Blik 1976/Hjónin í Klöpp

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. desember 2009 kl. 11:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. desember 2009 kl. 11:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Brúðhjónin Kristján Ingimundarson og Sigurbjörg Sigurðardóttir.

Íbúðarhúsið Klöpp.


Hjónin í Klöpp


Myndin á bls. 211 birtist í Bliki árið 1967. Hér læt ég fylgja nánari og fyllri skýringu en þar er birt og töluvert á annan veg.
Mynd þessi er tekin við suðurvegg Landakirkju 14. okt. 1892. Fram hefur farið í kirkjunni brúðkaupsvígsla. Hana framkvæmdi séra Oddgeir Þórðarson Guðmundssonar, sóknarprestur að Ofanleiti (með loðhúfu á höfði lengst til hægri á myndinni). Brúðhjónin eru Kristján Ingimundarson hreppstjóra Jónssonar á Gjábakka og Sigurbjörg Sigurðardóttir frá Eystra-Rauðafelli undir Eyjafjöllum. Þessi hjón áttu eftir að verða ein hin mætustu hjón í Vestmannaeyjabyggð á sinni tíð.
Foreldrar brúðgumans, hjónin Ingimundur Jónsson og Margrét Jónsdóttir á Gjábakka í Eyjum voru gefin saman árið 1858 og bjuggu á Gjábakka 54 ár eða þar til Ingimundur bóndi og hreppstjóri lézt árið 1912. Hann kvæntist heimasætunni á Gjábakka, Margréti Jónsdóttur bónda þar Einarssonar. Kona hans og móðir Margrétar, var frú Sigríður Sæmundsdóttir húsfreyja á Gjábakka um það bil tvo tugi ára.
Foreldrar brúðarinnar voru Sigurður Sigurðsson bóndi á Eystra-Rauðafelli og kona hans Þorbjörg Sveinsdóttir, systir Sigurðar útgerðarmanns og smiðs í Nýborg í Eyjum. Sigurbjörg Sigurðardóttir fæddist að Eystra-Rauðafelli árið 1861. Hún missti föður sinn, er hún var fimm ára gömul (1866) og fór því ung í vist til annarra, þar sem það hét og svo, að hún ynni fyrir sér, þegar hún stálpaðist.
Árið 1883 leitaði hún sér atvinnu úti í Vestmannaeyjum, þá 22 ára að aldri. Hún réðist þá að Nýborg til hjónanna Sigurðar Sveinssonar,móðurbróður síns, og konu hans Þórönnu Ingimundardóttur ljósmóður frá Gjábakka, systur Kristjáns.
Þegar svo Kristján Ingimundarson á Gjábakka vitjaði systur sinnar, húsfreyjunnar í Nýborg, hreifst hann mjög af vinnukonunni undan Eyjafjöllum. Og að því dró, að þau felldu hugi saman.
Árin 1884 og 1885 var Sigurbjörg Sigurðardóttir vinnukona í Julíushåb hjá verzlunarstjórahjónunum Gísla Engilbertssyni og frú Ragnhildi Þórarinsdóttur.
Haustið 1885 réðst Sigurbjörg Sigurðardóttir vinnukona til hjónanna á Gjábakka, Ingimundar hreppstjóra og frú Margrétar húsfreyju, og þá leið ekki á löngu, þar til sonurinn gerði henni barn, enda voru þau harðtrúlofuð. Hinn 6. ágúst 1886 fæddi Sigurbjörg sveinbarn, sem skírt var Sigurjón. Hann varð brátt augasteinn afa síns og ömmu á Gjábakka. Þá var Kristján Ingimundarson sem sé orðinn pabbi, nítján ára að aldri. Unnustan var sex árum eldri, eins og ég gat um.
Sigurjón Kristjánsson var kunnur verzlunarmaður í Eyjum á sínum tíma, en er látinn fyrir mörgum árum.
Og nokkur ár liðu, og kærustuparið á Gjábakka naut lífsins í foreldrahúsum hans. Kristján Ingimundarson stundaði sjóinn með föður sínum á vetrar- og sumarvertíðum og svo fuglaveiðar í úteyjum. Hann reyndist snemma ævinnar mikill atorkupiltur, gætinn, verkhygginn og traustur í hvívetna.
Og svo dró að því, að elskendur þessir hugsuðu til stofnunar sjálfstæðs heimilis eins og gengur. Það hafði dregizt á langinn sökum hins mikla skorts á íbúðarhúsnæði í kauptúninu eða verstöðinni. Til þessa höfðu þau ekki haft efni á að byggja sér einhverja húsmynd eða tómthúskofa.
Árið 1892 fengu þau loks inni í einum „hjallinum“ þarna í námunda við Voginn eða höfnina sunnanverða. Hjallurinn stóð sunnan við Strandveginn, götutroðningana fram með ströndinni sunnanverðri, þar sem tómthús þurrabúðarmannanna í verstöðinni stóðu í hnapp eða hvert þeirra í námunda við annað, og svo eilitlu krærnar, fiskhúsin, þar „innanum og samanvið“. Þessi hjallur hafði staðið þarna um það bil 60 ár og oftast verið notaður til íbúðar, þ.e.a.s., íbúðarkytran var undir þakinu, uppi á loftinu, en niðri voru rimlaveggir. Þar var hertur matfiskur og þurrkaður hákarl, og svo geymd handfæri og önnur tæki, sem notuð voru við bjargræðið. Þetta hús var kallað „Helgahjallur“ og bar nafn af manninum sem byggði það árið 1834. Þarna undir súðinni hafði hver fjölskyldan af annarri orðið að hýrast í fátækt sinni og umkomuleysi undanfarna sex áratugi við fæðuöflun í verstöðinni og hin frumstæðustu lífskjör.

