„Blik 1978/„Í hneykslanlegri sambúð“, II. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: (framhald) Guðmundur bóndasonur frá Auraseli dvaldist á ýmsum heimilum í Vestmannaeyjum. Hann var eftirsóttur starfsmaður og gat valið úr dvalarst...)
 
(tilvísun á fyrri grein "til baka")
Lína 113: Lína 113:




 
[[Blik 1978/„Í hneykslanlegri sambúð“|Til baka]]


{{Blik}}
{{Blik}}

Útgáfa síðunnar 4. september 2009 kl. 14:27

(framhald)


Guðmundur bóndasonur frá Auraseli dvaldist á ýmsum heimilum í Vestmannaeyjum. Hann var eftirsóttur starfsmaður og gat valið úr dvalarstöðum, ekki sízt sökum þess hve hann var mikill smiður og lundléttur atorkumaður til allra starfa. Hann var t.d. vinnumaður hjá prestshjónunum að Ofanleiti, séra Brynjólfi Jónssyni og maddömu Ragnheiði Jónsdóttur, á árunum 1863-1865. Þá var hann einnig vinnumaður hjá sýslumannshjónunum í Nöjsomhed, honum Bjarna E. Magnússyni sýslumanni og frú Solveigu Hildi Thorarensen.

Fátt var um „vinnukvennaböll“ eða „vinnumannasamkundur“ í Vestmannaeyjum á þessum árum. Helzt sást fólk við kirkjugöngur. Og svo nálgaðist það hvort annað, þegar það gríndi í auglýsingar hreppsyfirvaldanna og einokunarkaupmannsins á kirkjuhurðinni. Í kirkjunni sjálfri var fólkið hins vegar greint sundur til hægri og vinstri eftir kynjum.

Samt atvikaðist það iðulega, að kynin náðu að nálgast hvort annað, og sum þeirra felldu þannig saman hugi, stundum lauslega til stundargamans, stundum til varanlegs samlífs.

Guðmundur vinnumaður og smiður Ögmundsson og Margrét Halldórsdóttir ekkja frá Oddstöðum þekktu hvort til annars frá dvöl þeirra í Landeyjunum og fleiri sveitum Rangárvallasýslu. Þau drógust síðan hvort að öðru í fásinninu og einangruninni þarna á „hala veraldar“, eins og sumir orðuðu það. Og Guðmundur vinnumaður reyndist sem fyrr frekur til fjörsins og frískur til athafnanna. — Í húmi haustsins 1868 gerði hann ekkjunni frá Oddstöðum barn, sem fæddist 16. ágúst 1869. Þetta óhapp þeirra hjúanna vakti nokkurt umtal manna á milli í hinni fámennu byggð, þegar Margrét var farin að þykkna undir belti. Og allir virtust vita föðurinn að barni hennar. Það var hið fimmta barnið hennar, sem hún fæddi í Eyjum síðan hún flutti þangað 21 árs að aldri. Og fjögur þeirra hafði hún fætt í löglegu kirkjulegu hjónabandi. Þetta leyfi ég mér að minna á, því að prestur virðist hafa gleymt því, þegar hann skráði þetta barn inn í kirkjubókina af gremju yfir þessum óskilgetnu börnum, sem ávallt öðru hvoru skutu fram kollinum þrátt fyrir tíðar kirkjugöngur og strangar predikanir um skírlífi, og svo aðvaranir um ýmiskonar ástarbrall og hneykslanlega sambúð karla og kvenna, sem varðaði við lög hins kristilega, íslenzka þjóðfélags, — siðgæðislög, staðfest af sjálfum kónginum úti í henni Kaupmannahöfn.

Gjarnan vildu þau rugla saman reytum sínum, Guðmundur og Margrét sem engar voru þó raunverulega, og hefja búskap. Þó hafði hann engan áhuga á hjónabandi. Hann bar enn kala í brjósti til kirkjunnar þjóns og stofnunarinnar, sem á sínum tíma krafðist þess, að hann gengist við faðerninu hjá vinnukonunni á Bryggjum. — En hvar var húsaskjól að fá? — Eftir snatt og snudd, japl og fuður út og suður aumkaðist blessuð gamla konan hún Arndís Jónsdóttir, ekkjan í tómthúsinu Kastala, yfir þau og veitti þeim húsaskjól, þó að hún byggi yfir miklu minna húsrúmi en hjartarúmi, því að vistarverur hennar voru í allra knappasta lagi fyrir hana eina hvað þá hjónaleysi með barn. Kastali var eitthvert minnsta tómthúsið í allri Vestmannaeyjabyggð.

