Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ 50 ár frá því að Glaður VE 270 fórst

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGURGEIR JÓNSSON



50 ár frá því að Glaður VE 270 fórst



Þriðja skiptið sem sjómenn frá Vestmannaeyjum björguðust í gúmbát og fyrsta skiptið sem allir skipverjar björguðust.



Sigurgeir Jónsson

Í ár eru 50 ár síðan mb. Glaður VE 270 fórst. Allir skipverjar, átta að tölu, björguðust og var það að þakka nýju tæki, gúmbjörgunarbát, sem þá var raunar komið um borð í allnokkra báta í Vestmannaeyjum.
Þetta var í þriðja sinn sem slíkt tæki bjargaði mannslífum á Eyjaflotanum. Þegar Veiga VE 291 fórst árið 1952 björguðust 6 af 8 manna áhöfn og árið 1953, þegar Guðrún VE 163 fórst, björguðust 4 af 9 manna áhöfn. Ekki var skylda að hafa gúmbáta um borð í bátum af þessari stærð á þessum tíma en margir útgerðarmenn höfðu þó séð hvílíkt gildi þeir höfðu og sett þá um borð. Vertíðina 1954 voru gúmbátar í nær öllum bátum í Vestmannaeyjum. Björgun skipverjanna af Glað sýndi enn og sannaði hve frábært björgunartæki þetta var og var þess ekki langt að bíða að sett var í lög að hafa gúmbát um borð í öllum bátum.
Upphaf þessara björgunartækja í Eyjaflotanum var að í kringum 1950 mun Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður á Hrauni, hafa rekist á þetta fyrirbæri hjá Sölunefnd varnarliðseigna og voru þessir bátar björgunartæki úr flugvélum hersins. Honum kom strax í hug að þetta gæti nýst sem björgunartæki í bátum og setti slíkan bát um borð í bát sinn, Veigu VE. Aðrir komu á eftir, svo sem Sighvatur Bjarnason í Ási og fleiri en upphaflega voru ekki allir á eitt sáttir með gagnsemi þeirra og einhverjir sem gagnrýndu að þarna væri verið að vekja falskt öryggi með mönnum. Þær raddir áttu þó eftir að þagna, þegar þessi tæki tóku að sanna ágæti sitt.

Fimm Færeyingar af átta manna áhöfn

Glaður VE 270

Glaður VE 270 var 17,83 smálesta skip, smíðað úr furu í Noregi 1928, með 60 ha Scandiavél og voru eigendur hans þeir Þorgils Bjarnason frá Fagurhól, 48 ára og Þorleifur Guðjónsson frá Reykjum, 27 ára. Þeir voru báðir í áhöfn vetrarvertíðina 1954, Þorleifur skipstjóri og Þorgils vélstjóri. Þá voru sex hásetar í áhöfninni, einn Íslendingur og fimm Færeyingar en mjög algengt var á þessum árum að stór hluti skipverja á bátum á vetrarvertíð væri frá Færeyjum.
Þeir Þorleifur og Þorgils höfðu nýlega keypt bátinn af Guðjóni á Reykjum, föður Þorleifs og Guðmundi syni hans og bróður Þorleifs en þeir höfðu átt hann síðan 1947. Upphafið að félagsskap þeirra Leifs og Gilsa var að mikill vinskapur ríkti milli heimila þeirra, að Reykjum í Vestmannaeyjum og Indriðakoti undir Eyjafjöllum, þaðan sem Gilsi var ættaður. Þorleifur var látinn heita í höfuðið á bróður Gilsa, en hann lést úr brjóstveiki, ungur að árum, og einnig var Leifur í sveit að Indriðakoti að sumarlagi á sínum yngri árum.
Ekki ber þessum upplýsingum um skráninguna í öllu saman við lögskráningarbók bæjarfógetaembættisins í Vstmannaeyjum en þar er Þorgils skráður skipstóri og því var ekki breytt þó svo að Þorleifur væri með bátinn þessa vertíð. Þá var Þorleifur einnig með vélstjórnarréttindi sem Þorgils hafði ekki og því var hagkvæmt að hafa þennan háttinn á og skipti í raun engu þegar allir aðilar voru því samþykkir.
Þann 15. febrúar eru lögskráðir þrír skipverjar á Glað, Þorgils skipstjóri, Þorleifur vélstjóri og Ágúst Guðjónsson, háseti, 47 ára. Ágúst var Vestmannaeyingur og fékk viðurnefnið „slettó “ vegna sérkennilegs göngulags.
Þann 31. mars eru svo Færeyingarnir fimm lögskráðir sem hásetar en tekið fram að vistarmánuður þeirra byrji 28. febrúar og hafa þeir því væntanlega byrjað að róa um mánaðamótin febrúar mars. Þessir Færeyingar voru Hans Klyver 28 ára, Peter Muller 18 ára, Jakob Heinesen 32 ára, Daníel J. Olsen 47 ára og Karton Joensen 17 ára. Þeir Hans, Peter og Jakob eru í skráningarbók sagðir vera frá Vági í Færeyjum en þeir Daniel og Karton frá Trangisvági. Þarna er ekki alveg rétt með farið, allir voru þeir reyndar frá Suðurey og þeir Daniel og Karton voru frá Trangisvági en hinir þrír voru allir frá Porkeri. Þá er ritháttur nafna tveggja þeirra ekki upp á færeysku heldur sniðinn eftir dönskum rithætti en hið rétta er að þeir hétu Petur Muller og Danjal J Olsen.