                                ————————

Og nú verð ég að biðja þig, lesari minn góður, að leyfa mér dálítinn útúrdúr í frásögn minni.
Piltur úr „Hlíðinni“ Helgi Jónsson að nafni, og stúlka úr Hvolshreppi, Ragnhildur Jónsdóttir að nafni, rugluðu saman reytum sínum í ást og innileik og afréðu að flytja til Vestmannaeyja, þar sem hann gæti fleytt þeim fram á sjávarfangi, þar sem þau voru umkomulítil og eignalaus.
Þetta var árið 1832 eða þar um bil. Þegar til Eyja kom, fengu þau inni i tómthúsi, þar sem hún Gunna gamla Einars hafði búið á undanförnum árum við góðan orðstír, og hét þetta tómthús Gommorra (þannig skrifað í merkum heimildum). Áður en Gunna flutti í það, hafði kofi þessi verið þekkt gjálífishús í verstöðinni og þess vegna hlotið þetta nafn eftir gömlu spilltu borginni þarna einhversstaðar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Aumara yrði mannlífið, ef engir fyndnir gárungar leyndust þar innan um og saman við!
Eftir fjögurra ára dvöl í Eyjum, höfðu þessi ungu hjón af Suðurlandsundirlendinu byggt sér eigið hús af hjallagerð. Grindin var gjörð úr sæmilega gildum trjám. Hliðarveggir hlaðnir úr grjóti en gaflar gjörðir úr borðrenglum, þar sem vindur blés inn og um matvælin, sem þurrkast skyldu þar. Á hjallinum var tiltölulega hátt ris. Og þar var gólf á sæmilega styrktum bitum. Þarna var gjörð íbúð og gengið upp í hana um pallstiga, sem lá niður í þurrkrýmið á „neðri hæð“. Stundum voru allar hliðar hjalls gjörðar úr rimlum.
Mörg hjallanöfn eru kunn úr sögu Vestmannaeyja, svo sem Ömpuhjallur, Dalahjallur, Þorkelshjallur, Björnshjallur, Hólmfríðarhjallur og Sæmundarhjallur.
Hjallurinn hlaut venjulega nafn af manni þeim, sem byggði hann og notaði fyrst, og hélt hjallurinn því nafni, meðan hann var við lýði, þó að eigendaskiptin ættu sér títt stað. (Teikning af hjalli er birt í Bliki árið 1969, bls. 357).
Árið 1836 höfðu hjónin sem sé lokið við að byggja sér íbúðarhúsið, sem þau kölluðu Helgahús. En af því að það var byggt með sama sniði og aðrir „hjallar“, þá hlaut það brátt nafnið Helgahjallur. Og þannig er það skráð í opinberum heimildum næstu 60 árin eða þar um bil.
Þegar ungu hjónin, Helgi og Ragnhildur, höfðu búið í Helgahjalli sex ár, fengu þau byggingu fyrir annarri Búastaðajörðinni. Þá seldu þau „hjallinn“ sinn. Það var árið 1840. Síðan gekk hann kaupum og sölum næstu áratugina.

