Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Brjóstmynd af Binna í Gröf

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Brjóstmynd af Binna í Gröf


Laugardaginn 7. janúar 1978 var samankominn hópur fólks í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Þann dag var afhjúpuð brjóstmynd sú, er Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi hafði látið gera af hinum kunna afla- og dugnaðarmanni, Benóný Friðrikssyni - Binna í Gröf. Sigurjón Ólafsson, myndhöggvari, var fenginn til þess að gera myndina.
Fyrir hönd Verðandi afhenti Steingrímur Sigurðsson, skipstjóri, Stýrimannaskólanum myndina, og flutti við það tækifæri ávarp, er hér fer á eftir.
Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans, tók við styttunni f.h. skólans til varðveizlu. Fer ræða hans við það tækifæri einnig hér á eftir.
Ekkja Benónýs Friðrikssonar, frú Katrín Sigurðardóttir, afhjúpaði styttuna, en viðstödd þessa athöfn voru einnig börn þeirra hjóna.
Oddný Benónýsdóttir þakkaði þann sóma, sem látnum eiginmanni og föður, var með þessu sýndur.

Ávarp Steingríms Sigurðssonar.

Góðir félagar og gestir.
Við erum hér saman komin til að minnast Benonýs Friðrikssonar frá Gröf í Vestmannaeyjum. Tilefnið er öðru fremur, að á fundi í S.s. Verðandi 21. des. 1970 var borin upp tillaga frá Guðjóni Pálssyni og Friðrik Ásmundssyni þess efnis, að félagið léti í sínu nafni gera brjóstmynd af Binna í Gröf í virðingar og þakklætisskyni fyrir heillarík störf.

Steingrímur Sigurðsson ávarpar gesti.


Einnig var samþykkt að fela tillögumönnum að efna til frjálsra framlaga meðal félaga, til að koma þessu máli í framkvæmd, og var til þess tekið af hálfu nefndarmanna, hversu auðvelt reyndist að afla fjár til þessa verks meðal félaga.
Á þessum fundi var einnig samþykkt að fela stjórn félagsins í samráði við Binna í Gröf, hvar myndinni skyldi valinn staður. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og Binni í Gröf var allur, áður en slíkt kom til endanlegrar ákvörðunar. En ekki mun sá staður, sem nú hefur verið valinn sem endanlegur samastaður þessarar myndar, hafa verið Binna á móti skapi.
Sú ákvörðun stjórnar félagsins að fela Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum myndina til eignar og varðveislu er enginn tilviljun, staðurinn er sá eini, sem kom til greina.
Myndin er virðing af hálfu starfsbræðra við þann mann, sem bar höfuð og herðar yfir sína samtíð sem skipstjórnarmaður, bæði hvað varðar aflasæld og giftu í starfi. Hún er líka áminning til verðandi skipstjórnarmanna um dugnað, áræði og farsæla stjórn, sem öllum má vera til fyrirmyndar.
Um æfi Binna í Gröf hefur svo margt veri ritað að ekki er á mínu valdi að bæta þar nokkru um. Þó mun ég telja hér upp nokkur atriði úr æfi þessa mæta manns sem við nú minnumst.
Benóný Friðriksson var fæddur að Gröf í Vestmannaeyjum þann 7. janúar 1904 og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Eins og annara barna og unglinga var fjaran hans leikvangur og um leið skóli. Skóli sem kenndi drengjum þeirrar tíðar, að dugnaður og áræði var brauðstritið sjálft. Þá urðu allir að geta bjargað sér sjálfir. Binni í Gröf var duglegur nemandi í þeim lífsins skóla, enda ekki nema fjórtán ára, er hann er orðinn formaður á fjögurra manna fari.
1924-1925 tekur Binni í Gröf stýrimannapróf. 1928 tekur hann m.b. Gúllu og er með þann bát til 1932, er sá bátur brann og sökk. Eftir þetta er Binni skipstjóri á eftirtöldum bátum: Gottu, Heklu, Gulltoppi, Sævari Þór, Andvara og Gullborgu frá 1954 til dauðadags 1972, og fylgdi honum alla tíð sú mikla aflasæld og gifta, sem einkenndi svo mjög alla hans formannstíð.