Sökk á tíu mínútum

Þorgils Bjarnason, Ágúst Guðjónsson og Þorleifur Guðjónsson

Sunnudaginn 11. apríl réru flestir Vestmannaeyjabátar þó svo að veður væri tvísýnt. Tíð hafði verið slæm það sem af var aprílmánuði og síðustu daga hafði lítið verið róið. Þeir á Glað voru með eina niðursteinaða trossu um borð sem ætlunin var að leggja á Sandahrauninu, austur af Eyjum. Þorleifur átti ekki von á að hægt yrði að draga neitt af þeim netum sem þeir áttu í sjó og varð raunin sú enda þungur sjór. Margir Eyjabáta sneru til hafnar á ný án þess að geta dregið nokkuð af sínum netum, einhverjir náðu hluta þeirra og einstaka bátur náði að draga öll sín net. Þeim á Glað tókst að leggja trossuna á Sandahrauninu og Þorleifur ákvað að láta við svo búið sitja og snúa aftur heim til Eyja þegar því var lokið. Þá var komið hið versta veður, níu vindstig af suðvestri og haugasjór.
Þegar Glaður var um hálfa aðra mílu austur af Elliðaey fékk hann á sig brot. Þorleifur var þá í stýrishúsinu og einn skipverja með honum, hinir sex voru frammi í lúkar. Þorleifur lýsir þessu þannig í viðtali við dagblaðið Tímann:
„Harður hnútur kom á bátinn að framanverðu. Tók sjórinn sig upp rétt við bátinn og sáum við hann ekki fyrr en hann skall á bátinn með svo miklu afli að hann brotnaði að framan og sjórinn féll inn og var strax í upphafi óstöðvandi.“ (Tíminn. 13. ap. 1954).
Þegar Þorleifur sá að hverju stefndi, brá hann við og ætlaði fram í lúkar þar sem talstöðin var geymd. En við höggið sem kom á bátinn, þegar brotið reið á honum, hafði talstöðin hrokkið úr festingu sinni á þilinu, skollið á lúkarsgólfið og þar með orðið óvirk þannig að ekki var hægt að senda út neyðarskeyti. Um sama leyti drapst á vél bátsins. Engir aðrir bátar voru þarna nærstaddir og var Glaður eini báturinn austan við Eyjar þegar slysið varð.
Þeim skipverjum, sem voru frammi í lúkar, hafði ekki orðið meint af þegar brotið reið á bátnum og voru allir heilir á húfi. Þeir brugðu nú skjótt við að losa gúmbjörgunarbátinn sem var í kassa á stýrishúsinu. Þeim gekk greiðlega að ná bátnum en svo tæpt stóð það að þeir nánast köstuðu sér fyrir borð með bátinn í fanginu, rétt áður en Glaður sökk. Ekki munu hafa liðið nema um tíu mínútur frá því að hann fékk á sig brotið og þar til hann var sokkinn. Öllum tókst þeim giftusamlega að komast um borð í gúmbátinn en neyðarraketturnar sem fylgdu bátnum lentu í sjónum í öllum atganginum svo og vistapakki sem fylgdi gúmbátnum.

