„Blik 1972/Gísli Lárusson, gullsmiður í Stakkagerði“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1972 ::::::::ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON: ::::::::<big><big><big>Gísli Lárusson, gullsmiður,</big></big></big> ::::::...) |
m (Verndaði „Blik 1972/Gísli Lárusson, gullsmiður í Stakkagerði“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 28. apríl 2010 kl. 17:25
- Gísli Lárusson, gullsmiður,
- í Stakkagerði
- Gísli Lárusson, gullsmiður,
Einn af þeim „innfæddu“, sem settu svip sinn á Eyjabyggð fyrstu þrjá áratugi aldarinnar, var Gísli gullsmiður Lárusson í Stakkagerði. Hann var að mörgu leyti sérstakur maður og sérlegur persónuleiki. Ég kynntist honum á sérstakan hátt fyrstu 7-8 árin mín hér í kaupstaðnum. Hann var vissulega öðruvísi en svo margir aðrir mektarmenn hér á þeim árum, sérstaklega gagnvart aðkomumanni í kennarastétt. Ég minnist þess, hversu mikla ánægju ég hafði af því að hlusta á þennan mann, njóta fræðslu hans í einveru og næði. Hann var fjölfróður um sögu byggðarlagsins og þó sérstaklega um dýralífið í sjónum kringum Eyjarnar og fuglalífið í björgum þeirra. Á þeim vettvöngum hafði þessi annars óskólagengni maður margt fræðandi í fórum sínum og gat miðlað þar öðrum, sem lærðir voru kallaðir. Með eftirtekt sinni og ríkri athyglisgáfu varð hann því vaxinn að veita ekki minni fræðimanni en Bjarna heitnum Sæmundssyni, fiskifræðingi, ómetanlega aðstoð við rannsóknir á lífi fiska hér og greiningu tegunda í hafinu umhverfis Eyjarnar, svo að
þessi kunni og mikli náttúrufræðingur okkar dáðist að og viðurkenndi.
Minnisstæðust verður mér alúð Gísla Lárussonar og vingjarnleg framkoma, þegar hann vildi veita mér fræðslu um söguleg efni og náttúrufræðilegar staðreyndir. Ef til vill hefur hann uppgötvað fljótlega, er við kynntumst lítið eitt, að ég hafði mikinn áhuga á þeim fræðilegu greinum, sem hann hafði sérstaklega lagt alúð við: sögu og náttúrufræði. Og hér kem ég svo að lokum inn á sögulegt atriði úr atvinnulífi Eyjasjómanna á síðustu öld. Þá fræðslu veitti Gísli gullsmiður mér eitt sinn, er ég kom heim til hans í Stakkagerði í viðskiptalegum erindum. En fyrst vil ég rekja sögu hans í stærstu dráttunum og sýna og sanna um leið, hversu honum var margt og mikið til listar lagt.
Gísli Lárusson fæddist í Kornhól, íbúðarhúsi (jarðarhúsi) einokunarkaupmannsins (N. N. Bryde) 16. febrúar 1865. Foreldrar hans voru hjónin Lárus Jónsson frá Dyrhólum í Mýrdal og Kristín húsfreyja Gísladóttir frá Pétursey í Mýrdal. Þessi
hjón voru Mýrdælingar, a.m.k. nokkra ættliði fram. Þau hófu búskap að Pétursey um eða rétt eftir 1860 og fæddist þeim fyrsta barnið þar, Ólöf, síðar hin kunna húsfreyja að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, kona Guðjóns bónda Björnssonar þar. Annað barn þeirra hjóna var svo Gísli gullsmiður í Stakkagerði. Fyrstu 6 dvalarárin sín hér í Eyjum bjuggu hjónin Lárus og Kristín í Kornhól og var Lárus Jónsson starfskraftur Garðsverzlunarinnar. Hann stefndi að því að fá jörð til ábúðar í Eyjum, en vissasti vegurinn að því marki var sá að vera búsettur í kauptúninu og starfandi afl á vegum kaupmannsins.
Bjarni E. Magnússon sýslumaður hafði einnig heitið þeim að vera þeim innan handar um jarðnæði, ef eitthvað breyttist um ábúð á einhverri Eyjajörðinni.
