„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Sumarúthald í Smugunni 1968“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 1: Lína 1:
<big><center>[[Arnar Einarsson]]</center></big>
<big><center>[[Arnar Einarsson]]</center></big><br>


<big><big><center>SÍLDARÚTHALD Í SMUGUNNI 1968</center></big></big>
<big><big><center>SÍLDARÚTHALD Í SMUGUNNI 1968</center></big></big>

Útgáfa síðunnar 19. apríl 2017 kl. 09:40

Arnar Einarsson


SÍLDARÚTHALD Í SMUGUNNI 1968


Þegar Sigmar Sveinbjörnsson, ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja, kom að máli við mig og spurði mig hvort ég vildi ekki skrifa smá grein í blaðið vissi ég eiginlega ekki hverju ég átti að svara. Eitthvað hikaði ég og Sigmar spurði þá: „Þú varst eitthvað til sjós var það ekki?“ „Jú, víst var ég það, en mest svona sem sumarsjómaður, eins og við skólastrákarnir vorum gjarnan nefndir.“ „Þú setur þá eitthvað á blað ef andinn blæs þér í brjóst“ sagði hann og jánkaði ég því.
Þegar ég svo settist niður til þess að hugsa hvað ég ætti að skrifa um fannst mér eiginlega ekkert við sjómennsku mína svo merkilegt að um hana væri hægt að skrásetja eitthvað sem vit væri í. Um þetta leyti (nóv. 1996) komst í hámark umræðan um uggvænlegar afleiðingar langvarandi útiveru íslenskra sjómanna og voru til nefndar veiðar í Smugunni, norður undir Svalbarða og á Flæmska hattinum, langleiðina til Nýfundnalands. Við þessa umræðu kom mér í hug sjóferð okkar á Ísleifi VE 63 sumarið 1968, en hún varð bæði löng og ströng og endaði sá eltingarleikur sem við stunduðum allnokkru norðar og vestar heldur en menn stunda um þessar mundir hinar frægu Smuguveiðar.
Það hagaði þannig til þetta vor að ég hafði ráðið mig um borð í Ísleif III til trollveiða. Skipstjóri var Kristján Kristjánsson, þá nýútskrifaður úr Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og átti hann nú að fá tækifæri til að sanna sig fyrir afa Ársæli og Lárusi frænda. Stýrimaður var Logi Snædal Jónsson, vélstjóri var Sigþór Sigurðsson og undirritaður var „bryti.“ Okkur gekk ágætlega og var útlitið gott og afi Ársæll bara ánægður með Kidda og sagði að honum kippti í kynið hvað varðaði fiskirí og ekkert væri betra en að fara vel með veiðarfærin og alltaf kom gamli maðurinn á bryggjuna þegar við komum að landi og virtist hann fylgjast vel með öllu.
Það sem mér er minnisstæðast frá þessum tíma er einkum tvennt og gerðist það á sama sólarhringnum. Hið fyrra var kl. 1 eina nóttina að við lágum í vari vestan undir Portlandinu og vorum við Kiddi vakandi og hlustuðum á veðurfregnir. Eins og menn muna voru veðurfregnir yfirleitt lesnar mjög hægt og oft langt bil á milli setninga. Sem nú blessuð konan var að lesa veðrið kemur allt í einu löng þögn, en svo heyrist stundarhátt: „Æ, greyið, hættu þessu andsk..., káfi rétt á meðan ég klára helv... veðurfregnirnar.“ Nú kom óvenjulöng þögn, en það sem eftir var veðurfregnanna var svo lesið með miklum hraða. Yfir þessu stóðum við Kristján agndofa og máttum vart mæla um stund, en skelltum svo hressilega upp úr þegar við höfðum áttað okkur á hvað gerst hafði.
