„Blik 1973/Þeirri nótt gleymi ég aldrei“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 24: | Lína 24: | ||
Ekki veit ég, hvernig á því stóð, að í minn hlut kom að vera með færið mitt í hefðarstaðnum á bátnum, nefnilega afturá hekkinu. <br> | Ekki veit ég, hvernig á því stóð, að í minn hlut kom að vera með færið mitt í hefðarstaðnum á bátnum, nefnilega afturá hekkinu. <br> | ||
Nú óska ég að nefna mennina, sem á bátnum voru. <br> | Nú óska ég að nefna mennina, sem á bátnum voru. <br> | ||
Aftastur stjórnborðsmeginn var ég, sem þessi minni skrifa. Næstur fyrir framan mig var Hallgrímur Guðjónsson, vélamaðurinn á bátnum. Næstur honum var Guðjón Jónsson, formaðurinn á bátnum. Þá [[Þorvaldur Guðjónsson]], sonur hans, síðar kunnur skipstjóri og útgerðarmaður hér í bæ. Fyrir framan Þorvald var [[Ólafur Gunnarsson]] [[Gunnar Ólafsson|kaupmanns í Vík Ólafssonar]]. Fyrir framan Ólaf var svo [[Magnús Magnússon netjagerðarmeistari|Magnús Magnússon]], síðar netjagerðarmeistari, þá til heimilis að [[Vestmannabraut]] 76 í bænum. Fremstur stjórnborðsmegin var svo [[Magnús Jónsson frá Hlíð|Magnús Jónsson]] frá [[Hlíð]] (nr. 4 við [[Skólavegur|Skólaveg)]]. Hann var bróðir [[Jón Jónsson á Enda|Jóns]], sem síðar var kenndur hér við húseignina [[Endi|Enda]] og var frá Hlíðarenda í Ölfusi. <br> | Aftastur stjórnborðsmeginn var ég, sem þessi minni skrifa. Næstur fyrir framan mig var Hallgrímur Guðjónsson, vélamaðurinn á bátnum. Næstur honum var Guðjón Jónsson, formaðurinn á bátnum. Þá [[Þorvaldur Guðjónsson]], sonur hans, síðar kunnur skipstjóri og útgerðarmaður hér í bæ. Fyrir framan Þorvald var [[Ólafur Gunnarsson (Vík)|Ólafur Gunnarsson]] [[Gunnar Ólafsson|kaupmanns í Vík Ólafssonar]]. Fyrir framan Ólaf var svo [[Magnús Magnússon netjagerðarmeistari|Magnús Magnússon]], síðar netjagerðarmeistari, þá til heimilis að [[Vestmannabraut]] 76 í bænum. Fremstur stjórnborðsmegin var svo [[Magnús Jónsson frá Hlíð|Magnús Jónsson]] frá [[Hlíð]] (nr. 4 við [[Skólavegur|Skólaveg)]]. Hann var bróðir [[Jón Jónsson á Enda|Jóns]], sem síðar var kenndur hér við húseignina [[Endi|Enda]] og var frá Hlíðarenda í Ölfusi. <br> | ||
Þá eru það færakarlarnir bakborðsmegin. Þeir voru aðeins tveir: [[Friðrik Svipmundsson]] skipstjóri og útgerðarmaður á [[Lönd]]um, og [[Friðrik Benónýsson]] skipstjóri eða formaður í [[Gröf]] við [[Urðavegur|Urðaveg]], faðir [[Benóný Friðriksson|Binna í Gröf]]. <br> | Þá eru það færakarlarnir bakborðsmegin. Þeir voru aðeins tveir: [[Friðrik Svipmundsson]] skipstjóri og útgerðarmaður á [[Lönd]]um, og [[Friðrik Benónýsson]] skipstjóri eða formaður í [[Gröf]] við [[Urðavegur|Urðaveg]], faðir [[Benóný Friðriksson|Binna í Gröf]]. <br> | ||
Klukkan 10 um kvöldið voru aðeins fimm þorskar og nokkrar keilur komnar á skip. Skipaði þá formaður svo fyrir að leggja skyldi síldarnetin fram af bátnum, en þau voru að mig minnir fimm talsins, sem höfð voru með í ferðinni. <br> | Klukkan 10 um kvöldið voru aðeins fimm þorskar og nokkrar keilur komnar á skip. Skipaði þá formaður svo fyrir að leggja skyldi síldarnetin fram af bátnum, en þau voru að mig minnir fimm talsins, sem höfð voru með í ferðinni. <br> |
Núverandi breyting frá og með 17. nóvember 2016 kl. 22:11
Það var seinustu dagana í maímánuði 1924. Sjómenn þóttust vera orðnir þreyttir á að liggja í landi síðan um vertíðarlok, enda engin atvinna hjá þeim, þar sem þeir leituðu austur á Firði eða til Norðurlands til sjóróðra þar.
