílur (2,2 km) á sprungustefnunni suðvestur - norðaustur og er grynnst 12 metra dýpi á boðanum. Dýpi á Ægisklakki er 32 metrar. Klakkurinn er kenndur við varðskipið Ægi sem fann grunnið eftir nokkra leit og snúninga árið 1954. Skipherra var Þórarinn Björnsson. Nótaboði: Boðinn er um 0,6 sjómílur SSV af Ægisklakki, 63 metra hár og dýpi á honum 31 metri. Nótaboði stendur eins og prjónn upp frá botninum með yfir 90 metra dýpi allt um kring og mun draga nafn af því að einhverjir bátar köstuðu nót í kringum boðann á fyrstu árum asdikks. Varðskipið Ægir fann Nótaboða í júlí árið 1967. Nótaboði er gott dæmi um hve erfitt getur verið að finna þessa mjóu dranga. Sumarið 1961 lentum við utan á Nótaboða. Ég hafði rissað í flýti miðin: „Ufsabergsstandur vel frír norðan við Hanahaus (á milli Hrauneyjar og Hana); Þjófanef í Útsuðursnefið á Stórhöfða (grunn).“ En ekki var þetta kannað nánar þetta sumar.

Freykjuklakkur: Önnur nöfn eru breytt, t.d. Freykja sem var annað nafn á Geirfuglaskeri og var klakkurinn kenndur við eyjuna; stundum aðeins kallaður Freykja (ranglega ritaður Freyjuklakkur í sjókorti nr. 321). Freykjuklakkarnir eru reyndar tveir. Annar er austur af Garðsenda á Stórhöfða og er miðið: „Freykja við Stórhöfða og Sigmundarsteinn við Litlahöfða.“ Hinn er inn af Eyjum, sunnan við Flúðirnar, norðan við Ufsabergshraun. Standurinn er 6 metra hár og á 44 metra dýpi, en nafnið er ekki í sjókorti nr. 321. Miðið er í miðasafni sr. Jóns Austmanns: „Yddi á Bjarnarey inn úr Faxa og Freikja við Stafnes að vestan.“ Flatahraun: Nokkur mið hafa sama heiti, t.d. Flatahraun. Að minnsta kosti fjögur grunn hafa þetta heiti á Eyjamiðum. Í örnefnabók Þorkels Jóhannessonar eru tvenn mismunandi mið á Flatahrauni eftir miðabók prestanna sr. Jóns Austmanns og sr. Brynjólfs Jónssonar. Hvorugt þessara fiskimiða er í sjókorti nr. 321. 1. í miðabók sr. Brynjólfs Jónssonar er „Flatahraun á Ledd“ og er það nærri því á Háledd. Miðið er:
„Hábrandurinn við Suðurey og elding á milli eyja.“ Mið þetta er 0,35 sjómílur eða um 650 metra austur af Háledd. Elding merkir að aðeins sjáist skil á milli eyjanna.
2. Flatahraun skv. miðabók sr. Jóns Austmanns er rétt suðaustur af Bjarnarey og er miðið: „Yddi á Slægjunni í Ystakletti fram úr Bjarnarey og yddi á Stömpunum á Elliðaey.“ Stampar eru austast í norðurhlið Ellireyjar, tindótt, graslaus öxl upp af Nautaflá.
3. í sjókorti nr. 321 er Flatahraun norðaustur af Álseyjarrifi, 1200-1400 metra vestur af Ofanleitishamri (0,7 sjómílur). Álseyjarrif er um 30 metra hár hryggur sem liggur um 1,4 sjómílur til norðausturs frá Álsey og nær rúmlega miðja vegu í áttina til lands, upp á Hamarinn; norðan við Hallsklakk sem er á 38 metra dýpi.
4. Fjórða miðið með nafninu Flatahraun er austur af Þjófanefi á Álsey sem er útnorðurendi Álseyjar. Einhvers staðar hefi ég heyrt eða lesið að Þjófanef hafi áður fyrr heitið Sauðanef, en snemma á 19. öld hafi útlendir duggarar stolið þar sauðum og hafi sést til þeirra. Þeir hafi þó skilið eftir vaðmál á nefinu sem er einn af uppgöngustöðum í Álsey.

