„Blik 1962/Barnaheimilið Helgafell“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: Efnisyfirlit 1962 =Barnaheimilið Helgafell= <br> Árið 1959 var síðasta starfsár Barnaheimilisins Helgafells. Svo markvert var það ...)
 
m (Verndaði „Blik 1962/Barnaheimilið Helgafell“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 6. mars 2010 kl. 15:18

Efnisyfirlit 1962



Barnaheimilið Helgafell


Árið 1959 var síðasta starfsár Barnaheimilisins Helgafells. Svo markvert var það starf, sem þar var innt af hendi, að Blik telur ekki ófyrirsynju að segja sögu þess í sem fæstum orðum, svo að minningin um þá manndáð, sem þar var unnin af fórnfýsi og mannkærleika megi geymast á prenti um næstu ókomna áratugi.
Á fundi Verkakvennafélagsins Snótar 21. apríl 1938 flutti Ólafía Óladóttir tillögu þess efnis, að Verkakvennafélagið reyndi að koma á stofn dagheimili handa litlu börnunum í bænum. Til þess skyldi leita stuðnings bæjarins og ýmissa félagasamtaka í bænum. — Ekkert varð úr framkvæmdum það ár, enda þótt tillagan hlyti samþykki allra fundarkvenna. Fyrst og fremst skorti fé til framkvæmda. Dokað var við og beðið eftir því, að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir næsta ár (1939) yrði samin. Skyldi þá knýja á bæjarsjóð um stuðning við hugsjónina.

Konur úr forustuliði verkakvenna, þegar unnið var að stofnun Barnaheimilisins.
Aftari röð frá vinstri:
Ólafia Óladóttir, Helga Rafnsdóttir, Marta Þorleifsdóttir.
Sitjandi frá vinstri: Margrét Sigurþórsdóttir, Dagmey Einarsdóttir.

