Blik 1957/Þáttur af dr. Schleisner

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. mars 2011 kl. 13:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. mars 2011 kl. 13:05 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



BALDUR JOHNSEN, héraðslæknir:


Þáttur af dr. Schleisner
og baráttunni við ginklofann í Vestmannaeyjum
og víðar um miðja 19. öld


Þekking á fortíðinni er lykill
til skilnings á nútímanum
og auðveldar útsýnið til framtíðarinnar.

I.


Í Ketilsstaðaannál anno 1773 segir svo:
„Tala fæddra þetta ár í Skálholtsstifti 1272 börn en þeirra dauðu 1086. Voru svo 186 fleiri þeir fæddu en þeir dauðu.“
Mörg árin munu hafa verið þessu lík hér á landi fyrr á öldum, enda marga sjúkdóma við að glíma, sem nú er búið að útrýma, að mestu með sérstökum heilbrigðisráðstöfunum, sem haldast í hendur við bætt viðurværi, meira hreinlæti og betri húsakynni.
Einn þessara sjúkdóma var ginklofinn, sem deyddi kornabörn á fyrsta aldursmánuði. Einkennin voru svo augljós, að almenningur var ekki í neinum vafa um sjúkdómsgreininguna.

II.


Ferðamenn höfðu veitt því athygli, haft spurnir af og skráð á bækur, þegar á fyrri hluta 17. aldar, að sérstaklega mikið bæri á sjúkdómi þessum í Vestmannaeyjum. Sbr. Vestmannaeyjasögu Sigfúsar Johnsen fyrrv. bæjarfógeta hér.
Sá orðrómur komst meira að segja á, að konur gætu eigi orðið léttari í Vestmannaeyjum, og yrðu því að fara upp á land til að ala börn sín.
Þetta mun nokkuð hafa verið tíðkað, en var þó enganveginn einhlítt, eins og síðar mun sýnt verða fram á.

Baldur Johnsen.

En hvað um það, reyndin var sú, að á tímabili, sem sögur fara af, dóu hér 70—80 af hundraði allra barna, áður en þau urðu mánaðargömul.
Margs var til getið um orsakir, en flestar voru þær tilgátur víðsfjarri sannleikanum, og fór árangur aðgerða eftir því.
Loks sendu svo stjórnarvöldin Svein Pálsson lækni og náttúrufræðing út í Eyjar til þess að rannsaka ginklofann. Það var um aldamótin átján hundruð, eða fyrir tæpum 160 árum.
Sveinn var þá nýskipaður héraðslæknir í austurhéraði Suðuramtsins, 4. okt. 1799, og hafði þá nokkur ár aðsetur að Kotmúla í Fljótshlíð.
Áður höfðu Vestmannaeyingar orðið að sækja lækni að Nesi við Seltjörn (þ.e. á Seltjarnarnesi), eða austur á firði eins og aðrir Sunnlendingar.
Af ferð Sveins varð enginn árangur. Hann vildi kenna neyzluvatninu um, sem var tekið í Vilpu, þegar húsbrunna þraut. (Óbeinlínis má segja, að þessi tilgáta væri ekki fjarri sanni, því að vatnsskortinum fylgdi alltaf sóðaskapur, þótt Sveinn hafi sjálfsagt ekki meint það svo.)
Aðrir kenndu um fisk- og fuglaáti, og enn aðrir fýlafiðri, sem nokkuð var notað í sængur, og lagði af megnan daun.
Nú lá málið niðri meira en 20 ár án þess nokkuð væri aðgert.
En þá var með konungsúrskurði 6. júní 1827 ákveðið að stofna sérstakt læknisembætti í Vestmannaeyjum (Sbr. „Læknar á Íslandi“ eftir Lárus Blöndal og Vilmund Jónsson).
Ætlazt var til þess, að þetta yrði aðeins bráðabirgðaráðstöfun vegna ginklofafaraldursins, og var fyrsti læknirinn C.F. Lund því aðeins skipaður til 6 ára, fyrst um sinn, því að talið var, að á þeim tíma hlyti að vera búið að ráða niðurlögum veikinnar.
En það fór á annan veg. Lund kom til starfa 23. jan. 1828, og dó hér eftir 3 ár, 4. des. 1831, og hafði orðið lítið ágengt í ginklofamálinu. Þá var enn skipaður læknir til 6 ára, fyrst um sinn, einnig danskur, C.H.U. Bolbroe að nafni. Hann dvaldi hér tilskilinn tíma án þess þrautin leystist. Þá voru enn skipaðir tveir danskir læknar hér; A.S.I. Haalland 1840 og A.F. Schneider 1845; en þannig fór, að eftir 20 ára dvöl þessara fjögurra lækna hér samfleytt, eða svo til, hafi lítið áunnizt, en talið var, að ekkert nema fæðingastofnun gæti leyst vandann, þar sem konur ælu börn sín og lærðu meðferð ungbarna hjá lærðum lækni og ljósmóður.

III.


