Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Araveðrið 1930

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. febrúar 2016 kl. 14:06 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. febrúar 2016 kl. 14:06 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Araveðrið 1930


Frásaga Haralds Gíslasonar frá Vestmannaeyjum.



Árið 1930 var mikið aflaár. Þá var ég ungur að árum, hásetamynd á vélbátnum Karli, sem var þá talinn með beztu bátum. Ganghraði hans var 10 sjómílur, óvenju mikill á ekki stærri bát. Skipstjóri var Guðni í Ólafshúsum, þá á bezta aldri, karlmenni mikið og ekki síður greindur. Hjá honum var stýrimaður Gísli í Heiðardal, vélstjóri Pétur í Nýjahúsi, og svo var þar Björgvin í Kaupangi. Allt voru þetta úrvals sjómenn nema ég, venjulega kallaður strákurinn. Guðni sótti fast sjóinn og var aflahár. Útkoman var ágæt í vertíðarlokin. Aldrei gleymi ég þó versta róðrinum, sem við fórum á þessari vertíð. Þá gekk yfir eitt mesta stórviðri, sem komið hefur í Vestmannaeyjum. Er þá mikið sagt, því að Eyjarnar eru frægari fyrir flest annað en lognið. Þetta veður var nefnt Araveðrið, því að þá fórst bátur með því nafni. Það er furðulegt að enginn skuli, svo ég viti, hafa skrifað staf um þetta veður nema Þorsteinn í Laufási örfá orð í bók sinni Formannsævi í Eyjum. Þar segir Þorsteinn: „Mér þótti útlitið ljótt og ég fór hvergi. Þá sá ég ljótastan sjó, sem ég hef séð við Vestmannaeyjar.“
Þetta veður gekk yfir Eyjarnar 23. janúar. Áður en ég segi frá því, verð ég að lýsa höfninni eins og hún var í þá daga. Tvær bryggjur voru í eigu bæjarins, aðrar tvær í einkaeign. Höfnin var venjulega nefndur Botn. Bátarnir lágu við festar í skipulegum röðum, þannig að þeir gátu ekki slegizt saman. Höfnin var grunn, svo að stærri bátar tóku niðri á fjöru. Þetta var ekki heppilegt, þegar það kom fyrir á róðrartíma. Var þá eina ráðið að bíða við bryggju. Fiskikrærnar stóðu á steinsteyptum stöplum, og náðu þær langt út í höfnina. Það var hægara fyrir aðgerðamenn að aka fiskinum þangað á handvagni, enda voru þá fáir bílar. A gólfinu í krónum var lúgugat, svo að hægt var að ná þar upp sæmilega hreinum sjó til fiskþvotta.
Kemur þá að frásögninni um Araveðrið sjálft.
Það hafði verið landlega í þrjá daga, veðurútlit ljótt og veðurspáin líka. Samt gerist ekki neitt. Tólf til fimmtán bátar voru byrjaðir veiðar en enginn rær til fiskjar þessa daga. Alls var gert ráð fyrir að bátarnir yrðu 95 á þessari vertíð í Eyjum, þegar allir væru tilbúnir.
Formenn þurftu oft og einatt að fara í fjóra eða fimm staði til að ræsa sjómenn sína. Sumir útgerðarmenn höfðu aðkomusjómenn á heimilum sínum, nema þrír hinir stóru, Gísli Johnsen, Gunnar Ólafsson og Helgi Benediktsson. Þeir höfðu sjóbúðir fyrir aðkomusjómenn. Róðrartími bátanna var kl. 3 eftir miðnætti. Þennan sögulega janúarmorgun er barið í gluggann hjá mér. Það er Guðni formaður að ræsa eða kalla, eins og þá var komizt að orði. Ég flýtti mér í fötin. Það þykir ekki gott að vera seinn til skips. Þegar ég kem út lít ég til lofts. Það er kolsvart eins og ketilbotn en koppalogn. Bölvað svikalogn, dettur mér í hug. Nóttin er svo hljóð að ekkert rýfur kyrrðina nema vélarskrölt frá íshúsinu. Þegar við komum í beituskúrinn byrjum við hið venjulega starf, að aka línustömpunum niður á bryggju og fara með þá um borð í bátinn. Þrír bátar hafa því ábyrgðarstarfi að gegna að hafa eftirlit með því, að enginn fari fyrir tímann, áður en „blúss“ er gefið. Það er ljósmerki, þannig að kveikt er í olíublautum tvisti, sem er færður upp á reyrstöng, og sést þetta vel um höfnina. Við gefum ekki „blúss“ í þetta sinn, þó að við séum eitt af gæzluskipunum. Það er ekkert spaug að reyna að læðast á undan „blússi“. Það kemst oftast upp, og svo varðar það fésekt, 25 krónum fyrir fyrsta brot, 250 krónum fyrir annað og 500 krónum fyrir þriðja brot, eða meðalkaup sjómanns um vertíðina.
Við erum tilbúnir skömmu fyrir kl. 3, og Guðni segir okkur að sleppa festi. Ég lít í kringum mig í höfninni. Nokkrir bátar eru búnir að kveikja siglingarljós, en ég veiti því athygli að þrír bátar hafa ekkert fararsnið á sér: Unnur, skipstjóri Þorsteinn í Laufási, Olga, skipstjóri Guðmundur á Háeyri, - og Geir Goði, skipstjóri Ólafur Ingileifsson. Þeir hafa sem sé hægt um sig, gömlu kempurnar, sem aldrei hefur hlekkst neitt á, ekki lízt þeim á sjóveðrið. Ætli þeir bíði ekki eftir birtu og sjái, hvað „hann“ gerir þá, það datt mér a.m.k. í hug.


