„Blik 1978/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Lína 193: Lína 193:


Svo að segja allt byggingarefnið var keypt í sömu verzluninni, hjá [[H. Benediktsson og Co.]] í Vestmannaeyjum, en sú verzlun var útibú fráaðalverzluninni í Reykjavík. Umboðsmaður eða trúnaðarmaður þessa fyrirtækis í Eyjum var þá [[Óskar Sigurðsson]]  frá  [[Bólstaður|Bólstað]] (nr.  18) við
Svo að segja allt byggingarefnið var keypt í sömu verzluninni, hjá [[H. Benediktsson og Co.]] í Vestmannaeyjum, en sú verzlun var útibú fráaðalverzluninni í Reykjavík. Umboðsmaður eða trúnaðarmaður þessa fyrirtækis í Eyjum var þá [[Óskar Sigurðsson]]  frá  [[Bólstaður|Bólstað]] (nr.  18) við
{{Blik}}

Útgáfa síðunnar 2. september 2009 kl. 15:28

ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum

framhald

Í Bliki 1974 og 1976 birtist saga fimm kaupfélaga í Vestmannaeyjum. Hér höldum við fram með sögu þessara verzlunarsamtaka.

I

Kaupfélag verkamanna

Kaupfélagið Drífandi í Vestmannaeyjum var leyst upp eða gert upp árið 1931, eins og greint er frá í Bliki árið 1976, 32. árgangi ritsins.

Ástæðurnar fyrir því að svona fór um kaupfélag þetta voru fyrst og fremst af tveim rótum. Fjárhagskreppan mikla, sem þá fór í hönd, var tekin að gera vart við sig með lækkandi afurðaverði ár frá ári. Þetta fyrirbrigði hafði þrengt mjög efnahag kaupfélagsins, en þar var félagsbundinn töluverður hópur hinna smærri útvegsbænda í kaupstaðnum, en þeir stóðu nú orðið höllum fæti fjárhagslega sökum verðfallsins.

Á hinu leitinu réði svo úrslitum hin pólitíska sundrung. Þar var ekki orðin samstaða um eitt eða neitt.

Alþýðuflokksmennirnir í kaupstaðnum, hinir áhrifaríkustu þeirra, höfðu til þessa mótað hina breiðu fylkingu og þeir voru hinar styrkustustoðir kaupfélagsins, enda stofnendur þess. Nú lágu þeir undir áföllum, árásir „Félaga Stalins“ dundu á þeim daglega og þeir sættu svívirðingum opinberlega frá sumum starfsmönnum kaupfélagsins. — Allir vissu þó einlægni og áhuga kaupfélagsstjórans, Ísleifs Högnasonar, gagnvart verkalýð og hagsmunamálum hans í verkalýðs- og verzlunarsamtökunum. En nú virtist hann ekki orðið við neitt ráðið. Starfsmenn kaupfélagsins óðu uppi í ofstæki og árásarhug og skirrðust ekki við að auglýsa svívirðingar sínar og andúð á Alþýðuflokksmönnunum i stjórn kaupfélagsins með hlemmistórum auglýsingum í búðargluggum kaupfélagsverzlunarinnar. Mótmæli kaupfélagsstjórans gegn slíkum athöfnum hefðu verið dæmd svik og undanlátssemi við stefnu og hugsjónir hinna nýbökuðu kommúnistaforingja í kaupstaðnum, sem kölluðu sig „Félaga Stalins“ og skálmuðu í kósakkastökkum um götur bæjarins. Þessi nýju öfl virtust kaupfélagsstjóranum algjört ofurefli. — Þarna var mágur hans fremstur í flokki. Þeir sem þekktu bezt mannkosti kaupfélagsstjórans vildu ógjarnan saka hann um óhamingju þessa, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Nú var svo komið fyrir verkalýðsstéttinni í Vestmannaeyjum, að hún átti ekkert verzlunarfélag til þess að halda niðri vöruverði í kaupstaðnum og vinna að batnandi hag verkafólks þar til sjós og lands.

Hagsmunamál verkalýðsins voru Ísleifi Högnasyni, kaupfélagsstjóra, hjartans mál. Enginn dró það í efa. Og enn naut hann trausts forustumanna S.Í.S., þótt svona færi um Kaupfélagið Drífanda.