Vertíðarlokin í Vestmannaeyjum voru bundin við 11. maí ár hvert.
Ekki var um neina atvinnu að ræða hér, hvorki fyrir konu eða karl nema við fiskþvott eða stakkstæðisvinnu, og sú vinna var sjómönnum í þann tíð ekki að skapi.
Ég, sem þessar línur rita, hafði stundað sjóróðra um 8 ára skeið um þessar mundir, enda þótt mér félli atvinna sú ekki sem bezt, þar sem ég var alla tíð meira og minna sjóveikur. En ekki dugði að fást um það. Annað hvort var að duga eða gefast alveg upp.
Þessa daga eftir lokin átti ég margar ferðir niður á bryggju, þar sem ég hitti sjómenn, sem dvöldust þar jafnan og töluðu um daginn og veginn.
Það var einmitt þá, að ég hitti á skipshöfnina á vélbátnum Ingólfi (VE 216), sem þá var eign Gunnars Ólafssonar í Vík hér í bæ. Það var 13 smálesta bátur, afburða skemmtilegt og gott sjóskip. Skipstjóri á honum var Guðjón Jónsson á Sandfelli og vélstjóri Hallgrímur sonur hans. Þennan umrædda dag hitti ég þessa menn að máli. Spurði ég þá, hvað væri framundan hjá þeim um sjóróðra. Þeir voru daufir í dálkinn, enda þótt þessir menn væru að jafnaði mjög glaðsinna. Guðjón varð fyrir svörum og sagði: „Nú er allur netjafiskur búinn, eins og allir vita, en eitt er ég viss um, að fiskur fengist á línu, en enginn beita er til, svo að ekkert er hægt að gera nema reyna með handfæri. Alltaf getur það átt sér stað, að fiskur fáist fyrir vestan Eyjar á handfæri í góðu veðri.“
Ég bað um skiprúm og var það auðfengið. Ég var hamingjusamur með sjálfum mér, því að handfæri var mér ákjósanlegasta veiðarfærið, enda var ég jafnan heppinn að fiska á það.
Svo var það þá fastmælum bundið, að farið skyldi í róðurinn næsta kvöld klukkan 7, ef veður leyfði. Ég standsetti færið mitt. Á því hafði ég sjö punda blýsökku með heilteini („ballansi“). Það var stálteinn boginn, sem stóð í gegnum sökkuna og svo sem 40 sentimetra út frá henni beggja vegna. Hvor öngultaumur var gerður úr eins punds línu og svokallaður handfæraöngull á hvorum taumi. Ekki höfðu allir tvo króka þá á færi sínu, heldur aðeins tein annars vegar á sökkunni og þá einn taum og krók. En þá var loku fyrir það skotið að fá nema einn fisk í drætti, þar sem algengt var að draga tvo fiska í einu, hefði maður heiltein á sökkunni.
Nú hófst þessi eftirminnilega nótt. Mannskapurinn var í góðu skapi, enda kyrrlátt veður, — logn og rennisléttur sjór.