Norðan við Faxasker Selasker - Lágasker - Faxasker. Líklegt er að skerið dragi nafn af Faxa eins og klettahryggurinn og standbergið norður úr Ystakletti heitir.
Heyrt hefi ég þá sögn að skerið beri nafn af hesti sem var fluttur af landi til Eyja, en var haldinn svo miklum leiða að hann lagðist til sunds og ætlaði að synda upp í Landeyjasand. Í miklum straumi í Faxasundi hafi hesturinn nærri sprungið á sundinu en þó komist upp í Skerið sem síðan var nefnt Faxasker.
Í Sóknarlýsingu sr. Brynjólfs Jónssonar árið 1873 er Faxasker nefnt „Lágasker“ og venjulega aðeins „Sker“ eða „Skerið.“ Jón Austmann nefnir það „Selasker.“ Þetta er gott dæmi um ný og breytt örnefni.
Ingimundarklakkur: Rúmlega eina sjómílu NNV af Ellirey, á 17 metra dýpi, og lítill ummáls; rétt áður en dýpkar ofan á Álinn milli lands og Eyja, en þar verður dýpi nærri því 100 metrar. Miðið er skv. örnefnabók dr. Þorkels Jóhannessonar: „Norðurgarðsklettar (Hraunhóllinn) við Kleifar að norðan og Hrúturinn í Hábunka á Ellirey.“
Þegar rætt er um Álinn, get ég ekki annað en minnst á að í staðinn fyrir heitið Áll færi vel á því að taka upp hið fallega heiti Eyjasund sem er réttnefni og Jónas Hallgrímsson notar í hinu stórkostlega kvæði Gunnarshólma („Kolskeggur starir út á Eyjasund).“ Þetta nafn Jónasar mætti a.m.k. standa í sjókortum ásamt hinu nafninu.
Ingimundarklakkur er um 30 metra hár standur, rétt vestan við annan rafstrenginn og vatns leiðslurnar tvær og rís allbratt upp frá 50 metra dýpi. Klakkurinn er kenndur við Ingimund Jónsson á Gjábakka sem var formaður með áraskipinu Björgu og faðir Kristjáns í Klöpp, er var þekktur formaður og veiðimaður á sinni tíð, langafiGeorgs Þórs Kristjánssonar og þeirra systkina. Kristján í Klöpp stundaði lundaveiði í Heimakletti langt fram yfir áttrætt og var hringjari í Landakirkju um áratugaskeið.
Kúksklakkur: Færamið austur af Ingimundarklakki, 0,8 sjómílur norður af Ellirey, á 23 metra dýpi og rís aflíðandi upp af hrygg sem liggur til norðausturs frá Hábarði á Ellirey, á 40-50 metra dýpi. Miðið er: „Hanahöfuð við Ufsaberg og yddi á Búrunum austur úr Ellirey.“
Klakkurinn eða grunnið er kennt við Ólaf Magnússon í London sem að þeirra tíðar ósið var uppnefndur Ólafur kúkur. Ólafur var þó hinn mesti dugnaðar- og myndarmaður, útvegsbóndi og góður smiður. Uppnefnið hefur sennilega verið til aðgreiningar frá alnafna hans, Ólafi Magnússyni í Nýborg, sem var þekktur sjómaður og ágætur hagyrðingur. Hann orti t.d. „Einu sinni rérum“ sem er sungið undir íslensku þjóðlagi og hefur verið leikið af Sinfóníuhljómsveit Íslands (hvern hefði grunað það?!).
Ólafur í London fékk viðurnefni sitt vegna þess að hann lét sér aldrei um munn fara blótsyrði, en hafði að venju að segja ef eitthvað óvenjulegt bar til tíðinda: „Ja, hver kúkurinn!“, „Ja, hver sjattinn!“ eða „Ja, hver paurinn!“
Ólafur átti bát sem hét Hænir og þótti þaulsetinn á sjó þó að afli væri tregur. Hann sat þá oftast og keipaði á færamiðinu norður af Ellirey sem síðar var við hann kennt og kallað Kúksklakkur.
Um þetta kvað Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri á Heiði:

Siglir heim Saurinn,
Sjattinn og Paurinn,
mykjan og maurinn
og myrkranna gaurinn.
Einnig kvað Sigurður um Ólaf í London:
Kúkur fór í Leiruleitir
langvinnt stríð við kolu þreytir.
Hænir kringum Breka beitir
og bylgju hastar á,
Sjattans paur á sjó.
Eina keilu ef hann reytir
um eilífð situr þá,
kvikar og keipar
kappanum á.

