„Blik 1960/Nemenda minnzt“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
m (Verndaði „Blik 1960/Nemenda minnzt“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 17. janúar 2010 kl. 22:47

Efnisyfirlit 1960



Nemenda minnzt



Á s.l. ári létust þrír af fyrrverandi nemendum skólans. Hlýða þykir, að þeirra sé minnzt með nokkrum orðum í ársriti hans.

Lilja Finnbogadóttir

Lilja Finnbogadóttir.

Lilja Finnbogadóttir andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 1. maí 1959. Hún var fædd að Bræðraborg (Njarðarstíg) 3 hér í bæ 15. febr. 1920, dóttir hjónanna Finnboga skipstjóra Finnbogasonar bónda Björnssonar í Norðurgarði og konu hans Sesselju Einarsdóttur frá Hliði á Álftanesi.
Lilja Finnbogadóttir gekk í Gagnfræðaskólann hér veturinn 1934—1935 og lauk þar 1. bekkjarprófi með mjög góðri einkunn. Þá var ekki tízka hér í Eyjum, að unglingar gengju í framhaldsskóla nema þá einn vetur, enda þröngt í búi hjá mörgum heimilisfeðrum á þeim kreppuárum, og þess vegna mikil þörf heimilum fyrir hverja þá aura, sem unglingar gátu unnið sér inn.
Árið 1940 giftist Lilja Finnbogadóttir fyrri manni sínum Gunnari Þórðarsyni frá Víðigerði í Fáskrúðsfirði. Þau hófu búskap í Víðigerði í sambýli við foreldra Gunnars og byggðu þar íbúðarhús.
Brátt steðjuðu erfiðleikar og harmur að þessum tveim fjölskyldum. Tengdamóðir Lilju, móðir Gunnars, veiktist og féll frá. Um svipað leyti veiktist Gunnar, maður Lilju, og lá í sjúkrahúsi í Reykjavík um lengri tíma. Þegar hér var komið, tók Lilja Finnbogadóttir að sér stjórn beggja heimilanna. Vinnuþrek hennar var nú reynt til hins ýtrasta, því að verkefnin voru yfirgripsmikil, en vinnuafl heimilanna beggja af mjög skornum skammti og tilfinnanlega lítið. Ofurþungi heimilisannanna lá mest á Lilju. Um þessar mundir höfðu ungu hjónin eignazt tvö börn, tvær dætur, sem voru kornbörn og kröfðust sinnar umönnunar og síns tíma. Allir þessir erfiðleikar og allt þetta annríki hvarf þó í skuggann fyrir óttanum um heilsu eiginmannsins og föður barnanna. Lilja Finnbogadóttir reyndist nú eiga vinnuþrek í næsta ótrúlega ríkum mæli og dugnað með afbrigðum. Einnig átti hún glaða lund og var að mörgu leyti vel gerð kona. Þau eigindi léttu henni sjálfri erfiðleikana og þá ekki síður venzlamönnum og ástvinum.
Eftir 5 ára sambúð missti Lilja Finnbogadóttir fyrri mann sinn. Þá höfðu þau flutt suður á Akranes og setzt þar að. Dætur þeirra hjóna voru þá 6 ára og 5 ára, Bryndís, nú búsett í Reykjavík, og Aðalheiður Rósa við hjúkrunarnám í Reykjavík.
Eftir að Lilja Finnbogadóttir hafði misst mann sinn, leitaði hún æskustöðvanna og fluttist hingað til Eyja með dætur sínar.
Árið 1950, 11. nóv., var vígt í Vestmannaeyjum elliheimili Eyjabúa. Lilja Finnbogadóttir réðist þá forstöðukona þess. Þar réði hún síðan ríkjum fyrir Eyjamenn um 2 ára skeið með mildri og þó fastri stjórn og stóð þar á margan annan hátt sérstaklega vel í stöðu sinni. Aldraða fólkið virti hana og elskaði fyrir drenglund hennar, glaðværð og nærgætni alla í umönnun sinni við það. Það mat hana og dáði að verðleikum. Eiginleikar hennar og innri maður urðu aldraða fólkinu hugarléttir og byrðabót í glímunni við Elli kerlingu og gegn ásókn hennar.
Árið 1953 giftist Lilja Finnbogadóttir í annað sinn. Síðari maður hennar var Emil Sigurðsson vélstjóri frá Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði. Þau eignuðust tvær dætur, Gunnhildi, f. 1952, og Ásdísi Lilju, f. 1956.
Lilja Finnbogadóttir var góð eiginkona, húsmóðir og móðir. Þá reyndist hún ekki síður góð og nærgætin dóttir öldruðum foreldrum sínum, ástúðleg og umhyggjusöm. Flesta eiginleika, sem af sér skapa mestu fegurð mannlífsins, átti Lilja Finnbogadóttir, og suma þeirra í ríkum mæli. Mikið skarð er fyrir skildi, mikils er misst, þegar slíkar mæður, eiginkonur, dætur og húsmæður falla frá á bezta aldri. Lilju Finnbogadóttur var því sárt saknað af öllum, sem nutu mannkosta hennar í mannlífinu, og þá mest af hennar nánustu ástvinum. Hætt er við, að sumir þeirra beri þann söknuð sáran til aldurtilastundar.

