Blik 1957/Tóta í Uppsölum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. mars 2013 kl. 17:52 eftir Víglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. mars 2013 kl. 17:52 eftir Víglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


TÓTA í Uppsölum


Um héraðsbrest ei getur, þó hrökkvi sprek í tvennt,
er hríðarbylur geisar, það liggur gleymt og fennt.
Og eins er lítill tregi og engin sorg á ferðum,
þó ekkja falli í valinn með sjötíu ár á herðum.
Þórunn Ketilsdóttir.

Svo kvað Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi um ekkjuna við ána. Þetta erindi kemur mér jafnan í hug, er ég tek að hugleiða efni í greinarkorn um Þórunni Ketilsdóttur, eða Tótu í Uppsölum, eins og hún var jafnan nefnd hér í bæ.
Nei, enginn héraðsbrestur átti sér stað, þegar Tóta í Uppsölum féll frá í desember 1953 með 88 ár á herðum sér. Þó tel ég sögu hennar þess verða, að hún sé skráð í stórum dráttum. Er ekki gimsteinninn hans Guðmundar skálds á Sandi, kvæðið „Ekkjan við ána“, saga íslenzku sveitakonunnar í stórum dráttum?
Saga Tótu í Uppsölum getur verið eilítil mynd af sögu fátækasta hluta þjóðarinnar um aldir, niðursetninganna svo kölluðu, svo og þess bændafólks, sem bjó við kotbændakjör.
Í greinarkorni þessu verður að mestu stuðzt við frásögn Þórunnar Ketilsdóttur sjálfrar, eins og ég hefi átt hana í fórum mínum um aldarfjórðungsskeið, svo og eigin kynni af henni.
Af tillitssemi verður hér hvorki getið manna né bæja nema að góðu sé.