Ísleifur Högnason afréð að stofna nýtt kaupfélag. Það skyldi heita Kaupfélag verkamanna.

Að sjálfsögðu voru fjárráð hans til þess að reka þetta nýstofnaða kaupfélag ekki mikil. En ráðandi menn í samvinnusamtökunum í landinu báru traust til hans. Og sjálfur gat hann treyst á hyggjuvit sitt og fjármálaskyn. Hvort tveggja var honum meðfætt.

Sjálfur var hann ekki fjáður maður. En hann átti viðskiptatraust ýmissa mætra manna bæði innan bæjarfélagsins og utan. Hópur verkamanna og verkakvenna trúði á hann, mat einlægni hans, dugnað og hyggjuvit. Hann hafði oft sýnt það og sannað, að honum varð oft mikið úr litlu.

Og svo var hafizt handa um að stofna kaupfélagið, — undinn að því bráður bugur. Stofnfundur þess var haldinn 30. janúar 1931. Þá hafði samvinnufélagi þessu verið samin lög. Þau voru í 26 greinum. Kaupfélagið skyldi heita Kaupfélag verkamanna, — skammstafað K.V.M.

Í lögum þess segir: „Tilgangur félagsins er: 1) að selja félagsmönnum vörur til heimilisþarfa. 2) að sporna við skuldaverzlun og vinna að því, að félagsmenn geti keypt vörur sínar gegn staðgreiðslu. 3) að veita forstöðu og styðja aðra starfsemi, sem ætla mætti að væri félagsmönnum til hagsældar efnalega og menningarlega ..."

„Félagið er samvinnufélag samkvæmt landslögum og verzlar aðeins gegn staðgreiðslu. Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum þess fram yfir það, sem nemur stofnsjóðseign þeirra hvers um sig. Við stofnsjóðseign félaga skal leggja helming af úthlutuðum tekjuafgangi auk stofnsjóðstillags samkvæmt 18. grein, unz innstæðan nemur 300 krónum ...“

“Inngöngu í félagið fá allir neytendur, karlar eða konur, sem búsettir eru á félagssvæðinu og hafa einlægan vilja á því að styðja félagið í starfsemi þess. Engan má kjósa í stjórn félagsins nema hann sé félagsmaður. Byrji einhver félagsmaður atvinnurekstur, sem ekki er samrýmanlegur starfsemi félagsins, og gegni hann trúnaðarstöðu í félaginu, skal honum vikið frá starfinu og annar settur í hans stað. Enginn getur orðið eða verið félagsmaður, sem rekur verzlun samkvæmt borgarabréfi...”

„Inngöngueyrir er kr. 5,00, sem rennur í félagssjóð...“

„Félagsmaður getur sætt brottrekstri úr félaginu fyrir þessar sakir: 1) ef hann verður uppvís að því að spilla áliti félagsins og vekja tortryggni til þess hjá félagsmönnum. 2) ef hann telur félagsmenn á að draga viðskipti sín frá félaginu. 3) ef hann sýnir félaginu ítrekuð vanskil...“

„Í stofnsjóð leggjast árlega sem séreign hvers félagsmanns eigi minna en 3% af verði þeirra vara, sem hann kaupir i félaginu. Fé sjóðsins skal nota sem veltufé í félagsþarfir ...“

„Félagið tekur á móti fé hjá félagsmönnum til ávöxtunar í innlánsdeild samkvæmt reglugerð, sem stjórnin semur og aðalfundur samþykkir. Fé það, sem inn er lagt, skal nota sem veltufé í félagsþarfir. Varasjóður félagsins og aðrar eignir þess skal vera til tryggingar því, sem lagt er í innlánadeildina...“

„Félagið stofnar sérstakan sjóð, sem nefnist styrktarsjóður verkalýðssamtakanna. Skal í sjóð þennan leggja árlega eigi minna en 10% af nettóarði undanfarins árs. Sjóði þessum skal varið til eflingar og styrktar verkalýðssamtökunum samkvæmt ráðstöfunum stjórnarinnar, enda gefi hún árlega skýrslu um það, hvernig fé sjóðsins hefur verið varið og leiti til þess samþykkis fundarins. Sá fundur tekur ákvörðun um það, á hvern hátt fé sjóðsins skuli varið næsta ár.“ (21. gr. kaupfélagslaganna).