Ekki hefi ég séð vísur þessar á prenti, en vísurnar og það sem sagt er um Ólaf Magnússon í London er haft eftir

Sigurði heitnum Jóelssyni frá Sælundi.

Inn og vestur af Eyjum

Um og eftir 1950 hófst mikil sókn Vestmannaeyjabáta inn og vestur af Þrídröngum. Þá byrjuðu einnig netabátar að leggja net sín vestur á Selvogsbanka (Óskar Eyjólfsson í Laugardal á mb. Guðrúnu). Komu þá til sögunnar nokkur ný fiskimið.
Sannleiksstaðir (í fyrstu Sannleikshnausar): er hraunfláki í Eyrabakkabugt um 30 sjómílur í rv. NV a. V 1/2 V (um 300°) úr Faxasundi, 8-10 sjómílur SSV af Stokkseyri. Í minnisbók frá 1961 hefi ég ritað: „Þar lagði Júlíus Sigurðsson á Skjaldbreið fyrstur manna net vertíðina 1952 eða 3. Á austustu totu hraunsins eru 29 sjómílur úr Faxasundi.“ Þetta var staðfest af Steingrími heitnum Arnar sem sagði mér að 3 klukkustunda og 10 mínútna stím hefði verið á

Stíganda VE 77 úr Faxasundi og vestur á Sannleiksstaði.