                                ————————

Árið 1892 festi Kristján Ingimundarson á Gjábakka kaup á Helgahjalli. Þar vildi hann stofna til sjálfstæðs heimilis með unnustu sinni.
Þegar hjónaefnin höfðu þangað flutt, tóku þau að undirbúa brúðkaup sitt. Vildu ekki búa lengur í „hneykslanlegri sambúð“! Brúðkaupsvígslan fór svo fram í Landakirkju 14. okt. um haustið, eins og ég gat um. Að henni lokinni var myndin tekin sunnan við kirkjuna.
Brúðurin er klædd hátíðlegum, íslenzkum þjóðbúningi. Þetta eru brúðkaupsklæði frú Ragnhildar Þórarinsdóttur, verzlunarstjórafrúar í Juliushåb, fyrrverandi húsmóður brúðarinnar. Frúin saumaði sjálfri sér þennan klæðnað, þegar hún giftist Gísla verzlunarstjóra Engilbertssyni árið 1868. Nú hafði hún lánað hann fyrrverandi vinnukonu sinni. Og hún var vissulega ekki sú einasta fyrir utan eigandann, sem gift var í búningi þessum. Mörg brúðarefnin í Eyjum fengu hann lánaðan bæði fyrr og síðar. (Búningur þessi er nú í eigu Byggðarsafns Vestmannaeyja. Sjá nr. 952 í Minjaskrá Byggðarsafnsins).
Kristján Ingimundarson varð með árunum sjósóknari mikill og hin mesta aflakló. Honum græddist brátt nokkurt fé sökum aflasældar og fjárhyggju, sem var honum meðfædd. Ungu hjónin í Helgahjalli þóttust því brátt hafa efni á því að rífa Helgahjall og byggja sér gott íbúðarhús á lóðinni.
Þessi hugsjón þeirra varð að veruleika árið 1894. Þá byggðu þau sér lítið og snoturt íbúðarhús og kölluðu það Klöpp. Undir því var kjallari að hálfu leyti í jörðu, hlaðinn úr grjóti og sementi slett milli steinanna, eins og tíðkaðist þá svo víða með okkar þjóð.