Úr sjóði þessum var t.d. sjómönnum og verkamönnum veittur styrkur í kaupdeilu, sem þeir áttu í árið 1932.

Stofnendur Kaupfélags verkamanna voru um 80 talsins. Það opnaði búð um það bil mánuði eftir stofnfundinn eða 1. marz 1931. Þá hafði það fengið inni á Þorvaldseyri (nr. 35) við Vestmannabraut fyrir búð og skrifstofu. Eigandi húss þessa var þá Einar málarameistari Lárusson. — Sölubúðin var í kjallara hússins og skrifstofan á aðalhæð.

Í fyrstu stjórn Kaupfélags verkamanna voru kosnir þessir menn: Ísleifur Högnason, kaupfélagsstjóri, Haraldur Jónasson verkamaður í Garðshorni (nr. 40) við Heimagötu, Ingibergur Hannesson, verkamaður í Hjálmholti (nr. 34) við Urðaveg, Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari í Brúarhúsi (nr. 1) við Vestmannabraut, og Guðmundur Gíslason, sem gerðist starfsmaður kaupfélagsins, — búðarmaður, og vann því að trúnaði og dyggð meðan hann dvaldist í Eyjum. Að baki verzlunarsamtökum þessum stóð hópur verkamanna og verkakvenna, „sem hertur var í eldi stéttabaráttunnar“, eins og komizt er að orði í frumheimild. Jafnframt segir þar: „Var þetta fólk ákveðið í því að standa vörð um verzlunarsamtök sín ... Vert er að minnast þess með þakklæti og aðdáun, hve skilningur fólksins á þessum samtökum var mikill.“

Þess er að gæta, þegar hugleidd er tala félagsmanna, að nú hafði megn klofningur átt sér stað í hópi verkalýðsins í Vestmannaeyjum bæði til sjós og lands, þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður. Þess vegna var allur helmingur verkalýðsins í kaupstaðnum andstæður þvi að efla þessi nýju verzlunarsamtök til þess að skapa ekki hinum nýstofnaða pólitiska flokki öflugt vígi og brautargengi. Það var sá armur verkalýðssamtakanna, sem enn hélt tryggð við Alþýðuflokkinn.

Ekki var starfslið hins nýstofnaða kaupfélags fjölmennt í fyrstu. Stúlka og karlmaður önnuðust afgreiðsluna í búðinni, og svo kaupfélagsstjórinn sjálfur, þegar mikið var þar að gera. Að öðru leyti annaðist hann skrifstofustörfin, vöruinnkaupin og dagleg viðskipti önnur út á við. Kaupfélagsstjórinn taldi ekki daglegu vinnustundirnar sínar. Kaupfélagið var hugsjón hans.

Eftir nokkurn tíma stofnaði Kaupfélag verkamanna til útibús að Vestmannabraut 1, Brúarhúsi, til hagræðis þeim, sem bjuggu í austanverðum kaupstaðnum, því að erfitt var að senda hverjum einum vörur heim á þessum fjárkreppuárum. Þarna rak það útibúið í 12 ár, þó að verzlunarhúsnæðið væri þröngt og borulegt.

Fyrstu 7 árin verzlaði Kaupfélag verkamanna svo að segja einvörðungu með matvörur, hreinlætisvörur og búsáhöld. En árið 1937 opnaði kaupfélagið vefnaðarvörubúð í húseigninni Björk við Vestmannabraut (nr. 47). Þarna seldi það fyrst og fremst verkamannaföt, skófatnað og margskyns smávörur. Innflutningshöft voru þá mjög í tízku og innflutningsleyfi takmörkuð. Vörubirgðir þessarar verzlunar fullnægðu enganveginn þörfum félagsmanna á vörum þessum sökum haftanna. Þess vegna dundu tíðar áskoranir á innflutningsnefnd um aukin innflutningsleyfi til handa kaupfélaginu, en lítið dugði það á þeim erfiðu tímum.