Nú kemur „blússið“. Sennilega sleppa um 10 bátar festum. Hinir ætla sjálfsagt að bíða. Þrír bátar fara vestur fyrir Bankahryggi, Skallagrímur, Harpa og við, hinir fara stutt, aðeins austur fyrir Eyjarnar. Mér er sagt að fara að hita kaffi. Þegar það er tilbúið fer ég aftur í stýrishús til Guðna, læt vita um kaffið. „Taktu við stýrinu, strákur minn, og vertu ekki að smala kvíarollum. Reyndu að halda strikinu, ég verð fljótur.“ Nú er farið að kalda við austur. Við erum komnir vestur fyrir Smáeyjar. Þegar Guðni kemur til baka, segir hann mér að leggja mig í tvo tíma. Það er heitt frammí og notalegt. Loks fer ég í koju og sofna fljótt, vakna ekki fyrr en ég heyri flautað. Það á að fara að leggja. Ég rek hausinn upp í gatið, sé að það er slydda og stormur.


Við förum í stakkana og erum þá klárir til að leggja. „Þetta verður ljóta bölvað sjóveðrið“ segi ég. Því er ekki anzað. „Látið þið baujuna fara“, heyrist frá stýrishúsinu. Þegar endabaujan fer og ljósið er komið á hana, er bátnum snúið upp í, og hafa verður hálfa ferð áfram, til þess að halda í horfi við baujuna, sem kaffærir ljósið annað slagið, enda kominn stórastormur á austan með snjóbyl.
Við erum sárfegnir að koma í hlýjuna frammi í lúkar. Það er hitað kaffi og síðan farið í koju. Allir nema Gísli stýrimaður, hann á að gæta baujunnar. Ég er mjög feginn að vera laus við það, enda vafasamt að mér verði trúað fyrir því eins og útlitið var. Ég held að enginn okkar hafi sofnað. Veðurhljóðið jókst stöðugt meira og meira og yfirgnæfði vélarskellina, þó að keyrt væri með mikilli ferð. Engar líkur voru á því að hægt yrði að byrja að draga línuna fyrr en birti af degi.
Nóttin líður, og það er byrjað að birta. Gísli kemur í lúkarsgatið og kallar til okkar, en er svo óðar rokinn aftur í stýrishús. Við búum okkur vel og förum í sjóstakka, nema Guðni, sem var ekkert að hafa fyrir því. Hann var í doppu, setti víst upp sjóhatt og stökk aftur í stýrishús til Gísla til að leysa hann af. Gísla veitti ekki af góðum kaffisopa, því að hann var búinn að standa vonda vakt.
„Hvernig er veðrið?“ er það fyrsta, sem við spyrjum hver annan, og fáum strax svarið „það er vitlaust veður“. Við dröttumst upp á dekk. Já, það fer ekki á milli mála. Það er vitlaust. Það sést ekkert út frá bátnum fyrir sjóroki. „Setjið upp messann og rifið hann eins og hægt er“, kallar Guðni. Nú er keyrt á fullri ferð áfram og lagt að baujunni. Það er eins og hik sé á Gísla, eins og hann trúi því ekki að það eigi að reyna línudrátt í þessu veðri. „Jæja, þá“, heyrist úr stýrishúsinu. Og það er byrjað að draga línuna. Björgvin er í dráttarstólnum, búinn að draga hálfan línustamp. Þá heyrum við kallað: „Passið ykkur, við fáum duglega sjóskvettu á bátinn.“ Gísli heldur sér í vantinn og beygir sig. Eg næ í afturmastrið. Björgvin er óviðbúinn, hafnar aftur í gangi og línustampurinn með. Hvað hefur eiginlega skeð? Messaseglið er rifíð í tætlur, kabyssurörið þverkubbað niður við dekk, allt lauslegt farið útbyrðis nema línustamparnir. Þeir voru þrælbundnir.