Árið 1869 fluttu þau hjónin að Búastöðum og settust þar að í gamla bænum, sem var í alla staði hrörlegur. En þetta stóð allt til bóta. Sigurður hreppstjóri Torfason hafði í
hyggju að hætta búskap, en hann bjó á Búastöðum og hafði búið þar um árabil. Hann lézt síðla vetrar 1870, og fengu þá hjónin Lárus og Kristín ábúð á þessari góðu jörð, sem var á mælikvarða Eyjajarða talin einhver bezta jörðin á Heimaey. Á Búastöðum búnaðist þeim vel og þau gerðu garðinn frægan, eins og víða er komizt að orði í þessum efnum.
Lárus Jónsson var um árabil hreppstjóri Eyjamanna (þeir voru
oftast tveir). Hann var framtakssamur bóndi, kunnur bátasmiður, sem byggði marga báta, stærri og smærri, heima á Búastöðum, og aflasæll formaður á vetrarvertíðum. Í öllum þessum athöfnum sínum var hann þó ekkert einsdæmi í kauptúninu eða byggðarlaginu. Fleiri bændum þar á þeim tímum var margt til listar lagt og dugnaður og kapp alveg ótrúlegt.
Litla menntun hlaut Gísli litli á Búastöðum, er hann óx úr grasi. Hann lærði að lesa hjá móður sinni, eins og svo algengt var, en um skólanám var ekki að ræða. Þó er rétt að geta þess með athygli og ánægju, að Páll Pálsson, sem síðar var kallaður jökulfari, hafði á hendi barnakennslu í Eyjum veturinn 1874-1875. Bjó hann í Jómsborg hjá hjónunum frú Jórunni Jónsdóttur Austmann og manni hennar Engilbert Engilbertssyni og kenndi börnum Eyjamanna þar heima í herberginu sínu. (Sjá grein um P.P. hér í ritinu).
Þarna naut Gísli Lárusson á Búastöðum nokkurrar tilsagnar, lærði t.d. að draga til stafs og undirstöður reiknings.
Brátt tók svo þessi unglingur að stunda sjó á vegum foreldra sinna, fyrst að sumrinu og svo að vetrinum líka, þegar geta, þroski og aldur komu til og þótti hafa náð sæmilegum vexti. Hann réri á vertíðum á áttæringnum Frið, sem Lárus faðir hans gerði út og var sjálfur formaður á.
Jafnframt sjósókninni hófust fjallaferðirnar hjá frískum unglingi eins og Gísla á Búastöðum. Brátt fór orð að því með fjallamönnum og öðrum Eyjaköppum, hversu slyngur klifurfugl og sigmaður hann mundi verða, Búastaðasonurinn.
Gísli Lárusson átti handlagni og listauga í ættum sínum og þá eiginleika hafði hann erft í ríkum mæli. Hugur hans beindist að handiðnarnámi.
Árið 1883, þegar hann var 18 ára, var honum komið fyrir hjá gullsmið í Reykjavík, Ólafi gullsmíðameistara Sveinssyni, og hjá honum stundaði hann gullsmíðanámið næstu tvö árin. Gísli lauk þessu námi og kom heim með sveinsbréfið sitt árið 1885.
Í Eystri-Stakkagerðisjörðinni í Eyjum bjuggu hjónin Ásdís húsfreyja Jónsdóttir og Árni hreppstjóri Diðriksson. Hann var síðari eiginmaður frú Ásdísar. (Sjá Blik 1957). Stakkagerðishjónin áttu saman eina dóttur. Hún þótti fögur sýnum og hið mesta búkonuefni, Jóhanna Sigríður að nafni. Fædd var hún 11. nóvember 1861. Hún var því 24 ára, þegar Gísli Lárusson kom heim frá námi, en hann tvítugur.
Heimasætan fagra í Stakkargerði vildi gjarnan verða ,,eiginkona gullsmiðsins“ í Eyjum. Hún játaði þess vegna bónorði hans, enda fleira sem dró, en sveinsbréfið eitt. Þau giftu sig árið 1886 og hófu þá þegar búskap í Stakkagerðisbænum eystri í sambýli við foreldra hennar.
