Blik 1969/Tvær norðfirzkar myndir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. september 2010 kl. 20:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. september 2010 kl. 20:18 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON'


Tvær norðfirzkar myndir


Nes


Að þessu sinni birtir Blik tvær myndir frá Norðfirði, þar sem örlögin létu mig alast upp. Satt að segja finnst mér, að Norðfirðingar mættu gera meira að því að skrá eða láta skrá ýmsa markverða kafla úr sögu byggðarlagsins en gert hefur verið til þessa. Þyngra hlassi hafa þeir velt að sínu leyti í ýmsum menningar- og atvinnumálum á síðari áratugum. Þess vegna er mér þessi sögulega þögn þeirra nokkurt undrunarefni, því að manndáðinni búa þeir yfir og framtaksviljanum, þótt þeim mikilvægu mannkostum hafi til þessa verið beitt að öðru en sögulegri skráningu.
Svo vendi ég mínu kvæði í kross og skrái hér nokkurt skýringarhrafl við Norðfjarðarmyndirnar. Vissulega eru þau skrif mín menguð persónulegum kenndum og minningum, eins og þeim var frá upphafi ætlað að vera. Að eilitlu leyti eru þau jafnframt saga mín sjálfs, svo langt sem það nær, og okkar, sem þarna ólumst upp á fyrsta og öðrum tug aldarinnar.
Jóhann Gunnarsson, fyrrverandi rafstöðvarstjóri á Norðfirði, hefur safnað mér nokkurri fræðslu til viðbótar því, sem ég sjálfur vissi og mundi, og svo Sveinn Guðmundsson frá Laufási og frú Unnur Pálsdóttir kona hans, sem hér eru búsett. Þessu fólki öllu kann ég beztu þakkir fyrir fræðsluna. Sé eitthvað „missagt í fræðum þessum“, ber ég ábyrgðina, því að mig er að saka um það. Myndin á blaðsíðunni til hægri (hér fyrir neðan (Heimaslóð.is)) er af þeim hluta þorpsins, sem um aldir var kallað Nes. Þar gekk eyri fram í fjörðinn. Sá hluti þorpsins byggðist um og eftir aldamótin á landareign Nesjarðarinnar, sem þar var bújörð frá fornu fari. Innan við það byggðarhverfi tók við Stekkjarnesið. Mörkin voru við Sandhól eða þar um bil, húsið nr. 24 á myndinni. Þar var kirkjan byggð, er hún var flutt frá Skorrastað árið 1896. (Sjá myndina). Stekkjarnes hét hluti fjarðarstrandarinnar frá Sandhólsmörkum að læk þeim, er rennur innan vert við fyrrverandi verzlunarhús Stefáns kaupmanns Stefánssonar. Þó er það hús stundum talið með næsta hverfi innan við Stekkjarnesið, Krossavík. Á seinni áratugum hefur sá hluti byggðarinnar heitað Vík í daglegu tali.
Skýringar mínar við myndina eru að mestu leyti miðaðar við uppvaxtarár mín á Norðfirði eða fyrstu tvo áratugi aldarinnar, enda mun þessi mynd tekin stuttu eftir 1918.

ctr


Sjá skýringar á síðunni: Nes. (Notið „View“ og „Zoom“, -stækka má tölur eftir þörfum. (Heimaslóð.is)).


Nr. 1. Húsið næst á myndinni var lengi vörugeymsluhús Verzlunar Konráðs Hjálmarssonar og stóð fyrir neðan Strandveginn gegnt verzlunarhúsinu. Bryggjan var notuð við uppskipun á matvörum og timbri, en hafskipabryggja var þá engin í kauptúninu. Fremst við bryggjuna er vanhús.
Nr. 2. Fiskhús og aðgerðarpallur Ögðuútgerðarinnar. V/b Ögðu áttu þeir saman Gísli Jóhannsson, síðar mágur minn, og Karl Guðmundsson frá Hesteyri í Mjóafirði, tengdafaðir hans. Gísli var formaður á bátnum.