Bjarni Ólafur Björnsson

Bjarni Ól. Björnsson.

Í fyrra sumar (4. júní 1959), vildi það hörmulega slys til í Bjarnarey, að Bjarni Ólafur Björnsson frá Bólstaðarhlíð hér í Eyjum hrapaði til dauða, þar sem hann var við eggjatekju.
Bjarni Ólafur var sonur hjónanna Ingibjargar Ólafsdóttur og Björns vélstjóra Bjarnasonar (d. 25. sept. 1947). Faðir Ingibjargar var Ólafur bóndi í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum Ólafssonar frá Hólminum. Kona Ólafs bónda í Eyvindarholti var Sigríður Ólafsdóttir bónda í Múlakoti í Fljótshlíð.
Faðir Björns var Bjarni bóndi og útgerðarmaður Einarsson í Hlaðbæ í Eyjum. Kona Bjarna var Halldóra Jónsdóttir bónda Einarssonar í Yzta-Skála undir Eyjafjöllum.
Bjarni Ólafur Björnsson hét því nöfnum beggja afa sinna. Bjarni Ól. fæddist að Bólstaðarhlíð 9. maí 1935 og var því rúmlega 24 ára, er hann lézt. Hann stundaði nám í Gagnfræðaskólanum hér árin 1949—1952 (3 ár) og lauk gagnfræðaprófi samkv. lögum um gagnfræðaskóla 1930 og hlaut 1. eink. Haustið 1952 hóf Bjarni Ól. nám í Verzlunarskóla Íslands og var þar við nám næstu 3 árin. Hann lauk verzlunarprófi vorið 1955. — Enn hugði Bjarni á framhaldsnám. Jafnframt æskti hann að kynnast framandi þjóðum. Hann lagði þess vegna leið sína til Spánar haustið 1955 og hóf nám í Barcelona. Vildi hann fyrst og fremst læra spænsku. Í Barcelona dvaldist Bjarni fram að jólum 1955 ásamt nokkrum öðrum ungum Íslendingum, sem þar stunduðu nám. Þegar hér var komið skólagöngu hans, þjáðist hann af vanlíðan. Læknar réðu honum til að hverfa burt frá Barcelona, þar sem sýnt var, að hann þyldi ekki loftslagið. Fór þá Bjarni heim aftur til föðurtúna. Á vertíðinni 1956 stundaði hann ýmist sjó á trillubát eða vann að framleiðslustörfunum í landi. Hann var vinnugefinn og góður verkmaður, eins og hann átti kyn til í báðar ættir.
Vorið 1956, 1. maí, réðist Bjarni Ól. starfsmaður hjá bæjarsjóði Vestmannaeyja, vann á skrifstofu hans. Þar vann hann síðan til dauðadags.
Við kennarar Gagnfræðaskólans veittum Bjarna Ólafi Björnssyni brátt athygli, sérstaklega sökum hinnar prúðmannlegu framkomu hans. Hún bar heimili hans og foreldrum órækt vitni.
Bjarni Ól. Björnsson var hugrakkur fjallamaður og djarfur, ef til vill um of. Hann hafði mikið yndi af náttúrufræði og óskaði einskis fremur en geta stundað hana í tómstundum sínum. Það hafði hann gert síðustu árin.
Bjarni unni Eyjunum, eins og svo margir, sem þar alast upp. Og hann gerði meir en unna Eyjunum sínum. Hann óskaði þess einlæglega að mega dveljast þar og starfa, helga þeim starfskrafta sína. Það hafði hann afráðið, þegar hann lézt.
Bjarni Ól. Björnsson var góður sonur, umhyggjusamur móður sinni og nærgætinn. Þannig bróðir var hann einnig. Af hinum mörgu systkinum frá Bólstaðarhlíð, 8 talsins, var Bjarni einn eftir heima, enda yngstur þeirra. Öll hin hafa stofnað sitt eigið heimili og eru búsett í Vestmannaeyjum.