Í einkalífi sínu var Benóný ekki síður gæfumaður. Árið 1931 hóf hann búskap með eftirlifandi konu sinni Katrínu Sigurðardóttur, og eignuðust þau átta mannvænleg börn. Benóný Friðriksson var af öllum samtíðarmönnum talinn sérstakur öðlingur, bæði sem vinur, félagi og keppinautur. Aldrei hef ég heyrt á Benóný hallað hvorki til orðs né æðis, og sem nærri má geta með slíkan atorkumann var ekki nein lognmolla í hans framkvæmdum og gerðum, það var sama hvað hann gerði allt virtist ganga svo ljúft og liðugt fyrir sig.
Margir sem kynntust honum persónulega hafa sýnt honum ýmsan sóma. Meðal annars var hann sæmdur titlinum Aflakóngur Vestmannaeyja til fjölda ára. Einnig þjóðfélagið sýndi honum þann heiður að sæma hann Fálkaorðunni um áramót 1970-71.
Um leið og ég afhendi Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum þessa mynd af Benóný Friðrikssyni fyrir hönd S.s. Verðandi vil ég biðja Katrínu Sigurðardóttur, þá konu er Benóný valdi sér að lífsförunaut og reyndist honum slík stoð og hamingjuvaldur sem raun ber vitni, að koma hér og afhjúpa þessa mynd sem hér er komið fyrir af Benoný Friðrikssyni.

Að loknu ávarpi Steingríms gekk frú Katrín Sigurðardóttir fram og afhjúpaði styttuna.


Friðrik Ásmundsson þakkar.


Að afhjúpun lokinni flutti Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans, eftirfarandi ávarp:

Góðir gestir.
Mér er mikið þakklæti í huga, þegar ég, f.h. Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum tek við þessari minningargjöf Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi.
Núna á síðustu vikum hafa fyrirtæki og félög hér í Eyjum sýnt þessari stofnun mikinn virðingarvott og hlýhug. Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja og Lifrarsamlag Vestmannaeyja hafa nýverið á aðalfundum sínum samþykkt hvort um sig að gefa í minningarsjóð hjónanna frá Miðbæ kr. 200.000.-, en það er sjóður, sem styrkja mun efnalitla nemendur. Nú í dag gefur S.s. Verðandi svo skólanum þessa styttu af Benóný heitnum Friðrikssyni, skipstjóra, frá Gröf.
Verðandi gat ekki gefið skólanum betri gjöf né sýnt honum meiri sóma.
Benóný Friðriksson nam sín skipstjórnarfræði við stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum.
Hann er tvímælalaust frægasti nemandi frá stýrimannaskóla Vestmannaeyja og sá, sem mestum árangri hefur náð í störfum sínum á hafinu, þeirra sem hér hafa numið.
Við, sem störfum hér og nemum, erum stoltir yfir að hafa mynd hans hér hjá okkur. Hér mun mynd hans og saga varðveitast. Ungum mönnum, sem hingað koma til náms, verður sögð saga hans.
Sagan af unglingnum, sem 15 ára gamall sýndi einstaka hæfileika, er síðar gerðu hann að einum mesta fiskimanni, sem sögur fara af, og þeim afbragðs sjómanni, sem alla sína löngu og hörðu skipstjórnartíð stjórnaði þannig, að aldrei varð slys hjá honum.
Sagan af því, þegar hann 16 ára gamall var skipstjóri á seglskipi frá Skálum á Langanesi. En þeir Langnesingar töldu hann einstakan sjómann, sem var snillingur bæði við segl og stýri og síðan framhaldið. Aflakóngstitlarnir ár eftir ár í hin ýmsu veiðarfæri í stærstu verstöð landsins með 70-90 bátum.
Þeir, sem til þekkja, vita að Eyjaformennirnir, sem voru fyrir aftan hann, voru engir skussar.
Þetta voru úrvals aflamenn, langt fyrir ofan heimsmælikvarða. Menn, sem létu ekki hlut sinn fyrr en í fulla hnefana. En enginn varð eins oft aflakóngur og Binni í Gröf.
Þetta er örstutt saga þessa fræknasta nemanda Stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum.
Vonandi verður hún hvatning þeim ungu mönnum, sem eiga eftir að koma hingað og nema.
Ég er mjög glaður yfir, að frú Katrín Sigurðardóttir skuli hafa hér afhjúpað mynd manns síns. Það gefur þessari stund mikið gildi.


Það vissu allir, að Benóný Friðriksson átti ekki margar frístundir í landi, en hver man ekki þau hjón saman, prúðbúin á gangi á götu. Það duldist engum, að þar fór hamingjusamt par, og er mér það marg minnisstætt.
Mér fannst þau alltaf eins og nýtrúlofuð. Hún hlýtur að hafa átt þar góðan hlut að máli.
Ég lýk máli mínu með miklu þakklæti til S.s. Verðandi fyrir þessa heiðursgjöf og bið fulltrúa þess félags, sem hér eru, að færa félaginu þær þakkir.
Ég vil líka, að það komi fram hér, að mér er það mikil uppörvun, og mér er mikið þakklæti í huga fyrir þann hlýhug, sem að baki þessarar gjafar er.