Svo var þá haldið eins og leið liggur fyrir Þrídranga og lagst við fast fyrir vestan svokölluð Blindsker. —
Allir renndu sínum færum, dorguðu af kappi, en fiskur var tregur. Við slitum upp eina og eina keilu til að byrja með.
Ekki veit ég, hvernig á því stóð, að í minn hlut kom að vera með færið mitt í hefðarstaðnum á bátnum, nefnilega afturá hekkinu.
Nú óska ég að nefna mennina, sem á bátnum voru.
Aftastur stjórnborðsmeginn var ég, sem þessi minni skrifa. Næstur fyrir framan mig var Hallgrímur Guðjónsson, vélamaðurinn á bátnum. Næstur honum var Guðjón Jónsson, formaðurinn á bátnum. Þá Þorvaldur Guðjónsson, sonur hans, síðar kunnur skipstjóri og útgerðarmaður hér í bæ. Fyrir framan Þorvald var Ólafur Gunnarsson kaupmanns í Vík Ólafssonar. Fyrir framan Ólaf var svo Magnús Magnússon, síðar netjagerðarmeistari, þá til heimilis að Vestmannabraut 76 í bænum. Fremstur stjórnborðsmegin var svo Magnús Jónsson frá Hlíð (nr. 4 við Skólaveg). Hann var bróðir Jóns, sem síðar var kenndur hér við húseignina Enda og var frá Hlíðarenda í Ölfusi.
Þá eru það færakarlarnir bakborðsmegin. Þeir voru aðeins tveir: Friðrik Svipmundsson skipstjóri og útgerðarmaður á Löndum, og Friðrik Benónýsson skipstjóri eða formaður í Gröf við Urðaveg, faðir Binna í Gröf.
Klukkan 10 um kvöldið voru aðeins fimm þorskar og nokkrar keilur komnar á skip. Skipaði þá formaður svo fyrir að leggja skyldi síldarnetin fram af bátnum, en þau voru að mig minnir fimm talsins, sem höfð voru með í ferðinni.
Um það leytið, sem við höfðum lokið við að leggja reknetin, datt á koldimm þoka, svo að ekki sáust næstu belgirnir á síldarnetunum.
Þegar klukkan var um það bil 12 á lágnætti, setur Magnús í Hlíð í mjög þungan drátt. Það leyndi sér ekki, að það mundi vera lúða. Þrisvar þurfti hann að gefa henni. Og hraustlega var tekið á móti henni, þegar hún loks kom upp að borði bátsins. Magnús Magnússon bar í hana og innbyrti. Hún reyndist vera 200 punda ferlíki.
Nú leið ekki á löngu, unz fjórir færamennirnir settu í lúðu svo að segja í sömu andránni. Þá höfðu Friðrikarnir báðir uppi færi sín til þess að bera í hjá þeim, sem lúðurnar drógu.
Ekki leið langur tími, þar til allir höfðu dregið spröku, nema ég. Hún lét mig gjörsamlega í friði.
Það var þó meinabót, að ég var alltaf að draga þorsk öðru hvoru.
Ég gerði tilraun með að beita keilu, ef lúða skyldi þá fremur bíta á hjá mér, en það kom fyrir ekki.
Ólafur Gunnarsson gafst upp við að skaka. Beitti hann þá færið sitt og lét það liggja kyrrt. Þá beit á hjá honum stór lúða, sem ekkert gaf eftir stærstu lúðum hinna. Mér gramdist, að lúðan skyldi fara þannig í manngreinarálit.
Það kom fyrir eitt sinn um nóttina, að fjórar lúður voru á borði í einu.
Þetta var engu líkara en að verið væri að draga öran þorsk.
Ég stóð í örum þorski og var hættur að gefa lúðunni gaum. Þá heyrði ég allt í einu óp, kvalaóp eða siguróp. Ég leit upp. Sá ég þá skipstjórann á Sandfelli í stýrishúsinu. Hann hafði skroppið þangað til þess að huga að áttavitanum, þegar svo mjög syrti að.