                                 —————————

Þegar hér er komið sögu þessara hjóna, er Kristján 27 ára að aldri, frú Sigurbjörg 33 ára og Sigurjón sonur þeirra 8 ára gamall.
Árið 1899 fæddist þeim hjónum dóttir, sem var brátt vatni ausin og skírð Guðfinna. Hún varð á sínum tíma kunn heimasæta í Klöpp. Þegar hún náði þroskaaldri, giftist hún Georg Gíslasyni, síðar kaupmanni í Eyjum, syni hjónanna í Stakkagerði, Gísla gullsmiðs og frú Jóhönnu Árnadóttur. Synir þeirra eru kunnir Vestmannaeyingar, Kristján skrifstofumaður í Vestmannaeyjum og Theodór héraðsdómslögmaður í Reykjavík.
Eina stúlku ólu þau upp, hjónin í Klöpp. Hún heitir Sigríður Sigurðardóttir, og er bróðurdóttir frú Sigurbjargar húsfreyju. Hún er fædd 1898 og er enn á lífi.
Á unglingsárum tók Kristján Ingimundarson að stunda sjóinn. Þá byrjaði hann, eins og svo margir jafnaldrar hans þá í Eyjum, að stunda færið sitt að sumrinu á litla sumarbátnum hans pabba síns, julinu, eins og þær smáu fleytur voru oftast nefndar, fjórrónar, og stundum með tveim aukaræðum við skutinn eða fyrir aftan austurrúmið. Og svo hóf hann þátttöku sína í vetrarvertíðinni, og var hann þá fyrst hálfdrættingur á vertíðarskipi föður síns, Ingimundar bónda.
Fyrir tekt var Kristján á Gjábakka farinn að bera við að veiða lunda með háf. Hann var aðeins átta ára, þegar fyrsti lundaháfurinn fluttist til Eyja frá Færeyjum. Áður var þetta áhald óþekkt í Vestmannaeyjum. Og strákarnir hrifust og tóku brátt að smíða sköft, tegla spækjur og riða net í lundaháf. Veðihugurinn gagntók sál og sinni. Ekkert annað komst að. Og svo var hafizt handa, þegar lundatíminn gekk í garð.
Og síðan stundaði Kristján Ingimundarson lundaveiðar með háfinn sinn hvert sumar fram á níræðisaldurinn. Og það er mér óblandin ánægja að vita háfinn hans svarta og veiðisæla geymdan á Byggðasafni Vestmannaeyja til sýnis gestum og gangandi.<br< Árið 1895 gerðist válegur atburður í Vestmannaeyjum, sem lengi var minnzt í byggðarlaginu. Og ver hefði farið, ef Kristján Ingimundarson í Klöpp og hásetar hans hefðu ekki sýnt og sannað hetjulund sína og snarræði, þegar hættan steðjaði að og um líf og dauða var að tefla.
Aðfaranótt 9. janúar var sexæringnum Hannibal ýtt úr vör við Nausthamar í Eyjum og róið til fiskjar með handfærin vestur fyrir Eyjar. Á bátnum voru sjö menn. Þegar líða tók á daginn, tók að vinda af austri og ýfa sjó. Þá fannst skipshöfninni á sexæringnum ekki lengur til setu boðið og tók til áranna. Hún barði gegn stormi og kviku austur fyrir Yztaklett og sveigði síðan inn að hafnarmynninu, Leiðinni. Hún reyndist vissulega ekki girnileg til umferðar, þegar bátinn bar að henni. Innan við eyraroddana sitt hvoru megin við hafnarmynnið var sandrif, sem kallað var Hnykillinn. Utanvert við hann var einnig klettur, sem leyndist undir sjávarmálinu. Sögnin sagði, að hafís hefði skilið hann þarna eftir einhverntíma á seinni öldum. Þessar hindranir á Leiðinni eða í hafnarmynninu bjuggu sjómönnum grand eða gátu gert það í austan stormum með brimi og boðaföllum.
Kristján Ingimundarson og skipshöfn hans var komin heil í höfn og hafði sett bát sinn til hlunns í Hrófin vestan við Nausthamarinn. En það var enginn asi á Kristjáni fremur en fyrri daginn. Rólegur og íhugull. Það var engu líkara en að honum byði í grun. „Við skulum staldra við piltar,“ sagði hann.
