„Ritverk Árna Árnasonar/Guðjón Helgason (Dalbæ)“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: '''Guðjón Helgason''' sjómaður í Dalbæ fæddist 6. nóvember 1894 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, N-Múl. og lést í janúarmánuði 1919, fórst á Biskæjafl...) |
m (Viglundur færði Guðjón Helgason (Dalbæ) á Ritverk Árna Árnasonar/Guðjón Helgason (Dalbæ)) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 12. ágúst 2013 kl. 21:04
Guðjón Helgason sjómaður í Dalbæ fæddist 6. nóvember 1894 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, N-Múl. og lést í janúarmánuði 1919, fórst á Biskæjaflóa með skipinu Rigmor á leið frá Norðfirði til Spánar.
Foreldrar hans voru Helgi Guðmundsson bóndi, útgerðarmaður og formaður í Dalbæ, f. 9. júlí 1870 í Steinasókn undir Eyjafjöllum, d. 11. mars 1924, og kona hans Þóra Jónsdóttir, f. 17. júní 1868 í Mýrdal, d. 11. mars 1965.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Guðjón réðst á seglskipið Rigmor og fórst með því í utanlandssiglingu í marsmánuði 1918¹). Guðmundur, faðir Helga í Dalbæ, varð bráðkvaddur í Stakkagerðisheimganginum, en Jón, bróðir Helga, (Jón á Seljalandi), varð bráðkvaddur niðri í fiskikró.
Guðjón var rúmlega meðalmaður á hæð, ljósleitur og fríður sýnum, liðlega vaxinn, vel lipur og ágætur íþróttamaður. Hann var einn af stofnendum íþróttafélagsins Þórs. Hann var mjög prúður í framkomu, orðvar og stilltur, skemmtilegur félagi, vinmargur og vinhollur.
Hann var nokkuð við lundaveiðar í Suðurey og Álsey og þótti miðlungs veiðimaður. Hann var besti viðlegufélagi, kátur og reifur.
Lífsstarf hans var sjómennska og ýmiss konar fiskimannsstörf, og þá einkum í sambandi við útgerð föður síns við mb. Austra VE-99. Guðjón lést ókvæntur og barnlaus og mjög harmdauði.
Móðir Helga í Dalbæ, Margrét Eiríksdóttir, var systir Eyjólfs föður þeirra systkina Rósu í Þorlaugargerði, Jóels á Sælundi, Guðjóns á Kirkjubæ, Gísla á Búastöðum og Margrétar í Gerði.
Guðmundur, faðir Helga í Dalbæ, var bróðir Jóns í Steinum, föður Sveins gamla í Völundi á Sveinsstöðum, Helga í Steinum og Ísleifs í Nýjahúsi.
¹) Breytingar og viðaukar sett inn af (Heimaslóð).
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Minningarrit. Páll Oddgeirsson. Vestmannaeyjum 1952.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
- Manntöl.
- Íslendingabók.is.