Á fundi Snótar 30. jan. 1939 var samþykkt áskorun á bæjarstjórn Vestmannaeyja að taka upp á næstu fjárhagsáætlun bæjarsjóðs (1939) 2.000 kr. fjárveitingu til reksturs dagheimilis á því sumri. Jafnframt tilkynnti fundurinn bæjarstjórn, að Snót vildi taka að sér að stjórna barnaheimilinu í samráði við þar til kjörna nefnd frá bæjarstjórn.
Ekkert varð úr því, að bæjarstjórn yrði við ósk verkakvenna um fjárframlagið, enda rétt að minna á það, að fjárhagskreppan mikla og eftirminnilega hafði þá staðið í 9 ár.
Í maí þetta ár (1939) var dagheimilið enn til umræðu á Snótarfundi. Þá kom fram tillaga um það, að félagið kysi þriggja kvenna nefnd til þess að hefja fjársöfnun til stuðnings hugsjóninni. Skyldi nefnd þessi leita samstarfs við ýmis félög í bænum og einstaklinga, sem vildu leggja málinu lið. Þessar þrjár konur voru kosnar í fyrstu dagheimilisnefndina: Ólafía Óladóttir, Guðríður Guðmundsdóttir og Helga Rafnsdóttir. Nefnd þessi skrifaði síðan nokkrum félögum í bænum og leitaði eftir samstöðu þeirra um dagheimilishugsjónina. Meðal þeirra var Kvenfélagið Líkn og Oddfellowfélagið Herjólfur. Einnig var leitað eftir samstöðu barnaverndarnefndar bæjarins. Þá var jafnframt leitað stuðnings einstakra málsmetandi kvenna, t.d. Jóhönnu Linnets, bæjarfógetafrúar, og Sigríðar Árnadóttur, kennara. Þessar tvær konur gáfu þegar kost á sér í dagheimilisnefndina. Þannig skipuðu nefndina fimm konur, þegar tekið var til hugheilla starfa fyrir dagheimilishugsjónina.
Um vorið 1939 afréði nefndin að halda hátíðlegan 10. júní með útisamkomu og merkjasölu og afla þannig fjár til stofnunar heimilinu. Fyrsti barnadagur Vestmannaeyja var þannig hátíðlegur haldinn 10. júní 1939. Hátíðin hófst með skrúðgöngu barna frá barnaskólanum. Henni stjórnaði Halldór Guðjónsson, skólastjóri barnaskólans. Börnin gengu fylktu liði norður á Stakkagerðistúnið, þar sem haldin var fjölmenn útisamkoma. Þar fluttu ræður frú Jóhanna Linnet, séra Sigurjón Árnason, sóknarprestur, Þorsteinn Einarsson, gagnfræðaskólakennari, og Ísleifur Högnason, kaupfélagsstjóri. Barnakór söng undir stjórn Helga Þorlákssonar, söngkennara barnaskólans. Stúlkur og drengir sýndu fimleika. Þeim stjórnaði Friðrik Jesson, fimleikakennari barnaskólans. Merki voru seld á götunum allan daginn og stiginn dans í Samkomuhúsinu um kvöldið. Þennan dag safnaðist alls í dagheimilissjóðinn kr. 460,46. Það var allt og sumt.
Svo leið sumarið 1939, haustið og veturinn.
Á sumardaginn fyrsta 1940 (25. apríl) efndi nefnd dagheimilisins í annað sinn til hátíðahalda til tekna dagheimilissjóðnum. Hátíðarnefndina skipuðu 9 manns, þrjár fyrrnefndar konur frá Verkakv.fél. Snót, þrír Oddfellowar (Kristján Linnet, bæjarfógeti, Georg Gíslason, kaupmaður og Ólafur Halldórsson, læknir), frú Jóhanna Linnet f.h. Kvenfélagsins Líknar, frú Margrét Johnsen f.h. Kvenfélagsins Rúnar og frú Auður Eiríksdóttir, ljósmóðir, f.h. barnaverndarnefndar. Hátíðahöldin fóru fram með svipuðu sniði og árið áður. Þá voru rekin tvö kvikmyndahús í kaupstaðnum. Bæði gáfu þau dagheimilissjóðnum tekjur af einni kvikmyndasýningu. Einnig voru seld merki í bænum þennan dag. Og Samkomuhúsið var lánað endurgjaldslaust til almennrar dansskemmtunar um kvöldið til tekna dagheimilissjóði. Hreinn ágóði af starfi þessa dags var kr. 496,05.
Árið 1941 var heimsstyrjöldin tekin að auka vasaaura almennings í bænum. Einnig það ár efndi nefnd dagheimilisins til barnahátíðar. Það ár skipuðu nefndina þessir fulltrúar: Sömu konur og áður fyrir Verkakvennafélagið Snót, fyrir Oddfellowa þeir læknarnir Ólafur Halldórsson og Einar Guttormsson og svo Georg Gíslason, frá barnaverndarnefnd Auður Eiríksdóttir, frá Kvenfélaginu Rún Ólafía Árnadóttir og frá Kvenfélaginu Líkn Anna Gunnlaugsson og Ingibjörg Theodórsdóttir. Barnadagurinn var haldinn fyrsta sumardag sem áður. Veður var óhagstætt þennan dag, 24. apríl, og þessvegna engin útiskemmtun haldin. Skátar gengu um bæinn með söfnunarlista fyrir dagheimilisnefndina og þeim varð víða vel til um peningagjafir. Nefndin hafði Samkomuhúsið til afnota um kvöldið. Þennan dag safnaðist 5—6 sinnum meira fé í sjóðinn en árið áður.
Hin margmenna dagheimilisnefnd þótti þung í vöfum. Þess vegna var valin 5 manna nefnd innan hennar til þess að annast allar framkvæmdir dagheimilissjóðsins. Ólafur læknir var kosinn formaður hennar og með honum í stjórn frú Anna móðir hans, gjaldkeri, frú Helga Rafnsdóttir ritari, og meðstjórnendur þær frúrnar Auður Eiríksdóttir og Ólafía Árnadóttir. Þetta ár (1941) var aftur leitað eftir styrk úr bæjarsjóði. Beiðninni var synjað.
Tvennt var nú hinni nýju stjórn falið: Hún skyldi kynna sér rekstur dagheimila í Reykjavík og hún skyldi sjá út lóðarblett undir fyrirhugaða byggingu dagheimilissjóðs.
Stjórnin afréði einhuga að sækja um lóðarréttindi í Helgafellsdal fyrir austan tún Magnúsar Guðmundssonar bónda á Vesturhúsum. Bæjarfógeti svaraði stjórninni því til, að þar, sem hún hefði sótt um lóðarréttindi, væri hrossabeit og einnig fyrirhuguð skíðabrekka að vetrinum. Af þessum tveim ástæðum var stjórninni synjað um lóðina.
Í marzmánuði 1942 hélt stjórnin eða barnadagsnefndin fund í Oddfellowhúsinu við Heimagötu. Nú höfðu fleiri félög í bænum bætzt í hópinn til styrktar barnaheimilishugsjóninni, svo sem Skátafélagið Faxi og Félag barnakennara við barnaskólann. Síðar kom Akógesfélagið með. Með þessum fundi hófst undirbúningur barnadags Vestmannaeyja 1942. Hann var haldinn fyrsta sumardag sem áður, 23. apríl, og með svipuðu sniði. Þennan dag lék Lúðrasveit Vestmannaeyja fyrsta sinni á barnadegi kaupstaðarins og þá sem ávallt síðan undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar. Þannig hélt stjórn barnadagsins hátíðlegan hvern fyrsta sumardag næstu árin og aflaði þannig fjár í dagheimilissjóðinn. Áhuginn og fórnarlundin brást þar aldrei. Á árunum 1939—1947 safnaðist fé í sjóð þennan sem hér segir:

