„Blik 1961/Kafari við Vestmannaeyjahöfn, seinni hluti“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1961 ==Kafari við Vestmannaeyjahöfn== :<big>''í 25 ár, 1927-1952''</big> ::(seinni hluti) <br> <br> Þegar ég var að alast upp á Austurlandi, heyr...) |
m (Verndaði „Blik 1961/Kafari við Vestmannaeyjahöfn, seinni hluti“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 10. febrúar 2010 kl. 16:29
Kafari við Vestmannaeyjahöfn
- í 25 ár, 1927-1952
- (seinni hluti)
Þegar ég var að alast upp á
Austurlandi, heyrði ég Eyjasjómenn tala um stórt bjarg, sem væri í eða við innsiglinguna hér og ylli miklum hættum, ef sjó hreyfði. Síðar las ég í Vestmannaeyjasögu Sigfúsar M. Johnsen um stein þennan.
Hann telur hann hafa flutzt með hafís á fyrri hluta síðustu aldar. — Þorsteinn Jónsson í Laufási getur einnig um vágest þennan við Vestmannaeyjahöfn í bók sinni Aldahvörf í Eyjum. Hann segir munnmæli herma, að steinn þessi hafi flutzt með hafís á öndverðri 17. öld og hafi verið gizkað á, að hann væri nær 200 smálestir. Þorsteinn fullyrðir, að þú hafir átt drýgstan þátt í að fjarlægja stein þennan úr hafnarmynninu. Mig fýsir að vita nánar um það afrek þitt.
- MYND FRÁ HAFNARFRAMKVÆMDUM
- MYND FRÁ HAFNARFRAMKVÆMDUM
Niður til vinstri:
1. Steinn tekinn inn á flekann.
2. Grafskipið Vestmannaey og flekinn í notkun í hafnarmynninu.
3. Smágrjót dregið upp úr innsiglingunni í járnkörfu.
4. Flekinn. Kafarinn að fara niður. Aðstoðarmaður hans sést hjá honum á flekanum og fleiri menn, m.a. Rergsteinn Jónasson, sem var verkstjóri. Einnig sést þar mikið grjót nýtekið upp.
Niður til hægri:
1. Til þess að styrkja Hringskersgarðinn, sem var farinn að láta undan, var rekið niður járnþil austan við hann og fyllt upp innan við það.
2. Gufukraninn fram við vita á Hringskersgarði.
3. Verið er að draga upp með gufukrananum einn allra stærsta steininn, sem tekinn var upp í heilu lagi úr hafnarmynninu. Þungi áætlaður af verkfrœðingi 12 smálestir.
Nokkrir menn sjást á garðinum, m.a. hafnsögumennirnir Hannes Jónsson og Árni Þórarinsson.
Já, steinn þessi gnæfði upp úr öðru stórgrýti þarna á botninum og svo hátt, að þarinn á honum sást í sjávarskorpunni á stórstraumsfjörum. Hann var tvímælalaust erfiðasta verkefni mitt og okkar þarna á
sjávarbotninum. Ekkert viðlit var að lyfta honum með þeim tækjum, sem við höfðum ráð á.
Ég hóf þetta starf með því að bregða um bjargið stálvír. Síðan skyldi gufukraninn á syðri hafnargarðinum taka í spottann. Á þennan hátt hugðumst við mjaka steininum á svo grunnt vatn, að hann yrði þar boraður um fjöru og sprengdur. Kraninn sleit hvern vírinn eftir annan án þess að steinninn bifaðist. Loks festi ég á steininum sjálfan kranavírinn, sem var 2 þumlungar í þvermál. Þegar í hann var tekið, var það kraninn, sem vildi undan láta, — steypast af sporunum. Matthías Finnbogason var alltaf kranastjóri, þegar mest lá við. Hann lét nú festa kranann með keðjum að austanverðu í hafnargarðinn. Með þessu móti tókst að mjaka steininum upp að eyrinni vestan við hafnargarðinn. Þar var hann síðan boraður á stórstraumsfjöru og sprengdur í viðráðanlega hluta.