Árið 1865 hófu foreldrar Þórunnar Ketilsdóttur búskap á jarðarkoti austur í Mýrdal. Þau höfðu þá eignazt saman eitt barn, dreng. Næstu þrjú árin varð þeim tveggja barna auðið. Þau eignuðust tvær stúlkur, og var Þórunn eldri. Hún fæddist 3. maí, vorið, er þau hjón stofnuðu til búskaparins.
Þegar þau höfðu búið í þrjú ár, tók fátæktin að sverfa svo að fjölskyldunni, að hún leið af „sulti, nakleika, kröm og kvöl“, eins og Bólu-Hjálmar í Akrahreppi. Þá neyddust þau til að knýja á náðir hreppsins og biðja um framfærslustyrk til þess að bjarga lífi barnanna.
Forustumenn hreppsfélagsins heyrðu sultarvein fjölskyldunnar og „gerðu skyldu sína“ gagnvart henni. — Þeir tóku til sinna ráða. Fráleitt voru þau ráð þó einkaeign þeirra, svo kunn voru þau um allt land á þeim tímum. — Hinni örsnauðu fjölskyldu var sundrað. Það þótti fjárhagslega hallkvæmast hreppsfélaginu. Móðurástin, þarfir barnanna á henni og allri móðurlegri umhyggju, að ekki sé minnzt á föðurlegar kenndir, átti hér engan rétt á sér. Litlu börnin voru tætt frá foreldrunum og látin í fóstur til vandalausra, þeirra, sem minnst kröfðust meðlags með „sveitarlimunum“, en foreldrarnir gerðust vinnuhjú bænda. Þau hjón fengu því þó svo til hagað, að þau gátu oftast verið saman í vinnumennskunni.
Þannig skyldu örlögin að Tótu litlu, þá þriggja ára, og móður hennar, sem felldi tár harms og trega yfir vöggum litlu stúlkubarnanna sinna.
Ung hjón í sveitinni tóku Tótu í fóstur. Enginn hafði „boðið minna í hana“ en þau.
Á bæ þessum voru sex manns: Ungu hjónin, amma húsmóðurinnar og seinni maður hennar, sem nefndur verður „gamli maðurinn“ í þætti þessum, móðir húsbóndans og vinnukona. Sum árin var þar einnig vinnumaður.
Ungu hjónin voru talin vel bjargálna.
Unga konan sjálf sótti litla sveitarómagann heim til hinna örsnauðu foreldra. Þarna lá litla Tóta í dálítilli vöggumynd. Ein flík var á kroppnum, gauðrifinn skyrtugopi. Henni skýldi gamall og götugur skinnbjór, sem hún lék sér við að reka fingurna út um.
Engin voru leiksystkinin í nýju vistinni, og fólkið hafði lítinn tíma frá daglegum önnum til að gæta að litla sveitarómaganum og annast hann. Tóta lærði brátt að sjá um sig sjálf og dunda sér. Þegar skepnur voru heima við, svo sem kýr eða hestar, flýði hún inn í bæinn, því að hún var hrædd við allar skepnur. Þá valdi hún sér dvalarstað í tröppunum, sem hlaðnar voru úr grjóti framan við eldhúsdyrnar. Þarna voru einskonar gatnamót, því að þaðan lágu löng göng og dimm inn í baðstofu. Tröppur þessar voru beint inn af bæjardyrunum. En yfir þeim var dálítil gluggabora. Þaðan lagði eilitla skímu yfir í tröppurnar til Tótu litlu. Þarna var gott að vera. Þarna fann hún til öryggis, því að þangað komust kýrnar ekki. En hundarnir urðu brátt beztu vinir hennar, sérstaklega hún Lubba litla, sem sleikti hendur hennar og jafnvel andlit.
Inni í baðstofunni var Tótu litlu ætlað sæti úti í einu horninu. Þar stóð jafnan fjögurra marka askur með útskornu loki. Það var drykkjaraskurinn, sem svo var nefndur. Í hann var blandað sýrudrukk. Drakk hver, sem vildi, af aski þessum dag hvern.
Tóta litla var hins vegar látin drekka úr bolla í gegnum beinpípu úr fuglsfæti. Síðan fékk hún dúsuna sína. Hún dundaði oft við hana langan tíma úr deginum. — Dúsan var léreftsrýja. Í hana tuggði einhver brauð eða flatbrauðsköku og blandaði vel munnvatni sínu. Síðan lét hann tugguna út úr sér í rýjuna og blandaði mauk þetta rjóma eða smjöri. Síðan var bundið að með bandspotta. Barnið saug dúsuna og náði þannig næringu úr innmeti hennar. Þegar soginn hafði verið safinn úr því, var úrgangurinn skafinn úr léreftstuskunni og matreitt í hana aftur á sama hátt. Sama rýjan var notuð dögum saman án þess að vera þvegin. Mundi hún þá hafa þótt helzt til ólystug hverjum þeim, sem kominn var til vits og ára, en sulturinn gerði sætubragðið.
Fyrstu árin var Tóta litla látin sofa hjá móður húsbóndans. Gamla konan var önug og kaldlynd við barnið. Hún reyndi þó að tryggja litla sveitalimnum sálarheill og sælu paradísar með því að kenna barninu bænir og vers.
Síðar var Tóta litla látin sofa hjá ömmu húsmóðurinnar, eftir að gamli maðurinn, maður hennar, féll frá. Henni þótti barnið fara illa í rúmi, og eitthvað yrði að gera til að hindra það. Greip þá gamla konan til þess ráðs að hefta barnið, binda trefil um fætur þess, þegar hún sjálf lagðist til svefns. Af þessu tiltæki gömlu konunnar hafði barnið mikinn ama og hugarkvöl. Ekki var þá örgrannt um, að guðsbænir snerust í bölbænir svona innra með barninu. Eitt sinn, er gamla konan hnýtti trefilinn, læddi Tóta litla út úr sér þessum orðum: „Þetta geturðu, þó að þú sért skitin.“ Þá hljóp heldur betur í gömlu konuna, sem eðlilegt var, og lumbraði hún á barninu eftirminnilega. Þá nótt sofnaði Tóta litla eftir langvarandi hugarkvöl og ekka.
Stór, handarhaldslaus bolli var á heimilinu. Hann var eign gömlu konunnar, ömmu húsmóðurinnar. Handarhaldið hafði brotnað af honum, áður en Tóta mundi eftir sér. Bolli þessi var helzt notaður til þess að mæla í honum óbrennt kaffi. Hann tók hálft pund.
Undir vökulokin var mjólkað á bænum, þá lesinn húslestur og síðan gengið til náða. Kvöld eitt, meðan verið var að mjólka, var Tóta litla send með bollann út í fjós til þess að sækja í hann spenvolga nýmjólk handa kettlingnum. Á leið í baðstofuna datt hún með bollann í koldimmum göngunum og braut hann. Fyrir óhapp þetta flengdi amma gamla munaðarleysingjann á beran rassinn. Það kostaði oftast hýðingu, ef eitthvað bar út af, og gamla konan geymdi hirtingarvöndinn á afviknum stað við rúmið sitt.
