Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Heimaklettur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
FRIÐBJÖRN VALTÝSSONHeimakletturFriðbjörn Valtýsson

Það fyrsta, sem mér dettur í hug þegar ég rifja upp í huganum myndir af Heimakletti æskunnar, er vertíðarfólk um páska í fjallgöngu. Gjarnan voru þetta karlmenn léttklæddir í hvítum skyrtum.
Heimaklettur blasir við úr gluggunum í Hergilsey, æskuheimili mínu við Kirkjuveginn. Þar lá maður gjarnan og fylgdist með þessum hetjum sem gengu sporléttir á Háukolla. [[Ágúst Matthíasson|Gústi Matt]. var einn eigenda Fiskiðjunnar á sínum tíma. Gústi var fljóthuga og skemmtilegur karl. Hann hafði það fyrir sið að ganga á Heimaklett með starfsfólki sínu á páskadag.

Eitt sinn var nokkuð hált á Klettinum, Gústa skrikaði fótur og byrjaði að renna niður. Hann kallaðí til starfsfólksins: „Ég skal borga ykkur laun alla páskana ef ég kemst lífs af.“ Gústi stöðvaðist fljótlega og bætti þá við að bragði: „Það má nú grínast.“

Innsiglingin með Heimakletti er ægifögur. Ljósm.: Addi í London

Á þessum árum vorum við peyjarnir ekki nógu djarfir til að leggja á Klettinn, í mesta lagi á Neðri-Kleifar. Ég var orðinn um tvítugt þegar ég lagði í fyrsta skipti í ferð á toppinn.
Við peyjarnir gengum mikið undir Löngu sem er sandfjaran milli Kleifnabergs og Hörgaeyrargarðs. Sæta þurfti sjávarföllum til að komast nokkurn veginn þurrum fótum fyrir Löngunef.
Örn Einarsson frá Brekku telur sig hafa heimildir fyrir því að í berginu á Neðrikleifum hafi áður fyrr verið þurrkaður fiskur á svipaðan hátt og í Fiskhellum. Ef grannt er skoðað má sjá suðvestan í berginu, leifar af hleðslum, sem gætu staðfest þessa kenningu.
Á leiðinni undir Löngu má enn sjá festingar göngubrúar, sem trúlega hefir verið lögð meðan framkvæmdir stóðu yfir við gerð Hörgaeyrargarðsins. Bygging hans hófst árið 1915 og stóð yfir í 13 ár. Hugmyndir hafa komið fram um að endurgera brúna að einhverju leyti. Meðan á byggingu garðsins stóð, var það siður að færa þeim mönnum, sem ekki gátu skroppið frá, hádegismatinn út á garð. Það voru gjarnan stálpaðir krakkar eða húsmæður sem það gerðu. Ein saga er til af því þegar ein húsmóðirin var að færa manni sínum hádegismatinn. Stormur var og illstætt á brúnni. Engum togum skipti að blessuð konan fauk af brúnni og í sjóinn og þar með maturinn líka.
Bóndi hennar, sem ekki verður nafngreindur hér, sá atvikið og fylgdist með þegar konan reyndi að krafla sig á land. Það eina, sem hann lét út úr sér, var: „Hvað ætli hafi orðið um matinn minn?“
Heimildir herma að Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti, sendimenn Noregskonungs, hafi tekið land á Hörgaeyri og reist þar kirkju. Væntanlega hefur landslag verið með öðrum hætti þar um slóðir árið 1000. Jafnvel er talið að fjaran hafi legið frá Hörgaeyri til suðurs og jafnvel hafi verið lón þar fyrir innan. Síðar hafi lónið opnast til austurs. Hvort sem það er rétt eður ei, verður að telja kirkjustað ólíklegan undir Löngu, hafi staðhættir verið eins og í dag. Örnefnið Skrúðhellir eða Skrúðabyrgi undir klettinum styður hins vegar kenningu um kirkju þar.

Undir Löngu uppi við klettinn er Karató, gamalt vatnsból. Þaðan lá vatnsleiðsla út á litlu steinbryggjuna. Í vatnsból þetta sóttu sjómenn vatn á báta sína á fyrstu áratugum aldarinnar. Það kom fyrir þegar miklir þurrkar voru hér í Eyjum á þessum tíma að vatnsskortur herjaði á heimilin. Trausti tengdafaðir minn hefir sagt mér frá því að amma hans, Ingibjörg í Höfðahúsi, hafi stundum farið með þvottinn sinn til skolunar í vatni úr Karató. Jóhann eiginmaður hennar átti þá vélbátinn Hugin. Nokkrar húsmæður við Lautina söfnuðu saman þvottinum sínum og síðan var siglt að vatnsbryggjunni, þvotturinn skolaður og að verki loknu snúið heim á leið og hengt til þerris.

