Sverrir Haraldsson listmálari (minningargrein eftir Árna Johnsen)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minningargrein eftir Árna Johnsen sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 1. mars 1985 um Sverri Haraldsson:

Afburða hugsun og handverk Sverris Haraldssonar listmálara skópu hann sem einn af hátindum myndlistarinnar, þar fór hann sína persónulegu og sérstæðu leið. Bæði lærðir og leikir sáu skjótt að þar fór snillingur sem stækkaði umhverfi sitt með verkum sínum, skilaði menningunni áleiðis. Það var sérstætt að kynnast þessum snillingi, þessu undrabarni listagyðjunnar, eignast vináttu hans og verða vitni að lítillæti hans og varfærni, en þar er ef til vill grundvöllurinn að stærð mynda hans sem listaverka, öll smáatriðin, nostrið, eins og veröld með vini sínum. Það hefur brugðið birtu á degi við fráfall Sverris Haraldssonar og það er biturt að missa hann svo ungan fyrir Klettsnefið mikla, missa af þeim hugmyndum og listaverkum sem bjuggu í honum í tonnatali eins og stundum var sagt á Bæjarbryggjunni heima í Eyjum.

Það er ekki undarlegt hve Vestmanneyingurinn Sverrir Haraldsson hélt mikilli tryggð við heimabyggð sína sem fylgdi honum úr grasi og mótaði hann. Hvort tveggja í senn eru Vestmannaeyjar höggmynd og málverk, en það sem sameinar þetta tvennt í eina heild er iðandi líf um fles og bringi, berg, bæ og bláan sæ. Sverrir sagði stundum þegar hann hafði málað eina myndina enn af konu að það versta væri að það væri sama hvað myndin væri góð, konan yrði alltaf náttúrulaus. Gamansemi var einn af hans stóru kostum og það blikaði af henni jafnvel þegar heilsa hans var verst. Fyrst teiknaði Sverrir Eyjarnar og málaði eins og hið almenna auga sér þær, síðan formbylti hann þeim, færði til fjöll og hús, lét hið sífellda birtuspil milli hafs, himins og hamranna leika sér eins og kálfa á vori og það varð líf og fjör í þessum nýju Eyjum Sverris ekki síður en þeim gömlu. Þannig glæddi hann sínu lífi allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hvergi hef ég kynnst öðru eins birtuspili og í Vestmannaeyjum. Færeyjar koma næst en birtan af Eyjafjallajökli ræður úrslitum um röðina og móbergið með sínum óendanlegu formum eins og höggmynd eilífðarinnar. Í þessu umhverfi var háskóli listamannsins Sverris Haraldssonar og við sem þekkjum þessar eyjar í smáatriðum höfum sannreynt þetta því oft og iðulega er hægt að finna hluta af Eyjunum hvort sem um er að ræða myndir Sverris úr Svínahrauni, Sogamýrinni, frá Þingvöllum, Heklu eða af moldarbörðunum sem eru einstæðar myndir Sverris. Ég sagði stundum við Sverri að það væri einkennilegt að hann og annar listamaður úr Eyjum, Högna Sigurðardóttir, (sem nú starfar sem arkitekt í París) skildu í óllum sínum verkum vera að fást við Eyjarnar, færa formin úr þeim í myndirnar og hús. Hann hafði gaman af þessu og fannst það heimilislegt, var sáttur við sinn túnfót.