Þetta kvöld grét Tóta litla beisklega vegna flengingarinnar. Því hafði hún ekki lokið, þegar húslesturinn skyldi hefjast. Kom þá gamla konan askvaðandi að henni og hótaði að bæta um flenginguna, ef hún hætti ekki ,,bölvuðu orginu“. Reyndi þá barnið eftir mætti að bæla niður harm sinn og tilfinningar, meðan guði var gefið sitt.
Eitt sinn reyndi Tóta litla að flýja refsingu gömlu konunnar. Hljóp hún þá út í heykumbl. Þar í námunda var geymdur hrísköstur. Í kumblinu náði gamla konan í Tótu litlu, reif hrís úr kestinum og flengdi hana á bert, svo að úr blæddi. Og ekki voru undirfötin til fyrirstöðu um að ná fljótlega inn á bert á litlu stúlkunni.
Einu sinni datt Tóta litla með matarskál húsbóndans í dimmu göngunum. Flýði hún þá út í fjós og dvaldist þar fram eftir degi af hræðslu við að koma í bæinn, vegna þess að húsbóndinn hafði látið sér svo ljót orð um munn fara og hótað henni refsingu. Þó lagði hann aldrei hendur á hana eða sló hana nokkru sinni þau 13 ár, sem hún var í fóstri hjá þeim hjónum.
Þegar Tóta stálpaðist, var hún látin sofa hjá vinnukonunni á bænum. Hjá henni svaf hún í nokkur ár eða fram að fermingu.
Gestkvæmt var á bænum, því að hann var að vissu leyti í þjóðbraut, og hjónin gestrisin. Ekkert gestarúm var þó á bænum. Vinnukonan var jafnan látin ganga úr rúmi fyrir gestunum, en Tóta látin halda hvílu sinni og sofa hjá þeim, hvort sem það var karl eða kona. Það var henni viðurstyggð oft og tíðum, þó að hún þyrði ekki að kvarta og yrði að þola og hlýða. Einu sinni sem oftar bar þar gest að garði. Var þá Tóta nær fermingaraldri. Þetta var karlmaður, stór vexti og ógeðslegur að henni fannst. Eftir mikið sálarstríð herti hún upp hugann og stundi því upp, að hún gæti ekki sofið hjá þessum gesti. Var því ekki illa tekið og hún látin sofa hjá gamla manninum að því sinni. Mikil lús var á bænum, sérstaklega á gamla manninum. Þá nótt svaf Tóta lítið sökum óværðar.
Allur spónamatur var etinn úr öskum. Þeir voru að jafnaði þvegnir einu sinni á misseri. Þá voru þeir orðnir æði kámugir utan, en að innan héldust þeir alveg sæmilega hreinir, með því að hundarnir voru látnir sleikja þá eftir hverja máltíð, síðan í þá blásið, lokið látið falla að stöfum þeirra og þeir geymdir undir rúmunum. Alltaf voru askarnir lagðir í bleyti fyrri hluta sumars fyrir sláttinn og núnir sandi í þvottinum. Á sama hátt voru þeir alltaf þvegnir upp úr hangiketssoðinu, þegar soðið var til jóla. Bollar voru jafnaðarlega lagðir í bleyti einu sinni í viku og þvegnir þá. Oft voru þeir þá þvegnir upp úr strokkvatninu, eftir að hann hafði verið þveginn.
Timburgólf var í baðstofunni. Það var yfirleitt þvegið einu sinni á ári. Sá þvottur var framkvæmdur þannig, að á Þorláksmessukvöld, áður en gengið var til náða, var hellt yfir gólfið, svo að vel blotnaði í skáninni á því yfir nóttina. Síðan var gólfið skafið út eða af því mokað á aðfangadag.
Öll verzlun Mýrdælinga átti sér þá stað á Eyrarbakka. Verzlunarferðin tók oftast 10-12 daga, þegar vel gekk.
Tóta litla kostaði kapps um að eiga sem mest af tíningslögðum til innleggs, þegar farið var með ullina á Bakkann. Andvirði þeirra voru einu tekjurnar, sem hún hafði. Fyrir andvirði þeirra lét hún oft kaupa sér ýmislegt smávegis, svo sem sirsbút í svuntu eða höfuðklút.
Eitt vorið hafði Tóta verið næsta óvenjulega fundvís á hagalagðana. Hafði hún þá safnað nær tveim pundum. Þau voru látin saman við ull gamla mannsins, en hann átti nokkrar kindur á bænum.
Árin áður hafði Tóta eignazt tvo höfuðklúta fyrir tíninginn sinn. Hún notaði annan til spari, en hinn hversdagslega. Eitt sinn var hún að vatna kúnum á sunnudegi að vorlagi, en þær voru jafnan leystar út og reknar til vatns. Vegna helgarinnar hafði Tóta hnýtt á sig spariklútinn sinn. Hún var heit og rjóð við að leysa út kýrnar, tók því af sér klútinn og lagði hann frá sér á ábætismeisana, sem hlaðið var upp öðru megin við fjósdyrnar. Þegar hún hugðist grípa klútinn aftur, var hann horfinn. Hún skyggndist um og sá þá, hvar eitt horn hans stóð út úr kjaftviki á einni kúnni. Hún hafði þá sem sé étið klútinn. Þetta fannst Tótu litlu næsta óbærilegur fjárhagslegur hnekkir.
Og nú vildi hún eignast rósóttan höfuðklút fyrir tíninginn sinn í stað þess, sem kýrin át.
Löngu áður en lagt var af stað á Bakkann með ullina, tók Tóta að hlakka til þeirrar stundar, er komið væri heim úr verzlunarleiðangrinum. Þá fengi hún klútinn, fallegan, rósóttan höfuðklút. Hvílíkur fengur. Hvílíkt djásn. Hvílík prýði um hár og vanga. Hans skyldi sannarlega gætt fyrir kúnum og kálfunum. Nú var Tóta litla einmitt að komast á þann aldurinn, þegar stúlkur nú á tímum taka að lifna til lita og lakks. Hneigðir af sama tagi bærðust einnig í brjósti hennar, þegar hún fékk notið sín og mannlífið var henni ekki allt of þungbært og ótugtarlegt.
Loks kom Bakkalestin aftur heim heilu og höldnu. — Tóta beið með eftirvæntingu. Klúturinn, klúturinn. Hún beið í ofvæni, en ekkert kom. Allir fengu eitthvað úr varningsklyfjunum nema hún. — Loks fékk hún að vita sannleikann: Öll ull gamla mannsins hafði verið tekin upp í skuld hans við kaupmanninn á Bakkanum. Þar með var ull Tótu eins og fyrr greinir. — Hún grét beisklega. Hvað gat hún annað gert en grátið? Yfirgefnu og umkomulausu barni er lífið næsta óbærilegt. Húsbóndinn sjálfur fann nú til með þessum örsnauða munaðarleysingja. Hann gaf Tótu rósóttan klút, sem hann hafði ætlað sjálfum sér. Ekki mun hann þó hafa ætlað þann klút um háls sér heldur til annarra nota í eigin þágu, því að hann stútaði sig ærið hraustlega á stundum. En hvað um það ? Klúturinn var rósóttur og fallegur og fór vel að hári og vöngum litlu stúlkunnar, sem lét sér nú orðið annt um lokka sína og litarhátt, þegar stundir gáfust til.