Þá kom til sögunnar, 1847, sá læknir, sem átti eftir að bjarga við málinu; það var dr. P.A. Schleisner, en hann var sendur af heilbrigðisstjórninni frá almenna sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn til þess að rannsaka og gefa skýrslu um almenn heilbrigðismál hér á Íslandi, og alveg sérstaklega ginklofann í Vestmannaeyjum.
Fyrsta verk Schleisners var að koma upp fæðingarstofnuninni í Garðinum, Danska Garði.
Ljósmóðir við stofnunina var Sólveig Pálsdóttir, amma hins merka læknis Matthíasar sál. Einarssonar.
Þess er getið, að þegar Sólveig þessi sigldi til Kaupmannahafnar til að nema þar ljósmóðurfræði, þá átti hún ekki að fá aðgang að fæðingastofnuninni þar, vegna þess að hún hafði ekki reynt barneign sjálf.
Það mál leystist þó að lokum, eftir mikla vafninga.
Fyrsta barnið, sem kom á fæðingadeildina, dó úr ginklofa.
Nákvæm rannsókn á þessu barni leiddi til þess, að Schleisner komst strax á rétta braut, en hún var sú, að farið var að beita sérstökum sóttvarnar- og hreinlætisráðstöfunum við naflasárið. Hér var hreinlætið aðalatriðið.
Eftir aðeins eitt ár var búið að kveða ófögnuðinn niður, og af 20 börnum, sem fæddust árið eftir, dó aðeins eitt úr ginklofa.
Þarna var unnið afreksverk við slæmar aðstæður.
Árangurinn af þessu starfi Schleisners í Vestmannaeyjum kom fljótlega til hjálpar öðrum landshlutum og öðrum þjóðlöndum, því að brátt varð ljóst, að sjúkdómurinn var eigi aðeins landlægur í Vestmannaeyjum, heldur og um allt land og allsstaðar, þar sem jörð var ræktuð og því meira um hann, sem mold var frjósamari.
Þetta átti vel við í Danmörku og á Írlandi, þar sem veikin var snemma mjög útbreidd. Allt þetta áttu síðari tíma rannsóknir eftir að styðja enn betur, eftir að Japaninn Kitasató fann sýkilinn 1889, eða vel hálfri öld síðar.
Árið 1891 fundu svo þeir félagarnir Kitasató og Þjóðverjinn Behring blóðvatn við veikinni, sem enn er notað undir vissum kringumstæðum, en löngu seinna var bólusetning fundin upp gegn veikinni.
Þrátt fyrir þetta er veikin enn víða landlæg í austur- og suðurlöndum.

IV.


Ginklofasýkillinn hefst við í mold í einskonar dvalaástandi.
En komist hann í sár, sem hafast illa við og lengi eru að gróa, fær hann vaxtarskilyrði og framleiðir eitur í sárinu, sem kemst inn í blóðið og veldur banvænum krömpum.
Í gamla daga var þvottur þurrkaður á túnum og steingerðum og fauk þá oft í hann mold, sem var sóttmenguð. Þannig komst sýkillinn í naflabindið, og þaðan í naflasárið, sem var sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri sýkingu.
Hér á landi var veikinni alveg útrýmt á 19. öld, eins og hún kom fram í kornabörnum, fyrir aukið hreinlæti, eins og áður er sagt. En sami sýkillinn getur og valdið stífkrampa í fólki á öllum aldri, ef hann kemst í sár, sem farið er óhreinlega með og gróa seint.
Hreinlæti og örugg sárameðferð er því góð vörn, enda völ margra ágætra sáralyfja nú, sem ekki voru til áður. Þó eru ekki mjög mörg ár síðan unglingur lézt hér úr veikinni.
Hér í Vestmannaeyjum er einnig notað óspart blóðvatn, þar sem hætta þykir á sýkingu, og bólusetning var fyrst tekin upp í Vestmannaeyjum, hér á landi, gegn veikinni fyrir nokkrum árum.


EFTIRMÁLI

Þetta var stutt lýsing á baráttunni við ginklofann.
Málið er merkilegt fyrir það, að hér er unnið mikið afrek á stuttum tíma, sem hefir víðtæk áhrif, og það sýnir okkur, svart á hvítu, hve geysimikla þýðingu hreinlætið hefir, en oss hættir við að gleyma því svo og baráttu forfeðranna, sem við nútímamennirnir uppskerum ávextina af.
En afrek Schleisners er einnig merkilegt fyrir það, að á þeim tímum, sem hér um ræðir, voru sóttkveikjur óþekkt fyrirbrigði; og það ríkti raunar víðast hvar miðaldavanþekking á sviði heilbrigðismála.
Það var að vísu búið að vinna mikið undirbúningsstarf á ýmsum sviðum læknisfræðinnar, en það átti eftir að bera ávöxt, sem ekki þroskaðist að ráði, fyrr en með tuttugustu öldinni.
Pasteur var um þetta leyti að byrja feril sinn sem efnafræðingur. Það var ekki fyrr en 20 árum seinna, að Lister kom fram með kenningar sínar um sótthreinsun við skurðaðgerðir og sárameðferð.
Og Róbert Kock, sem síðar fann berklasýkilinn 1882, var kornungur og ekkert farinn að hugsa um sýklafræði, þegar saga þessi gerðist.
Af Schleisner er það einnig að segja, að á meðan hann dvaldi hér á landi, notaði hann tækifærið til þess að kynna sér fleiri hliðar heilbrigðismálanna, sérstaklega sullaveikina; og hann gerði víðtækar tillögur til stjórnarinnar um skipun heilbrigðismála hér á landi, sem munu, meira eða minna, hafa verið teknar til greina; og má mikið vera, ef það hefir ekki einmitt verið fyrir tillögur hans, að fastri skipan var komið á læknismál Vestmannaeyja, með því að stofna héraðslæknisembættið, sem vera skyldi til frambúðar, og var fyrsti héraðslæknir samkvæmt þeirri framtíðartilhögun danskur maður, að nafni Ph.Th. Davidsen, frá 1852—1860, en það var líka síðasti danski læknirinn hér í Eyjum.