Með morgninum lygndi og við héldum út og var kastað á Víkinni. Þegar við hífðum sá ég sjón sem ég hef aldrei séð, hvorki fyrr né síðar. Trollið bókstaflega spýttist upp úr sjónum og innbyrtum við 20 poka af stórum og fallegum ufsa og þótti okkur mikið til um. Skömmu eftir þetta bilaði svo vélin á bátnum, enda komin til ára sinna, og var báturinn tekinn í slipp. Kom þá í ljós að vélin var ónýt og ekki þótti svara kostnaði að setja nýja vél í bátinn og má segja að þarna í slippnum hafi Ísleifur III borið beinin og ekki fór hann á sjó aftur.
Við félagarnir stóðum nú uppi plásslausir, en slíka „úrvalsmenn“ vildi Lárus eflaust ekki missa frá útgerðinni og varð því að ráði að við vorum munstraðir um borð í flaggskipið Ísleif VE 63 hjá Gunnari Jónssyni frá Miðey, gömlum nágranna okkar Kidda. Með okkur var að sjálfsögðu Logi Snædal Jónsson, en Sigþór fór annað.
Verið var að útbúa Ísleif til síldveiða og í áhöfninni voru eftirtaldir menn: Gunnar Jónsson skipstjóri, Jón Berg Halldórsson 1. stýrimaður, Sigurður Guðnason 2. stýrimaður, Kári Birgir Sigurðsson 1. vélstjóri, Sveinn Tómasson 2. vélstjóri, Árni Stefánsson matsveinn og hásetar voru Logi Snædal Jónsson, Kristján Kristjánsson, Pétur Bjarnason (á Símstöðinni), Jón Valtýsson, Ingvar Vigfússon (ættaður frá Byggðarholti) og undirritaður. Þetta reyndist einvalalið, léttir og skemmtilegir félagar.
Reiknað var með að úthaldið gæti dregist á langinn því fregnir hermdu að síldin væri á hraðri leið norður í haf. Ákveðið var að senda móðurskip, Haförninn með flotanum til að hægt væri að landa aflanum þar um borð og jafnframt var hann birgðaskip fyrir flotann. Sveinn Tómasson tók að sér að sjá um andlega fóðrið, líkt og hann nú sér um ákveðið fóður fyrir Eyjamenn af alkunnri umhyggjusemi og væntumþykju. Sveinn kom með tvær heljarmiklar kistur frá Haraldi bókaverði og voru þær fullar af bókum svo sem eins og Kommúnistaávarpinu, Bréfi til Láru eftir meistara Þórberg og fleiri bókmenntaverkum af ýmsum tegundum. Svei attan, sagði Kári Birgir. Þá hafði Sveinn heimsótt Pál Helgason og leigt af honum sýningarvél og fjölda kvikmynda og bar þar hæst myndir með Charlie Chaplin og Beitiskipið Potekim ásamt fleiru. Til veiða var haldið þann 9. júlí og kúrsinn tekinn austur fyrir land þar sem frést hafði af einhverri síldveiði. Heldur reyndist það nú lítið þegar við komum á staðinn og hófst nú eltingarleikur sem ekki átti sér stað í sögunni fyrr. Siglt var í norður, en lítið fannst, bara peðrur og dreif sem ekki þétti sig. Öðru hvoru var þó kastað, en lítið fékkst og eitthvað virtist vera að nótinni því við fengum þetta 60 - 80 faðma langar rifur, stundum tvær, í hvert skipti sem við köstuðum og fór oft mikill tími og ómælt erfiði í að forfæra nótina og rimpa, en nótinni var rennt sitt á hvað með kraft-blökkinni upp á bátadekk og niður í nótakassa. Það bætti ekki úr skák að meðan við unnum þetta verk höfðum við oft ákaflega fallega fjallasýn til Bjarnareyjar. Seint og um síðir komust menn að þeirri niðurstöðu að einhverjir framleiðslugallar (steypugallar) hafi verið á netmöskvanum, en riðillinn var japanskur og tæknin við framleiðsluna þá ný.