Í sveitinni bjó föðurbróðir Tótu. Meðan hann var ógiftur, var móðir hans, amma Tótu, fyrir framan hjá honum. Hann réri jafnan suður í Höfnum á vetrarvertíðum. Ávallt, þegar hann kom heim á vorin, færði hann Tótu litlu frænku sinni eitthvað smávegis. Eitt vorið gaf hann henni léreft í skyrtu. Léreftsskyrtur voru næstum óþekkt fyrirbæri þá og þar. Allir gengu í vaðmálsskyrtum úr heimaofnum dúk og afklæddust þeim, þegar lagzt var til svefns. Þeir, sem ekki áttu neinn koddann, eins og Tóta, breiddu þá vaðmálsskyrtuna sína yfir taslið undir höfðinu, meðan sofið var.
Frændi Tótu kom skyrtuefninu til mömmu hennar, og skyldi hún sauma skyrtuna fyrir næstu jól. Þá þekktust ekki saumavélar. Allt var saumað í höndunum.
Tóta litla fékk skyrtuna í tæka tíð fyrir jólin. Aldrei hafði hún í rauninni hlakkað til jólanna eins og nú. Svo komu þau þá blessuð með lostætu hangikjöti og lummum, tólgarkerti, auknum sálmasöng, lengri bænum og húslestrum og agnarlítið hlýrra viðmóti og meiri mannúðarkennd gagnvart munaðarleysingjanum. Þó var léreftsskyrtan það dásamlegasta af þessu öllu saman og stálin á henni það yndislegasta, sem hún vissi. En hvað þau féllu vel að úlnliðunum! Og hvað skyrtan féll vel að ungmeyjarbrjóstunum, sem ekki voru enn farin að segja til sín svo að mark væri að.
Svo liðu þá blessuð jólin og höfðu á sér tvo enda, annan samkvæmt almanakinu en hinn sálrænan. Næstu vikur liðu, og Tóta litla fór úr léreftsskyrtunni sinni, því að nú skyldi hún lögð í keytu eins og annar þvottur og þvegin, síðan úr henni skolað í bæjarlæknum. — Úr þvottinum kom svo skyrtan aldrei aftur í hendur eigandans. Aldrei vogaði hún nokkru sinni að spyrja eftir skyrtunni. Þorði ekki að taka afleiðingunum. En hún saknaði hennar sárt. Fyrst og fremst var hún óvenjuleg og falleg. Svo var efnið frá honum frænda hennar, sem alltaf hafði munað eftir henni á hverju vori. En bezt af öllu var hún þó sökum þess, að hún mamma hafði farið höndum um hana, sniðið hana og saumað.
Snemma voru þær skyldur lagðar á herðar Tótu litlu að reka og sækja kýrnar. Eitt sinn var tarfi beitt með kúnum. Hann gat verið illur viðskiptis. Það kom fyrir, að hann snerist gegn barninu og gerði sig líklegan til alls. Barnið var í sífelldum ótta við tarfinn. Hjartað barðist ákaft í brjósti hennar af hræðslu, svo að hún var miður sín, meðan hún rak kýrnar heiman eða heim. Hún vogaði að bera upp kveinstafi sína við húsmóðurina, sem tjáði hinu fólkinu ótta barnsins eitt sinn, er setið var að snæðingi í baðstofunni. Húsbóndinn þagði, en gömlu konurnar og öldungurinn tóku til að rifja upp minni um marga daga og mæðusama, þegar þau voru ung og óhörðnuð í viðskiptum við tarfa og tápmikla fola, og þar við sat. Framvegis varð Tóta litla að reka kýrnar með lífið í lófa sér af ótta við tarfinn. Kveinstafir hennar heyrðust ekki.
Húsmóðirin var að þvo þvott. Hún hamaðist við að þvæla hann upp úr keytukeraldinu. Gamla konan, amma hennar, hafði sent Tótu nokkrar ferðir með flíkur og fatagarma út í þvælið til húsmóðurinnar, sem tók að ergjast við sífellt aukinn þvott. Síðast fór Tóta með trefil af gamla manninum. Það fussaði í húsmóðurinni. Hún hélt hún færi ekki að þvo lúsatrefilinn af honum, sem hún nefndi. Það gæti gamla konan gert sjálf. Tóta litla hafði gaman af orðum húsmóðurinnar. Gamla konan hafði svo oft verið henni önug og beitt hana vendinum, að einhvern veginn gat barnið ekki stillt sig um að segja henni svar húsmóðurinnar í hefndarskyni. En sú hefnd bitnaði auðvitað á barninu sjálfu, því að gamla konan rak slúðrið í húsmóðurina, sem síðan hýddi Tótu litlu fyrir það.
Einu sinni fyrir fermingu fékk Tóta að fara í kirkju. Var hún þá látin ríða fyrir aftan gamla manninn, sem alltaf var barninu góður og tillitssamur. Á leiðinni til kirkjunnar mættu þau oddvita hreppsins, sem einnig var á leiðinni í guðshúsið. „Hérna kem ég nú með sveitarbarnið okkar, Einar minn,“ sagði gamli maðurinn. „Hún mátti nú sitja heima,“ sagði oddvitinn þurrlega. — Þetta svar oddvitans stakk munaðarleysingjann. — Tóta mundi það síðan eða fram á gamals aldur. Hvar sem hún kom, fannst henni litið niður á sig og hún lítilsvirt í tilliti og orðum.
Um langt skeið svaf Tóta til fóta hjá vinnukonunni á bænum eins og áður er að vikið. Þegar þær voru komnar til náða á kvöldin, var vinnukonunni gert að skyldu að halda fram með það starf gömlu konunnar að tryggja sveitarómaganum sálarheill með því að kenna barninu bænir og vers og láta hana þylja á kvöldin. Oft var þá Tóta litla úrvinda af svefni og þreytu, bæði líkamlega og sálarlega, svo að hugsunin slitnaði og tungan missti máls. Það var þá viss háttur vinnukonunnar að sparka við barninu með fætinum og vekja það þannig til trúarlegra iðkana.
Það var fastur heimilissiður á bænum, að húsbóndinn las bókmenntir fyrir heimilisfólkið á kvöldvökum að vetrinum. Mest var lesið af Íslendinga- og riddarasögum, og rímur kveðnar.
Þegar Tóta var á 10. árinu, var tekið til að kenna henni að þekkja stafina og læra að lesa. Gömul biblía var stafrófskverið. Þegar ekki voru aðrir viðlátnir, var vinnumaðurinn látinn kenna henni lesturinn. Hann var eftirgangssamur og harður, svo að barnið var stundum miður sín við námið. Eitt sinn hótaði hann henni lífláti næsta dag, ef hún læsi ekki betur. Þá varð barnið svo óttaslegið, að námið lenti í fári og harmagráti, sem það uppskar fyrir högg og skútyrði.