Presturinn skírði óskilgetna barnið þeirra Guðmundar og Margrétar og gleymdi ekki að geta þess í kirkjubók, að það væri óskilgetið, — komið undir í hneykslanlegu samlífi. Barn þetta var sveinbarn og hlaut nafnið Júlíus. Og svo höfðu skötuhjú þessi hafið hneykslanlega sambúð í tómthúsinu Kastala með því að hin hjartahlýja og guðhrædda ekkja, hún Arndís Jónsdóttir, sá aumur á þeim.

Prestur hét því með sjálfum sér, að ekki skyldi það óátalið, ef þau stofnuðu til annarrar barneignar, þessi skötuhjú, áður en þau létu gifta sig. En Guðmundur var þver og lofaði engu, þegar prestur orðaði þetta mál við hann, og þó voru þeir mátar hinir mestu síðan Guðmundur var vinnumaður hjá presthjónunum á Ofanleiti.

Árið 1872 fengu þau hjónaleysin Guðmundur Ögmundsson og Margrét Halldórsdóttir inni í tómthúsinu Götu, sem stóð nálega þar sem bókaverzlun þeirra feðga Þorsteins Jónssonar (Þ. Johnson) og Óskars sonar hans var staðsett um tugi ára við Kirkjuveginn (nr. 12) eða frá stofnun til þess dags, að gosið brauzt út á Heimaey.

Fátækasta og umkomulausasta fólki kauptúnsins var oft komið fyrir í tómthúsinu Götu, enda var húsræksni þetta á valdi hreppsnefndarinnar eða í eigu hreppsfélagsins.

Þarna í Götu ól Margrét Halldórsdóttir annað barn þeirra hjónaleysanna. Það var sveinbarn og fæddist 27. desember 1872.

Séra Brynjólfur Jónsson, sóknarprestur, skírði barnið fljótlega eftir fæðingu, eins og venja var þá af öryggisástæðum, og var sveinninn skírður Ögmundur í höfuðið á afa sínum í Auraseli.

Prestur gerir þá athugasemd við skírnarathöfnina skráða í kirkjubók, að þetta sé föðurins þriðja legorðsbrot með tveim konum og „móðurinnar fjórða með tveim“. Þarna hefur presti yfirsést. Margrét Halldórsdóttir ól eiginmanni sínum, Jóni Þ., fjögur börn, eftir að þau giftust. Þetta var þess vegna hið annað legorðsbrot hennar með einum og sama manninum.

Og nú var líka sóknarprestinum nóg boðið. Þessi skötuhjú höfðu nú eignazt tvö börn saman utan hjónabands eða „í hneykslanlegri sam búð“, og enn gaf faðirinn lítið út á það að kvænast barnsmóður sinni. Hann var þvermóðskan einskær. Sóknarpresturinn lét því nú til skarar skríða. Bráðlega eftir skírnarathöfnina skrifaði prestur sýslumanni bréf og kærði Guðmund og Margréti í Götu fyrir það að lifa saman „í hneykslanlegri sambúð“ eins og það var orðað eftir 179. grein almennu hegningarlaganna frá 1869, ef ég man rétt ártalið. Sýslumaður í Vestmannaeyjum var þá hinn danski Michael Marius Ludvig Aagaard. Hann var aldrei neinn áhlaupagarpur og sízt, ef athafnir hans snertu tilfinningar og/eða persónulegar kenndir manna og daglegt líf. Vissulega fann hann til með fátæklingunum og umkomuleysingjum meðal þegnanna, þó að danskur væri og hafinn yfir allan almenning að tign og veldi, borðalagður og borginmannlegur, nema þegar fátæklingarnir í byggðarlaginu, hið hlunnfarna fólk, kúgað og svipt flestum mannlegum réttindum, átti hlut að máli. Þá var hann bljúgur og viðkvæmur. Þá fann hann til, þó að hann gæti á engan hátt reist rönd við mætti peningavaldsins í byggðarlaginu, valdi þess yfir velferð almennings og umboði þess og réttindum af danskri rót.

En nú sótti presturinn á í skjóli kirkjulegs valds og gildandi landslaga. Þá varð sýslumaður að hlýða. Liðíð var fram á vorið 1873, þegar bréf sýslumannsins barst amtmanni suðuramtsins, en honum bar að úrskurða eða gefa síðustu fyrirskipan varðandi þessa „hneykslanlegu sambúð“. Bréfið hafði tafizt mánuðum saman sökum hinna tregu samgangna við Vestmannaeyjar.