Grafskipið Grettir mun hafa unnið hér hluta úr sumri, áður en þú hættir kafarastörfum. Var ekki svo?
Jú, rétt er það. Þegar við höfðum loks lokið við að rífa upp og fjarlægja allt stærsta grjótið og hlutana úr stóra steininum, þá var mikið eftir af smágrjóti í botninum, sérstaklega í innanverðri innsiglingunni.
Allt þetta grjót hreinsaði grafskipið Grettir upp með miklum afköstum. Þegar skipið fór að vinna, komu í ljós stórir steinar, sem þurfti að ná upp á annan hátt eða með gamla laginu. Þá kafaði ég. — Afköst Grettis voru tröllsleg þarna í innsiglingunni, og var ég oft undrandi, þegar ég kom niður á hafsbotninn með nokkurra daga millibili, að sjá allan þann árangur af starfinu. Segja má líka, að þetta hafi verið lokaspretturinn við að grafa út innsiglingu Vestmannaeyjahafnar, því að ekkert hefur þurft um þetta að bæta síðan og öll milliferðaskip komizt inn á höfnina hindrunarlaust.
Þú munt einnig hafa verið fengin til að hjálpa skipum, sem þurftu kafara við?
Já, mjög oft. Sérstaklega leituðu hingað erlendir togarar, sem fengið höfðu vír eða vörpu í skrúfuna.
Er það ekki erfitt viðfangs að ná stálvír úr skipsskrúfum?
Jú, það er oft mjög erfitt, og reynir á mann til hins ýtrasta. Þó lánaðist mér alltaf að ljúka slíkum störfum, svo að skipin þurftu ekki að leita annað.
Á stríðsárunum, þegar fjöldi færeyskra fiskiskipa og flutningaskipa sigldi hingað sem mest og flutti fisk til Bretlands, þurftu þau oft á hjálp kafara að halda. Ýmist voru þar biluð stýri eða skrúfa í ólagi. Eitt sinn aðstoðaði ég franska fiskiskútu með bilaða skrúfu.
Geturðu gizkað á, hvað þú munir hafa kafað við mörg erlend skip á þessum árum?
Nei, það get ég ekki nákvæmlega. En þau skipta áreiðanlega hundruðum.
Hvað hefurðu kafað dýpst?
Það var, þegar sæsíminn slitnaði hér við Eiðið. Þá fékk landsímastjóri mig til þess að kafa og leita að sæstrengnum. Þá kafaði ég niður á 25—30 metra dýpi. Tilraun þessi bar ekki árangur. — Þetta var um haust. Um sumarið hafði sanddæluskip hafnarinnar dælt sandi úr höfninni inn fyrir Eiði, svo að þarna var allt á kafi í sandi á sjávarbotni. — Seinna náðist sæstrengurinn upp með kröku nokkru dýpra en ég hafði komizt.
Þú munt hafa kafað víðar en hér í Eyjum?
Já, árið 1944 vann ég í 6 vikur á Stokkseyri við að bora og sprengja klappir í innsiglingunni. Þar fannst ekkert laust grjót, heldur allt fastar klappir. Við boruðum með loftpressu. Ég stýrði bornum á hafsbotni fyrstu 40—50 sm en síðan boraði hann án eftirlits niður í 2—3 m dýpi.
Við notuðum rafmagnsstreng, þegar við kveiktum í sprengiefninu. Síðan vann ég að því að slá á grjótið, sem losnaði við sprengingarnar. Það var dregið upp í vélbát og losað, þar sem hentast þótti.
Þarna á botninum sá ég rauðmaga liggja yfir hrognabúi utan í skerjum og flúðum og frjóvga eggin. Hann virtist una þar vel sínu ævistarfi.
Mér líkaði ágætlega að vinna á Stokkseyri, og mér féll prýðilega við vinnufélaga mína. Verkstjóri var Helgi Sigurðsson.
