„Blik 1961/Bréf til ársrits Gagnfræðaskólans“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: Efnisyfiirlit 1961 =Bréf= ==til ársrits Gagnfræðaskólans== <br> ::Vestmannaeyjum, <br> ::16. okt. 1960.<br> Í hinu merka ársriti Gagnfræðaskólans í Eyjum, ...)
 
m (Verndaði „Blik 1961/Bréf til ársrits Gagnfræðaskólans“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 10. febrúar 2010 kl. 16:35

Efnisyfiirlit 1961



Bréf

til ársrits Gagnfræðaskólans


Vestmannaeyjum,
16. okt. 1960.

Í hinu merka ársriti Gagnfræðaskólans í Eyjum, BLIKI, árið 1960, segir í greininni „Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum“ bls. 40, að, ,,ekki hafi lánast að finna óyggjandi heimildir fyrir barnakennslu Páls Pálssonar Jökuls á áratugnum 1860—1870“. Þá segir ennfremur: „Mér eru ekki kunnar neinar sannanir fyrir því, að hann hafi stundað barnakennslu í Eyjum, nema þá þær, ef sannanir skyldi kalla, að hann er titlaður barnakennari“, o.s.frv.
Ekki veit ég, hvort orð mín muni verða tekin sem sannanir fyrir barnakennslu Páls Jökuls hér, en hinsvegar þykir mér rétt að skýra ársritinu frá eftirfarandi upplýsingum þessu viðvíkjandi.
Þar eð Páll Pálsson er talinn f. 1848, 17. ág., er tekinn í lærða skólann 1866 og er þar til 1870 er hæpið, að hann hafi verið við kennslu í Eyjum á þeim áratug enda finnst þess heldur ekki getið. Mikið líklegra er, að kennsla hans hér hafi verið á áratugnum 1870—1880 og bendir margt til, að svo hafi verið.
Gísli Lárusson í Stakkagerði sagði mér, að hann „hefði verið svo heppinn að njóta kennslu hjá Páli Jökli, sem hefði kennt börnum hér tvö ár og verið til húsa í Jómsborg eða Pétursborg.“ Ég man ekki nákvæmlega hvort húsið hann nefndi eða hvort hann sagði „annað árið í Jómsborg en hitt í Pétursborg.“ Gísli sagðist þá hafa verið 9 og 10 ára gamall og hefði það verið öll sín skólaganga.
Þetta kemur heim við aldur Gísla, sem var fæddur 16. febr. 1865, og við kirkjubók Eyjanna 1874. Þar segir, að Páll Pálsson, barnakennari, komi til Eyja það ár. Þá er hann til húsa í Jómsborg. Árið eftir er hann svo talinn fara frá Eyjum, um vorið. Ekki finnst hans getið meðal innkominna manna í Eyjarnar um haustið það ár, og annarsstaðar í kirkjubókum heldur ekki einmitt árið 1875. Nú sagðist Gísli hafa verið hjá honum í skóla tvö árin þ.e. skólatímabil, haust og vetrarmánuðina og hann (Gísli) þá hafa verið 9 og 10 ára gamall þá finnst mér ekkert sennilegra, en að innfærsla á nafni Páls, sem kominn til Eyja um haustið 1875 og farinn frá Eyjum um vorið 1876, hafi af einhverjum ástæðum fallið niður í kirkjubókinni. Aðrar eins skekkjur eiga sér stað í kirkjubókum yfirleitt, sem það, að innfærsla þessi færist fyrir. Páll hefir og aðeins verið hér yfir haust og vetrarmánuðina en farið á sumrin til annarra byggðarlaga. Man ég ekki betur en að hann færi sumurin 1874 og 1875 hinar frægu ferðir sínar yfir Vatnajökul með enska vísindamanninum, og þar af nafngiftin Jökull. Einnig minnist ég þess að finna Páls getið í kirkjubókum eystra 1876, en það ár kvæntist hann Önnu dóttur séra Sigurbj. Sigfússonar að Kálfafellsstað. Eldra fólk hér sagði líka, að „hann hefði farið eitthvað austur á land,“ er hann fór úr Eyjum.
Fríður móðursystir mín, f. 1880, mjög minnug og greind kona, systir Gísla Lárussonar, sagði mér oft, að Gísli bróðir sinn hefði verið í skóla hjá Páli Jökli, sem hefði haft barnakennslu í Jómsborg.
Móðir mín, Jóhanna Lárusdóttir, systir Gísla, sagði einnig um þetta, að hún hefði lítið verið í barnaskóla og aðeins lært að lesa. „Skriftin fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér,“ sagði hún. Það þótti víst ónauðsynlegt stelpum að kunna að skrifa. Hún hefði verið of ung til þess að komast í skóla til Páls Jökuls, en þar hefði Gísli bróðir sinn lært lestur, skrift og eitthvað í reikningi. Ekki man ég með vissu, hvar hún sagði, að skóli Páls hefði verið til húsa, en mig minnir fastlega hún segja í Pétursborg. Gæti verið, að hún hefði munað betur seinna ár Páls hér, þ.e. 1875, þar eð hún var þá 7 ára gömul. Sem sagt, móðir mín lærði ekki að skrifa á sinni stuttu skólagöngu, þótt slíkt væri fyrirskipað í fræðslulögum barna 1880, en á efri árum sínum fór hún að læra að draga til stafs og náði nokkrum árangri, þótt tilsagnarlaust væri að mestu leyti.
Mér fannst rétt að skýra BLIKI frá ofanrituðu, ef það gæti á einhvern hátt orðið til þess að bæta úr vöntun á upplýsingum í „Sögu barnafræðslunnar í Eyjum“ og um veru Páls Pálssonar Jökuls hér. Systrum Gísla, þeim Fríði og Jóhönnu, hefir ábyggilega verið vel kunnugt um skólavist hans hjá Páli. Tel ég hiklaust frásagnir þeirra góðar heimildir fyrir hérveru Páls bæði árin 1874 og 1875 og skóla hans, sennilega í Jómsborg 1874 en í Pétursborg árið 1875. Stangast þær frásagnir hvergi á við það, sem áður er vitað nema síður sé, og koma vel heim við frásögn Gísla sjálfs við mig persónulega mörgum árum síðar.
Skjalfastar sannanir fyrir þessu munu vart finnast héðan af en sem sagt í upphafi þessa bréfs, fannst mér rétt að skýra frá þessum rökföstu munnlegu heimildum.

Virðingarfyllst,
Árni Árnason.

Við þökkum Á.Á. alúðlega fyrir þessa markverðu fræðslu og drögum ekki í efa að byggja megi á frásögnum þessa fólks, sem hann nefnir, svo þekkt var það á sinni tíð hér í Eyjum að heiðarleik og drengskap.
Því miður hefur mér ekki enzt tími til að skrifa 3. kafla „Sögu barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum“ svo að birzt gæti í Bliki að þessu sinni. Þeim tíma, sem ég hefi átt aflögu til þessara skrifa, hefi ég varið til að afla heimilda og kynna mér þær. Nokkuð hefur þar unnizt á en sem sé, ekki enzt tími til að vinna úr þeim. Persónulega vona ég til næsta árs.

Þ.Þ.V.