Frá Sannleiksstöðum mælist í ratsjá um 18 sjómílna fjarlægð í Ingólfsfjall og 13,5 sjómílur í Selvog. Í sjókortinu er hraunflákinn um 3 sjómílur frá austri til vesturs með litlum rana til suðausturs. Hraunið er um 1 1/2 sjómíla á breidd í stefnunni norður-suður.
Að sögn sjómanna er það breiðast að vestan og gæti minnt á geira úr hringboga. Sannleiksstaðir liggja til suðvesturs og er dýpi við hraunbrúnina um 80 metrar en á sjálfu hrauninu er dýpi 63 til 73 metrar.
Sannleiksstaðir er sérkennilegt nafn sem hefur fyrir löngu unnið sér hefð. Mér hefur verið sagt að Grindvíkingar kalli þessi mið „Austur við Hrygg.“ Sumarið 1961 skráði ég eftir skipstjórum í Eyjum hvernig Sannleiksstaðir hefðu fengið þetta nafn og segir það nokkra sögu um lífið til sjós og þá baráttu sem oftast hefur staðið um þann gula. Sagan og nafnið bregða einnig ágætu ljósi á gamansemi sjómanna. Einnig hefi ég fengið upplýsingar um nafngiftina frá vini mínum Friðriki Ásmundssyni sem vertíðina 1958 var stýrimaður hjá Páli á Reyni er kemur þarna við sögu.
Nafnið er tengt þremur þekktum aflaskipstjórum í Vestmannaeyjum sem voru upp á sitt besta um og eftir miðja öldina. Skipstjórar þessir eru Páll Ingibergsson, skipstjóri á Reyni VE 15 um fjöldamörg ár, Óskar Matthíasson, skipstjóri á Leó VE 400, og Júlíus Sigurðsson frá Skjaldbreið sem var með Sindra, Frosta og fleiri báta. Allir þekktir sjómenn og aflamenn í Eyjum.
Mér var sögð sagan þannig að um 1955 hafi þeir verið á netum á Þjórsárhrauni, þeir Óskar og Páll, og var fiskur tregur. Nokkuð til útsuðurs sáu þeir færeyskar skútur sem þrældrógu fisk á færi. Fluttu þeir þá net sín af Þjórsárhrauni, lögðu þarna utar og fengu ágætis afla í næstu lögn. Flaug brátt fiskisagan og stefndi Eyjaflotinn í vesturátt. Í talstöðinni létu þeir Páll og Óskar samt lítið yfir aflanum eins og oft er siður fiskimanna og sneru bátarnir þá við og fóru á önnur mið. Um þá skipstjórana átti það við sem Eyjólfur, faðir minn, sagði eitt sinn um góðan fiskimann í Eyjum: „Þeir fiskuðu vel á heimleiðinni!“
Fengu þessir bátar, Reynir og Leó, að vera einir og í friði á þessum miðum í einhverja daga. En kappið var mikið í þá daga eins og reyndar enn og þegar fiskisagan flaug varð mörgum heitt í hamsi.
Júlíus á Skjaldbreið, sem var þekktur að gamansemi og hnyttnum svörum, kom þá með tillögu að kalla miðin „Sannleikshnausa“ sem var síðar breytt í „Sannleiksstaði.“ Síðan hafa þessi mið haft þetta nafn. Loftsstaðahraun er um 6 sjómílur norðaustur af Sannleiksstöðum, fram af Loftsstaðahól og Þjórsárósum. Það er lítið hraun, um 4,5 sjómílur suður af Knarrarósvita. Dýpi á Loftsstaðahrauni er um 60 metrar og í ratsjá mælast 12,5 til 13,5 sjómílur í Ingólfsfjall.
Ólafsvellir: Innan við Þrídranga, um 12 sjómílur úr Faxasundi, í stefnu réttvísandi 305c (NVaV), 6 sjómílur undan Landeyjasandi (Skúmsstaðaósi). Þetta er lítill hraunhóll, um hálfa sjómílu (925 metrar) í þvermál; grynnst er á svæðinu 55 metrar og rís hraunhóllinn upp af um 75 metra dýpi. Ólafsvellir eru austasti hluti af fiskislóð sem er nefnd Trintur, um trossulengd (15 neta trossa) þ.e. 450 faðmar eða um 900 metrar frá suðaustri til norðvesturs. Ólafsvellir heita eftir Ólafi Sigurðssyni frá Skuld sem var þekktur skipstjóri og fiskimaður á sinni tíð. Ásamt Þorsteini Sigurðssyni á Blátindi átti hann báta með nafninu Ófeigur og rótfiskaði þarna á Ófeigi III. sem var fyrsti stálbátur Íslendinga og kom nýsmíðaður til landsins 17. febrúar 1955.
Svæðið var í fyrstu kallað „Ófeigshnausar“ en síðar „Ólafsvellir.“
Ég hafði það eftir Júlíusi heitnum Sigurðssyni frá Skjaldbreið að Haraldur Hannesson, skipstjóri á Baldri, hafi fyrstur manna lagt þarna net. Miðið er: „Þrídranga (Stóra drang) ber í Hellisey. Þúfan (þ.e. hæsti punktur á Aurnum (Upp af Klauf og Brimurð)) við Smáeyjar að sunnan.“
Trinturnar: Fiskislóð frá Ólafsvöllum vestur að Þjórsárhrauni. Um Trinturnar skrifar Friðrik Ásmundsson mér: „Trinturnar eru stakir naggar hér og þar, kannski undir 1/2 til 1 neti eða svo (um 30 til 60 metrar - GÁE), einnig mjög slæmar festur - litlir blettir sem varla sáust á mæli. Þær eru á milli 42 fm. að 35-36 fm. . . . 13,8 sml. frá Faxa var ég kominn inn í Trinturnar.“ Trinturnar eru því fiskislóð með hraunsnögum og festum á um 8-9 sjómílna svæði frá Ólafsvöllum að Þjórsárhrauni.
Þjórsárhraun. Hraun og ósléttur botn fram af Þjórsárósum, sunnan við Loftsstaðahraun. Þjórsárhraun er því gott nafn og rökrétt. Komið er á Þjórsárhraun á NV-lægri stefnu, rúmar 20 sjómílur úr Faxasundi.
Hraunflákar þessir eru þrír og rísa upp af sandbotni, víða upp af 76-80 metra dýpi (35 faðmar). Hraunið er um 20 metrar á hæð og dýpi á hæstu hraunhólunum innan við 60 metrar (54 og 56 metrar). Um 2 sjómílur vestan við austasta hraunflákann er samfelldara hraun, 5-6 sjómílur frá austri til vesturs og nær það lengra til útsuðurs. Sannleiksstaðir eru um 5 sjómílur vestur af þessum hluta Þjórsárhrauns og er sem fyrr segir þekkt fiskislóð.
Melur - undir melnum: Nafn á fiskislóð næst landi, undan Þykkvabæ. Miðið dregur nafn af sandmel vestan við Þykkvabæ sem kallast Snásir og er þar oft skjól í landnyrðingi. Um 3 sjómílur frá landi er óhreinn botn og festur.
Jónshryggur: Lítill hraunhryggur, rúmar 17 sjómílur í stefnu réttvísandi 292° (VNV) úr Faxa¬sundi („á Reykjavíkurslóð“); um 10 sml. inn og norðvestur af Þrídröngum. Jónshryggur er um 0,4 sml. Í ummál og dýpið 67 metrar, en umhverfis hann er um 80 metra dýpi. Jónshryggur er því rúmir 10 metrar á hæð. Miðið á Jónshrygg er: „Þrídrangar við Halldórsskoru (sunnan á Dalfjalli) að sunnan og Einidrangur nær Súlnaskeri en Hellisey.“
Miðið mun draga nafn af Jóni Ásbirni Jónssyni, föður Reykdals netagerðarmeistara og þeirra systkina. Hann var ágætur fiskimaður á sinni tíð í Vestmannaeyjum og var venjulega kallaður Jón aðventisti, en hann og hans fólk var í söfnuði Sjöunda dags aðventista í Eyjum. Jón var lengi með Örn VE 173 og síðan Unni VE 80 og þótti sérstaklega snjall við dragnótaveiðar sem hann stundaði lengstum ásamt fleiri sjómönnum í söfnuði aðventista.

