Einar Guðmundsson (Þorlaugargerði)
Einar Guðmundsson frá Þorlaugargerði, prestur í Noregi, fæddist 1763 í Þorlaugargerði og lést 2. desember 1817.
Foreldrar hans voru Guðmundur Eyjólfsson bóndi, kirkjusmiður og kóngssmiður í Þorlaugargerði, f. 1723, d. 1784, og fyrri kona hans Þorgerður Einarsdóttir húsfreyja frá Svínhaga á Rangárvöllum, f. (1723).
Systkini Einars voru:
1. Brynhildur Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1752.
2. Sr. Bjarnhéðinn Guðmundsson prestur á Kirkjubæ, f. um 1754, d. 20. október 1821.
3. Sveinn Guðmundsson bóndi í Þorlaugargerði, f. 1764, d. 5. nóvember 1832.
Hálfsystir, (samfeðra) var
4. Helga Guðmundsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum, f. 1767, d. 30. desember 1846.
Einar gekk í Skálholtsskóla frá 1778 og útskrifaðist 20. apríl 1780. Hann stundaði nám í háskólanum í Kaupmannahöfn frá 1783 í heimspeki, málfræði og guðfræði og lauk prófum í þessum greinum með 1. einkunn. Doktorspróf tók hann 15. júní 1793.
Hann varð prestur að Hólmi, Öislebö og Laudal í Kistjánssandsstifti, en gegndi síðast embætti í Löltenprestakalli á Heiðmörk. Þar lést hann 1817.
Rit:
1. Vindicia Diocletiani contra Lactantium,- doktorsrit hans. Nafnið útleggst: Vörn fyrir Diokletian keisara gegn ásökunum Lactantiusar. Ritgerðin var prentuð í Kaupmannahöfn í 3 hlutum 1790-1792.
2. Þýðing: Lærdómsbók eftir Nicolaj Edinger Balle, yfirfarin af Hannesi Finnssyni biskupi, prentuð í Leirárgörðum 1796 og hét Lærdómsbók í evangeliskum kristilegum trúarbrögðum handa unglingum. Þetta rit var spurningakver fyrir fermingarbörn og kom í stað „Ponta“, (Lærdómsbók Pontoppidans), sem hafði verið notuð áður. Þessi lærdómsbók var notuð lengi hér á landi og prentuð 25 sinnum, síðast í Reykjavík 1882.
Kona Einars var Christine Sörine Marie Wollum, d. 2. desember 1857, 90 ára.
Mikil ætt mun af þeim komin í Noregi.
Börn Einars og Christine Sörine Marie:
1. Brynhildur Emerense, gift Hans Georg Jakob Stang presti.
Sonur þeirra var Hans Georg Jakob Stang ríkisráðgjafi í Stokkhólmi og síðar stiftamtmaður, d. 1907.
2. Catherine Vilhelmine, f. 1798, d. 1884, gift Simon Larsen Schie höfuðsmanni.
Meðal afkomenda þeirra var
Einar Biarnhedin Schie skrifstofustjóri í hervarnastjórnardeildinni sonur Emil Leonard Schie „ingeniörkapteins“.
Einar Guðmundsson Schie var bæjarfógeti í Sandefjord, d. 1907. Sonur hans var Odin Biarnhedin Schie yfirréttarmálafærslumaður á Sunnmæri.
3. Thorgerdur Elizabeth Adolphine, f. 1799, d. 1854, ógift.
4. Jakobine Christiane Frederikka, f. 1802, d. 1892, ógift.
5. Gudmund Eyjulfsson, f. 1804, d. 1843, skrifstofustjóri í endurskoðunarstjórnardeildinni. Kona hans er ókunn. Hann átti nokkrar dætur.
Ein þeirra var
Nanny Kathrina kona sagnfræðingsins Didrik Schnitler, d. 1888.
6. Carl Kristian, f. 1808, d. 1878, ókvæntur.
7. Edward Kristian Biarnhedin, f. 1812, dó á barnsaldri.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Guðfræðingatal. Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1907-1910.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.