Ár Krónur
1939 460,46
1940 496,05
1941 2.738,92
1942 3.776,27
1943 4.018,25
1944 3.975,42
1945 9.343,27
1946 7.442,48
1947 6.913,00

Ólafur Halldórsson læknir var formaður dagheimilisnefndarinnar til 1945. Þá tók Vigfús Ólafsson við því starfi. Hann var þá fulltrúi Akógesfélagsins í nefndinni.
Vorið 1945 kom til tals, að dagheimilissjóðurinn keypti sumarbústað Guðbjargar Árnadóttur, yfirhjúkrunarkonu. Hann stóð vestur í Hrauni suðvestur af Hánni.
Kaupverðið skyldi vera kr. 19.000,00. Um þetta leyti bauðst sjóðnum til kaups íbúðarhús Magnúsar Guðmundss. bónda á Vesturhúsum, er hann átti í Flagtadal. Því húsi fylgdi stórt tún, sem Magnús Guðmundsson hafði ræktað í Helgafellsdal skammt suðvestur af Flagtadalnum. Kaupverðið var kr. 33.000,00. Horfið var að því að kaupa það hús. Kaupsamningur var gerður 17. marz 1946. Við samningsgjörðina greiddi dagheimilissjóður kr. 23.000,00, en kr. 10.000,00 skyldu greiðast á 10 árum með jöfnum afborgunum. Síðan var hafizt handa um að undirbúa rekstur dagheimilisins. Húsið var lagfært, leiktæki keypt og ráðið starfsfólk.



MYNDIN TIL VINSTRI:
Efri myndirnar frá vinstri til hægri:
1. Börnin flutt úr bœnum til Barnaheimilisins. Margrét Sigurþórsdóttir, ráðskona og fjárhaldsmaður heimilisins, er frammi við hús bifreiðarinnar.
2. Börnin við heimilið. — Pelar hinna yngstu sjást í glugganum.
3. Séð frá Barnaheimilinu norður til bæjarins.
Sjómennskan iðkuð þegar á bernskuskeiðinu. Snemma beygist krókurinn til þess, sem verða vill.
4. Börnin að leikjum í grasigróinni brekkunni.





Rekstur fyrsta dagheimilis barna í Vestmannaeyjum hófst 12. júní 1946. Þá hafði Ólafur Halldórsson læknir tekið aftur að sér formennsku dagheimilisnefndar, og með honum í stjórn voru þá Jóna Kristinsdóttir, ljósmóðir, f.h. Kvenfélagsins Líknar, og Steinunn Pálsdóttir f.h. Verkakvennafélagsins Snótar. Hvert félag, sem að dagheimilinu stóð, skyldi greiða dvalarkostnað fyrir eitt barn í þrjá mánuði, alls kr. 450,00 eða kr. 150,00 á mánuði.
Fyrsta forstöðukona heimilisins var Guðlaug Guðlaugsdóttir. Auk hennar voru þar starfandi tvær stúlkur. Fyrsta sumarið voru börnin á heimilinu alls 28. Sá háttur var á hafður, að safna börnunum saman að morgninum við Samkomuhúsið og flytja þau þaðan á bifreið suður að dagheimilinu.
Annað sumarið (1947) var Friðbjörg Tryggvadóttir ráðskona heimilisins. Þá tók það til starfa 9. júní. Þá var afráðið, að börnin skyldu dveljast þar allan sólarhringinn frá 1. júlí til ágústloka.
Eftir annað starfssumarið drógu flest eða öll styrktarfélögin í bænum fulltrúa sína út úr dagheimilisnefndinni. Ekki liggja óyggjandi sannanir fyrir, hvað olli þeim afturkipp. Verkakvennafélagið Snót hélt áfram að reka dagheimilið.
Annað starfsárið fékk dagheimilið styrk úr bæjarsjóði. Hann nam kr. 6.000,00.
ctr

Barnaheimilið Helgafell. Skálinn er
álman til hægri.