Árið 1892 lézt frú Ásdís Jónsdóttir húsfreyja í Stakkagerði. Þá óskaði Árni bóndi og hreppstjóri ekki að búa lengur. Árið eftir (1893) fengu ungu hjónin byggingu fyrir Eystra-Stakkagerðinu og bjuggu þar síðan. (Sjá Blik 1957, bls. 108-123 um þessi hjón, ef lesendur ritsins kynnu að hafa áhuga á að kynnast athöfnum og afkomendum þeirra frekar).
Á áttæringnum Frið stundaði Gísli Lárusson sjó með föður sínum, eins og ég drap á. Lárus formaður stundaði á þeim árum bæði þorskveiðar og hákarlaveiðar á skipi sínu. Vegna greinarinnar hér á eftir um hákarlaveiðarnar, vil ég alveg sérstaklega leggja áherzlu á kynni Gísla Lárussonar af þeim þegar á æskuskeiði. Allt sem hann sagði mér af þeim á sínum tíma og lét mig skrá hjá mér, var þess vegna ekki gripið úr lausu lofti eða einhver sögusögn. Hann fór sjálfur höndum um þau tæki, sem hann getur um og lærði að nota þau á hákarlaveiðunum með föður sínum. Það var á unglingsárum hans og fyrstu búskaparárum í Stakkargerði. Þá stundaði hann sjóinn árið um kring nema þá helzt á haustin, þegar hann snéri sér að gullsmíðinni. Jafnframt þeim gerði hann við úr og klukkur Eyjafólks og verzlaði lítilsháttar með þá vöru heima í vinnustofu sinni í Stakkagerði.
Í jarðskjálftunum, sem fóru um mikinn hluta Suðurlands árið 1896, hrundi hinn sérkennilegi og mikli steinbogi, sem frá myndun Vestmannaeyja og sköpun hafði legið á milli Norður- og Suður-Geldungs, sem eru fuglaeyjar kippkorn suður í hafinu suður af Heimaey. Í Stóra-Geldung var venjulega mikill fugl og þar veiddist því drjúgum og þaðan barst mikil björg í bú Eyjabænda. Frá fornu fari var auðvelt að komast upp í minni Geldunginn og síðan var gengið um steinbrúnina til þess að komast í Stóra-Geldung. En eftir að steinbrúin hrundi í sjó niður, varð ekki eða trauðla komizt í Stóra-Geldung til veiða.
Nú voru Vestmannaeyjar landssjóðseign. Þess vegna var valdhöfunum skrifað og þess beiðzt, að þeir létu koma fyrir járnfesti upp í kór Stóra-Geldungs, svo að fuglaveiðimenn gætu auðveldlega læst sig þar
upp til veiða. Landstjórnin brást vel við þessari málaleitan og voru ráðnir tveir slyngnustu bjargveiðimenn Eyjanna, kunnir klifurgarpar og sigmenn, til þess að koma fyrir járnfesti í bergi Geldungs. Þessir „klifurkarlar“ voru þeir Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum og Gísli Lárusson í Stakkagerði. Og vissulega vildu stjórnarvöldin greiða þeim ríkulega fyrir að hætta lífi sínu við þessar athafnir! Þeim voru greiddir 25 aurar um tímann, hverja klukkustund, sem verkið tók.
Það tók þá 4 klukkustundir að klífa bergið og festa keðjuna. Ein króna greidd út í hönd! Þökk fyrir.
Magnús skrifar um afrek þetta: „Við Gísli fórum til skiptis á undan (upp þverhnípt bergið). Það sem við fórum, er ca. 50 faðma (100 metra) hæð. Ég hafði oft verið með Gísla í fjöllum, og þarna fékk ég enn eitt tækifæri til að sjá, hve mikill afburða fjallamaður hann var.“
Gísla Lárussyni var næsta ótrúlega margt til listar lagt, manni, sem þó hafði ekki notið meiri fræðslu eða skólamenntunar en raun bar vitni um og tök voru á að veita börnum og unglingum hér í byggð á síðari hluta 19. aldarinnar. Hér óska ég að telja upp nokkur þau störf, sem Gísli innti af hendi um ævina umfram hið eiginlega starf hans, gullsmíðina.