— Þegar hann var að fikra sig niður á þilfarið aftur, sér hann, hvar Þorvaldur sonur hans er á borðinu með tvær stórar lúður, en hann hafði heiltein á sökku sinni eins og ég. Önnur lúðan reyndist vera yfir 200 pund en hin 120 pund. Þetta var þá siguróp Guðjóns yfir heppni sonarins. Þorvaldur hafði dregið lúðurnar í einni lotu án þess að hafa gefið þeim eftir nokkru sinni. Það mun sjáldgæft vera.
Ég tók eftir því, að nafnarnir Friðrik Svipmundsson og Friðrik í Gröf, voru farnir að hafa dálítið hátt þarna framan við spilið. Ég freistaðist því til að gefa þeim meiri gaum. Heyri ég þá, að Friðrik á Löndum segir: „Nú er víst, að ein er búin að hengja sig í mig, þó finnst mér það einkennilegt, hvernig hún hagar sér. Ég hefi aldrei vitað lúðu hlaupa með í drætti fyrr.“ Í því gellur Friðrik í Gröf við og segir: „Nú tekur ein á hjá mér.“ Svo er ekki að sökum að spyrja: Allir eru fastir í stórdráttum nema ég og Ólafur Gunnarsson. Hann var hættur að gefa færinu sínu gaum, enda fór hann þennan róður aðeins að gamni sínu.
— Þá hrópar Friðrik á Löndum: „Nei, það er þá stór hákarl á færinu mínu.“ Það reyndist engin vitleysa. Hann var býsna vænn.
Allir, sem lausir voru, tóku til að hjálpa Friðrik við að innbyrða hákarlinn. Friðrik taldi öngulinn standa svo vel í honum, að þeir gætu farið rólega að öllu og með gát. Þeir komu kaðli um sporðinn á fiskinum og drógu hann síðan upp í siglutréð svo langt sem blökkin leyfði, og svo var hausinn tekinn inn á þilfarið aftan við stýrishúsið. Af þessu má ráða, hversu stór skepnan var.
Um það bil, þegar búið var að innbyrða þennan stóra fisk, var klukkan orðin 6 að morgni. Sama þokan grúfði enn yfir. — Nú brá svo við eftir örlítinn tíma, að gjörsamlega tók fyrir allan lúðudráttinn. Mikill afli var þá kominn í bátinn.
Lúðutöluna man ég ekki vel. Þó minnist ég þess, að Magnús Magnússon dró 6 lúður. Hallgrímur vélstjóri 6, Þorvaldur 7, Magnús Jónsson 7 og Guðjón skipstjóri 5 lúður. Það er þó næstum ótrúlegt en þó satt, þar sem hann var þá einhentur orðinn. Hann setti í fiskinn en aðrir drógu hann að borði. Aðrir á bátnum drógu færri lúður. Alls drógu þeir 39 lúður, en ég enga. Í það súra eplið varð ég að bíta. En eins og áður sagði, var þorskurinn ör við mig. Ég dró 139 þorska í róðri þessum, og svo nokkrar keilur að auki. Ég mátti vel una þeim afla.
Þegar hér var komið róðri og tíma, skipaði formaðurinn að hita upp vélina (það var gert með prímusi) og setja í gang, því að nú var eftir að draga síldarnetin, sem báturinn hafði drifið með um nóttina. Í þeim voru þrír strokkar af fallegri síld. Þá var öryggi fengið fyrir því, að hægt var að beita línu í næsta róður.
Svo var sett á fulla ferð og haldið í austur. Ekki vissum við, hvert við höfðum rekið í þokunni. Við höfðum heyrt í þokulúðri austan við okkur. Eftir nokkurn tíma kom í ljós, að enskur línuveiðari átti þarna línu sína, en skipið sáum við ekki. — Einn af áhöfninni hafði orð á því við Guðjón skipstjóra, hvort þeir ættu ekki að draga einhvern hluta línunnar frá ..., sem hann ákvað með grófustu orðum, en skipstjórinn aftók það með öllu. Eftir eins og hálfs tíma ferð sáum við Eiðið. Var þá farið að lyfta dálítið þokunni.