Er Tóta var orðin stautandi, hófst nám hinna kristnu fræða. Til þess að tryggja sér sleitulaust áframhald, meðan setið var yfir kverinu, sló húsbóndinn upp palli undir skjánum yfir bæjardyrunum. Upp á pall þennan var Tóta litla látin klöngrast í lausum stiga, sem svo var fjarlægður þann tíma, sem henni var skammtaður til þess að lesa kverið, en settur til, þegar sinna skyldi öðru eða hætta lestrinum.
Tóta var fermd 16 ára gömul. Þá athöfn framdi séra Brynjólfur Jónsson, sem síðar var kenndur við Ólafsvelli. Hann var þá prestur í Reynisþingum í Mýrdal (1876-1881). Hún fermdist í gömlum, sauðsvörtum taukjól, sem fenginn var að láni. Í fermingargjöf fékk hún prjónaða stakkpeysu, eins og þær voru þá gerðar, og jafnframt hlotnaðist henni gömul skotthúfumynd af vinkonu á einum nágrannabænum. Einu sinni hafði húfa sú verið svört. Nú hafði hún fengið á sig grænleita slikju. „Ég þekki pottlokið það tarna,“ sagði Hans í Fagradal, er hann sá Tótu eitt sinn löngu seinna með húfuna. Hann skríkti og „hellti úr eyrunum“, eins og gárungarnir komust að orði, þegar hann tók til að velta vöngum. „Já, ég þekki pottlokið,“ sagði hann, „hún prjónaði það og bar það lengi, hún Sigga gamla í Fjósum, sem nú hefur legið í gröf sinni í 30 ár.“
Þegar Tóta kom heim frá kirkjunni, hét húsmóðirin henni stekkjarlambi, „þó þú sért eins og þú ert.“ Við þessi síðustu orð húsmóðurinnar setti Tótu litlu hljóða. Ekki einu sinni á sjálfan fermingardaginn fékk hún að lifa án angurs og skattyrða. — Lambið fékk hún aldrei. —
Nú var Tóta orðin það gömul, að framfærslu hreppsins var lokið og meðgjöf hætt. Þá sögðu hjónin henni upp vistinni. Þá var hún veglaus og veikluð, — einstæðingur, sem engin vissi úrræði.
Um sumarið eða haustið eftir ferminguna fór hún þess vegna úr fóstrinu til ömmu sinnar og föðurbróður, sem nú var giftur og átti börn.
Tóta hafði alltaf fengið nægan mat á uppvaxtarheimilinu. Og þó að húsmóðirin væri hörð við hana og beitti hana stundum líkamlegum refsingum, var hún þó oftast skálkaskjólið lengst af. Hjá henni varð hún vör mannúðlegra tilfinninga og samúðar, svo og hjá gamla manninum, sem var hinn mesti öðlingur.
Föðurbróðir Tótu var einhver allra fátækasti bóndinn í hreppnum. Hann og þau hjón tóku Tótu til sín fremur af mannúð og manngöfgi og sökum skyldleika en af getu eða liðsþörf. Heim til þeirra kom hún röltandi einn góðviðrisdag með allar eigur sínar á bakinu, svolítinn pinkil með fatalörfum. Það var vorið 1881.
Veturinn hafði verið óvenjulega harður og sorfið fast að heimili frænda hennar ekki síður en fjölmörgum öðrum heimilum á Suðurlandi. Nú fór í hönd harðindatímabil, sem hafði í för með sér heyleysi, horfelli og hungursneyð.
Þegar Tóta flutti til ömmu sinnar og frænda, var amma hennar á áttræðisaldri. Hún dó fyrsta veturinn, sem Tóta var þar. Dauða hennar bar að með þeim hætti, er nú skal greina:
Fagran góðviðrisdag á góunni vildi gamla konan ganga í heimsókn til næsta bæjar. Það var sem næst klukkustundar gangur. Hún var naumast komin miðra garða, þegar að syrti og yfir skall skafrenningsbylur.
Húsbóndinn, föðurbróðir Tótu, var ekki heima, heldur aðeins auk Tótu kona hans, sem var komin langt á leið, og börnin þeirra ung.
Þegar bylurinn skall á, sneri gamla konan við. Það sáu þær að heiman. Sendi húsmóðirin Tótu undir eins af stað til þess að hjálpa ömmu sinni til bæjar. Veðurofsinn varð bráðlega svo mikill, að þær urðu að skríða til þess að mjakast áfram.
Þegar húsmóðirin sá, að þær mundu aldrei ná bænum hjálparlaust, skundaði hún til hjálpar gömlu konunni. Nú skipaði hún Tótu að flýta sér heim til þess að gæta barnanna. Sjálf reyndi hún eftir mætti að aðstoða gömlu konuna í veðurofsanum og hjálpa henni til bæjar.
Eftir langa mæðu kom húsmóðirin heim einsömul, yfirkomin af þreytu og nær dauða en lífi. Þá lagðist hún upp í rúm, og Tóta sá, að hún táraðist. Hún hafði orðið að skilja við gömlu konuna fyrir utan túngarðinn, gat ekki komið henni lengra, og enga hjálp að fá. Konan kaus að lokum heldur að bjarga tveim lífum en þrjú týndust.
Um kvöldið kom húsbóndinn heim. Fann hann þá móður sína dána utan við túngarðinn, þar sem konan skyldi við hana. Um kvöldið báru þau líkið heim á börum. Til þess að firra heimilið slúðursögum og leiðindum afréðu hjónin við Tótu, að þau skyldu segja sveitungunum, að gamla konan hefði komizt heim með lífsmarki.
Fyrsti veturinn, sem Tóta var í nýju vistinni, var mjög harður eins og sá fyrri og bændum ákaflega þungur í skauti.
Sumarið 1882 sendi Hilmar Finsen landshöfðingi Íslandsráðgjafanum í Kaupmannahöfn skýrslu um ástandið í landinu vorið 1882. Þar segir m.a.:
„Eftir hinn einmuna harða vetur 1880-1881 kom afar kalt sumar, svo að hey urðu að minnsta kosti helmingi minni en í meðalári. Fé var því lógað um haustið, miklu fleira en venju gegndi, og jafnvel kúm, því að töður urðu enn minni hlutfallslega en úthey. Veturinn 1881-82 var svo illur og umhleypingasamur, að peningur lifði ekki á útigangi. Þar sem það var reynt, féll hann og hestar hundruðum saman. Hafís lagðist að Norður- og Austurlandi í apríl og auk þess að miklum hluta Suðurlands. — Vorið varð því afar kalt. Korn hefur ekki hrokkið til fóðurbætis, enda hafa margir ekki haft efni á að kaupa, en sumir ekki náð fyrir ótíð og illu standi hestanna. Þúsundir fjár hafa fallið, en það, sem lifir, er illa fært. Helmingur unglamba hefur drepizt, og ær og kýr nytlausar. Af þessu leiðir, að í Suður- og Vesturamtinu hlýtur að verða skortur á keti til heimilis og útflutnings. Þar af leiðir aftur, að menn hafa ekkert til að kaupa útlenda matvöru fyrir.“