Nr. 3. Þennan skúr mun Verzlun Konráðs Hjálmarssonar hafa átt og leigt hann árabátaútgerðum.
Nr. 4. Sjóhús feðganna í Sandhól (nr. 24), Gísla Þorlákssonar og Þorláks Gíslasonar.
Nr. 5. Davíð kaupmaður Jóhannesson frá Eskifirði, bróðir Alexanders heitins prófessors, átti þetta sjóhús um skeið, enda rak hann verzlun sína í húsinu nr. 23. Síðar hafði Svavar bróðir minn, útgerðarmaður og formaður, útgerðarbækistöð sína í þessu húsi og notaði þá bryggjuna fram af því.
Nr. 6. Sjóhús og bryggja bræðranna Péturs og Þórðar Sveinbjarnarsona á Kvíabóli (nr. 22). Pétur Sveinbjarnarson, formaður og útgerðarmaður, fórst með allri áhöfn sinni í námunda við Norðfjarðarnípu, að talið var. Austan við (utan við) sjóhús nr. 6 sést á mæni lítils sjóhúss. Það var sjóhús Sverris Sverrissonar, þekkts útgerðarmanns og sægarps á árabáta- og smávélbátaárunum.
Nr. 7. Hús og bryggja, sem Norðmaðurinn Thomsen átti, útgerðarmaður frá Nesi. Síðar byggði hann ofan á sjóhúsið og bjó þar.
Nr. 8. Sjóhús og bryggja Ingvars útgerðarmanns Pálmasonar á Ekru, síðar alþingismanns Sunnmýlinga. Ofan við sjóhús Ingvars Pálmasonar sést svart hús. Það ber yfir sjóhús nr. 7, Thomsenshúsið. Þetta mun á sínum tíma hafa verið elzta hús í þorpinu, kallað „Svarta húsið“. Það var eign Verzlunar Sigfúsar Sveinssonar, og mun Sveinn kaupmaður Sigfússon hafa byggt það á fyrri öld, er hann hóf verzlunarrekstur á Nesi. Útveggir húss þessa voru klæddir sköruðum borðum og tjargaðir (sbr. „Kornloftið“ eða „Svarta húsið“ hér vestan við Skansinn). Í „Svarta húsinu“ geymdi „Sigfúsarverzlunin“ smíða- og panelvið.
Nr. 9. Sjóhús (aðgerðarhús) verzlunar Sigfúsar Sveinssonar, sem rak bæði verzlun og útgerð í stórum stíl, eftir því sem þá gerðist. Verzlunin átti öll húsin, sem standa á svæðinu milli nr. 8 og 9, verzlunarhús (með tveim gluggum á innstafni og tveim kvistum gegn suðri), íbúðarhús, vörugeymslu, íshús, snjó- og ísgeymsluhús, matstofa verkafólks og sjómanna að sumrinu o.fl. Þar vann margt Sunnlendinga, m.a. Vestmannaeyingar, á sumrin, er lífið var mest í útgerð og sjósókn.
Sigfús Sveinsson lét grafa tjörn uppi á mýrum fyrir ofan Ekru (nr. 14) og lét á vetrum flytja þaðan ís í ísgeymslu sína. Á sumrum seldi hann nokkuð af þeim ís erlendum fiskiskipum, t.d. færeyskum. Sjálfur átti kaupmaðurinn íshús að kanadískri gerð, eins og Ísak Jónsson byggði fyrir Konráð kaupmann Hjálmarsson, frænda sinn í Mjóafirði, um aldamótin.
