Einar Guðmundsson (Þorlaugargerði)
Einar Guðmundsson frá Þorlaugargerði, prestur í Noregi, fæddist 1758 og lést 2. desember 1817.
Foreldrar hans voru Guðmundur Eyjólfsson bóndi, kirkjusmiður og kóngssmiður í Þorlaugargerði, f. 1723, og fyrri kona hans Þorgerður Einarsdóttir húsfreyja, f. (1723).
Systkini Einars voru:
1. Brynhildur Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1752.
2. Sr. Bjarnhéðinn Guðmundsson prestur á Kirkjubæ, f. um 1754, d. 20. október 1821.
3. Sveinn Guðmundsson bóndi í Þorlaugargerði, f. 1764, d. 5. nóvember 1832.
Hálfsystir, (samfeðra) var
4. Helga Guðmundsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum, f. 1767, d. 30. desember 1846.
Einar gekk í Skálholtsskóla frá 1778 og útskrifaðist 20. apríl 1780. Hann stundaði nám í háskólanum í Kaupmannahöfn í heimspeki, málfræði og guðfræði og lauk prófum í þessum greinum. Doktorspróf tók hann 15. júní 1793.
Hann varð prestur í Noregi 30. maí 1794 og gegndi síðast embætti í Löltenprestakalli á Heiðmörk. Þar lést hann 1817.
Rit:
1. Vindicia Diocletiani contra Lactantium,- doktorsrit hans.
2. Þýðing: Lærdómsbók eftir Nicolaj Edinger Balle, yfirfarin af Hannesi Finnssyni biskupi, prentuð í Leirárgörðum 1796 og hét Lærdómsbók í evangeliskum kristilegum trúarbrögðum handa unglingum. Þetta rit var spurningakver fyrir fermingarbörn og kom í stað „Ponta“, (Lærdómsbók Pontoppidans), sem hafði verið notuð áður. Þessi lærdómsbók var notuð lengi hér á landi og prentuð 25 sinnum, síðast í Reykjavík 1882.
Kona Einars var Christine Sörine Marie Wollum, d. 2. desember 1857, 90 ára.
Mikil ætt mun af þeim komin í Noregi.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.