Þannig var þá lýsing landshöfðingjans á tíðarfari og afkomu bænda á Suðurlandi eftir síðari harðindaveturinn, sem var fyrsti veturinn, sem Tóta var í vist hjá frænda sínum. Eins og alltaf áður, þá áttu fátækustu bændurnir erfiðast með að standast ofurmögn náttúruaflanna og verja heimili sín sulti og seyru, þegar þannig áraði. Um vorið 1882 kollféll allur bústofn hjónanna sökum fóðurskorts. Þá flosnuðu þau upp af jörðinni. Fjölskyldan leið hungur. Þau náðu sér þó í annað kot til að hokra á, og Tóta fylgdi þeim. Alls var hún hjá hjónum þessum í 6 ár. Þar mætti hún hjartahlýju og góðvild, samúð og skilningi. En öll þessi ár leið hún hungur öðru hvoru, svo að á henni sá. Síðari hluta vetrar 1887 og um vorið varð hungursneyðin á heimilinu meiri en nokkru sinni fyrr. Skorturinn og vanlíðanin svarf svo geigvænlega að fjölskyldunni, að því verður naumast með orðum lýst. Á miðjum vetri var heimilið gjörsamlega bjargarlaust. Ein kýr var í fjósi, og ekkert hey til handa henni. Undir kvöld var kýrin leidd út úr fjósinu og slátrað. Hafði fjölskyldan þá ekki bragðað mat allan daginn, því að enginn matarbiti var til í bænum. Þau urðu því að hungra, þar til kýrketsbiti var soðinn til saðnings þeim. Börnin voru þrjú, eða alls 6 manns á heimilinu.
Þegar leið að vori, náði bóndinn í 90 grásleppur og 100 ýsur frá Vík í Mýrdal. Eina rúgskeffu fengu þau hjón senda héðan úr Vestmannaeyjum og nokkur pund af grjónum. Þetta skyldi verða allur sumarforði fjölskyldunnar. Nokkra silunga veiddi bóndi í Heiðarvatni, þegar á vorið leið. Níu ær höfðu þau hjón í kvíum um sumarið. Soðið af grásleppunni og ýsunni var drukkið með matnum sem mjólk væri, og gerði sulturinn það sætt á bragðið og ljúffengt.
Fjölskylda þessi var bókstaflega að deyja úr hor, þegar henni barst hjálp. Þá um sumarið var Tótu útveguð vist að Reynisholti í Mýrdal. Þá átti hún hvorki sokka né skó. Hafði árum saman gengið berfætt öll sumur og jafnan með sár á fótum, sem illa héldust við og trauðla vildu gróa.
Þegar hún flutti í nýju vistina, hafði hún auðvitað allar eigur sínar með sér, eins og lög gera ráð fyrir, en þær voru gamli gullastokkurinn hennar, sem nú var loklaus, koddi, sem hún tróð í stokkinn, og nokkrir fatagarmar auk þeirra, sem hún stóð í. Bezta flíkin og fallegasta var pilsið hennar. Það var bæði spari- og hversdagspils. Neðri hluti þess var ofinn úr ullarbandi, sem henni hafði verið gefið, og voru bekkir í kring. En efri hluti pilsins var sniðinn og saumaður úr mjög venjulegum strigapoka. Einn gemling átti hún einnig, og áskildi hún sér fóður handa honum í nýju vistinni.
Við þessi vistaskipti var nú Tóta okkar orðin 22 ára.
Í Reynisholti dvaldist Tóta alls í 20 ár. Þarna bjuggu þá hjónin Jón Pálsson Scheving og Oddný Ólafsdóttir. Hjá þessum ágætu hjónum leið Tótu vel. Á þessu góða heimili mætti hún hjartahlýju, skilningi og mannúð.
Fyrstu 8 árin vann Tóta fyrir kaupi. Árskaupið svaraði svo sem 10—12 krónum, og var það að einhverju leyti greitt í kindafóðri. Þarna vann hún öll venjuleg vinnukonustörf, vann að heyskap á sumrum en tóvinnu, þjónustubrögðum, matseld og saumum á öðrum tímum ársins.
Oddný húsfreyja var mesta gæðakona og vel verki farin. Hún kenndi Þórunni vinnukonu ýmislegt gagnlegt til handanna svo sem saumaskap. Húsfreyja saumaði m.a. karlmannaföt, sem þóttu fara vel.
Þegar á reyndi, kom í ljós, að Þórunn var handlagin og henni sýnt um að læra vandasamari saum svo sem saum á karlmannafötum. Oddný húsfreyja kunni líka vel að meta verk Þórunnar, samvizkusemi hennar, trúmennsku og einlægni.
Fyrstu 8 árin, sem Þórunn dvaldist í Reynisholti, voru sannkölluð sólskinsár í lífi hennar.
Nú stóð hún á þrítugu. Þá missti hún heilsuna. Afleiðingar þeirra hörmunga, er hún hafði orðið að búa við öll uppvaxtarárin, komu nú berlega í ljós. Hjartað var sjúkt og allt taugakerfið bilað. Við þá kvöl og kröm lifði hún það sem eftir var ævinnar, 58 ár.
Þau 8 ár, sem Þórunn vann við góða heilsu í Reynisholti, notaði hún til þess að efna sér í rúm, eignast spariföt, svo að hún m.a. gæti skammlaust farið í kirkju, og svo langaði hana til þess að eignast reiðtygi. Beizlisstengurnar hafði hún þegar eignazt.
Fjarri var það hinum góðu og göfugu hjónum í Reynisholti að hrekja Þórunni frá sér, þó að heilsa hennar leyfði ekki lengur að hún ynni nema hin auðveldustu störf og léttustu. Hún dvaldist þess vegna enn hjá þeim hjónum um 12 ára skeið. Að vísu fékk hún ekki kaup lengur annað en framfærsluna og flíkur, enda gat hún ekkert unnið nema rétt húsmóðurinni lítilsháttar hjálparhönd innan bæjar.
Á þessum árum neyddist hún til þess að selja kindina sína og beizlisstengurnar, svo að hún gæti keypt sér lyf.
Árið 1906 var Halldór Gunnlaugsson skipaður héraðslæknir hér í Eyjum. Brátt tók að fara mikið og gott orð af manninum og lækninum. Sá orðstír barst víða t.d. með vertíðarmönnum.
Þá tók hin heilsulausa vinnukona í Reynisholti að þrá til Eyja. Ef til vill kunni Halldór læknir ráð við meinum hennar.
Frænda einn átti Þórunn í Eyjum. Það var Sigurður Sveinsson smiður í Nýborg. Hann var móðurbróðir hennar. Hann leyfði henni að flytja til sín. Það gerði hún árið 1907.
Þórunn kvaddi heimilið í Reynisholti með söknuði í þeirri von að komast þangað brátt aftur heil á heilsu. En það fór allt á annan veg.