Nr. 10. „Gamla Lúðvíkshúsið“, íbúðarhús Lúðvíks Sigurðssonar, útgerðarmanns og kaupmanns. Þetta hús mun fyrst hafa verið byggt inni í Vík eða innar með firðinum, byggt þar fyrir aldamót. Líklega byggðu síldveiðimenn það upprunalega. Fullyrt er, að Sveinn kaupmaður Sigfússon, faðir Sigfúsar kaupmanns, hafi keypt húsið og flutt það út á Nes fyrir aldamótin.
Mér er tjáð, að séra Jón Guðmundsson, sóknarprestur, hafi búið í þessu húsi, eftir að sóknarkirkjan var flutt frá Skorrastað í Norðfjarðarsveit út á Nes, og prestur settist þar að.
Lúðvík Sigurðsson, útgerðarmaður, keypti hús þetta fyrir eða um aldamótin og bjó í því um árabil eða þar til hann flutti í „Nýja Lúðvíkshúsið“, þ.e. húsið nr. 11 á myndinni.
Nr. 11. „Nýja Lúðvíkshúsið“, sem byggt var á árunum 1913 og 1914. Á þakhæð þessa húss bjó Pétur héraðslæknir Thoroddsen í nokkur ár, eftir að hann gerðist héraðslæknir á Norðfirði (1913). Lúðvík Sigurðsson bjó sjálfur á aðalhæð hússins með hina stóru fjölskyldu sína, og rak verzlun sína í kjallaranum.
Nr. 12. „Gamla prestshúsið“, sem séra Jón Guðmundsson (sóknarprestur að Skorrastað 1888 og prófastur frá 1911) byggði fyrir eða um aldamótin, eftir að Skorrastaðarkirkja var flutt út á Nes, og bjó þar, þar til hann flutti í „Nýja prestshúsið“ (nr. 13) árið 1914. Prófasturinn var póstafgreiðslumaður á Nesi um margra ára skeið og var póstafgreiðslan í kjallara nýja hússins, gengið inn um vesturdyr. „Gamla prestshúsið“ hefur heitað Dagsbrún, síðan Eiríkur útgerðarmaður Stefánsson flutti að Nesi og keypti það til íbúðar.
Nr. 13. „Nýja prestshúsið“, byggt 1914, íbúðarhús prófastshjónanna og póstafgreiðsla.
Nr. 14. Ekra (ytri), íbúðarhús Ingvars Pálmasonar, útgerðarmanns (og síðar alþingismanns Sunnmýlinga) og Hjálmars Ólafssonar, verkstjóra (eða manns allt í öllu) við Verzlun Sigfúsar Sveinssonar. Fyrir austan Ytri-Ekru (nr. 14) ber við loft heyhlöðu, sem Páll kaupmaður Þormar lét byggja, er hann fékk afnot af miklum hluta gamla Bakkatúnsins (túni hinnar fornu bújarðar að Bakka á Nesi).
Nr. 15. Ekra (innri). Hér bjó Einar hreppstjóri Jónsson, sá, sem lét mest til sín taka í Færeyingaslagnum mikla sumarið 1912, er Íslendingar og Færeyingar slógust eftirminnilega. Þá var það, sem ég sá Guðmund gamla berja Færeyinginn með bauknum sínum, svo að hann varð óvígur, og Bergþór þreif hníf úr bát Lárusar Valdorfs og skar sólann undan skónum sínum fyrir framan augun á færeysku sjómönnunum til þess að sýna þeim, að bit væri í kuta. Þá tóku þeir á rás. Margs er að minnast! Ég get þessa til að vekja forvitni. Söguna þarf að skrá.
Nr. 16. Í þessu litla húsi bjó um árabil Guðjón Eiríksson, faðir frú Sigríðar Guðjónsdóttur, konu Bergs smiðs Eiríkssonar á Þórhól (nr. 18).
Nr.17. Bakki, verzlunarhús Björns Björnssonar kaupmanns. Húsið mun byggt skömmu eftir aldamótin. Halldór bóndi Stefánsson á Bakka, bújörðinni utan við Nesþorpið, byggði húsið, sem var lengi eign Bjarna Halldórssonar, yngsta barns Halldórs bónda og konu hans.