Loks svaraði svo amtmaður kæru þessari. Það var 24. nóvember 1873 eða tæpu ári eftir að kæran barst sýslumanni frá sóknarprestinum.

Og hér birti ég svo orðrétt svar amtmannsins yfir Suður- og Vesturamti Íslands varðandi hið hneykslanlega samlíf þeirra Margrétar og Guðmundar.

Bergur Thorberg, amtmaður yfir Suðurumdæmi og Vesturumdæmi Íslands, riddari Dannebrogsorðunnar, kunngerir: að þar eð sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur tilkynnt amtinu, að hlutaðeigandi sóknarprestur hafi skýrt sér frá, að ógiftur maður, Guðmundur Ögmundsson, og ekkjan Margrét Halldórsdóttir í Stakkagerði, lifi saman í hneykslanlegri sambúð, þá áminnist nefndar persónur hér með um að slíta þessari sambúð og skilja innan fjögurra vikna frá því er þessi áminning amtsins hefur þeim birt verið, og gefst þeim jafnframt til kynna, að framhald hneykslanlegrar sambúðar, eftir að þau hafa fengið þessa áminningu yfirvaldsins, varðar straffi eftir 179. gr. hinna almennu hegningarlaga.

Reykjavík, 24. nóvember 1873
Til staðfestu nafn mitt og innsigli Suðuramtsins.
Bergur Thorberg (Innsigli Suðuramts Íslands)

Aagaard sýslumanni barst þetta bréf frá amtmanni ekki fyrr en í apríl 1874. Í desembermánuði fyrra árs var það sent austur í Landeyjar til þess að það yrði sent þaðan til Vestmannaeyja, þegar ferð félli þangað út frá söndum Suðurstrandarinnar. Og það gerðist sem sé á vertíð árið eftir að bréfið var ársett og skrifað.

Eftir að hafa fengið bréf þetta frá amtmanni varðandi hina hneykslanlegu sambúð Guðmundar og Margrétar, brást sýslumaður snöggt við, hann kvaddi báða hreppstjóra byggðarinnar á sinn fund og fól þeim í sameiningu að birta hjónaleysunum tilkynningu amtmanns, en hreppstjórarnir voru þá jafnframt stefnuvottar.

Þegar hér er komið sögu þeirra hjónaleysanna, höfðu þau fengið byggingu fyrir jörðinni Vestra Stakkagerði og bjuggu þar í kofaræksni. Þangað lögðu því hreppstjórarnir í sameiningu leið sína til þess að birta hjónaleysunum orð amtmannsins og Dannebrogs-mannsins Bergs Thorbergs.

                            ----

(Neðanmáls) Hin 179. grein almennra hegningarlaga hljóðaði svo:

„Ef karlmaður og kvenmaður halda áfram hneykslanlegri sambúð, þó að yfirvöldin hafi áminnt þau að skilja, skulu þau sæta fangelsi.“

                             ----

Þegar hreppstjórarnir höfðu innt þetta skyldustarf af hendi, lögðu þeir leið sína austur að Nýjabæ til þess að leggja síðustu hönd á athöfnina. Þarna færði Kristín húsfreyja Einarsdóttir, kona Þorsteins Jónssonar, bónda, hreppstjóra og alþingismanns, þeim kaffi og kökur, sem þeir gæddu sér á á meðan þeir sömdu og skrifuðu tilkynningu til sýslumannsins um það, að þeir hefðu innt þetta ábyrgðarmikla skyldustarf af hendi, — fært hjónaleysunum í Vestra-Stakkagerði áminningu sjálfs amtmannsins yfir Suður- og Vesturlandi hinnar dönsku nýlendu. Og svo færðu þeir sýslumanni þetta plagg:

Áminning til Guðmundar Ögmundssonar og Margrétar Halldórsdóttur um að skilja.

Árið 1874, þriðjudaginn 7. apríl höfum við undirritaðir eiðsvarnir stefnuvottar í Vestmannaeyjahreppi birt og upplesið hinsvegar skrifaða áminningu fyrir Guðmundi Ögmundssyni og Margréti Halldórsdóttur á heimili þeirra, hvað við hér með vitnum í krafti áður unnins eiðs með okkar nöfnum og innsiglum.

Þ. Jónsson
(Innsigli: Þ.J.)
L. Jónsson
(Innsigli: L.J.)“
Þ.J. er Þorsteinn Jónsson, bóndi, hreppstjóri og alþingismaður í Nýjabæ.