Þegar við komum að bryggju, sáum við að v/b Ingólfur var siginn, og ekki lítið þungaður af aflanum.
— en nú var eins og skipshöfnin vaknaði af draumi. Hvað átti að gera við alla þessa lúðu? Hver myndi kaupa hana? Við settum allar okkar vonir á Gunnar kaupmann og útgerðarmann Ólafsson, af því að hann átti bátinn. Var þá formanninum, Guðjóni Jónssyni á Sandfelli, falið að semja við hann um kaup á aflanum.
Á meðan Guðjón skipstjóri ræddi við kaupmanninn, var unnið að því að skipa aflanum upp á bryggju. Ég gleymi ekki, hvað hann var glæsilegur, — allar þessar afarstóru lúður, sem fáar voru undir 200 pundum að þyngd. Þær þöktu nærri allan hausinn á Bæjarbryggjunni.
Mannmargt var orðið á Bæjarbryggjunni í þann mund, er búið var að skipa upp aflanum. Ég minnist þess, að margir dáðust að þessum fallega afla.
Nú kemur Guðjón skipstjóri niður á Bryggjuna, og sýndist okkur á honum, að hann hefði ekki haft erindi sem erfiði. Sú varð líka raunin á. Hann kallaði á okkur niður í bát og sagði sínar farir ekki sléttar. Hvorki vildi Gunnar Ólafsson og Co. né Íshúsið kaupa lúðuna og engin skipsferð til Reykjavíkur á nálægum tíma.
— Okkur þótti því heldur illa horfa með svo mikinn og góðan afla.
Gunnar kaupmaður sagði okkur, að einungis eitt gætum við gert. Það væri að salta lúðuna í tunnur og skera hana áður í svo sem tveggja kílógramma þunga bita og pækilsalta hana síðan. Þannig verkuð mundi hún seljast til Frakklands, hélt hann. Við fengum von á ný og tókum til óspilltra málanna um að salta lúðuna í tunnurnar. Sú vinna stóð, að mig minnir, langt fram á næstu nótt. Höfðum við þá vakað tvær nætur. Ekki man ég lengur, hvað tunnurnar urðu margar að lokum, en þær voru allar sendar til Frakklands.
Síðan sagði Gunnar kaupmaður okkur, að ekki hefði fengizt svo mikið fyrir aflann að andvirðið hrykki til þess að greiða tunnurnar, hvað þá meira. Mikið erfiði fyrir lítið kaup, eins og við fengum svo þrásinnis að reyna, sjómennirnir og verkamennirnir í þá daga.
Það fór þá svo, að ekki þurfti ég að vera hnugginn yfir því að draga ekki lúðu þessa nótt. Þorskurinn, sem ég dró, var þá góð og gjaldgeng vara. En andvirði hans skyldi skiptast í átta staði, svo að lítill varð hlutur hvers eins, þegar lúðan skilaði engu í vasa okkar.
Gaman gæti það verið, að reikna út, hvað þessi afli hefði orðið mikils virði með nútíðar verðlagi: 39 lúður, flestar um 100 kg á þyngd og þar yfir, 139 þorskar, þrjár tunnur af feitri hafsíld og einn hákarl.
Nú eru allir þessir gömlu félagar mínir gengnir til hinztu hvíldar, sex þeirra hvíla í móðurskauti jarðar og tveir hvíla í hinni votu gröf. Einn er ég eftir.
- Á siglingu
- Fyrir stafni báran brotnar,
- björtum skautar faldi sínum;
- upphöfin og einnig botnar
- eru nærri huga mínum.
- Fyrir stafni báran brotnar,