Til þess að létta vesturbyggjurum kaupstaðarins viðskiptin við kaupfélagið, þar sem ekki fengust nauðsynleg leyfi, svo að tök væru á að senda vörur heim, þá stofnaði Kaupfélag verkamanna útibú að Hásteinsvegi 4. Sú verzlun var síðan flutt að Skólavegi 13, í hús hjónanna Ólafs Björnssonar og frú Eyglóar Stefánsdóttur.

Snemma á árinu 1939 eða í marzmánuði keypti Kaupfélag verkamanna vísi að verzlunarhúsi, sem Kaupfélag Eyjabúa hafði hafið byggingu á en orðið að leggja upp laupana, áður en það gat lokið byggingarframkvæmdum þessum og gert húsið nothæft.

Um árabil hafði hústóftin staðið þarna við Bárugötuna (nr. 6) án allra framkvæmda við hana. Útvegsbankinn í kaupstaðnum hafði lánað fé til þessara framkvæmda, enda var ekki vonlaust um, að efling þessa kaupfélags í bænum gæti eflt Flokkinn með tímanum. Þá var þó nokkuð unnið. En nú urðu þær vonir að engu. Og bankastjórinn reyndi eftir megni að gera sér sem gleggsta grein fyrir því, hvernig þessari hústóft yrði bezt ráðstafað, svo að bankinn hlyti sem minnstan skaða af hjálpsemi sinni við „Kaupfélag Flokksins“.

Þegar frá leið fannst bankastjóranum það hyggilegast að bjóða Kaupfélagi verkamanna að kaupa þessar leyfar „hins frjálsa framtaks“ flokksbræðra sinna í bænum. Hann sannaði þar sem endranær, að hann mat meira fjárhagslegt öryggi bankans en efling flokksstarfsins, þegar á reyndi.

Ísleifur Högrtason, kaupfélagsstjóri, sá Kaupfélagi verkamanna hag í þeim húsakaupum. Jafnframt greiddi Útvegsbankinn í kaupstaðnum fyrir Kaupfélaginu í fjárhagslegu tilliti, meir en áður hafði átt sér stað. Þannig tryggði bankinn sér greiðslu byggingarskuldarinnar og efldi Kaupfélag verkamanna, því að bankastjórinn treysti kaupfélagsstjóranum þrátt fyrir allt, sem á milli bar í stjórnmálaþjarkinu.

Kaupverð húseignar þessarar að Bárugötu 6 var kr. 12000,00, sem Kaupfélagið fékk að greiða með hagstæðum skilmálum. Það greiddi kr. 2500,00 við undirskrift kaupsamnings og kr. 9500,00 á nokkrum árum.

Sumarið 1939 var unnið mikið við húsbyggingu þessa. Síðast á árinu futti síðan Kaupfélag verkamanna alla starfsemi sína í þessi nýju húsakynni að Bárugötu 6. Þarna var rumgóð matvörudeild með afgreiðslu á kjötvörum. Þarna rak kaupfélagið vefnaðarvörudeild, búsáhaldadeild o.fl. Og svo átti það þarna vörugeymslu. — Á efri hæð byggingarinnar hafði kaupfélagið skrifstofur sínar.

Þegar hér var komið rekstri kaupfélagsins og aðstöðu, jók það stórum alla verzlun sína og þjónustu við almenning í bænum.

Árið 1944 var hafizt handa um að stækka þetta verzlunarhús Kaupfélags verkamanna að Bárugötu 6. Verzlunarhæðin var lengd til suðurs með Bárugötunni. Síðan var önnur hæð hússins fullbyggð og tekin í notkun. Þarna var þá risið stórt, tvílyft verzlunarhús á bezta verzlunarstað í bænum. Á efri hæð var fullgerð íbúð auk skrifstofurýmis, sem var aukið að miklum mun.

Árið 1943 sagði Ísleifur Högnason, kaupfélagsstjóri, lausu starfi sínu og fluttist burt úr bænum. Hann gerðist kaupfélagsstjóri Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis (KRON). Sú ráðning sannaði bezt það mikla traust, sem Ísleifur Högnason hafði áunnið sér í kaupfélagsstjórastörfunum í Vestmannaeyjum, þar sem honum hafði lánast með hyggjuviti, gætni og ötulleik að byggja upp kaupfélag „hinnar vinnandi stéttar“ með svo að segja tvær hendur tómar.