Þegar hann tók við Stakkagerðisjörðinni 1893 og gerðist bóndi, fékk hann samkvæmt beiðni sinni til stjórnarvaldanna leyfi til að stækka Stakkagerðistúnið um allt að tveim
dagsláttum. Hann varð þannig einn af stærri jarðræktarbændum í Eyjum. Sama vorið og hann gerðist bóndi í Stakkagerði (1893) var hann einn af stofnendum Framfarafélags Vestmannaeyja, búnaðarfélags Eyjabænda þá, og skeleggur félagsmaður þar eins og alls staðar, þar sem hann lagði hönd að eða var þátttakandi í félagsskap. (Sjá Blik 1953).
Íbúðarhúsið að Stakkagerði eystra. Húsið byggði Gísli gullsmiður árið 1899. Konurnar á myndinni eru þessar (talið frá vinstri): Guðbjörg kona Þorkels í Sandprýði, Theodóra Gísladóttir, elzta barn Stakkagerðishjóna, Jóhanna Árnadóttir, kona Gísla gullsmiðs; við vinstri öxl hennar sér á glugga í vinnustofu gullsmiðsins.
Lengst til hægri: Ágústa Lárusdóttir, systir Ólafs héraðslæknis Lárussonar.
Um leið og hann gerðist bóndi, hóf hann byggingu íbúðarhúss á Stakkagerðisjörðinni. Það var lengi vel eitt af stærstu og stæðilegustu íbúðarhúsum í kauptúninu.
Nokkur ár, eftir að hann fór úr foreldrahúsum, stundaði hann sjó með föður sínum, sem gerði út og var formaður á áttæringnum Frið, eins og ég hef drepið á. Á sumrin réru þeir feðgar gjarnan með öðrum - á útvegi annarra. Þetta gerðu þeir einnig framan af vertíð 1895. Þá réru þeir eftir áramótin með Gísla formanni Eyjólfssyni bónda á Búastöðum. Þá varð það, sem Hannibalsslysið átakanlega átti sér stað. Þegar sex-æringurinn Hannibal kom inn Leiðina og var kominn inn á móts við Hnykilinn, klettinn í Hafnarmynninu, reið kvika af klettinum undir bátinn og hvolfdi honum. Formaður á bátnum var Gísli bóndi Eyjólfsson, en tveir af hásetum hans voru feðgarnir Lárus hreppstjóri og bóndi Jónsson og sonur hans Gísli bóndi og gullsmiður í Stakkagerði. Svo sem þeir vita, sem bera nokkurt skyn á sögu Eyjamanna, þá bjargaði skipshöfn Kristjáns Ingimundarsonar í Klöpp öllum mönnunum af Hannibal nema tveim. Annar þeirra, sem drukknaði, var Lárus faðir Gísla. Hann flæktist í færum og náðist ekki fyrr en um seinan. Þarna bjargaðist Gísli Lárusson, og leið honum vitanlega aldrei úr minni þessi sorglegi atburður.
Sjálfur gerðist hann formaður á vertíðarskipi því, sem faðir hans hafði verið formaður á um árabil, áttæringnum Frið. Gísli var aflamaður mikill, sagði Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum í minningargrein um hann. Báðir voru þeir í fremstu röð formanna í verstöðinni og fiskimenn miklir á þessum árum, og báðir ruddu beir brautir hér um veiðitæki. Báðir saman réru þeir
hvor á sínu skipi 10. apríl 1897 með línu í fyrsta sinni og ruddu þar með fiskveiðum með línu braut hér í Eyjum - buðu þannig öllum hindurvitnunum og ótrú manna hér á notkun línunnar birginn, svo að áhrifin og verksummerkin urðu varanleg öllum Eyjabúum til ómetanlegs hagnaðar og kauptúninu í heild til vaxtar og viðgangs.
Og á fleiri sviðum varð Gísli Lárusson brautryðjandi í heimabyggð sinni. Hann vann að því nokkru eftir aldamótin að sprengja af Eyjafólki hina aldagömlu fjötra einoknarverzlunarinnar með því að efna til samvinnuverzlunar í kauptúninu. Það var kaupfélagið Herjólfur, sem útgerðarmenn í Eyjum stofnuðu árið 1908.