Nú er kallað í mig. „Strákur, farðu fram í lúkar og finndu einhvern fjandann til að troða í gatið þar sem kabyssurörið var, því sjórinn mígur niður í lúkarinn.“ Línan slitnaði ekki. Hún var ný. Þó gátum við ekki dregið nema spotta og spotta í einu, því að alltaf vantaði áfram, þó að keyrt væri með fullri ferð. Allan daginn héngum við í línunni. Það var ekki um annað að gera. Við komumst ekkert. Þegar við höfðum dregið alla nýju línuna, slitna fjórir stampar ódregnir af gamalli línu. Við reitum af þeim bólin. Hún er föst í hrauni, - mátti svo sem fara. Það er farið að líða á dag, byrjað að draga úr mesta veðurofsanum, og þó eys hann enn upp sjónum. Við förum að gera okkur klára í land. Við munum verða lengi á leiðinni, því að betra er að fara varlega. Hún er örugg, höndin, sem heldur um stýrishjólið.
Þegar við komum fram í lúkar, er ekki vistlegt þar um að litast, því að ökladjúpur sjór er á gólfinu. Er þá sagt að strákfjandinn hafi svikizt um að troða nógu vel í gatið, þar sem kabyssurörið var. Þarna sitjum við í kulda og sjóskvettum, því að ekki var hægt að kveikja upp í kabyssunni. Á lúkarsgólfinu er lúga og með því að opna hana hleypum við sjónum niður í kjalsog, og verður þá þurrt undir fótum okkar. Þegar búið er að keyra í einn tíma til lands, er slegið af vélinni og ferðin tekin af bátnum. Hver skrattinn er nú á seyði? Hugsa ég. Það virðist eins og báturinn standi upp á endann og detti svo niður eins og hann falli í grjót. „Steinn á floti“ segir Pétur og fer aftur í vélarrúm. Þá er kallað í okkur: „Farið þið í dekkdæluna, vélin eys upp á sig sjó.“ Hér hefur það skeð, að báturinn hefur slegið úr sér, en þetta er ekki alvarlegur leki. Við höfum vel við með hjálp lensidælunnar.
Okkur gengur ekki vel að landi, erum fimm klukkutíma á leiðinni, sem tekur venjulega ekki nema tvo. Þegar komið er upp að Eiði er farið að bregða birtu. Janúardagurinn er stuttur. Allt er vel skorðað áður en lagt er í Faxasund. Það er ekki glæsilegt yfir að líta, en samt er lagt í það og látið horfa á Bjarnarey. Ég stend í stýrishúsinu hjá Guðna. Honum verður að orði: „Bölvaður ruddi er alltaf í þessu sundi, ef eitthvað hreyfir vind.“ Þegar við höfum skjól af Bjarnarey er haldið undan með hægri ferð. Leiðin inn á höfnina á að heita fær, en það er lítið meira en svo sé. Skansinn er fullur af fólki. Það er spennandi að sjá báta fara inn í stormi og stórsjó. Við lónum hægt að bæjarbryggjunni. Nú vantar ekki hendur til að taka á móti spottanum. Margir koma til okkar um borð. Viðtökurnar eru góðar: „Velkomnir, og meira en það.“ „Við vorum orðnir vonlitlir um ykkur, það gekk ekki svo lítið á. Allir hinir bátarnir fóru strax frá línunni, komust við illan leik inn, því að það holbraut á fjörunni.“


