Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1955/ Kátbroslegt atvik

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. janúar 2018 kl. 21:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. janúar 2018 kl. 21:56 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
ÞORSTEINN JÓNSSON, FRÁ LAUFÁSI.:


Kátbroslegt atvik


1.


Þegar rofa tók á margan hátt fyrir íslenzku þjóðinni um síðustu aldamót, eftir margra alda hörmungar, sem yfir hana hafði dunið, fór smátt og smátt að breytast álit næstu nágrannaþjóða á Íslendingum, og þó að Danir hafi fengið lang mestu hrópyrðin fyrir meðferð sína á þjóðinni og það víst með réttu, þá fannst mér ekki gerandi upp á milli fleiri þjóða sjómanna, sem ég helzt hafði kynni af, hvað áhrærir skoðanir þeirra um aumingjaskap og vesalmennsku okkar.


Frá björgunaræfingu á Sjómannadaginn´54.


Eða var það til að auka álit á okkur, að þá farið var af Norðmönnum og síðar Dönum að flytja fólk í atvinnuleit meðfram ströndum landsins um og fyrir aldamótin, að hin betri pláss skipanna voru auð, en allir kepptust um lestarpláss, sem voru oft svo yfirfyllt, að með ólíkindum mundi þykja nú, og líðan flestra eftir því, þegar ferðin tók viku austur á Seyðisfjörð. Er mér fyrsta ferð mín austur, í maímánuði 1896, á norskum sex mílna kláf, sem „Otra“ hét, svo minnisstæð, að mér mun hún aldrei úr minni líða.
Þar sem þetta var vöruflutningaskip, var á því aðeins eitt salerni, en farþegar hafa efalaust verið 3 til 400, þarf ekki að lýsa frekar aðbúnaðinum, því þar var allt í samræmi við þetta.
Að ekki voru brúkuð hin dýrari plássin, var vegna fátæktar og minnimáttarkenndar, og vel man ég það, þegar ég fór að kaupa mér fyrsta farkostinn á öðru farrými í þessum Austfjarðaferðum, að félagar mínir þótti ég setja mig skör hærra þeim, álitu og það með réttu, að mér væri ekki vandara en þeim, sem þó ekki var allskosta rétt, þar sem bæði sjósótt og svefnleysi hrjáði mig mörgum fremur.

2.