Við kaupfélagsstjórastarfinu í Vestmannaeyjum tók nú Eyjólfur Eyjólfsson, fyrrv. bankastarfsmaður í Reykjavík. Hann var þarna kaupfélagsstjóri í 6 ár. Þá réðst að kaupfélaginu Friðjón Stefánsson, sem verið hafði kaupfélagsstjóri áður bæði austur á Seyðisfirði og suður á Akranesi. Hann hafði þess vegna hlotið nokkra þjálfun í rekstri slíkra verzlunarfyrirtækja. En ekkert stoðaði.

Kaupfélag verkamanna var orðið gjaldþrota sjö árum eftir að Ísleifur Högnason hvarf frá því, og átti það þó verzlunarhús sitt að mestu leyti skuldlaust, þegar kaupfélagsstjóraskiptin áttu sér stað árið 1943 og hafði tórað öll kreppuárin. Og það segir út af fyrir sig sína sögu um stjórn og rekstur fyrirtækisins á þeim árum.

Kaupfélag verkamanna var eitt af Sambandsfélögunum frá fyrstu tilveru sinni, og vann kaupfélagsstjórinn, I.H., mikið þar að ýmsum félagsmálum.

Árið 1950 lét S.Í.S. loka búð eða verzlun kaupfélagsins. Þá var það tekið til uppgjörs. Sá atburður leiddi til stofnunar Kaupfélags Vestmannaeyja, sem enn er við lýði. Það gerðist haustið 1950.

Saga Kaupfélags Vestmannaeyja verður ekki birt hér að þessu sinni.

Það varð hlutskipti mitt að beita mér fyrir stofnun þess, safna undirskriftum væntanlegra þátttakenda og tala máli félagssamtakanna. Það verk vann ég samkvæmt einlægri ósk endurskoðenda S.Í.S., sem þá höfðu lokið við að gera upp reikninga Kaupfélags verkamanna og búa undir félagsslitin. Það voru þeir Kristleifur Jónsson og Björn Stefánsson. Heimsókn þessi átti sér stað 9. okt. 1950.

Heimildir að þessum þætti í samvinnusögu Vestmannaeyja: Fyrirlestur, sem Guðmundur Gíslason, sem starfaði um 15 ára skeið hjá Kaupfélagi verkamanna, flutti eitt sinn í Reykjavík um kaupfélagið og starf þess; einkabréf frá nánustu aðstandendum; eigin kynni og vitund.

II

Kaupfélag alþýðu

Mér er saga þessa kaupfélags viðkvæmnismál.

Ég stofnaði sjálfur þetta kaupfélag veturinn 1932. Þó er mér það ekki auðvelt að skrifa sögu þess svo vel og rækilega, sem ég hefði kosið. Ástæðurnar eru þær, að ég hefi engin gögn í höndum eða lítil, sökum þeirra endalykta, sem þessi samtök fengu, og þó sérstaklega hvernig mér var bolað frá þeim. — Þá skráði ég ekki dagbók nema um þróun unglingafræðslunnar í bænum, stríðið við hin andstæðu öfl, reynslu og fyrirbrigði.

Ég var alinn upp við samúð með hinum „vinnandi stéttum“ í landinu, eins og þá var almennt komizi að orði, en það voru verkalýðsstéttirnar til sjós og lands, og svo bænda stéttin og iðnaðarmennirnir í þjóðfélaginu. Málsvarar þessara stétta í þjóðfélaginu okkar voru þá tveir stjórnmálaflokkar, Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, af sjónarhóli þess fólks, sem næst stóð mér.

Þegar ég kom heim frá námi Noregi sumarið 1924, tók ég brátt að vinna að gengi Alþýðuflokksins á Nesi í Norðfirði. Samvinna okkar Jónasar Guðmundssonar, sem síðar varð landkunnur verkalýðsforingi á Austurlandi og félagsmálafrömuður, varð brátt náin. Ég reyndi eftir megni að styrkja hann í starfi, af því að mér féllu vel í geð hugsjónamál hans og lífsstefna. Hinn mikilhæfi og hógværi foringi Alþýðuflokksins, Jón Baldvinsson, var okkur vel að skapi, vitur maður og hógvær, fastur fyrir og sækinn að sama skapi, — trúr hugsjónamálunum. Þá þekktist ekki í landinu neinn annar stjórnmálaflokkur, sem hafði það sérstaklega á stefnuskrá sinni að bæta eftir föngum hag eða kjör verkalýðsstéttanna við sjávarsíðuna. „Félagar Stalins“ voru þá ekki á dagskrá. Hugtakið var óþekkt á Austurlandi þá, að ég bezt veit.

