Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Vetrarvertíðin 1968
Þegar frá líður, mun liðin vertíð á margan hátt verða minnisstæð. Verttíðin 1968 var sú vertíð, er þorsknótaveiðin brást og frosthörkur voru meiri hér sunnanlands en menn eiga að venjast. Í byrjun janúar komst frost hér í Vestmannaeyjum niður í mínus 14 stig á C, og stóð kuldakast þetta í vikutíma. Aftur gerði kuldakast í endaðan marz og aðfaranótt 1. apríl var kaldasta aprílnótt, sem komið hefur á Íslandi, frá því að veðurathuganir hófust. Var frost þá á Norðurlandi 18 til 20 stig, en þessa nótt mældist frost hér í Vestmannaeyjum 15 stig. Var mikill frostharður og rauk upp af sjónum.
Fyrir Vestfjörðum voru mikil illviðri og sjóslys. Ísalög og hafís voru fyrir öllu Norður- og Vesturlandi, og er kom fram á útmánuði, varð ís landfastur á Norðausturlandi, og alla firði austan lands fyllti af ís. Á liðinni vertíð sátu stór skip eins og olíuflutningaskipið Haförninn föst í ísnum fyrir Norðurlandi. Bátar norðanlands töpuðu veiðarfærum undir ísinn. Um miðjan maí var hafís kominn vestur undir Hrollaugseyjar og skip komust ekki til Hornafjarðar eða Djúpavogs.
Í byrjun vertíðar voru miklar viðsjár, og dróst mjög á langinn að fiskverð væri ákveðið. Endurtók sig gömul saga. Hófst vertíð af þessum sökum ekki fyrr en 16. janúar. Nokkru áður höfðu stóru síldveiðibátarnir leitað síldar á heimamiðum, en Gideon hélt á Færeyjamið. Síldveiðarnar brugðust algjörlega þessa vertíð, og frá mánaðamótum febrúar og marz var sett bann við síldveiðum sunnanlands fram í ágústmánuð. Í lok febrúar höfðu aðeins 27 síldveiðibátar fengið einhvern afla. Var hann tregur eða frá 4 lestum upp í 490 lestir á bát. Tóku flestir síldarbátar upp nætur sínar um 8. febrúar.
Afli á línu var í betra lagi, en ógæftir voru í janúar. 23. janúar stöðvaðist bátaflotinn að mestu, þegar frystihúsin tilkynntu, að þau hættu móttöku á fiski. Stóð þetta móttökubann til 30. janúar. Saltverkun aflans hélt þó áfram, og bjargaði það nokkru. Afli togbáta var þá mjög lélegur.
Viku af febrúar fékk Óskar á Leó þó gott viðbragð í trollið, um 50 tonn í 2 róðrum vestur við Hraun. Um miðjan febrúar var vertíð komin í fullan gang, og höfðu um 60 bátar hafið veiðar.
Fyrsta loðnan barst 22. febrúar, og var úr því góð loðnuveiði austur í bugtum. Síðustu viku febrúar voru ógæftir miklar, suðvestan brim og stórviðri. Huginn II lagði fyrstur báta net 1. marz og rótfiskaði ufsa. Þá dagana voru sjóveður erfið og gat hann því ekki dregið öll sín net, en í 3 róðrum dró hann 11 trossur þessa daga og fékk 72 tonn. Hinn 5. marz lögðu margir bátar netin, og var næstu daga ágætisafli. Sæbjörg fékk 62 tonn í róðri 6. marz og Andvari VE 60 tonn. Fyrstu viku marz var loðnuafli mjög góður.
Dró nú enn bliku á loft, og tóku flestir bátar upp net sín 10. marz vegna verkfalls, sem skall á að kvöldi 11. marz.
Margir bátar tóku um borð mikinn ís og salt. Ekki var þó hægt að stunda veiðarnar af neinum krafti, og lamaðist flotinn alveg. Fékk Sæbjörg t.d. 20 tonn upp úr sjó þann tíma, sem verkfallið stóð. Álítur Hilmar Rósmundsson, að hann og fleiri hafi tapað drjúgum fiski þennan tíma. Verkfallið stóð til 18. marz og var eitt víðtækasta verkfall, sem háð hefur verið á Íslandi.
Í endaðan marz voru hér óvenju miklir snjóar, illviðri og gæftir afleitar. Útlitið var þá satt að segja ekki gott, og heildaraflinn aðeins rúm 8.000 tonn eða um 2.500 tonnum minni en á sama tíma árið áður.
Þá kom sá góði mánuður apríl. Gerði nú ágætistíð, og var mjög gott fiskirí í öll veiðarfæri. Er óhætt að segja að þá dagana væri létt yfir Eyjunum og allir önnum kafnir, enda fátt aðkomumanna. Páska bar upp á 14. apríl, og var þessa dagana ágætisafli, - hrota. Í þorsknótina gaf sig varla til fiskur; bezt viðbragð fengu nótabátar 16. og 17. apríl, mest 50 lestir í róðri.