Nr. 18. Íbúðarhús Bergs Eiríkssonar trésmíðameistara.
Nr. 19. Íbúðarhúsið að Hjöltum. Húsið byggði Sigurjón verzlunarmaður Kristjánsson yfir foreldra sína, Kristján Benjamínsson, verkamann, og konu hans, Salgerði Jónsdóttur. Sjálfur kvað Sigurjón búa nú í húsi þessu.
Nr. 20. Líklega hlaða eða peningshús frá Ekru.
Nr. 21. Laufás, íbúðarhús hjónanna Guðmundar Stefánssonar og Valgerðar Árnadóttur frá Grænanesi, foreldra Sveins GuðmundssonarArnarstapa hér í bæ.
Nr. 22. Kvíaból. Þetta hús var byggt á fyrstu árum aldarinnar. Eigendur: Haraldur Runólfsson, fiskimatsmaður, og Sveinbjörn Sveinbjörnsson frá Eldleysu í Mjóafirði. Haraldur átti austurendann og bjó þar um 6 tugi ára. Hann lézt fyrir þrem árum eða svo í mjög hárri elli.
Eftir daga hjónanna Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og Unu konu hans Ormarsdóttur, eignaðist Pétur sonur þeirra innri enda þessa húss og bjó þar með konu sinni, frú Guðrúnu Eiríksdóttur. Nú kvað Pétur Pétursson, sonur þeirra hjóna, eiga allt húsið.
Sjónglöggur lesandi getur greint klofna steininn í túninu niður af Kvíabólshúsinu. Þessi steinn var sprengdur í tvennt um það bil sem húseignin Bakki (nr. 17) var byggð. Stuttu síðar andaðist maður sá, sem lét sprengja steininn. Hann andaðist á voveiflegan hátt. Hann fékk þannig ekkert ráðrúm til að fjarlægja steininn. Dauðinn gerir stundum ekki boð á undan sér!
Þessir atburðir urðu fólki að efni í þjóðsögu. Huldufólk hafði átt að búa í steininum, þegar hann var sprengdur. Það hefndi sín á manninum með því að „senda hann til guðs!“
Þessi sögn lifði „blómalífi“ með Norðfirðingum á bernskuárum mínum þar í byggð.
Nr. 23. Íbúðar- og verzlunarhús Davíðs kaupmanns Jóhannessonar frá Eskifirði. Síðar verzlaði Haraldur Víglundsson, bróðir minn, í þessu húsi. Mér er tjáð, að það hafi enn síðar verið bækistöð Hjálpræðishersins þar í kaupstaðnum, eða var byggðin ekki orðin kaupstaður þá?
Nr. 24. Sandhóll, íbúðarhús Gísla Þorlákssonar og síðar Þorláks sonar hans. Fyrir allmörgum árum var hús þetta rifið og hús nr. 25 flutt á lóð þess.
Nr. 25. Goodtemplarahúsið, sem byggt var um aldamótin. Eigandinn var Stúkan Nýja-Öldin, sem stofnuð var í þorpinu í byrjun aldarinnar, eins og nafnið bendir til. Eigendur þessa húss eru nú hjónin Jóhann Gunnarsson frá Holti í Mjóafirði og Ólöf Gísladóttir frá Sandhól. Húsið var selt, er goodtemplarar byggðu sér nýtt hús í túni Gísla Hjálmarssonar, sem einu sinni var, og var þá húsið flutt á lóð Sandhóls, eins og áður getur.