L.J. er Lárus Jónsson, bóndi, bátasmiður og hreppstjóri á Búastöðum.

Þegar hjónaleysunum á Vestra-Stakkagerði hafði borizt þessi orðsending frá sjálfum amtmanni Suður- og Vesturamtsins, var þeim vissulega vandi á höndum. Vissulega var þeim ekki til setu boðið. Tugthússvist beið þeirra í steinhúsinu mikla í Reykjavík. Nú urðu þau, þegar að gera það upp við sig, hvort þau vildu skilja samvistir þá þegar eða láta gifta sig hið bráðasta.

Að sjálfsögðu völdu þau síðari kostinn bæði vegna sjálfra sín og ekki síður beggja sonanna.

Að tæpum þrem vikum liðnum frá því að hreppstjórarnir birtu þeim boð amtmanns, eða 26. apríl 1874, létu þau séra Brynjólf Jónsson, sóknarprest, gefa sig saman í heilagt hjónaband. Þau ólu þá með sér bjartar framtíðarvonir, þar sem þau höfðu þá fengið ábúð á einni Vestmannaeyjajörðinni, en ábúð þar á jörð var í rauninni eina skilyrðið til þess að geta orðið nokkurn veginn efnalega sjálfstæður maður í hreppnum, með því líka að Guðmundur var eftirsóttur smiður og reyndist mikill hagleiksmaður í smiðju sinni. Meðal annars smíðaði hann mikið af handfæraönglum fyrir útgerðarmenn og sjómenn í verstöðinni, og svo sóknir, þegar Eyjamenn stunduðu hákarlaveiðarnar á fyrri öld. A jörðinni Vestra-Stakkagerði bjuggu svo þessi hjón næstu 20 árin án þess að neitt sérstakt bæri við í lífi þeirra. Aldurinn færðist yfir.

Afkoma þeirra var bærileg, því að Guðmundur Ögmundsson var eljumaður mikill til sjós og lands og smíðarnar stundaði hann af kappi í hjáverkum sinum.

Þegar þau höfðu búið í gömlu vistarverunum í Vestra-Stakkagerði samfleytt í 20 ár, afréðu þau að byggja sér ný bæjarhús á jörðinni, baðstofu, smiðju og svo hjall. Þennan bæ sinn kölluðu þau Borg, — Borg á Stakkagerðistúni, — kunnur bústaður á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar í Vestmannaeyjum. Þau munu hafa flutt í bæinn sinn Borg árið 1894.

Fullyrt er, að Adam gamli hafi ekki dvalizt lengi í Paradís. Líklega er það alveg rétt. Og víst er um það, að frú Margrét Halldórsdóttir undi ekki lengi í hinum nýja bæ þeirra, Borg á Stakkagerðistúni. Nokkru eftir að þau höfðu lokið við að byggja þennan bæ, kaus Margrét húsfreyja að skilja við bónda sinn, hann Guðmund Ögmundsson. Þá var hún orðin 62 ára eða þar um bil, þreytt á hjónabandinu, búskapnum og allri tilveru sinni. Hún hafði heldur aldrei biðið þess fyllilega bætur eða náð sér andlega, eftir að hún missti yngri drenginn sinn, hann Ögmund litla Guðmundsson. Hann lézt á tíunda árinu. Það var árið 1882.

Júlíus Guðmundsson, sonur hennar, fluttist frá foreldrum sínum austur á Seyðisfjörð árið 1892 og settist þar að. Þar átti hann heima um tugi ára og bjó lengst af í íbúðarhúsinu Hansenshúsi. Frú Margrét Halldórsdóttir þráði ávallt nærveru hans. — Hún var orðin þreytt á allri tilverunni, sneydd allri orku, heilsulítil og svekt í löngu búskaparbasli, búin að lifa 40 ár í tveim hjónaböndum og líklega báðum heldur ástarrýrum.

Árið 1894 afréð frú Margrét að skilja við eiginmann sinn, hann Guðmund Ögmundsson, hverfa frá honum að fullu og segja sig til sveitar. Umfram allt vildi hún fjarlægjast hann. En hann var enn hinn ernasti og lék jafnan við hvern sinn fingur.

Eiginkonan var þess viss, að það orkaði ekki á kenndir hennar, þó að makinn tæki sér aðra konu til fylgilags. Lausnin var henni fyrir öllu. — Valdhafar hreppsins vildu hjálpa henni og gerðu það. Hún fékk inni í tómthúsinu Kuðungi þarna austanvert við Sjómannasundið og sunnan Strandvegarins. Þar voru að jafnaði geymdir „sveitarlimir“, eftir því sem húsrými hrökk þar til, enda átti hreppurinn þetta tómthús.