Mig rámar í það, að þú kafaðir eitt sinn við Reykjanesskaga.
Já, í nóvember 1946 var ég fenginn til þess að kafa fyrir Landshöfnina í
Ytri-Njarðvík. Þar hafði þá verið sökkt steinkeri 100 ferm. að stærð framan við bryggjuna. Brim gerði, áður en kerið var fyllt, og þá brotnaði það og lagðist saman með þeim afleiðingum, að enginn bátur gat lagzt þar að
bryggju.
Þegar ég kom á staðinn, sögðu heimamenn mér, að tveir kafarar væru búnir að reyna við kerið án árangurs. Leizt mér þá ekki á blikuna. En það rættist hér eins og heima, að guð og lukkan var með mér í verki. Ég kafaði fyrst til að athuga allar aðstæður. Síðan boraði ég kerhlutana og sprengdi með sprengiefni, sagaði og klippti steypujárn, og eftir 8 daga var verki þessu lokið til mikillar ánægju öllum heimamönnum í Ytri-Njarðvík. Verkstjóri þarna var Júlíus Þórarinsson úr Eyjum.
Nú langar mig að lokum mest til að forvitnast um það, hvernig umhvorfs er á sjávarbotninum hér við hafnargarðana og hvort þú sást þar ekki ýmisleg sjávardýr.
Segja má, að á sjávarbotni sé maður kominn í annan heim. Það fer mjög eftir birtu lofts og skyggni, hversu langt maður sér þar frá sér. En takmörk yzta sjónhrings eru þar alltaf þoka og myrkur. Þarna sá ég daglega smáufsa af mörgum stærðum, stútung og alltaf meira og minna af kola, bæði þykkvalúru, skarkola og sandkola. Einnig voru þar sprettfiskar, krabbar og stórir kuðungar. Krabbarnir fara hægt um botninn á sínum kunna krabbagangi, og kuðungarnir líða þar áfram. En kuðungakrabbinn er oft snar í snúningum. Stundum er hann fljótur að bregða sér úr kuðungnum og í hann aftur. Oft sá ég líka steinbít þarna á ferð og koma inn í höfnina. Þá kom allt í einu aukin hreyfing á kuðungana og krabbana. Þeir hræddust steinbítinn auðsjáanlega og
flýttu sér sem mest þeir máttu. Sæi kuðungakrabbinn hættuna yfirvofandi, sá ég það oft mér til undrunar, að hann yfirgaf kuðunginn og skreið niður á milli steina, meðan steinbíturinn fór hjá. Síðan smeygði hann aftur halanum á sér inn í kuðunginn og rölti af stað, eins og ekkert væri.
Mér var það mikil ráðgáta, hvernig kuðungasniglarnir og krabbarnir skynjuðu nálægð steinbítsins, sem étur þá af græðgi, svo sem kunnugt er. Mér flaug í hug, hvort hér gæti verið um straumskynjanir að ræða í sjónum.
Tvívegis sá ég seli af meðalstærð. Þeir virtust skoða mig í krók og kring og hurfu síðan á burt.
Einu sinni eða tvisvar sá ég humar. Hann þótti mér einna einkennilegastur í tilburðum og háttalagi. Fyndist honum eitthvað grunsamlegt, sem hætta gæti stafað af, sló hann halanum undir kviðinn og þaut aftur á bak, og hvarf hann þá með öllu. Kom svo aftur „á sundi“ eða eins og hann fálmaði sig áfram með örmunum. Væri hann kyrr við botninn, hélt hann sig upp við stein og sneri halanum að steininum en hélt griptöngunum fyrir sér eins og hann væri viðbúinn árás. Þetta benti til þess, að hann vildi ógjarnan láta koma sér í opna skjöldu eða aftan að sér og ef til vill bíta af sér halann.