Báturinn stóð sig hið besta

Karton Joensen

Og nú hófst löng og erfið bið í óveðri sem stóð allan daginn og fram á þann næsta, í nær sólarhring. Slysið varð um ellefuleytið á sunnudag og byrjaði gúmbátinn strax að reka undan vindi og sjó austur með landi. Meðan bjart var höfðu þeir alltaf landsýn. Þokkalega fór um þá í gúmbátnum þó að vísu væri þar þröngt. Allir voru þeir blautir en fengu hita hver af öðrum þar sem þröngt var setið. Engar vistir voru um borð í gúmbátnum en einn þeirra hafði gripið með sér bitakassann sinn og skiptu þeir með sér þeim mat sem þar var að hafa. Allan tímann voru þeir vongóðir um að þeim yrði bjargað og þóttust þess fullvissir að leit yrði hafin þegar Glaður skilaði sér ekki til hafnar. Þá þótti þeim ekki ólíklegt að skip væru á siglingu á þessum slóðum.
Þorleifur gefur gúmbátnum bestu einkunn, í viðtalinu í Tímanum, og segir hann hina bestu fleytu. Það sjáist hvað best á því að honum hafi aldrei hvolft í öllum þeim ósköpum sem yfir gengu. Þá var gott afdrep í bátnum þar sem tjaldað var yfir hann og því vosbúðin minni en ella.
Allan sunnudaginn var stöðugt hvassviðri og stórsjór og bar þá austur með, nokkuð djúpt. Ekki urðu þeir varir við neinar skipaferðir þann dag. Aðfaranótt mánudags lægði veðrið heldur, en versnaði svo aftur með morgninum og í birtingu fóru þeir aftur að horfa vonaraugum eftir skipaferðum.
Snemma morguns sáu þeir skip alllangt frá þeim og nær landi. Þá hafði gúmbátinn borið djúpt austur og var þá um 50 sjómílur austur af Eyjum eftir því sem síðar kom í ljós. Þegar þeir sáu til skipsins bundu þeir veifu á ár, sem var um borð, Þorleifur fór utan á gúmbátinn og reisti upp árina í von um að til þeirra sæist. En það reyndist árangurslaust og skipið sigldi burt, án þess að skipverjar þar yrðu þeirra varir.
En ekki leið á löngu þar til þeir urðu aftur varir við skip sem var á siglingu og nú mun nær þeim en hitt hafði verið. Þá mun klukkan hafa verið um hálfátta á mánudagsmorgun. Aftur settu þeir upp veifuna og nú bar það árangur. Skipið breytti um stefnu og sigldi í átt til þeirra. Þetta reyndist vera breski togarinn Hull City sem var að koma frá Grimsby, á leið á Íslandsmið. Gekk greiðlega að koma skipbrotsmönnum um borð og fengu þeir þar hinar bestu viðtökur og aðhlynningu. Þegar togarinn kom að bátnum var hann staddur djúpt úti af Hjörleifshöfða og var tekið að reka til hafs. Er með öllu óvíst hvort leit að honum hefði borið árangur, fvrr en eftir langan tíma.

Heimildum ber ekki saman um leitina
Í bókinni Þrautgóðir á raunastund, eftir Steinar J. Lúðvíksson, II. bindi, segir svo:
„Þegar Glaður kom ekki til hafnar í Vestmannaeyjum á tilsettum tíma var farið að undrast um bátinn og reynt var að hafa loftskeytasamband við hann. Þegar Glaður svaraði ekki þeim köllum var þegar undirbúin leit að bátnum og Slysavarnafélagi Íslands tilkynnt um hvarf hans. Leituðu margir Vestmannaeyjabátar um kvöldið og nóttina, en án þess að verða varir neins sem bent gæti til afdrifa bátsins. Morguninn eftir átti svo að halda leitinni áfram, enn umfangsmeiri en áður, en þá barst gleðifregnin um að mönnunum hefði verið bjargað. Þóttu þeir að vonum úr helju heimtir.“ (Steinar J. Lúðvíksson II, bls. 48).
Í Tímanum, þriðjudaginn 13. aprÍl, segir um leitina að bæði varðskipið Ægir og eftirlitsskipið Fanney hafi leitað að Glað, eftir að hans var saknað, en líklega ekki farið nógu djúpt. Þá segir og að flugvél hafi leitað á mánudagsmorgun, án árangurs.