Sumarið 1948 urðu börnin á dagheimilinu alls 23. Þetta ár fékk heimilisnefndin leyfi Fjárhagsráðs (ríkisvaldsins) til að byggja leikskála við heimilið. Ekki var þó hafizt handa að byggja skálann fyrr en árið eftir. Hafði þá heimilissjóður fengið samtals kr. 60.000,00 úr bæjarsjóði til skálabyggingarinnar.
Vorið 1950 skipaði þetta fólk dagheimilisnefndina: Ólafur Halldórsson, læknir, sem verið hafði formaður hennar til þessa flest starfsárin, Margrét Sigurþórsdóttir og Dagmey Einarsdóttir f.h. Verkakvennafélagsins Snótar, Karl Guðjónsson f.h. Verkalýðsfélags Vestmannaeyja og Jón Runólfsson f.h. Skátafél. Faxa. Dagmey var jafnframt gjaldkeri Snótar.
Margrét Sigurþórsdóttir var nú (1950) ráðin ráðskona heimilisins. Árin áður höfðu þær verið þar Sigríður Guðmundsdóttir og Ingibjörg Kristjánsdóttir, sem var eina lærða fóstran, sem starfaði nokkru sinni á dagheimilinu.
Margrét Sigurþórsdóttir var síðan ráðskona heimilisins í 8 ár samfleytt eða til haustsins 1957. Hún var jafnframt fjárhaldsmaður heimilisins, þar til það var selt.
Síðustu 10 starfsárin dvöldust á Barnaheimilinu Helgafelli svo mörg börn sem hér segir:

Ár Fjöldi
barna
1950 31
1951 44
1952 29
1953 37
1954 41
1955 53
1956 52
1957 65
1958 72
1959 64

Börnin voru á aldrinum 2—7 ára.

ctr


Árið 1958 og 1959 var gjaldið fyrir hvern dvalarmánuð á dagheimilinu kr. 330,00.
Sumarið 1958 var frú Friðbjörg Tryggadóttir Johnsen ráðskona heimilisins, en Aðalheiður Bjarnadóttir síðasta starfssumarið (1959).
Tvær konur störfuðu í dagheimilisnefndinni síðustu 12 árin (1950—1961), eða þar til heimilishúsið var selt á s.l. ári. Það voru þær Margrét Sigurþórsdóttir á Garðsstöðum við Strandveg og Dagmey Einarsdóttir á Kirkjuhóli við Bessastíg. Með þeim voru í nefndinni um langt skeið frú Vilborg Sigurðardóttir og Jóhann Friðfinnsson, kaupm.
Ólafur Halldórsson, læknir, var formaður dagheimilisnefndar flest árin frá stofnun þess og þar til hann fluttist burt úr bænum eða til 1955.
Nokkur síðustu starfsárin styrkti bæjarsjóður árlega rekstur heimilisins með framlagi, sem nam 10—18.000,00 kr. Ríkissjóður styrkti fyrst heimilið 1952 með 4.000 kr. framlagi og síðan með stighækkandistyrk, sem nam 8.000 kr. 1958.
Húseign Barnaheimilisins Helgafells var seld Félagi ungra Sjálfstæðismanna í kaupstaðnum 17. júlí 1961.
Meginið af starfi því, sem hér hefur verið rakið í sem fæstum dráttum, hefur verið innt af hendi endurgjaldslaust af fórnfýsi og heiðarleik, kærleikslund og trú á góðan málstað. Vissulega hefur þeim aðilum, sem hér fórnuðu mestu, orðið að trú sinni. Þar get ég sérstaklega Ólafs Halldórssonar, læknis, og frúnna Margrétar Sigurþórsdóttur og Dagmeyjar Einarsdóttur. Þessa merka starfs þeirra hafa mörg heimili í þessum bæ og þó miklu fleiri börn notið í mjög ríkum mæli á undanförnum árum. Það ber öllum bæjarbúum að þakka af hreinskilni og alúð.
Árið 1959 keypti bæjarsjóður Vestmannaeyja íbúðarhúsið Sóla við Ásaveg og gerði það að barnaheimili. Þá var þar með Barnaheimilið Helgafell leyst af hólmi og lagt niður.
Ég, sem þetta skrifa, er ekki einn um þá ósk, að sumardagurinn fyrsti eða annar dagur að vorinu, ef það þykir betur fara vegna vertíðaranna, verði framvegis sem hingað til helgaður yngstu kynslóð Eyjanna, og hún megi njóta ávaxtanna af degi þeim um langa framtíð.

Þ.Þ.V.