Eftir að viðskipti við útlendinga fóru að vaxa, og athafnalífið hér færðist í aukana eftir síðustu aldamót, breyttist álit nágrannaþjóðanna okkur mjög í hag, kotungs og minnimáttarkenndin hvarf að mestu, en traust og djörfung kom í staðinn, því traust má það teljast, að eitt sinn nokkru eftir að mótorbátarnir komu til sögunnar, kom N.B. Nielssen, sem var umsjónarmaður hinna mörgu verzlana J.P.T. Bryde, að máli við mig, og mæltist til að ég lofaði undirforingja af „Íslands Falk“ í einn róður, var það velkomið frá minni hálfu, aðeins setti ég það skilyrði, að þetta hefði enga töf í för með sér.
Þetta hefur að líkindum verið síðari hluta marzmánaðar 1910, því róðramerkið var gefið inni á Botni kl. 3.30, og ruddust þá allir út samtímis, var því oft tilviljun að sleppa út Leiðina óskemmdur. Veðri var þannig háttað, að töluverður vindur var af austri og fjúkslitringur, svo að ókyrrt var við „Fálkann“, þegar að honum kom, og fór svo að maðurinn komst í bátinn, en nesti hans fór í sjóinn, hvort klaufaskapur háseta minna var þessu valdur, skal ég ekki um segja, en manninum var talsvert niðri fyrir útaf þessu óhappi, sem ég gaf engan gaum, því hugurinn var allur við að verða ekki eftirbátur annarra.
Hásetar mínir voru þessar vertíðir þeir Geir Guðmundsson á Geirlandi mótoristi og þeir Eyjólfur Guðmundsson síðar á Háaskála hér og Sigfús Davíðsson af Norðfirði, allir hinir mestu dugnaðarmenn.
Báturinn, sem við vorum á, var Unnur I., rúmar sjö smálestir að stærð, svo þægindasnauð eins og allir slíkir bátar á þessum árum, að ekki voru rekkjur í hásetaskýlinu, heldur tveir bekkir, sem hægt var fyrir tvo menn að halla sér á, annars ber súðin, og auðvitað ekkert eldfæri, svo að lítil voru þægindin upp á að bjóða, handa því fyrirmenni, sem nú var til okkar kominn, en þó vísaði ég honum fram í, en hann kom upp aftur, eftir stutta stund, lét ekki vel yfir dvölinni þar, sagði að brakaði í bátnum, en æðraðist ekki, þó yfir hann skvettist og hann yrði reyndar votur.
Þar sem veður fór batnandi, var haldið vestur fyrir Geirfuglasker, og byrjað að leggja línuna skammt norðvestur af því, vildi hinn danski maður hjálpa til eftir mætti, kom nú í ljós þá birta tók, að þetta var mjög rösklegur og gerðalegur maður. Hann var stórbóndasonur frá vesturströnd Jótlands, hafði stundað lítilsháttar fiskveiðar þar á yngri árum, var hneigðari fyrir sjómennsku en búskap, var nú orðinn undiforingi (second löjtenant) í danska flotanum.
Þegar línan var kominn í sjóinn var hitað kaffi við prímuslampann, sem mótorinn var hitaður með, ég lét hinn danska mann hafa þann mat, sem ég hafði meðferðis, sem honum hefur efalaust þótt fátæklegur, því oftast var ég léttur á fóðrunum, þá á sjóinn var komið á þessum árum.
Á þessum árum var línan eingöngu dregin af handafli, var luga fram við hásetaskýlið, sem línan var dregin í, og fast aftan við hana önnur minni, sem maðurinn stóð í, sem goggaði í fiskinn, fór vel um mennina við þessi störf, enginn öngultaumur var slitinn viljandi, heldur öngullinn losaður úr fiskinum, þó neðst í magastæði.
Afli var góður og fór vaxandi á línuna, nú var nær eingöngu vænn þorskur, en hafði verið lönguborið á útendanum, var því Unnur orðin vel sigin. Hinn danski maður hafði fengið að vinna flest störfin, draga línuna, færin og að blóðga, en gefist upp á þessu öllu, því hann vildi ekki nota vettlinga þó að í boði væru, nú kom hann til mín og spurði hvort hann mætti ekki reyna að gogga, þó ég byggist ekki við miklu af þessu starfi hans heldur, leyfði ég það, ef hann hefði vettling á vinstri hendi, og sliti ekki tauma.
Þetta verk leysti hann betur af hendi, en búast mátti við, þó að hásetarnir yrðu oft að losa önglana með honum úr fiskinum, litlu síðar kom allvæn lúða, annan eins (Jatte-fisk) jötunfisk hafði hann aldrei áður séð, og allur var aflinn tröllaukinn í hans augum, og allt lék í lyndi fyrir okkur öllum. Línan hafði legið undir bátinn, þótt ég reyndi að sveigja hann frá henni, datt mér því í hug að stór langa hefði flotið upp bakborðsmegin við bátinn og setti hann því hægt aftur á bak, en maðurinn sem línuna dró gaf aðeins eftir á henni, þetta kom svo oft fyrir, að allir vanir menn vissu hvað hér var á seyði, en það vissi hinn danski foringi ekki, því fór sem fór, hann var að horfa út fyrir hástokkin þegar gríðastór langa rekur allt í einu hausinn upp úr sjónum, og um leið þeytist upp úr henni maginn, sem er ekkert smásmíði, svo að nærri nam við andlit hins danska manns, og þar að auki sprakk maginn í sama augnabliki með allmiklum hvelli, var nú nokkur furða þó manninum yrði bylt við öll þessi ósköp?
Honum var það sannarlega líka, því hann stökk upp með undrahraða dauðskelkaður, og leit helzt út fyrir að hann ætlaði að setja sig útbyrðis bakborðsmeginn, en leit þó aftur og sá að hásetarnir voru að taka inn þessa skepnu, sem ofboði hans olli, og hann sá og heyrði fleira, að við vorum allir skellihlægjandi, en við fórum ekkert dult með, að það sem skeði hafði, var næsta kátbroslegt í okkar augum. En hinn danski foringi leit ekki þeim augum á þetta, heldur sem móðgun, því þó að hann segði ekkert, leyndi svipur hans og breytt viðmót ekki því sem innifyrir bjó, og svo var mikil þykkjan í honum að ekki ansaði hann þó að ég og Sigfús, sem fleytti sér í dönsku og aðallega hafði haldið uppi samræðum við hann reyndum að tala við hann, og hvorki þáði hann kaffi né annað, sem við buðum honum, heldur sat hann gneipur og þögull á leiðinni í land, og þegar að „Íslands Falk“ kom, skaust hann upp tröppurnar, en ég lét tvo háseta mína drösla hinni vænu lúðu, sem hann dáði fyrir stærðar sakir upp á dekk, sem þakklætisvott fyrir glaðar og góðar minningar. —