Að lokum

Ef sjómenn eiga í fórum sínum fleiri sögur og sagnir af þeim miðum sem hér hafa verið talin gæti verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að frétta nánar af því. Hafi menn skemmtun af þessum samtíningi um Eyjamið bæti ég í safnið í næsta Sjómannadagsblað og verð þá hugsanlega búinn að heyja mér fleiri sagnir. Hver fann t.d. Kargann og lagði þar fyrstur?
Ef menn hafa athugasemdir við nafngiftir eða staðsetningu þeirra fiskimiða sem hér hefur verið fjallað um bið ég þá um að hafa samband við undirritaðan eða Sjómælingar Íslands. Róbert Dan Jensson, forstöðumaður Sjómælinganna, og fleiri af starfsmönnum þar hafa verið með í ráðum við að setja nöfn inn á kort er birtast með þessari grein í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Þegar sjókort nr. 33 og 321 verða endurútgefin er hugmyndin að setja inn á kortin þau nöfn sem vantar þar núna og leiðrétta kortin að öðru leyti þar sem þörf er á.

Gömul og ný nöfn

Þrátt fyrir tækni og sjálfvirk staðsetningartæki mega nöfn gömlu fiskimiðanna ekki falla í gleymsku. Þau segja oft mikla og skemmtilega sögu. Reyndar koma alltaf ný mið og nöfn til sögunnar og eru mörg nöfnin bæði frumleg og skemmtileg.
Aflasæl mið eru fyrir sunnan og vestan Surtsey og væri áhugavert að fá að vita hvað þau heita. Ekkert þeirra er merkt með nafni í sjókorti nr. 33 (Selvogur - Vestmannaeyjar) nema Skötuhryggur. Í kortinu stendur reyndar „Svínahryggur“ og hefur hann sennilega verið settur út í kortið rétt fyrir jólin! Skötuhryggur er dálítill hryggur, um 70 metra hár, á sprungustefnunni suðvestur-norðaustur. Miðið á honum er: „Hellutá horfin á bak við Suðurey og aðeins skarð ofan í hamarinn á Stórhöfða upp af Lambhyllu. Þrídrangar um rætur Þríhyrnings að vestan eða austan.“
Með bestu kveðjum og óskum um góðan sjómannadag!
Guðjón Ármann Eyjólfsson


HEIMILDIR
prentaðar:
1. Dr. Þorkell Jóhannesson: Örnefni í Vestmannaeyjum, Reykjavík 1938.
2. Þorsteinn Jónsson Laufási: Formannsævi í Eyjum, Reykjavík 1950.
3. Sjókort nr. 321 og 33.
Munnlegar:
1. Gísli Eyjólfsson, Kópavogi.
2. Friðrik Ásmundsson, Vestmannaeyjum.
3. Haukur Sigurðsson, Bessastaðahreppi.
4. Eyjólfur Gíslason

Sjómælingum Íslands, Róbert Dan Jensson forstöðumanni og Ólafi Thorlacius sjókortateiknara, sem veittu mikilsverða aðstoð og fyrirgreiðslu við samantekt þessarar greinar, þakka ég ágæta samvinnu.