Þegar þau samtök runnu út í sandinn, beitti Gísli sér fyrir stofnun annarrar samvinnuverzlnar. Það var Kaupfélagið Bjarmi. Framkvæmdarstjóri þess var hann sjálfur um árabil.
Gísli Lárusson var í hópi hinna fyrstu Eyjamanna, sem festu kaup á vélbátum og hófu útgerð þeirra í Eyjum. Hann átti 1/5 í vélbátnum Frí VE-101, sem keyptur var til Eyja frá Danmörku 1907. Sama ár var vélbáturinn
Ástríður VE-107 keyptur til Eyja. Einnig átti Gísli hlut í
honum, líklega 1/10 hluta. Árið eftir kom vélbáturinn Björgvin VE-130
frá Danmörku, og átti Gísli 1/6 hluta í honum. Þannig var gullsmiðurinn með í atvinnulífinu í kauptúninu og sumstaðar mátturinn mikli og fyrirhyggjan í félagsskapnum.
Árið 1915 keypti hann til Eyja vélbátinn Má VE-178. Þann bát átti hann hálfan á móti Bernótusi Sigurðssyni, sem var formaður á bátnum.
Þessi fyrstu ár vélbátaútvegsins höfðu Eyjamenn hagnazt alveg ótrúlega mikið á útgerð sinni. Þá beitti Gísli Lárusson sér fyrir stofnun togaraútgerðar í kaupstaðnum, sem þá var ársgamall. Til þeirra kaupa stofnuðu nokkrir fjársterkir útgerðarmenn í kaupstaðnum hlutafélag. Það var hlutafélagið Draupnir. Togarinn, sem keir keyptu, bar nafn hlutafélagsins. Fyrst um sinn var Gísli Lárusson framkvæmdarstjóri togarafélagsins. Meðal annars áttu hin bágbornu hafnarskilyrði í Eyjum þá sök á því, að engin tök reyndust á að reka togara frá Eyjahöfn fremur en þilskipaútgerð áður fyrr. Samtök þessi fjöruðu því út von bráðar.
Gísli Lárusson gerðist ungur að aldri einlægur bindindismaður, sem ekki var af þeirri manngerðinni að hlaupa frá því heiti sínu. Hann var áhugasamur stúkufélagi hér um tugi ára og fórnaði stúkunni Báru nr. 2 og hugsjóninni í heild miklu starfi. Þar vann hann mikilvægt menningarstarf í heimabyggð sinni, heimilum hér til ómetanlegrar blessunar og ekki sízt ungu fólki til gæfu og gengis. Til þess að sannfærast um þá
fullyrðingu mína, þarf ekki annað en hugleiða hina miklu og átakanlegu óhamingju, sem fólk á unga aldri bakar sér hér í kaupstaðnum með neyzlu áfengra drykkja og öðrum ómenningarhætti, sem drykkjuskap er samfara nú á dögum. Að því starfi, verndarstarfi, að verja Eyjabúa og þá ekki sízt æskulýðinn, fyrir óhamingju drykkjuskaparins vann Gísli Lárusson áratugum saman í hópi hinna kunnustu Eyjabúa á sviði menningarmála í bænum, svo sem séra Jes A. Gíslasonar, Sveins Jónssonar á Sveinsstöðum, Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum og margra fleiri.
Eins og ég drap á, þá stundaði Gísli Lárusson fuglaveiðar í úteyjum Vestmannaeyja öll uppvaxtarárin sín. Þar notaði hann tímann snemma við fræðasöfnun. Hann safnaði örnefnum. Á eldri árum sínum átti hann orðið mikið og verðmætt örnefnasafn, sem nú er geymt í handritasafni Fornleifafélagsins. En þetta safn hefur þó ekki verið dauður bókstafur. Brautryðjandastarf hans á þessu sviði hefur orðið hvatning og leiðbeining, t.d. fræðimanni eins og Þorkatli heitnum Jóhannessyni, sem tók saman örnefnasafn og gaf út í bók, sem hann nefndi Örnefni í Vestmannaeyjum. Hún var prentuð 1938. Í formála þeirrar bókar segir svo um þátt Gísla Lárussonar í því menningarstarfi:
,,Ennfremur hefi ég haft mikil not af örnefnaskrá eftir Gísla Lárusson gullsmið í Stakkagerði, er hann hafði sett saman, áður en ég byrjaði á mínu starfi. Sú skrá varð mér að afarmiklu liði til leiðréttingar og fyllingar safni mínu, ekki sízt um stafsetningu örnefnanna og svo ýmsan fróðleik, en slíkar upplýsingar, sem þaðan eru teknar, eru allar einkenndar GL.“
Gísli Lárusson var einn af skeleggustu stofnendum Björgunarfélags Vestmannaeyja 1918 og skipaði sæti sitt vel í stjórn þess í upphafi félagssamtakanna, þegar mest á reyndi og bezt var barizt fyrir kaupum björgunarskipsins fyrsta. - Einnig var hann um árabil einn af stjórnarmönnum hins gagnmerka félags athafnamanna í Eyjum, Ísfélags Vestmannaeyja.