Ólafur útgerðarmaður fer inn í stýrishús til Guðna, sem segir: „Ég missti fjóra stampa af gömlu línunni.“ „Hvern andskotann gerir það til, lagsi. Þó að þið hefðuð ekki komið með nokkurn spotta, þá hefði það staðið á sama. Það er fyrir öllu að þið eruð komnir.“
Það er ekki annað eftir en fara með bátinn að sínum legustað og reyna að fínna lekastaðinn. Hann reynist undir hekkinu. Það er svo sem ekki að furða eins og hann var búinn að fá margan rassskellinn í þessum róðri. Þegar komið er í land er gengið við í beituskúrnum og mönnunum þar sagt að beita ekki, því að það þurfí svo margt að laga.
Á leiðinni heim kem ég við í Sandprýði, geng þar inn óboðinn eins og venjulega. Frænka er í eldhúsinu. „Nei, ertu kominn, væni minn? Ég var að halda að þetta yrði blönduferðin þín.“ Síðan kallar hún á dóttur sína. „Skrepptu upp á spítala og segðu honum Gísla að Karl sé kominn að landi.“ Ég gæti nú lokið þessari sögu en verð að síðustu að minnast á eitt atriði. Matthías, sem fórst með vélbátnum Ara, lét eftir sig son, Óskar að nafni. Hann hefur verið aflakóngur í Eyjum fjórum sinnum að mig minnir. Sonur hans, Sigurjón, lét sig hafa það að verða aflakóngur á síðustu vertíð. Þeir feðgarnir eiga vélbátana Leó og Þórunni Sveinsdóttur og stjórna þeim með slíkum árangri, að varla getur farið fram hjá sjómönnum eða öðrum, sem fyigjast með aflabrögðum skipa.
Að lokum þessi hugleiðing: Þar sem ég sit nú við skrifborðið og pikka á blað þessi fátæklegu orð með ritvélinni minni, verður mér litið á mynd, sem ég hef uppi við og er fyrir augum mér daglega. Hún er af myndarlegum ungmennum á tvítugsaldri, fjórtán að tölu, nemendum í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Þeir hafa lokið prófí, sem veitir þeim réttindi til að stjórna skipi í framtíðinni. Sumum þessara manna hefur gengið vel hingað til, sumir slampast áfram, aðra hefur Ægir kollvætt. Þetta er líf sjómannsins. Það er í ýmsum myndum en alltaf áhættusamt. Er ekki óþarfi að telja eftir þeim aurana, sem þeir bera úr býtum fyrir allt erfiðið, þótt ekki sé minnzt á áhættuna?
Þegar ég kem niður í Ríkisútvarp að sækja sögubitann segir Baldur Pálmason dagskrárstjóri „Taktu söguna.“ Mér verður að orði „Er nokkuð annað að gera en að brenna henni.“ Hann segir „Heldur þú að ég hefði vélritað hana upp ef hún væri einskis virði. Í tímarit með hana.“ Hún er nú ófarin þangað, enda mér kærkomnast að þið birtið hana. Í þessari frásögn er síst ofsagt við fengum fleiri áföll. Ég hef stundum hugleitt hvað þessar bátskeljar þoldu þegar stóru skipin í dag hafa í vök að verjast með allri sinni tækni.

Kveðja, Halli Gísla