Ágúst Markússon

Ágúst Markússon.

Á sumrinu 1959 fannst okkur Eyjabúum stutt stórra högga milli, þegar sú sorgarfregn barst til okkar, að dauðaslys hefði átt sér stað á v.b. Þórunni, sem stundaði síldveiðar þá fyrir Norðurlandi. Það var 10. júlí. Á bátnum var sonur skipstjórans, Ágúst, 16 ára að aldri. Hann varð fyrir höfuðhöggi við vinnu á bátnum og dó af því.
Ágúst Markússon frá Ármóti hér í Eyjum var fæddur 26. júlí 1943. Hann var sonur hjónanna Auðar Ágústsdóttur smiðs JónssonarVarmahlíð í Eyjum og Markúsar skipstjóra og útgerðarm. Jónssonar smiðs að Ármóti Gíslasonar snikkara, er lengi bjó hér í Eyjum, bæði í Uppsölum og í Nöjsomhed.
Kona Ágústs Jónssonar er Pálína Eiríksdóttir bónda í Kraga á Rangárvöllum Pálssonar. Kona Jóns Gíslasonar var Þórunn Markúsdóttir bónda á Lágafelli í Landeyjum Þórðarsonar.
Ágúst Markússon settist í 1. bekk Gagnfræðaskólans hér haustið 1956.
Ekki verður með réttu sagt, að Ágúst væri neinn áberandi námsmaður á bókina, en ýmsa aðra eiginleika átti hann í ríkum mæli, eiginleika, sem ekki eru minna virtir og mikilvægir í þeim skóla: Hann var áberandi vel upp alinn, prúður í framkomu, traustur í trúnaðarstörfum og efni í mikinn hagleiksmann. Allt verklegt starf virtist leika í höndum hans. Hefði honum enzt aldur, hefði hann eflaust orðið afburða góður smiður, eins og hann átti kyn til í báðar ættir.
Með auknum þroska gerðist Ágúst Markússon liðtækur sjómaður, áhugasamur og skyldurækinn, og var orðinn, þó ungur væri, einn af beztu liðsmönnum föður síns á bátnum, átakagóður, ólatur og lifandi í starfi.

Sá, sem guðirnir elska, deyr ungur, segir hið gamla huggunarorð. Mér er ekki unnt að vita eða skilja sannleiksgildi þess fremur en svo margs annars, sem dulrænt er og hulið vitund og skilningi okkar mannanna. Þó gæti ég vel fellt mig við það, að allt eigi sitt markmið í tilverunni og allífinu, eins það, þegar ungum er kippt burtu héðan, fluttur til „meira að starfa guðs um geim“, eins og listaskáldið góða ályktaði og orðaði það.
Allt grær, líka mannanna sár. Það er guðsblessunin mikla í sorgum og söknuði.
Við vottum nánustu ástvinum og venzlafólki þessa unga fólks dýpstu samúð okkar og vonum, og vitum raunar, að hinar góðu endurminningar um það muni lengi ylja, og svo „merla í mánasilfri hvað sem var,“ þá stundir líða.
Það er eitt af hinum góðu lögmálum lífsins, sem fegra og bæta mannlífið.

Þ.Þ.V.