Sverrir fæddist í Vestmannaeyjum 18. mars 1930. Foreldrar hans voru Anna Kristjánsdóttir og Haraldur Bjarnason, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Svalbarða, Bjarna Jónssyni og Önnu Tómasdóttur. Þegar hann var 17 ára fór hann til náms í myndlistinni til Reykjavíkur og flutti þá til foreldra sinna sem bjuggu þar. Hans örugga heimahöfn til lengdar í lífinu voru Vestmannaeyjar, veröld afa og ömmu, en hann sótti út á hafið þar sem veðrabrigðin slipuðu hann og meitluðu i sífelldri leit að fullkomnara handverki, háleitari hugsun. Sverrir varð strax maður margra átta. Hann tók fullnaðarpróf upp á 9,70 í Barnaskóla Vestmannaeyja, það hæsta sem þá þekktist á landinu, en hann var ekki aðeins upp á bókina, hann var einnig bestur í leikfimi, fljótastur að hlaupa og gaf ekkert eftir í slagsmálum peyjanna í Eyjum í hefðbundnu hversdagslífi. Eftir barnaskólann lauk hann Iðnskólanum á tveimur árum, fjögurra ára námi, smíðaði, teiknaði, málaði og síðan tók hann kúrsinn á Handíðaskólann. Upp úr því varð Sverrir þjóðkunnur maður. Hann hóf að sýna 18 ára gamall með öðrum listamönnum, en tuttugu og tveggja ára gamall hélt hann sína fyrstu einkasýningu í Listamannaskálanum, alls 109 málverk og teikningar. Sverrir hikaði aldrei við að fara eigin leiðir í listsköpuninni, hann þótti undrabarn í myndlistinni, hann þótti stundum of snjall handverksmaður og menn náðu ekki alltaf hugmyndum hans í fyrstu, en tíminn hefur skerpt myndina af einstæðum listamanni sem fallinn er frá svo ótímabært.

Sverrir var góður sögumaður þar sem saman fóru miklar gáfur og gamansemi í ríkum mæli. Hann hafði gaman af að gera grín að sjálfum sér eins og öðrum í léttum dúr, en beittu spjótunum beindi hann að þeim sem honum þótti hreykja sér. Þó talaði hann aldrei illt orð um aðra, gat verið beittur en gerði gott úr, jafnvel því sem að ósekju var á hann hallað af illum tungum. Hann var forvitinn og gluggaði í margt, valdi síðan úr það sem honum þótti bitastætt. Sjaldan var honum brugðið svo eftir væri tekið en ég minnist þess að einu sinni sagði hann að sér hefði brugðið verulega. Það var þegar hann í leiðangri hafði heimsótt vændishús í Hamborg. „Þegar ég kom út aftur og áttaði mig á því að ég hafði ekki gert það eina sem ég hefði átt að gera í húsinu, þá brá mér snarlega."

Tónlistin var hluti af lífi Sverris og hann var listagóður píanóleikari, blúsaði og dixaði og hann gat auðveldlega sett sig í stellingar Scott Joplin við píanóið. Þegar maður minnist þessa kemur ósjálfrátt í hugann sérstætt samspil Sverris og félaga hans Guðna Hermansen í Vestmannaeyjum. Þeir ólust upp saman, þeir gátu gert hvað sem þeim datt í hug svo eftir var tekið, málað, teiknað, smíðað, leikið á hljóðfæri og þeir fóru saman í Handíðaskólann. Síðan skildu leiðir en upp úr 1960 þá detta þeir niður á skyldan stíl í málverkinu, án þess að vita hvor af vinnubrögðum annars. Þeir hófu nýtt tímabil á sömu línu, en héldu sínu striki eins og alltaf áður.

Að ganga með Sverri var ævintýri, þar sem aðrir sáu urð, sá hann lífið og tilveruna í réttu ljósi, smáatriðin spruttu fram í myndefni, uppsprettu hugmynda, og pensillinn varð hans verkfæri. Ég held að það eigi það sama við um Sverri og hann sagði um Kjarval. Þeir þurrkuðu ekki svo úr pensli að það yrði ekki sérstætt. Enda hreifst Kjarval af Sverri og hann var einn af fáum málurum sem ég heyrði hann tala um með djúpri virðingu. Það var gagnkvæmt hjá Sverri.

Með þakklæti minnist ég þess að um margra ára skeið var ég þess aðnjótandi að fylgjast með hverri mynd Sverris verða til, fylgdist með ótrúlegri þolinmæði listamannsins að skapa verk sín. Hann sá veröldina skarpari augum en flestir og verk hans voru í samræmi við það, hann upphóf litina í þjöppun málverksins. Hans bestu ár í málverkinu voru á Hulduhólum, þá truflaði heilsuleysi hann minnst um nokkurt skeið, en hann nýtti ávallt vel góðu stundirnar og þá lék pensillinn eða blýanturinn við hvern hans fingur. Það voru oft brattar umræðurnar á nóttum heima hjá Sverri og Steinunni þar sem jafnvel lóðin var gerð að listaverki. Þar eru meira að segja tjarnir og þar skautaði Sverrir þegar svell lagðist yfir, en hann var listhlaupari á skautum þótt fáir vissu, byrjaði í Herjólfsdal og á Vilpu í Eyjum.