Í goodtemplarahúsinu gamla vann ég bindindisheit mitt á fundi með fóstra mínum vorið 1914. Þá steig ég eitt mitt mesta gæfuspor í lífinu. Þetta vil ég undirstrika ungum mönnum og konum til íhugunar. Þetta heit hefi ég haldið æ síðan. Engu tapað við það nema meðal annars samlyndi allskyns drabbs- og drykkjulýðs og misindisfólks í mismunandi fínum fötum, en hlotið ólýsanlega mikið happ í lífinu sökum staðfestu minnar í bindindismálum, — hamingju, sem ég óska hverjum ungum Íslendingi, pilti og stúlku. Til þess að hljóta slíkan lífsfeng þarf staðfestu og traust viljalíf. Sannarlega er allt of mörgum þar ábótavant. Því fer sem fer.
Í Goodtemplarahúsinu gamla gengum við 4 með öðrum eldri í unglingaskóla þann, sem Ólafur Sveinsson frá Firði í Mjóafirði rak á Nesi fermingarárið okkar. Síðasta veturinn okkar í barnaskólanum vorum við „lánuð“ í unglingaskólann.
Í gamla Goodtemplarahúsinu fengu líka fósturforeldrar mínir inni, er íbúðarhúsið þeirra „Eldri-Hóll“ brann til kaldra kola í janúar 1920. Þar bjó ég hjá þeim um sumarið og fram á haust, meðan við fóstri minn unnum að byggingu „Nýja-Hóls“, sem við fluttum í um haustið. Jafnframt byggingarvinnunni stunduðum við sjóinn saman á litlum færeyskum báti, sem hann átti. Allt tókst þetta vel og giftusamlega fyrir okkur.
Í gamla Goodtemplarahúsinu átti sér líka stað „pólitískt undur“, þegar ég var 13 ára. Þá var haldinn þar almennur fundur. Ekki man ég ástæðuna til þess. En það man ég og veit, að til þess tíma, svo lengi við mundum flest, höfðu kaupmennirnir í þorpinu og prófasturinn verið gjörsamlega einvaldir þar um allt. Þeir gátu með táknrænum orðum ráðið því, hvort Jón Jónsson, verkamaður, hafði grjón í grautinn sinn 5 daga vikunnar eða 7 daga, hvort hann át brauðið sitt þurrt í dag eða þá heldur á morgun. Víst var um það, að smurt yrði það naumast alla daga vikunnar.
Á fundi þessum kom fram tillaga frá Guðjóni Símonarsyni, útgerðarmanni og formanni kunnum. Efni hennar man ég ekki, en það kitlaði valdhafana á fundinum. Prófastur andæfði í allri hógværð og fulltrúar kaupmannavaldsins höfðu hátt. Guðjón þæfði og var rökfastur á köflum og fleiri tóku til máls. Svo var tillagan borin upp, og viti menn! Hún var samþykkt. Það hafði víst aldrei átt sér stað fyrr, svo að fóstri minn mundi þar á Nesi. Fólk stóð undrandi. Voru breyttir tímar í vændum? Það kom á suma af okkur strákunum. Andúðin á valdhöfunum var brennandi. Við höfðum drukkið hana í okkur með móðurmjólkinni. Leifar danskrar kúgunar eða hvað? Við vissum það ekki, en svona var það. Allsnægtirnar annars vegar, — skorturinn og eymdin hins vegar. Þetta sáum við, þetta skildum við, þetta vissum við og allar ástæðurnar fyrir ástandinu, eins og það var. Það hafði gjörbreytzt til hins verra síðustu 10 árin, bilið breikkað, kjör hins stritandi versnað stórlega með auknum og batnandi veiðitækjum.
Nr. 26. Hús til geymslu á þurrfiski. Eigandi var Verzlun Sigfúsar Sveinssonar. Vistarverur aðkomusjómanna voru í þakhæð þessa húss, t.d. Sunnlendinganna á sumrum.
Nr. 27. Hér sést á út- og suðurhornið á Verzlunarhúsi Konráðs Hjálmarssonar. Konráð kaupmaður var frá Brekku í Mjóafirði. Hann rak verzlun í Mjóafirði um árabil og byggði þar stórt verzlunarhús. (Sjá Blik 1969/Frá Mjóafirði eystra).