Halldór læknir rannsakaði heilsu hennar af sinni alkunnu nákvæmni og þekkingu. Hann mun brátt hafa gengið úr skugga um, að taugasjúkdómur Þórunnar var ólæknandi. Einvörðungu hlýtt og gott viðmót, hugarhlýja og hjálpsemi gat létt byrðar Þórunnar, en heilsan yrði henni aldrei bætt að fullu. Þórunn naut þegar í ríkum mæli hugarhlýju hins samúðarríka læknis. Læknishjónin, frú Anna og Halldór, hlynntu að Þórunni eftir föngum og voru henni í alla staði hlý og hjálpleg. Alla læknishjálp og öll lyf gaf læknirinn henni. Læknisheimilið stóð henni einnig opið. Þar naut hún hlýju og mannúðar. Þórunn reyndi að endurgjalda þá mannslund alla með því að annast börn læknishjónanna og leggja dálitla hönd að verki þar innan húss.
Þórunn Ketilsdóttir kynntist brátt að góðu nágrönnum sínum, meðan hún dvaldist hjá frænda sínum í Nýborg. Sérstaklega varð hún heilluð af Litlabæjarheimilinu. Hjónin þar, Ástgeir Guðmundsson bátasmiður og Kristín Magnúsdóttir frá Berjanesi í Út-Landeyjum, bróðurdóttir Þorsteins Jónssonar læknis, voru henni svo einstaklega hlý og góð og börnin alúðleg. Þar sat hún mörgum stundum, meðan hún átti heima í Nýborg. Þórunn þráði að eiga heima hjá þessari fjölskyldu. Þessa þrá sína bar hún eitt sinn upp við Kristínu húsfreyju. Þær ræddu málið um stund. Börnin í Litlabæ voru sjö og húsrúm mjög af skornum skammti. Stofa var í austurenda hússins þvert um það. Þar stóðu fjögur rúm. Tvö önnur lítil herbergi voru í húsinu.
Ástgeir Guðmundsson var kunnur að manngæzku og hjálpsemi. Ekki vildi hann sporna við því, að Þórunn fengi húsaskjól hjá þeim hjónum, fyrst Kristín kona hans vildi það. Hér sannaðist ljóslega hið forna orðtak: Þar, sem hjartarúm er, þar er húsrúm.
Svo flutti þá Þórunn Ketilsdóttir rúmið sitt úr Nýborg í Litlabæ og fékk að hafa það í stofunni, þar sem fjögur rúmin voru fyrir.
Hjá þessari samrýmdu og hlýhuga fjölskyldu bjó Þórunn í samfleytt 17 ár. Þar var hún í svokallaðri lausamennsku. Hún var í eigin vist og vann fyrir sér með saumum. Nú kom henni vel að notum það, sem hún hafði lært að sauma hjá Oddnýu húsfreyju að Reynisholti. — Þórunn saumaði mest karlmannaföt þau árin, sem hún dvaldist í Litlabæ. Verkið fór henni sérlega vel úr hendi, eins og allt annað, sem hún lagði gjörva hönd að. Kristín húsfreyja og Þórunn voru mjög samrýmdar. Kristín var bæði glaðlynd kona og góðlynd, trúkona mikil og óeigingjörn. Þessar eigindir hennar höfðu góð áhrif á skaplyndi og sálarlíf Þórunnar. Þarna í Litlabæ leið henni svo vel sem nokkur tök voru á. Húsbændurnir voru henni sérlega hjálplegir og góðir. Börnin alúðleg við hana og prúð. Til endurgjalds nutu þau hjartahlýju hennar og umhyggju, því að Þórunn Ketilsdóttir var sérlega barngóð og trygglynd.
Eins og ég gat um, var Kristín húsfreyja í Litlabæ trúkona mikil. Sá eiginleiki var líka ríkastur í sálarlífi Þórunnar. Þær höfðu því mikla ánægju af því að lesa hvor fyrir aðra sálma, svo sem Passíusálmana og önnur trúarljóð, og syngja. Einnig lásu þær saman í Ritningunni og ræddu um menn þar og málefni. Þetta innilega trúarlíf og samlíf þeirra beggja, Kristínar og Þórunnar, varð hinni síðarnefndu eins konar læknisdómur, sem hún naut lengi — ef til vill til æviloka. Ég hefi aldrei kynnzt mannveru, sem haft hefur svo heillandi nautn af trúariðkunum eins og Þórunn Ketilsdóttir. Trú hennar gagntók hana gjörsamlega. Hún sótti kirkju, samkomur í K.F.U.M. og K., þar sem hún starfaði mörg ár, samkomur Hvítasunnusafnaðarins og Aðventista, oft allt sama daginn af einskærri þrá eftir að hlusta á trúarleg ræðuhöld, sálma og söng. Það, sem á milli þessara flokka kann að bera í trúmálum, virtist Þórunni Ketilsdóttur algjört aukaatriði. Trúargrundvöllur þeirra allra var hinn sami fyrir hennar augum, og það var henni nóg. Sá grundvöllur var henni allt.
Árin liðu. Börnin í Litlabæ fluttu úr föðurtúnum og gerðust sjálfstæðir heimilisfeður og mæður. Aldurinn færðist yfir hjónin Ástgeir og Kristínu. Loks hættu þau sjálfstæðu heimilishaldi í Litlabæ, og Þórunn varð að flytja þaðan. Hvar var nú skjól að fá? — Jú, lögð er jafnan líkn með þraut.
Árið, sem Þórunn Ketilsdóttir dvaldist í Nýborg, fluttist hingað til Eyja ung stúlka af landi. Af sérstakri tilviljun hafði hún kynnzt Þórunni þegar við komu sína hingað til Eyja. Þórunn hafði þá í fátækt sinni og umkomuleysi skotið yfir hana skjólshúsi og léð henni vistarveru. Þessi stúlka hafði gifzt hér og átti nú húsum að ráða. Hjá henni og manni hennar fékk nú Þórunn húsaskjól. Hjónin eru þau Sigríður Brandsdóttir og Gísli IngvarssonUppsölum. Hjá þessum mætu hjónum leigði Þórunn herbergi í 28 ár, og hjá þeim dó hún í desember 1953, 88 ára að aldri eins og áður segir.
Þau árin, sem Þórunn leigði í Uppsölum, greiddi bæjarsjóður húsaleigu fyrir hana. Sigríður og Gísli voru Þórunni í alla staði góð. Hún unni þeim og virti þau. Margir Eyjabúar véku góðu að Þórunni Ketilsdóttur. Hún naut jafnan hjálpsemi þeirra og hugarhlýju. Það viðurkenndi hún fúslega og þakkaði. Börn þeirra hjóna frá Reynisholti voru henni hugulsöm og góð til hinztu stundar. Einnig afkomendur þess fólks, er hún ólst upp hjá, voru henni artarlegir og sendu henni gjafir. Kaupmaður í bænum, sem dvalizt hafði og starfað í Skaftafellssýslu um árabil, gaf henni neyzlumjólk í mörg ár. Svo mætti lengur telja dæmi um hjálpsemi og samúð fólks til handa hinni hjartahlýju og trygglyndu öðlingskonu, sem bar jafnan þunga byrði og lifði við kvöl og kröm heilsuleysis langa ævi sökum skorts og skilningsleysis, sökum miskunnarleysis og harðýðgi, sökum vöntunar á mannúð og meðkennd á uppvaxtarárunum.
Þórunn gat rímað vísu, þegar hún vildi það við hafa. Það gerði hún helzt, þegar hún skrifaði í minningabækur ungra vina sinna. Flestar vísur hennar, þær, sem ég hefi séð, eru fyrirbænir eða frómar óskir til vina hennar og velgjörðarmanna. Ég læt hér nokkrar fjúka, og skulu þær vera sýnishorn af kveðskap hennar.

