Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Þeim kann enginn gjöra grand

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þeim kann enginn gjöra grand


17. júlí síðastliðinn, á 350 ára dánardægri Jóns Þorsteinssonar, píslarvotts (í Tyrkjaráni árið 1627), var vígður minnisvarði um þennan atburð á þeim stað sem Kirkjubær stóð, 100 metrum undir hrauni og gjalli. Þessi minnisvarði er reistur af söfnuði Landakirkju, og er sami steinn í varðanum og var í minningarreitnum við Kirkjubæ, en það er nákvæm eftirlíking af legsteini Jóns, sem varðveittur er í Þjóðminjasafni.


Hér fer á eftir ræða sem sóknarpresturinn, séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson, flutti við vígsluna. Í dag viljum við sýna minningu þeirra virðingu, sem dóu og liðu vegna Tyrkjaránsins 17. júlí 1627. Það var sorgardagur í lífí Vestmannaeyinga. Einn af fjölmörgum sorgardögum í lífi Eyjabúa og þeirra mestur.
Oft hafa tár hnigið af hvarmi þegar bát bar ei að landi eða önnur slys og ógæfa bar hér að garði. Í sögu Vestmannaeyja eru skin og skúrir líkt og í lífi einstaklingsins, erfiðleikar, mótlæti, gleði og hamingja.
Tveir atburðir eru voðalegastir í sögu okkar, þó ólíkir séu. Tyrkjaránið og jarðeldarnir 1973. Við munum eldgosið, Tyrkjarán tilheyrir liðinni sögu. Í mínum huga tengjum við í dag fortíð og nútíð, þegar söfnuður Landakirkju endurreisir legstein síra Jóns píslarvotts Þorsteinssonar á hrauni því, er rann í eldgosinu 1973. Hér er minnisvarði reistur, ekki aðeins fyrir okkur er nú stöndum hér eða okkar kynslóð, heldur fyrir framtíðina og óbornar kynslóðir.
Á minnisvarðann er fest plata með svohljóðandi áletrun:

Ég fel nú bæði Eyna og land<br í Drottins náðar hendur.
Þeim kann enginn gjöra grand,
sem guðs vernd yfir stendur.
Þó margt hvað vilji þjaka oss,
með þolinmæði berum kross,
hann verður í gleði vendur.

Séra Jón Þorsteinsson,
píslarvottur.

Hér er Kirkjubær um 100 metra undir hrauni. Þar sat síra Jón Þorsteinsson frá 1612, líflátinn í Tyrkjaráni 17. júlí 1627. Andlátsorð hans voru: Herra Jesú, meðtak þú anda minn.
Stein þennan, sem bjargað var undan jarðeldunum 1973 endurreisti söfnuður Landakirkju yfir gröf hans 17. júlí 1977.
Vers það sem lesið var og er skráð á plötuna á minnisvarðanum er eftir Jón píslarvott. Hann var skáld og orti vers þetta eftir að Englendingar rændu eyjuna 1614. Þetta fagra bænarvers Jóns er bæn okkar í dag. Því vissulega er enn þörf blessunar og náðar Drottins. - Þó að við óttumst ekki endurtekningu þeirra atburða er hér urðu fyrir 350 árum, þá er enn áhættusamt að lifa og sorg í lífi einstaklinga. Við biðjum þess, að Guð veri með okkur nú og ávallt.
Hér er vers þetta skráð, - höggvið í stein, sem bæn okkar í dag, sem bæn allra, sem unna Vestmannaeyjum og því lífi, sem hér er lifað. Ótaldir munu hafa yfir þetta vers, þegar þeir koma hér og lesa það sem hér er skráð. Bæn til Drottins um frið og farsæld.
Ég þakka sóknarnefnd Landakirkju og öðrum, sem gert hafa okkur kleift að minnast á þennan hátt Jóns píslarvotts og Tyrkjaránsins. Við þökkum biskupi þann velvilja, er hann hefur sýnt þessu máli. Og ég þakka [[Stefán Árnason|Stefáni Árnasyni fyrir mikinn og vakandi áhuga á framgangi þessa máls. Við sendum honum kveðjur og biðjum honum Guðs blessunar.
Við lútum nú höfði og minnumst allra þeirra, sem þoldu píslir, dauða og sorg í Tyrkjaráni 1627.

Við biðjum saman:
Faðir vor, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu, því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Amen.

Sveinn Jónsson á Landamótum er elzti núlifandi borgari bessa bæjar, varð 100 ára hinn 1. desember s.l. Hann dvelst nú á sjúkrahúsi í Reykjavík.