Aðalfiskisvæði Eyjabáta var við Eyjólfsklöpp og Dranginn. Fiskur var smár, meðalstærð á þorski um 7 kg, og álíta sjómenn, að á ferðinni sé nýr árgangur, sem geti haldið uppi aflanum næstu vertíðir. Í apríl var mokafli á Selvogsbanka, og var mikil örtröð á miðunum, bæði togarar og bátar. Mikill afli barst á land í Grindavík af Suðurnesja- og Reykjavíkurbátum. Var vertíð Grindavíkurbáta mjög góð. Samtals var á vertíðinni landað 28.000 lestum í Grindavík. Hæsti bátur yfir landið á vetrarvertíðinni var Geirfugl frá Grindavík með 1354 lestir.
Af nýjum formönnum í Vestmannaeyjum liðna vertíð má geta Matthíasar Óskarssonar, sem var skipstjóri á m/b Friðriki Sigurðssyni. Hann er 24 ára gamall, sonur Óskars á Leó, og rótfiskaði þessa fyrstu vertíð sína sem formaður. Var m/b Friðrik Sigurðsson hæsti togbátur fram til 14. maí, að m/b Guðjón Sigurðsson, skipstjóri Sigurður P. Oddsson frá Dal, fór upp fyrir Friðrik. Hörð var einnig keppnin milli þeirra frændanna Matthíasar og Gísla Sigmarssonar á Elliðaey.
Á vertíðinni gengu 5 opnir trillubátar. Öfluðu þeir mjög vel, og voru hlutir þeirra góðir. Bjarni frá Háagarði á Hlýra er hæstur með 75 tonn. Sigurjón Ólafsson frá Litla-Bæ var með lítinn 10 tonna þilfarsbát, Hvíting, og aflaði mjög vel, um 110 tonn. Bátar þessir reru með línu og færi.
Á vertíðinni gengu 70 bátar. Þegar flest var, voru 47 bátar með botnvörpu, 21 bátur með net. Almennt voru bátar á veiðum til 15. maí.
Ekki urðu nein banaslys á Vestmannaeyjabátum eða við Eyjar. Í einu tilviki munaði þó litlu að illa færi. Því var forðað fyrir snarræði og árvekni skipstjóra og skipshafnar m/b Andvara KE, sem að kvöldi 28. marz bjargaði 3 piltum, sem höfðu hvolft snekkju við Klettsnefið. Piltarnir voru aðframkomnir, er þeim var bjargað, enda sjór mjög kaldur og nokkur daldrandi. Þá sýndi Stefán Runólfsson verkstjóri mikið snarræði, er hann ásamt Adólf Óskarssyni, sem kom Stefáni til aðstoðar, bjargaði litlum dreng, sem féll í höfnina.
Ungur sjómaður, Grétar Skaftason, fór í spil á m/b Gideon og missti framan af öðrum fæti.
Vertíðaraflinn og móttaka hans.
Bolfiskur lagður á land frá 16. janúar til 15. maí var 27.800 lestir (árið 1967 28.300 lestir).
Lifrarmagn þessa vertíð til 15. maí var 1348 lestir, til sama tíma vertíðina 1967 1365 lestir.
Mjög erfitt er samt að flokka báta eftir veiðarfærum, þar eð bátar eru með allt að 3 tegundir veiðarfæra yfir vertíðina, og mörk óglögg, hvað skuli teljast aðalveiðarfæri bátsins.
Heildarafli Gullbergs (troll og nót) var 421 tonn, Sindra (lína, troll og net) 552 tonn og Kap (troll og net) 474 tonn.
Móttaka aflans var þannig frá 15. janúar til 15. maí (í sviga tölur frá 1967):
Mjög mikið af aflanum var saltað, en skreiðarverkun engin.
Síldaraflinn var sem fyrr segir sáralítill, og tók Fiskimjölsverksmiðjan h.f. aðeins á móti 52,5 tonnum, en vertíðina áður 5.800 tonnum. Þessar tölur tala skýru máli.
Lítilsháttar var fryst til beitu af loðnu. Vinnslustöðin h.f. frysti samtals 43 tonn af loðnu.
Móttaka á loðnu frá 23. febrúar til 10. apríl skiptist þannig:
Loðnubátarnir lönduðu afla sínum í mörgum verstöðvum, en hæsti bátur á vertíðinni mun hafa verið Örfirisey RE með tæp 4.000 tonn.
Þess ber að geta, að Gideon kom fyrst til landsins 14. júní 1967, og er afli hans því mjög góður þann tíma, sem eftir var af árinu.