En tímarnir tóku að breytast og mennirnir með. Ekki höfðum við hjónin dvalizt lengi í Vestmannaeyjum, þegar við urðum þess áskynja, að andinn og einingin í samtökum verkalýðsins þar var ekki hin sama og fyrir austan. „Félagar Stalins“ óðu þarna uppi með stóryrði, brigzlyrði og sleggjudóma. Þeir virtust ekki sjá sólina fyrir rússneskum stjörnum á himni stjórnmálanna. Þeir komust brátt í andstöðu við vissa forustumenn Alþýðuflokksins í Reykjavík. Auðvitað var upphaf þessa klofnings í skoðunum og starfi sótt til „höfuðborgarinnar“. Þar sauð og vall. Og ylgja þessi barst fyrr til Norðurlandsins og vestfjarða en austur á bóginn.

Hið kommúnistiska fyrirbrigði í landinu eignaðist fljótlega flokk málsvara í Vestmannaeyjum. Þeir fóru sér þó hægt í fyrstu, meðan grafið var undan fylgi Alþýðuflokksins og foringjar hans gerðir sem allra mest tortryggilegir í hug og hjarta þeirra, sem njóta skyldu „samtakanna“. Og svo tóku brigzlyrðin að ganga á víxl manna á milli og á fundum, svo að sögur spruttu af.

„Þú hefur klofið, Jónhildur“, fullyrti Þorgerður verkakona með þjósti á verkakvennafundi og beindi orðum sínum að aldraðri verkakonu, sem þekkt var fyrir ötult starf í „samtökunum“. — „Fjarri fer því“, sagði Jónhildur. „Vissulega ert það þú, sem hefur klofið, Þorgerður mín. Sú sök verður ekki af þér skafin.“ Svona gátu þær þjarkað í sundurlyndi og samtakaleysi, og gárungarnir á næsta leiti hlógu dátt og túlkuðu orðin á sína vísu. Þessi skaðvænlegu fyrirbrigði í „samtökunum“ komu ekki við gáskapeyjana, voru þeim fjarri, — flestum að minnsta kosti. Og sumir skemmtu sér konunglega.

Þannig var oft þráttað um það, hver eða hverjir ættu upptökin að þessari ógæfu verkalýðssamtakanna, klofningnum skaðsamlega í Vestmannaeyjum, hinum pólitíska klofningi, sem gagnsýrði líka afstöðu manna til kaupgjaldsmálanna í bænum.

Kommúnistadeildin í Vestmannaeyjum naut stuðnings Kaupfélags verkamanna í kaupstaðnum. Við Alþýðuflokksmenn sáum ofsjónum yfir þeirri velgengni og vildum líka eiga verzlunarsamtök flokki okkar til stuðnings og samheldni.

Við afréðum að stofna sérstakt kaupfélag, sem safna skyldu fyrst og fremst fjölskyldum Alþýðuflokksmanna undir væng sinn. Ef þetta fyrirtæki okkar heppnaðist vel, gat það dregið að sér fylgi og pólitískan mátt og eflt þannig um leið verkalýðssamtökin í bænum og haldið í skefjum „ofstækinu hinummegin", eins og sumir orðuðu það.

Við ræddum þessi verzlunarmál vel og ýtarlega. Peninga höfðum við enga til þess að hefja þetta starf. Og ekki voru líkindi til þess, að þeir lægju svo auðveldlega á lausu, þar sem fátækasti hluti fólksins átti hlut að máli.

En við vorum samhuga og einbeittir. Og við afréðum að láta til skarar skríða og til stáls sverfa, eins og þar stendur, og hefjast handa. Flokksmenn mínir fólu mér framkvæmdir um stofnun kaupfélagsins og rekstur þess. Þeir hétu mér hinsvegar öllum stuðningi sínum, eftir því sem þeir gætu bezt gert.