Guðmundur Ögmundsson á Borg réð sér strax bústýru, sem flutti til hans í „baðstofuna“, hina nýbyggðu á Stakkagerðistúni. Sú kona hét Geirdís Árnadóttir, rösk til allra verka, hálf fimmtug að aldri. Hún var síðan bústýra hjá bóndanum í Borg á Stakkagerðistúni um 11 ára skeið. Og aldrei minntust valdhafarnir á hneykslanlega sambúð karls og konu þarna í Borginni, enda ekkert, sem sagði frá. Séra Oddgeir Þórðarson Guðmundsen var þá heldur ekki svo eftirgangssamur í þeim efnum. Hann var gæddur sjálfsþekkingu, presturinn sá, og mat eftir föngum kosti sína og galla og þóttist þekkja aðra karlmenn af sjálfum sér. Það skyldu fleiri gera.

Seinustu árin, sem Geirdís Árnadóttir var bústýra í Borg, dvaldist þar stundum hjá henni hann Geiri litli dóttursonur hennar. Hann átti það eftir að verða kunnur Eyjamaður, hann Sigurgeir Gunnarsson eða hann Ameríku-Geiri, eins og sumir nefndu hann sökum þess, að hann dvaldi um tíma í Ameríku.

Hún mamma hans, Néríður Ketilsdóttir, saumaði á sínum tíma flest peysufötin á frúr og frúarefni í kaupstaðnum og þótti með afbrigðum vel fær í því starfi.

Þegar frú Geirdís Árnadóttir hvarf frá bústjórninni í Borg, réð Guðmundur Ögmundsson til sín aðra bústýru. Hún hét Guðný Árnadóttir bústýra í Borg.

Mér er tjáð, að frú Margrét Halldórsdóttir hafi flutzt austur á Seyðisfjörð til Júlíusar sonar síns ekki löngu eftir að hún sleit samvistunum í Borg og ent ævi sina þar.

Guðmundur Ögmundsson fleytti sér fram öll síðustu æviárin með starfi í smiðju sinni, sem stóð þarna í húsaröð hans á Stakkagerðistúninu. Hann þótti jafnan snillingssmiður. T d smíðaði hann mikið af handfæraönglum og seldi þá Eyjasjómönnum í ríkum mæli. Sumir þeirra eru til sýnis á Byggðasafni Vestmannaeyja.

Hann lézt árið 1914. Eftir andlát hans fengu ýmsir einstaklingar að hýrast í Borg, bjargræðislítið fólk á vegum hreppsins.

Þau mæðginin Ástgeir Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir frá Bryggjum fluttu til Vestmannaeyja árið 1886. Með honum var bústýra hans, Kristín Magnúsdóttir. Þau Ástgeir og Kristín hófu búskap í Landeyjum í „hneykslanlegri sambúð“, áður en þau fluttust til Eyja. Þar eignuðust þau fyrsta barn sitt. En þegar Kristín bústýra ól annað barnið, tók séra Stefán Tordersen, sóknarprestur, sig til, áminnti hjónaleysi þessi svo, að þau dirfðust ekki að lifa saman lengur í „hneykslanlegri sambúð“ sökum ákvæða 179. gr. hegningarlaganna. Þau féllust þegar á að láta gifta sig og það gerði presturinn vonbráðar.

Þegar Ástgeir Guðmundsson og Kristín bústýra hans Magnúsdóttir fluttust til Eyja, fengu þau inni í tómthúsinu Litlabæ við Strandveg. Þar bjuggu þau síðan til æviloka.

Ástgeir Guðmundsson var á sínum tima mjög merkur þegn í Vestmannaeyjum.

Hann var kunnur formaður og fiskimaður, en framar öllu var hann snillingssmiður, sem réðst í það stórvirki að smíða vélbáta á fyrstu árum vélbátaútvegsins í verstöðinni. Þær smíðar hafði hann síðan að atvinnu um árabil. Dáðst var að handbragði hans og smíðahæfileikum. Fjölmarga skjögtbáta smíðaði hann einnig fyrir útgerðarmenn í Eyjum. Þá smíðaði hann í tugatali.

Afkomendur Ástgeirs Guðmundssonar hafa verið kunnir Eyjabúar til skamms tíma, sumir smiðir góðir og ýmislegt fleira til listar lagt.


Til baka