3.


Nokkru síðar en róður sá var farinn, sem hér hefur að nokkru verið frá sagt, var N.B. Nilssen hér á ferð, barst þá í tal róðurinn, sagði hann mér að hinn danski foringi hefði haft ýmislegt að athuga við sjóferðina á Unni, aðallega hve allur aðbúnaður hefði verið lélegur, að þurfa að notast við jólakerti við störf úti á sjó í vondu veðri, það tók þó út yfir allt annað.
Þetta var satt, á kertalugtunum logaði þó hvessti, en lugtir þær, sem verzlanir fluttu hingað til Eyja um tugi ára, þrátt fyrir öryggisloforð, voru þannig, að á þeim logaði ekki þá áreyndi. Mundi það nú á dögum þykja lítt fýsilegt, að vera oftast í myrkri, þá nokkuð var að veðri. Síðan spurði Nielssen mig hvort eitthvað sérstakt hefði komið fyrir, sér hefði skilist það á foringjanum, þó hann vildi sem minnst um það tala, sagði ég þá frá atvikinu og að við hefðum skemmt okkur vel af ofboði hins danska manns, sagði Nielssen þá: „Þið hafið þó ekki hlegið up í opið geðið á honu?“ — Jú auðvitað. „En munduð þið ekki að þetta var danskur foringi?“ — Þó það hefði verið sjálfur konungurinn, þá hefði það verið jafn hlægilegt. — Nú gekk svo yfir Nielssen, að hann varð orðlaus af því virðingarleysi, sem ég lét í ljósi, en sagði að lokum: „Þið eruð alveg óbetranlegir, Íslendingar.“
Þó okkur skipverjum á „Unni“ þætti þetta atvik hlægilegt, sérstaklega hin ofboðslega hræðsla, sem greip manninn, þá má virða honum til vorkunar, að hann hafði aldrei löngu augum litið fyrr en þennan dag, og þær sem höfðu áður veiðzt, voru hálfgerðir dvergar, samanborið við þá skrokklöngu, sem hræðslu mannsins olli, og þar að auki hafði það í för með sér, að við skildum á annan hátt, en ég ætlaði.
Ég hafði gjört mér þá hugmynd um þennan mann, eftir okkar stuttu kynningu, að hann væri ósérhlífinn dugnaðarforkur, sem ekki hefði með æfingu staðið að baki þeim beztu, sem á þessum árum stunduðu sjó hér í Eyjum, og er þá mikið sagt.

ÞORSTEINN JÓNSSON
Laufási