Þarna hafði ég við hlið mér Högna Sigurðsson í Vatnsdal, drengskaparmann, hygginn, og að mínum dómi stórgáfaðan. Hann hafði nokkra reynslu af rekstri kaupfélags, því að hann var einn af stofnendum k/f Fram árið 1917 og hafði verið í stjórn þess um árabil. Hann var sem kunnugt er, hálfbróðir Einars ríka Sigurðssonar, samritara „meistarans mikla“.

Við sömdum kaupfélaginu okkar lög og reglur. Það skyldi heita Kaupfélag alþýðu. Ég var kjörinn formaður stjórnarinnar. Með mér í stjórn var m.a. Högni Sigurðsson, einlægur flokksmaður og að reynslunni ríkari um rekstur kaupfélags. Við fengum leigt húsnæði í Kaupangri, húsinu nr. 39 við Vestmannabraut, alla neðri hæðina að vestanverðu. Það var þá eign Helga Benediktssonar, kaupmanns og útgerðarmanns m.m. — Þetta gerðist á vertíð 1932.

Og svo var það vandinn fyrsti, sem leysa þurfti. Hann var sá, að fá vörur í búðina án þess að hafa eyri milli handa. Við vorum veltufjárlausir með öllu. Hinar fáu krónur, sem félagsmenn höfðu greitt í félagssjóðinn, urðum við að nota til þess að greiða þeim, sem lagfærðu búðarholuna fyrir okkur og sköpuðu okkur aðstöðu þar til afgreiðslu á vörunum, og svo auðvitað til kaupa á nauðsynlegum áhöldum.

Um lán í bankanum í bænum var ekki að ræða. Vitaskuld var ekkert vit í því að lána rekstrarfé fyrirtæki, sem stofnað var til höfuðs öðru fyrirtæki, sem skuldaði þá bankanum drjúgan skilding. Og svo var enginn okkar í þessum verzlunarsamtökum í flokki „hinna heldri manna“ í bænum, en stéttaskipting í kaupstaðnum lét þá býsna mikið á sér bera. Og svo var enginn okkar þekktur á viðskiptasviðinu, aldrei borið það við að pranga eða braska. Ofan á allt þetta var svo fjárhagskreppa herjandi um allan heim.

Í von og óvon fór ég til Reykjavíkur til þess að „slá út“ vörurnar. Fá þær lánaðar út á „andlitið á mér“, eins og stundum er komizt að orði um þá, sem fá lán án allra trygginga og lítillar fjárhagslegrar getu. Og vörurnar fékk ég í svo ríkum mæli, að við fylltum búðina okkar. Mest voru það matvörur og svo aðrar nauðsynjar til daglegrar notkunar í heimilisrekstri. Aðrar vörur rúmuðust ekki í litlu búðarholunni okkar þarna í Kaupangri.

Ég réð sjálfan mig afgreiðslumann í búðina án allra launa til þess að geta safnað sem fyrst eilitlu veltufé. Ég hafði búðina opna síðari hluta dagsins eða eftir klukkan þrjú á daginn, þegar ég hafði lokið starfi mínu í Gagnfræðaskólanum. Þannig var þetta einnig á laugardögum. Hugsjónin var mér allt. Og voru það nokkur undur, þó að ég á þessum tímum væri nefndur „hugsjónaangurgapi“ á opinberum stjórnmálafundi. Ég hafði þá aldrei heyrt þetta orð fyrr og mér þótti það býsna hnyttið. Víst var það angurgapalegt að ætla sér að móta og reka verzlunarfyrirtæki peningalaus, allslaus, og líka án allrar reynslu og þekkingar á verzlunarrekstri. Ég hló að þessu uppnefni af því að mér fannst það bráðfyndið. Og það kom af vörum kaupmanns, sem hafði eiginhagsmuna að gæta gagnvart þessum „angurgöpum“ á verzlunarsviðinu. — En samt tókum við að græða á verzlunarrekstrinum meira en sem svaraði launagreiðslum til mín, sem vann auðvitað kauplaust mánuðum saman við að koma á fót og efla þessa hugsjón mína. Ég hafði satt að segja mikið yndi af þessu starfi. Þarna fann ég, hvar ég hefði átt að hasla mér völl í lífinu, ef ég hefði kosið að lifa því til þess „að safna fé og deyja ríkur“. „Það hlýtur að vera yndislegt að deyja ríkur“, sagði eitt sinn ríkur embættismaður við mig. Hann hafði jafnan haft mörg járn í eldinum til þess að safna fjármunum.