Utan í norðureyrinni (Hörgaeyrinni) er mjög mikill sjávargróður. Þarna eru hæstu þaraþönglarnir full mannhæð. Þarna er einnig mikill annar gróður. Það er ógleymanleg sjón í björtu veðri að skyggnast um í þessu undraríki. Allt er þarna þakið marglitum sjávarjurtum, sem glitra og sindra í öllum regnbogans litum. Ég held, að þetta sé fegursta blómaskrúð, sem ég hefi augum litið. Það er vissulega eitt af mýmörgum dásemdum skaparans.
Manstu, Finnur, helztu verkstjóra á flekanum og líflínumenn?
Já, ég man þá nokkurn veginn. Þeir voru þessir:
Guðbrandur Magnússon úr Reykjavík, og svo þessir héðan úr Eyjum:
Jón Sveinsson, Nýlendu, Gísli B. Jónsson, Haukfelli, Böðvar Ingvarsson, Ásum, Árni Þórarinsson, hafnsögumaður og Bergsteinn Jónasson, hafnarvörður.
Og líflínumennirnir voru þessir: Sigurður Oddgeirsson frá Ofanleiti, Þórður Gíslason, meðhjálpari, Stanley Guðmundsson, Heiði, Kristinn Gíslason, Herjólfsgötu 7, Ari Markússon, Akurey og Ingibergur Friðriksson, hafnsögumaður.
Að lokum færi ég þér alúðarþakkir fyrir alla þessa fræðslu. Vissulega hefur þú unnið mikið afrek í þessu starfi þínu, sem allir Eyjabúar njóta beint og óbeint um langan aldur. Þú hlýtur að hafa hlotið opinbera viðurkenningu fyrir þetta mikla þrekvirki og þjóðhagslega afrek.
Á s.l. ári kjöri Kafarafélag Íslands mig heiðursfélaga sinn. En ánægjulegasta viðurkenningin er meðvitundin um það, að hafa notið guðshjálpar til þess að geta unnið almenningi og þjóðfélaginu eitthvert gagn, óbornum kynslóðum til hagsældar og blessunar.
Hversu skyldir eruð þið Einar Sigurðsson?
Við erum bræðrasynir, því að faðir minn var bróðir Sigurðar heitins Sigurfinnssonar, hreppstjóra. Við erum af hinni kunnu Högnaætt.
- ●
Það var án efa þrekvirki að vinna að kafarastörfum við Vestmannaeyjar um aldarfjórðung. Þeim manni, sem það þrekvirki gat innt af hendi, er áreiðanlega ekki fisjað saman. Við Eyjabúar þekkjum það líka af reynslu, að Friðfinnur Finnsson er þrekmaður hinn mesti, hraustur vel og afburða dugmikill. Vöxtur hans og karlmennska ber þess vitni, að hann hefur einhverntíma fengið ærlegan bita hjá hinum mætu og merku hjónum Sigurbjörgu og Sigurði í Brekkhúsi, fósturforeldrunum. Að sjálfsögðu kemur hér einnig ætterni til greina.
Með kafarastarfi sínu hér við höfnina öll þessi ár hefur Friðfinnur Finnsson markað glögg spor í atvinnusögu byggðarlagsins með öðrum verkamönnum og verkstjórum, sem þar unnu vel og lengi. Ekki aðeins byggðarlagið heldur allt þjóðfélagið íslenzka nýtur þess hins mikla og markverða starfs, hafnarframkvæmda í stærstu verstöð landsins.
- Vestmannaeyjum 1960.
S P A U G
„Góði vinur, ég segi þér það satt, að það eru fjölda margar stúlkur, sem ekki vilja giftast.“
„Hvernig veiztu það?“
„Ég hef spurt þær sjálfar.“
- ●
Leigjandinn: ,.Það voru rottur að fljúgast á milli þils og veggjar hjá mér í alla nótt.“
Húseigandinn: „Ætlizt þér til að fá heilt nautaat í kaupbæti og sitja í gamalli leigu?“