Undarleg er tilveran. Þegar Sverrir var aðeins 47 ára gamall var gerð um hann af einkaframtakinu ein viðamesta bók sem gerð hefur verið um listamann hér á landi, samtalsbók Sverris og Matthíasar Johannessen skálds sem þeir Páll Vígkonarson og Gunnar Þorleifsson gáfu út, en í bókinni eru nokkuð á annað hundrað litmyndir og svart/hvítar myndir af verkum Sverris. Bókin er góður Sverrir, skemmtileg, fróðleg, fögur og sérstæð. Þar kemur fram meðal annars aðdáun Sverris á hollenska meistaranum Vermeer sem málaði aðeins 43 myndir um ævina svo vitað sé en þar er um að ræða einn af dýrustu steinunum í kórónu myndlistarinnar. Það var ýmislegt líkt með Vermeer og Sverri, afburða verklagni, óendanlegt næmi fyrir birtu og meðferð lita. Sverrir sagði stundum að það væri skammarlegt að hafa málað fleiri myndir en Vermeer, menn ættu ekki að leyfa sér slíkt. í bókinni um Sverri sem titrar af hrífandi samspili listmálarans yrkir Matthías um Vermeer í orðastað Sverris:

„Ég kynntist þér aðeins af afspurn, í myndum
sem umrótið skolaði á veggi safna:
i lífinu einungis nafn meðal nafna
í návist minni einn af þeim tindum
sem gnæfa úr flatneskju feigðar og hrafna.
Þú ávarpar mig frá öld sem er gengin,
úr öruggu skjóli málverka þinna
og ég sem er samtíma Astrix og Tinna
fæ óljósan grun um fegursta strenginn.
Ég horfi á þig ungan eitt andartak finna
þá ölvuðu gleði sem hríslast í blóði,
en síðar með stafinn og visnaðan vanga
og vinstra fót bæklaðan, þjáning að ganga,
þú situr við trönurnar, hugsar í hljóði
og hreyfir pensil og teiknar á stranga.
Ég veit raunar ekki hvað varð um þig, góði,
en vefur þíns lífs er spunninn úr þáttum
sem enginn þekkir og aðeins í myndum
er svolítið brot af vef sem við vindum
úr von og ótta og því sem við máttum
loks upplifa saman í örfáum myndum."

Síðustu árin voru Sverri erfið, það seig sífellt á ógæfuhliðina, en hann naut mikils styrks frá sambýliskonu sinni, Guðrúnu Sverrisdóttur og í hléum milli storma urðu listaverkin til, lífsbaráttan frá degi til dags. Eitt af þjóðskáldum landsins i myndlistinni er horfið úr augsýn, mikill listamaður sem var fyrst og fremst maður, samkvæmur sjálfum sér og svo tryggur vinur vina sinna að aldrei bar skugga á. Það var alltaf gott að hitta Sverri og eiga með honum dýrmætar stundir, en það var í sjálfu sér nóg að hugsa til hans, þá leið manni vel. Vinarþel var hans aðalsmerki.

Einu sinni að næturlagi hringdi Sverrir í mig og sagði að það væri kominn smyrill inn í vinnustofuna hjá sér með mikinn usla. Stuttu seinna hafði okkur tekist að ná smyrlinum sem hafði komist inn um opinn glugga í vinnustofunni, mikið særður á brjósti, líklega hafði hann flogið á gaddavír. Með réttri meðferð tókst okkur að lækna smyrilinn á nokkrum dögum og hann tók flugið á ný. Ég gleymi aldrei glampanum í augum Sverris þegar fuglinn hlaut frelsið á ný. Nú nýtur Sverrir þessa frelsis. Megi eilífðin gefa honum birtu og það svigrúm sem hann þarfnast. Megi góður Guð styrkja vini og vandamenn sem eftir lifa. Megi listaverk Sverris styrkja landsmenn í trú á hinn íslenska tón, hinn íslenska hátind.

Árni Johnsen