Stekkjarnes


Myndin hér til hægri er af miðhluta þeirrar byggðar við Norðfjörð, er um langan aldur var kölluð Stekkjarnes. Einhvers staðar á þessu svæði hefur staðið stekkur þeirra bænda þar út með firðinum, ábúendanna á bújörðunum Nesi, Bakka og Þiljuvöllum. Svo sem vitað er, var stekkur einskonar rétt með lambadilk til að skilja lömbin frá kvíaánum, þegar fært var frá.
Vil ég nú fara nokkrum orðum um flest þau hús, sem sjást á myndinni. Sum þeirra eiga sér merka sögu.

ctr


Sjá skýringar á síðunni: Stekkjarnes.


Nr. 1. Í þessari útbyggingu við verzlunarhús Gísla útgerðarmanns og kaupmanns Hjálmarssonar frá Brekku í Mjóafirði hóf Valdimar Sigmundsson Long skólastarf sitt haustið 1909, þá settur skólastjóri barnaskólans nýstofnaða á Nesi í Norðfirði. Tvær skólastofur voru gerðar í útbyggingu þessari. Önnur að sunnan, hin að norðan og gangur inn með gafli íbúðarhússins. Úr honum var gengið inn í skólastofurnar.
Tveir árgangar nemenda voru hafðir við nám samtímis í hvorri stofu. Þarna byrjaði ég t.d. barnaskólanám mitt haustið 1909, þá 10 ára það haust. Kennarar voru Valdimar S. Long, skólastjóri, og Jónas Erlendsson, sem lengi hafði stundað kennslu heima hjá sér, áður en fastur barnaskóli varð starfræktur í kauptúninu. Síðari hluta þessa vetrar (1909—1910) kenndi Björn Jónasson, síðar fiskimatsmaður á Nesi, í veikindaforföllum Jónasar Erlendssonar.
Sögu barnaskóla síns ber Norðfirðingum að skrá hið allra fyrsta.
Nr. 2. Verzlunarhús og íbúðarhús hjónanna Gísla Hjálmarssonar kaupmanns og konu hans Hildar Ágústdóttur, sem síðar kallaði sig Agötu. Við mitt húsið, þar sem þrír gluggarnir eru á myndinni, var falleg verönd, þar sem frúin og hennar nánustu sáust oft sóla sig, þegar vora tók við fjörðinn, og svo að sumrinu. Kaupfélagið Fram eignaðist þetta hús á sínum tíma og hefur um áraskeið rekið þar verzlun.
Nr. 3. Þetta íbúðarhús er yngra en flest hin á myndinni. Um skeið a.m.k. var það eign hreppsins eða kaupstaðarins. Þarna í þessu húsi bjó Guðrún Kristjánsdóttir, ekkja Jóns fótalausa, síðustu æviárin sín. Þarna í nánd stóð íbúðarhúsið Sjólyst, þar sem þau hjónin bjuggu á annan áratug. Innan við hús þetta rennur lækur. Farvegurinn er sýnilegur á myndinni. Utanvert við læk þennan niður við Strandveginn stóð Sjólyst. Framendi hússins nr. 4 skyggir á hússtæðið.
Nr. 4. Verzlunarhús Pöntunarfélags alþýðu á Norðfirði (PAN).
Nr. 5. Í þessu húsi utan við innri Hólslækinn var tvíbýli, þegar ég man fyrst eftir mér á Norðfirði. Í framenda hússins bjuggu hjónin Tómas Tómasson og Hólmfríður Árnadóttir, systir Einars bónda Árnasonar á Hofi í Mjóafirði.
Í útenda hússins bjuggu hjónin Björn Eiríksson frá Strönd í Norðfirði og Vilborg Þorkelsdóttir. Síðar bjó Einar Sveinn Frímann með konu sinni Brynhildi Jónsdóttur í innenda þessa húss.
