Svala Johnsen (Suðurgarði)
Anna Svala Johnsen fæddist 19. október 1917 í Vestmannaeyjum og lést 16. janúar 1995. Foreldrar hennar voru Margrét Marta Jónsdóttir og Árni J. Johnsen kaupmaður og bóndi í Suðurgarði. Eiginmaður Svölu var Ólafur Þórðarson rafvirkjameistari, fæddur í Reykjavík. Þau eignuðust þrjú börn, Árna Óla, Jónu og Margréti Mörtu en Ólafur átti einnig tvær dætur af fyrra hjónabandi.
Svala vann við margs konar störf um ævina. T.d. var hún ein fyrsta konan sem var kokkur á síldarbát á fimmta áratug síðustu aldar. Hún þótti hamhleypa til verka og um margra ára skeið reytti hún lunda í Suðurgarði, sem þótti afbragðs vara auk þess sem lundafiðursængur frá henni voru eftirsóttar. Síðustu ár starfsævi sinnar starfaði hún við ræstingar í Gagnfræðaskólanum og svo Framhaldsskólanum þegar hann var stofnaður.