Eftir að hafa rekið Kaupfélag alþýðu þannig í eitt ár eða þar um bil, áttum við orðið sjóð, sem nam um kr. 8000,00, — að mestu handbært fé, en að nokkrum hluta bundið í vörulager. Þetta var ekki lítið fé þá, þegar árslaun mín námu kr. 3900,00 við kennslu- og skólastjórastörfin.

Ég gætti þess vandlega, og sá var vandinn mestur, að kaupa ekki aðrar vörur en þær, sem líklegar væru til þess að seljast fljótlega til þess að festa ekki fé í vörulager. Það gat riðið fjárvana fyrirtæki að fullu strax í upphafi rekstursins. Þetta lánaðist mér mæta vel. Dómgreind kom þar til. Hana átti ég. Ein hugsjónin fæðir aðra af sér. Við afréðum að byggja verzlunarhús á góðum stað í bænum. Ég ráðgaðist um þessa fyrirætlan við Jón Baldvinsson, sem þá var einn af bankastjórum Útvegsbankans í Reykjavík.

Hann hvatti mig til þess að hefja þetta framtak hið allra fyrsta.

Við keyptum húslóð eða réttara sagt leiguréttindi á lóð af Jóni Jónssyni, útvegsbónda í Hlíð við Skólaveg, lóð gegnt verzlun Einars Sigurðssonar kaupmanns, sem rak mikla verzlun í Vöruhúsi Vestmannaeyja. Lóð þessa fengum við með góðum kjörum, enda var útvegsbóndinn einn í hópi okkar og vildi hlynna að hugsjón þessari.

Sumarið 1933 vann ég að því kauplaust að byggja þetta verzlunarhús. Þar unnu margir félagsmenn Kaupfélags alþýðu fyrir lítil laun það sumar. Þeir voru býsna margir þar hugsjónaangurgaparnir eins og ég, og þeir brunnu af áhuga á verzlunarsamtökum sínum, þegar þeir sáu, hvað allt þetta bauk lánaðist vel og spáði góðu.

Í fórum mínum er reikningur yfir keypt efni til þessara framkvæmda sumarið 1933. Það er ekki ófróðlegt plagg að ýmsu leyti. Þar gefst athugulum lesanda nokkur hugmynd um það magn af byggingarefni, sem við þurftum til að byggja verzlunarhæðina með kjallara undir nokkrum hluta hennar:


1933


29. maí, keypt sement fyrir..................................Kr.2.361,75

17. júlí, keypt bindijárn...............................................—18,70

31. júlí keypt steypujárn...........................................—534,18

3. ágúst keyptur saumur..............................................—6,60

5. ágúst keyptur mótavír............................................—17,63

7. ágúst keyptur saumur.............................................—18,60

17. ágúst keypt steypujárn........................................—615,48

22. ágúst keyptur saumur...........................................—10,30

24. ágúst keyptur bindivír............................................—2,55

4. sept. keyptur saumur.............................................—25,70

13. sept. keypt þakjárn............................................—437,25

16. sept. keyptur þaksaumur.....................................—16,50

20. sept. keyptur pappasaumur...................................—1,10

20. sept. keyptur þakpappi........................................—48,00

20. sept. keypt kalk...................................................—70,00

3.—28. okt. keyptur saumur.....................................—18,80

                           ----------------

Keypt byggingarefni alls fyrir................................—4.275,14


Svo að segja allt byggingarefnið var keypt í sömu verzluninni, hjá H. Benediktsson og Co. í Vestmannaeyjum, en sú verzlun var útibú fráaðalverzluninni í Reykjavík. Umboðsmaður eða trúnaðarmaður þessa fyrirtækis í Eyjum var þá Óskar Sigurðsson frá Bólstað (nr. 18) við