Og alda reis og alda hneig. Og í ólögunum braut á Hnyklinum, svo að ölduskúmið þeyttist vestur eftir kyrrlátum sjávarfletinum innan við Hnykilinn.
Og þarna sást bátur nálgast Leiðina. Um stund beið hann lags. Og svo var tekið til áranna og róið eins og aflið frekast leyfði. En það dugði ekki til. Þegar báturinn nálgaðist Hnykilinn, sandgrynningarnar, reið alda yfir. Það skipti engum togum. Bátnum hvolfdi og sjö menn svömluðu þarna í sjónum, allir ósyndir. Kristján og sjómenn hans hrundu fram báti sínum í dauðans ofboði. Þeim tókst að bjarga fimm drukknandi mönnum en tveir létu lífið, Lárus Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Búastöðum, og Bjarni Jónsson, vinnumaður á Kirkjubæ.<br< Björgunarafrek þetta var lengi í minnum haft í Vestmannaeyjum.
Lengst af er formannsstarf Kristjáns í Klöpp tengt útgerð hins opna skips, Björgu yngri, sem þeir áttu í félagi feðgarnir Kristján í Klöpp og Ingimundur bóndi á Gjábakka. Hún var hin mesta happafleyta.
Eftir að vélbátaútvegurinn hófst í Eyjum, eignaðist Kristján í Klöpp hlut í tveim vélbátum, v/b Heklu árið 1908 og v/b Íslendingi árið 1912. Báðir voru þetta litlir vélbátar eins og þeir voru algengastir. V/b Hekla var 6,47 og v/b Íslendingur 10,9 rúmlestir. Um árabil hafði Kristján í Klöpp atvinnu sína af því eins og margir eldri sjómenn í Eyjum að gera að aflahlutnum af vélbáti sínum og verka fiskinn að fullu. Vélbát hvern í Eyjum áttu þá venjulega 5—7 menn í sameign.
Árið 1904 var Kristján Ingimundarson ráðinn fiskimatsmaður í Eyjum. Því trúnaðarstarfi gegndi hann af stökustu kostgæfni fram á síðustu æviárin sín.
Um áratugi var þessi sami maður hringjari í Landakirkju og annaðist það starf af árvekni og trúmennsku eins og önnur störf sín.
Frú Sigurbjörg Sigurðardóttir, húsfreyja í Klöpp, andaðist 10. marz 1931. Eftir það annaðist fósturdóttir þeirra hjóna heimilið í Klöpp og var hin styrka stoð fósturföður síns næstu tvo áratugina.
Kristján Ingimundarson lézt 10. apríl 1952 og skorti hann þá tvo mánuði á áttatíu og fimm ára aldurinn. Á sumri hverju stundaði hann fuglaveiði í Klettunum gegnt kaupstaðnum hvert sumar og líka síðasta sumarið, sem hann lifði. Íbúðarhúsið Klöpp. Það var talið nr. 16 við Njarðarstíg enda þótt það stæði við Strandveginn gegnt hraðfrystistöð Ísfélags Vestmannaeyja, sem nú hefur byggt stóra steinbyggingu á „Klapparlóðinni“.
Í fyrstu var íbúðarhús þetta ekki svo stórt, eins og það sýndist á myndinni. Nokkru eftir aldamótin stækkaði eigandinn það að mun og bjuggu þá tvær fjölskyldur í húsinu. T.d. var Friðrik Jónsson, síðar kenndur við íbúðarhús sitt Látra (nr. 44 við Vestmannabraut) leigjandi hjá Klapparhjónunum árið 1908. Þá var hann formaður á v/b Heklu, VE 115, sem þeir áttu saman með fleirum.
Íbúðarhúsið Klöpp var flutt í heilu lagi austur á Urðir árið 1968 og gert þar að hesthúsi. Þá stunduðu vissir menn í Eyjum hrossarækt! Þar rann svo hraun yfir húsið í marzmánuði 1973.


                      ————————————————————


Sigurður Örn Einarsson skrifstofustjóri Seðlabanka Íslands.

LEIÐRÉTTING (Á bls. 205 árið 1974 var skakkt skráð nafn þessa manns í Bliki. Ritið biður velvirðingar á þeirri leiðinlegu skekkju).