Þar sem lítið var að gera reyndust bókakassarnir og kvikmyndirnar hans Sveins hin bestu gögn til tómstundaiðkana, en í kvikmyndasafnið bættist síðar ein filma sem varð ákaflega vinsæl og varð til þess að við fengum heimsóknir annarra áhafna sem vildu koma í bíó um borð í Ísleifi. Mynd þessi væri í dag kölluð blá, meira að segja dökkblá, en hjá okkur var hún í svarthvítu. Blessuð sé minningin um þessa mynd og þær ljúfu lausnir sem hún veitti á vandamálum sumra. Já tómstundaiðkanirnar eru af ýmsum toga spunnar. Fleira var sér til gamans gert. t.d. spilaður bridds á tveim borðum, haldið Lúdómeistaramót Ísleifs þar sem Siggi Guðna skaut okkur hinum ærlega ref fyrir rass og sigraði með miklum glæsibrag. Þá voru hljóðfæri um borð, rafmagnsorgel og gítarar, og var oft sungið og spilað. Sérstaklega minnist ég þess að um þjóðhátíðina sátum við uppi á bátadekki og sungum Eyjalög af hjartans list, héldum okkar eigin Þjóðhátíð, og Gunnar lét viskíflösku ganga svo við færum ekki algjörlega á mis við lystisemdir hátíðarinnar.
Eins og gefur að skilja með Jón Berg Halldórsson sem stýrimann þá geta þeir sem til þekkja rétt ímyndað sér hvort ekki hafi verið stunduð einhver prakkarastrik og gamanmál, jú, svo sannarlega. Eitt er þó það afrek sem Jón Berg vann og mun halda nafni hans á lofti um aldur og ævi meðal þeirra íslensku sjómanna sem þarna voru, en það voru frægir útvarpsþættir hans sem útvarpað var í gegnum talstöðina seinni partinn á sunnudögum og varð það til þess að fleiri áhafnir hófu þáttagerð og höfðu menn af þessu hina mestu ánægju.
Eftir mánaðarútiveru og sáralitla síldveiði var heimþráin farin að gera vart við sig og sáu menn vart fyrir endann á úthaldinu og sumir voru farnir að óttast að við færum ekki heim fyrr en um jól. Voru nú góð ráð dýr og ákveðið að taka um borð tunnur og salt og gera tilraun til að fylla skipið af saltsíld þannig að við yrðum á endanum að sigla heim. Þetta reyndist þjóðráð þó illa gengju veiðarnar, en í lok ágúst var búið að fylla lestarnar og ákveðið að sigla heim. Til Eskifjarðar komum við svo aðfaranótt 4. september. Man ég eftir því að þegar við fórum í land fannst mér þögnin svo þrúgandi að það var næstum óþægilegt, en svo var maður orðinn vanur hljóðinu í vélum bátsins að það var orðið hluti af tilverunni. Eftir tæplega tveggja mánaða úthald komum við svo til Vestmannaeyja þann 5. september og urðu þar hinir mestu fagnaðarfundir er menn hittu vini sína og fjölskyldur að nýju eftir langan aðskilnað.
Ég minntist á það í upphafi að í hámarki væri umræða um aðbúnað og andlega afkomu íslenskra sjómanna í Smugunni og á Flæmska hattinum og hefur verið haldið mjög á lofti því álagi sem á þeim er við slíkar aðstæður. Ég get svo sem fallist á að oft er erfitt að vera fjarri ástvinum og vinum um lengri tíma og ég get einnig fallist á það að tímarnir hafi breyst á tæpum 30 árum. En er ekki meira gert úr þessu en efni standa til? Er þetta nokkuð nýtt í íslenskri sjómennsku? Verða ekki menn að hafa ofan af fyrir sjálfum sér og gefa af sér í stað þess alltaf að heimta og ætlast til af öðrum? Ef aðstaðan um borð í 230 tonna „pungi“ var nógu góð fyrir 30 árum, er hún þá ekki nógu góð í mun stærri skipum sem eru tæknilega miklu betur útbúin nú en áður var?
Ég vil nota tækifærið og senda fyrrum félögum mínum hinar bestu kveðjur. Íslenskri sjómannastétt óska ég velfarnaðar á ókomnum árum um leið og ég óska sjómönnum gleði og hamingju á Sjómannadaginn.
Arnar Einarsson,
skólastjóri í Húnavallaskóla



Snið:Sjómannadagsblaðið í Vestmannaeyjum