Ekki ber þessum heimildum í öllu saman við það semMagnús Guðjónsson, bróðir Þorleifs, segir um leitina. Magnús segir að sér vitanlega hafi bátar ekki verið fengnir til leitar enda hafi veður verið slíkt að varla hefði verið verjandi að senda bátana út enda áttu sumir þeirra í erfiðleikum með að ná til hafnar þennan dag. Þá kannast Magnús ekki við að Ægir haft tekið þátt í leitinni, a.m.k. ekki austan við Eyjar og hann hafi aldrei heyrt þess getið að flugvél haft verið send til leitar. Það hafi e.t.v. staðið til en veðrið hafi vart gefið tilefni til að senda flugvél á loft. Aftur á móti hafi eftirlitsskipið Fanney leitað og farið austur undir Opinn Foss. Þar hafi skipstjórinn tilkynnt að tæplega væri skipgengur sjór á svæðinu og honum þá verið sagt að snúa við. Fanney RE 4 var frambyggt skip, smíðað í Ameríku og var aðeins 138 brl. að stærð.

Gúmbáturinn vakti mikla athygli skipverjanna á Hull City.Þeir höfðu aldrei séð slíkan grip áður þó svo að báturinn væri framleiddur í Englandi.Ljósm. Friðrik Jesson

Magnús segir enn fremur að ekki hafi komið tilkynning í útvarpi þar sem skip á þessum slóðum væru beðin að svipast um eftir bátnum og viðbrögð skipstjórans á Hull City, þegar hann fann gúmbátinn, bendi til þess að hann hafi ekki haft hugmynd um hvað gerst hafði.
Þá var það ekki til að auðvelda leitina að einhverjir töldu að Glaður hefði verið vestan við Eyjar og töldu sig hafa séð bátinn þar. Hið rétta kom þó fljótlega í ljós þar sem Þorleifur hafði sagt ýmsum það, áður en hann lagði af stað, m.a. Guðjóni í Hlíðardal, að hann ætlaði austur á Sandagrunn og hafði jafnframt tilkynnt það heima hjá sér að hann ætlaði að vera kominn í land í hádegismat. Því var það að tekið var að óttast um afdrif þeirra strax upp úr hádegi á sunnudag.
Magnús Guðjónsson greinir svo frá að Sigurjón Auðunsson sem þá var verkstjóri hjá Bæjarútgerð Vestmannaeyja, hafi sagt sér að hann og Einar Guðmundsson frá Málmey hafi séð er Glaður fór austur á milli eyja á sunnudagsmorgun þannig að ekki hafi farið milli mála hvert báturinn hafi farið. Þá hefur Magnús einnig eftir Sigurjóni að hann hafi verið að því kominn á mánudagsmorgun að ræsa út mannskapinn á togaranum Vilborgu Herjólfsdóttur, sem þá var í landi, til að hefja leit. Til þess kom þó ekki þar sem sú gleðifregn barst þá um morguninn að breskur togari hefði bjargað skipbrotsmönnum af Glað. Og það var svo sannarlega gleðifregn fyrir Vestmannaeyinga þegar skipstjórinn á Hull City hafði símasamband við Georg Gíslason, kaupmann og umboðsmann enskra togara, í Eyjum og tjáði honum að allir skipbrotsmenn, átta að tölu, væru komnir um borð hjá sér heilir á húfi. Skipstjórinn taldi sig hafa verið að bjarga skipverjum af færeyskum bát, sem héti Glaður, þar sem meirihluti þeirra talaði færeysku en Georg leiðrétti strax þann misskilning og sagði honum að báts með þessu nafni og með átta manna áhöfn væri saknað frá Eyjum.