Til ungrar vinkonu:

Eina heita ósk eg finn,
að henni stefnir hugur minn;
gjöri alheimsgjafarinn
gæfuskreyttan veginn þinn.

Í minnisbók barns:

Guðs og manna græddu hrós,
glöð og hýr í sinni.
Jesús sé þér leiðarljós
lífs á vegferð þinni.

Til dáinnar vinkonu:

Ég krýp við kistu þína
og kveð þig nú um stund.
Síðar aftur sjáumst
í sælla vina lund.

Það líður á ævikvöldið:

Lifað hef ég langan dag
leidd af drottins mildi.
Aldrei hef ég þakkað það
þó sem vera skyldi.


Nú er ævi komið kvöld,
kraftar allir dvína,
frelsarans í föðurhönd
fel ég sálu mína.


Síðast, þegar sofna ég
södd af heimsins gæðum,
fyrir lífið þakka ég þér
þríeinn guð á hæðum.


Birtan hverfur býsna fljótt,
en blíðan velli heldur.
Vermir dimma dauðans nótt
Drottins kærleikseldur.

Vissulega fór það fjarri, að trúarskoðanir okkar Þórunnar Ketilsdóttur féllu í sama farveg. En hvað um það. Hin barnalega einlægni hennar og hið hreina hjartalag skóp með mér djúpa virðingu fyrir henni, fyrir mannkostum hennar og sálargöfgi. Þórunn Ketilsdóttir átti vissulega barnshjartað, sem meistarinn fullyrðir, að leiði til guðsríkis, það er ég sannfærður um.
Blessuð sé minning hennar.

Þorst. Þ. Víglundsson.


Og hversvegna svo, nemendur mínir, að birta þessi orð mín um Þórunni Ketilsdóttur í ársriti Gagnfræðaskólans eða ársritinu ykkar?
Jú, í velsæld og velgengni megum við hvorki gleyma himninum yfir höfði okkar né sögu genginna kynslóða. Sú gleymska leiðir til ófarsældar og ómenningar, áður en lýkur, og veldur okkur vanþroska. Hollt er því okkur öllum, og ekki sízt hinni uppvaxandi kynslóð, að kynnast af eigin frásögn lífi og láni eða óláni slíkra olbogabarna, sem Tóta í Uppsölum var á uppvaxtarárum sínum. Ef þið, nemendur mínir, mættuð auðgast af samúð með þeim, sem höllum fæti standa í lífinu, við það að lesa þessi minningarorð mín um Þórunni Ketilsdóttur, þá er marki mínu náð. Einlæg samúð með líðandi mönnum og svo málleysingjum leiðir til þeirrar farsældar, sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Sú tilfinning er hin helgasta í lífi hvers manns. Hún er vissulega guðseðlis.
Vitur maður hefur sagt:
Fólk kennir í brjósti um sjálft sig. Það finnur oft sárt til sinnar eigin eymdar. En það skortir ímyndunarafl til þess að gera sér grein fyrir eymd annarra. Hún snertir það ekki. Þess vegna lætur það sér hana einskis varða. Ef við hefðum ímyndunarafl í stað guðsóttans, þá yrðu þjáningarnar minni í heiminum. Þá mundum við rækja betur skyldur okkar við drottinn.

Þ.Þ.V.