Nr. 6. Húseignin Brenna. Það mun hafa verið byggt rétt eftir aldamótin. Eigandi var Guðjón útgerðarmaður og formaður Símonarson. Eitt sinn kviknaði í húsi þessu af einhverjum annarlegum ástæðum. Síðan hefur það borið þetta nafn.
Nr. 7. Barnaskólahúsið, sem Felix Guðmundsson, þekktur borgari í Reykjavík, sá um byggingu á fyrir Norðfirðinga, líklega 1912. Það er króað inni á milli íbúðarhúsa og ber staðurinn vitni þeim hreppsvöldum, sem þá voru í brennidepli þar um slóðir, alls ráðandi í kauptúninu. Valdhafarnir áttu lóðir sínar með byggingum og stakkstæðum svo að segja fast að skólahúsinu.
Nr. 8. Hóll í Norðfirði. Hér byggðu fósturforeldrar mínir, hjónin Vigfús Sigurðsson frú Kúhól (Kúfhól) í Landeyjum og Stefanía Guðjónsdóttir frá Hamarsholti í Hreppum, sér íbúðarhús sumarið 1901. Þau ráku útgerð og höfðu nokkurn landbúnað á Stekkjarnesinu. Eldri Hóll brann til kaldra kola í janúar 1920. Um vorið var hafizt handa um byggingu þessa íbúðarhúss, er við sjáum á myndinni. Fósturforeldrar mínir byggðu þá að helmingi við Helga skósmið Jónsson, sem nú starfar á Akranesi. „Við“ áttum suðurkvistinn og framenda hússins. Fóstri minn hafði trésmíðaverkstæði sitt í sínum hluta kjallarans, og Helgi skóverkstæði sitt í sínum hluta.
Hólshúsið er plankahús byggt upp úr norsku húsi, sem byggjendurnir keyptu af Sæmundi kaupmanni Þorvaldssyni. Hafði hann búið í því er hann og kona hans áttu heima á Kolableikseyrinni í Mjóafirði. Þar rifu sem sé byggjendur Hóls þetta hús og fluttu til Norðfjarðar.
Við fóstri minn unnum mest tveir að byggingu hans hluta Hólshússins. Því var að mestu lokið, er ég fór að heiman í annað sinn, og þá til Noregs vorið 1921.
Nr. 9. Nýbúð, íbúðarhús Konráðs kaupmanns Hjálmarssonar.
Nr. 10. Harðangur. Á þakhæð hússins bjó Jónas skáld Þorsteinsson. (Sjá grein um hann í Bliki 1967), en á neðri hæðinni Jón (eldri) Rafnsson, aðventisti og kunnur sjómaður og verkamaður í þorpinu.
Nr. 11. Íbúðarhús Sigdórs Brekkans kennara frá Brekku í Mjóafirði.
Þetta hús flutti hann norðan frá Mjóafirði. Þar hét þetta hús Holt, íbúðarhús Gunnars útgerðarmanns Jónssonar og konu hans Nikulínu.
Nr. 12. Heiðarbýli, íbúðarhús Lilju systur minnar og manns hennar Halldórs Jóhannssonar, bróður konu minnar. Ofan við þetta hús standa Blómsturvellir. Þar bjuggu hjónin öldruðu, Ingimundur og Guðrún. Hún var systir Stefaníu fóstru minnar.
Nr. 13. Hlaða Lárusar Waldorf, sem bjó í Melbæ, næsta húsi til vinstri við hlöðuna. Með vilja minni ég á útihús þessi. Þau tákna og minna á þann smábúskap, sem fjölmargir heimilisfeður ráku með smáútgerð sinni og handverki. Ofan við Melbæ sést Baldurshagi. Þar bjuggu hjónin Jón Sören og Signý Sigurðardóttir, systir Guðrúnar heitinnar Sigurðardóttur konu Engilberts Gíslasonar málarameistara hér í bæ.
Á Stekkjarnesinu bjuggu um 50 manns við s.l. aldamót.