Magnús Guðjónsson segir að það hafi verið mikil gleðitíðindi þegar Georg hringdi heim að Reykjum, strax eftir þetta saintal, og tilkynnti að öll skips-höfnin hefði bjargast um borð í Hull City og væri á leið til Eyja.

Björgun úr gúmbát. Þessi mynd er i eigu Péturs Muller og er á stofuveggnum á heimili hans í Porkeri. Sjálfur er hann ekki viss um tilurð hennar, segir að hún sé komin vel til ára sinna og giskar á að hún sé úr auglýsingu frá framleiðanda slikra báta

Skipstjórinn hreifst af gúmbátnum
Að vonum urðu fagnaðarfundir þegar Hull City kom með skipbrotsmennina til hafnar í Vestmannaeyjum eftir hádegi á mánudag. Var fjöldi fólks á Básaskersbryggjunni til að fagna þeim félögum sem þóttu úr helju heimtir. Meðal annars var kvikmyndað þegar skipbrotsmenn gengu frá borði og gúmbáturinn einnig festur á filmu. Hefur þetta myndbrot oft verið sýnt og þykir mikil og góð heimild um þennan atburð.
Í Morgunblaðinu 13. apríl er einnig greint frá slysinu, á baksíðu og er það Björn Guðmundsson, útgerðarmaður og fréttaritari blaðsins í Eyjum sem skráður er fyrir þeirri frétt. Er hún mjög samhljóða þeirri frásögn sem birtist í Tímanum en nokkuð styttri. En í lok fréttarinnar er þetta haft eftir Birni: „Þess skal getið að samkv. skipaskoðunarlögum er ekki skylt að hafa slíka gúmmíbáta á þessari bátastærð. Hinsvegar tók Þorleifur það upp hjá sér fyrir um 2 árum, sem fleiri Vestmannaeyjaskipstjórar, að hafa slíkt öryggistæki um borð. Munu nú allir bátar, sem héðan eru gerðir út, hafa slíka gúmmíbáta. - Gúmmíbátarnir eru enskir, mjög fyrirferðarlitlir, aðeins eitt handtak þarf til þess að þeir blásist út og rúma þeir þá 10 menn. Þó skipverjar á „Glað“ hafi hrakizt um á bátnum, voru þeir ekki þrekaðir - en fundu til þreytu af því að sitja svo langan tíma.“ (Morgunblaðið 13. apríl 1954).
Það þótti nokkuð merkilegt að þótt gúmbáturinn, sem bjargaði lífi þeirra skipverja á Glað, væri framleiddur í Englandi, hafði skipstjórinn á togaranum Hull City hvorki heyrt slíkra tækja getið né séð þau, fyrr en honum bar gæfa til að bjarga áhöfninni á Glað. Hreifst hann mjög af þessu björgunartæki sem vonlegt var. Þeir Þorleifur og Þorgils ákváðu að gefa honum gúmbátinn sem þakklætisvott og til minningar um björgunina.
En skipstjórinn á Hull City hefur greinilega hugsað sér að gera meira við þessa gjöf en bara að gera hana að einhverjum minjagrip. Í dagblaðinu Tímanum, fimmtudaginn 13. maí 1954, segir á forsíðu að björgunin við Eyjar hafi vakið athygli í Englandi. Skipstjórinn á Hull City hafi sýnt gúmbátinn bæði í Hull og Grimsby og hafi mikið verið rætt um þessa björgun í breskum blöðum að undanförnu. Þá hafi framleiðandi bátanna einnig birt stórar auglýsingar þar sem segir að íslenskir sjómenn haft þrívegis bjargast á slíkum bátum. Síðan segir orðrétt í frétt Tímans:
„Þegar breski togaraskipstjórinn kom með björgunarbátinn af Glað til Englands, þótti ýmsum líkt sem verið væri að flytja kol frá Íslandi til námuhéraðanna í Bretlandi.
Fyrir nokkrum árum sýndi framleiðandi gúmmíbátanna þá í Hull og Grimsby og lýsti hæfileikum þeirra. Þá virtist takmarkaður áhugi fyrir þeim.
Þegar komið var með bátinn, sem íslensku sjómennirnir björguðust á, varð annað uppi á teningnum. Skipstjórinn á togaranum Hull City, sem bjargaði mönnunum af Glað, sýndi bátinn í Grimsby og Hull og vakti hann nú mikla athygli. Á eftir kom svo auglýsingaherferð framleiðenda.
Nú er búist við því að þessi gerð björgunarbáta verði viðurkennd af stjórnvöldum í Bretlandi. Hin raunverulega ástæða er björgun skipshafnarinnar á Glað. Hefur þessi íslenski atburður og hrakningur íslensku sjómannanna orðið til áhrifa á reglugerðir breskra stjórnvalda um öryggismál.“ (Tíminn, 13. maí 1954).
Fljótlega eftir þetta hafði umboðsmaður gúmbátanna á Íslandi samband við þá Þorleif og Þorgils og hitti þá að máli. Vildi hann vita hvað betrumbæta mætti í gerð bátanna. Þeir sögðu honum sem var að helsti annmarkinn hefði verið hversu þunnur botninn var í bátnum og var þegar úr því bætt í framleiðslu bátanna.