Áður en Vestmannaeyjabyggð hlaut kaupstaðaréttindi, var Gísli Lárusson hreppsnefndarmaður í heimabyggð sinni og um sinn sýslunefndarmaður.
Og nú kem ég að ástæðunum fyrir því, að ég eyði svo mörgum blaðsíðum í ritinu til að kynna Eyjabúum æviferil Gísla Lárussonar og þátt hans í uppbyggingu byggðarlagsins á síðasta áratug fyrri aldar og svo fyrstu árin af þessari öld.
Hér birti ég loks í Bliki fræðslu þá, sem hann veitti mér fyrir 40 árum um hákarlaveiðar í verstöðinni. Þar var hann sjálfur með í leiknum við hákarlinn, er hann á æskuskeiði stundaði þær veiðar með sér eldri og reyndari sægörpum. Það var á síðustu árum hákarlaveiðanna hér í Eyjum (1885-1895).
Og svona til gamans langar mig að rifja upp tildrögin að því, að þessi alúðlegi fræðaþulur og vinsamlegi áhugamaður um sögu byggðarlagsins og náttúrufræðilegar staðreyndir þar, leyfði mér að skrifa upp minnisbók mína þennan fróðlega þátt, er ég eitt sinn átti erindi til hans heim í Stakkagerði fyrir réttum 40 árum. Þessar endurminningar hans um hákarlaferðirnar á æskuárum birti ég svo hér á eftir.
Við hjónin afréðum að kaupa okkur stundaklukku. Þá vissum við það, að þær fengust beztar og fallegastar, að talið var, hjá Gísla gullsmið í Stakkagerði. Ég lagði svo leið mína þangað. Þá var aðalinngangur um eystri dyr á suðurhlið hússins. (Sjá mynd hér). Innan við dyrnar var lítill og þröngur gangur. Þar var hurð til hægri, þegar inn var komið. Þar drap ég á dyr, því að þar vissi ég einhvernveginn af gullsmiðnum inni við handiðn sína.
Ég festi svo kaup á veggklukkunni. (Hún er nú geymd á Byggðarsafninu hér). Klukkuna greiddi ég eins og verð stóð til. En svo hlaut ég ýmisleg verðmæti alveg ókeypis hjá gullsmiðnum að mér helzt fannst svona með sjálfum mér í eins konar kaupbæti. - Hann tók mig tali. Mér fannst hann hefja leit í mér að áhugamálum mínum. Og þá mun hann hafa uppgötvað, að áhugamál okkar voru hin sömu á vissum sviðum. Þetta samtal okkar leiddi til þess, að ég fékk að skrifa upp ýmsan sögulegan fróðleik, sem honum var þá efst í huga. Hér birti ég hann í tilefni þess, að Blik flytur nú almenningi fyrsta kafla í minjaskrá Byggðarsafnsins, þar sem fjallað er um minjar þær, sem safnið á frá sjávarútveginum hér í byggðarlaginu. Endurminning Gísla heitins fylla upp ýmis atriði, sem nú eru horfin í fyrnsku, - sögulegar
staðreyndir, sem sumar hverjar eru ekki til á prenti annars staðar, að ég bezt veit. A.m.k. hefur mér ekki enn tekizt að finna þær, þrátt fyrir leit og lestur margskonar heimilda um sjávarútveg Íslendinga að fornu og nýju. (Sjá einnig Blik 1957 og 1967 um fyllri frásögn og heimildir).