Tveir enn á lífi
Af skipverjunum átta, sem voru á Glað VE 270 þegar hann sökk 1954, eru sex látnir. Þorleifur Guðjónsson hætti til sjós um skeið eftir þennan atburð, fluttist suður og vann þar í landi en fluttist aftur til Eyja 1956 og var formaður á m/b Sævari VE 19 sem Trausti Jónsson átti, síðan formaður á Mugg VE 322 og var með hann þar til hann keypti bát með Trausta Jónssyni og nefndu þeir hann Glað VE 270. Var Glaður einkum á snurvoð og þótti Þorleifur öðrum meiri aflamaður á það veiðarfæri. Þeir Trausti og Þorleifur gerðu Glað út fram til 1969 en þá varð Þorleifur formaður á Sjöfn VE 37 sem hann síðan keypti árið 1972 ásamt Hauki Jóhannssyni. Þorleifur lést af slysförum 24. nóvember 1974, á heimleið, ásamt eiginkonu sinni af ársfagnaði Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi. Ágúst Guðjónsson stundaði lengi sjó eftir þetta en áður en þetta gerðist hafði hann hvað lengst verið með þeim bræðrum frá Holti á Voninni og var af sumum kallaður Gústi á Voninni. Ágúst lést 8. júlí 1980. Þorgils Bjarnason stundaði ekki mikið sjó eftir þetta en vann lengst af í Vesturslippnum. Þorgils lést 21. júní 1994. Þrír Færeyinganna eru látnir, þeir Hans Klyver, Jakob Heinesen og Danjal J. Olsen en tveir þeirra eru enn á lífi, þeir Petur Muller sem býr í Porkeri á Suðurey og stundar enn sjó á eigin bát og Karton Joensen sem býr á Tvöroyri, á Suðurey og er í fragtsiglingum.

Kannski er það ánægjulegast við þennan atburð, sem átti sér stað fyrir hálfri öld, fyrir utan það að allir skipverjarnir á Glað skyldu bjargast heilir á húfi, að ef til vill hefur hann átt sinn þátt í því að bjarga lífi ótalinna breskra sjómanna. Ef sú er raunin, þá hefur verið vel launuð lífgjöf skipverjanna á Glað VE 270.

Skriflegar heimildir:
Dagblaðið Tíminn. 86. og 106. tbl. 1954.
Morgunblaðið. 87. tbl. 1954.
Jón Björnsson. Íslensk skip 4. bindi. 1990. lðunn.
Lögskráningarbœkur frá 1954. Sýslumannsembœttið i Vestmannaeyjum.
Steinar J. Lúðvíksson. Þrautgóðir á raunastund, II. bindi. 1970. Hraundrangi - Örn og Örlygur.

Munnlegar heimildir:
Brœðurnir Haukur og Magnús Guðjónssynir, Vestmannaeyjum.