Lundabyggðin í Heimakletti er löngu orðin grœn á sjómannadag. Ljósm.: Addi i Lomlon

Eins og flestir eflaust vita hefst uppganga á Heimaklett við gamla björgunarbátaskýlið sem reist var 1930.
Staðsetning björgunarbáts á þessum stað hefur trúlega verið vegna alvarlegs sjóslyss sem varð inn af Eiðinu 16. desember 1924 er 8 menn fórust á leið í Gullfoss sem þar lá. Björgunarbátur þessi er nú geymdur utandyra við Safnahúsið. Skýlið brotnaði illa í jarðskjálftunum árið 2000. Ísleifur Vignisson lundaveiðimaður sagði mér frá því að bjargið, sem grandaði skýlinu, hefði komið úr Hettu. Hann þekkti steininn, sagðist oft hafa tyllt sér á þennan stein sem skagaði fram við veiðistað þar uppi. Auðvelt er að sannreyna þessa kenningu Ísleifs þar sem glöggt má sjá hvaðan steinninn kom.
Þegar gengið er á neðsta hluta Klettsins eru klappir þar sem komið hefir verið fyrir tréþrepum og bandi til stuðnings. Í bleytu og hálku getur verið nokkuð hált á þessum stað og segja má að þetta sé nánast eini staðurinn á allri uppgönguleiðinni þar sem einhver hætta er á að skrika fótur. Alla vega er það eini staðurinn þar sem undirritaður hefir fengið byltu. Snjóskafl bjargaði í það skiptið. Til að gera gönguferð á Heimaklett auðveldari fyrir almenning, er nauðsynlegt að bæta uppgönguna á þessum stað. Einfalt mál er að gera góðan stiga. Uppi eru ráðagerðir um það með vorinu.
Við stigann neðan við fjárréttina eru stórmerkar minjar. Hér er auðvitað átt við „papakrossinn“. Inni undir stiganum, ofarlega, er þessi kross sem talið er að sé frá veru papa í Eyjum fyrir landnám. Þess má geta að eftirmynd af krossinum prýðir kirkju hvítasunnumanna í miðbænum. Einnig er sams konar mynd á einu hurðaspjaldi Landakirkju.
Hamrabeltið, sem rís upp frá Efrikleifum, nefnist Hetta. Þar var byrjað að sprengja grjót í Hörgaeyrargarðinn. Reistir voru stillansar utan í bergið, handborað fyrir hvellhettum, stillansarnir rifnir frá og síðan sprengt. Verkinu stjórnaði Guðmundur, faðir Ingólfs úrara. Hann hlaut viðurnefnið „Gvendur Hettusprengir“ og var aldrei kallaður annað í Eyjum. Einnig hef ég heimildir fyrir því að Friðrik í Batavíu hafi unnið við þetta verk ásamt Gvendi.

Gerðar voru kröfur um að einungis væri notað blágrýti við framkvæmdirnar. Það var erfiðleikum háð og eini möguleikinn var að sækja grjótið í Hettu. Horfið var frá sprengingum í Hettu vegna óheyrilegs kostnaðar og fyrirhafnar. Loks fékkst leyfi til að nota móberg við hafnargerðina, enginn hörgull var á því undir Löngu. Til gamans má geta þess að Monberg, danski verktakinn, sem stjórnaði hafnargerðinni, varð síðar ráðherra í dönsku ríkisstjórninni.

Eyjastelpan Lilly Jóhannesdóttir, sem er búsett í Ástralíu sagði í blaðaviðtali: „Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað taka með mér að heiman, þá er það Heimaklettur“. Ljósm.: Addi í London

Í ævisögu Einars Benedikssonar stórskálds kemur fram að Einar hafði mikinn áhuga fyrir hafnargerð í Eyjum. Árið 1925 skrifar hann grein sem hann nefnir „Sælueyjar“ í Tímann, þar sem hann lýsir hugmyndum sínum um hafnargerð í Eyjum: „flaug mér í hug að hlaða mætti hafgarð úr Heimakletti í mynni Eyjavíkurinnar“ og byggja heimshöfn fyrir fengsælustu fiskistöð jarðarinnar.“ Einar telur sig hafa ýmsar heimildir fyrir landnámi Grikkja og Rómverja í Eyjum í fornöld. Hann klykkir síðan út með því að þeir hafi nefnt Eyjarnar „Sælueyjar.“
Þann 10. janúar 1961 strandaði belgíski togarinn Marie Jose Rosette á Hörgaeyrargarðinum í slæmu veðri á leið út úr höfninni. Skipstjórnarmenn misstu stjórn á skipinu vegna bilunar í stýri að því talið er. Togarinn brotnaði í spón á garðinum og stórskemmdi hann. Vestmannaeyjahöfn höfðaði mál á hendur útgerðinni til greiðslu skaðabóta vegna stórviðgerðar á hafnargarðinum. Höfnin tapaði málinu bæði í héraðsdómi og hæstarétti. Rétturinn taldi ábyrgð eigenda takmarkast við verðmæti skipsins. Þar sem litlu var hægt að bjarga úr togaranum, var skaði hafnarinnar nær algjör. Athyglisverð niðurstaða í ljósi alls kyns mengunarslysa sem nú eru í deiglu um allan heim.
Efst í berginu austan til upp af Löngu í svokölluðu Þuríðarnefi, er ílangur hellir eða tó. Bragi Steingrímsson hefur sagt mér að þar hafi verið mikið af dúfu hér áður fyrr. Hann nefnir þennan stað Dúfuhelli. Eldri menn nefndu þessar ílöngu hvelfingar Blöðkutær. Þar óx mikið af melgresi. Bragi segist oft hafa farið þangað í leit að dúfuungum til ræktunar í dúfubúrið sitt sem var frægt á sínum tíma fyrir fjölbreytileika og góða umhirðu. Talsvert var um dúfnarækt hér þegar ég var peyi. Dúfurnar voru til vandræða vegna þess að þær sátu gjarnan í þakrennum húsanna og hirtu ekki um að þrífa eftir sig skituna. Hún barst síðan í vatnsbrunna sem þá voru við hvert hús. Lögreglumenn voru því fengnir til að eyða öllum dúfum bæjarins. Þeir gengu hreint til verks og eyddu stofninum á nokkrum dögum dúfnaeigendum til mikillar skapraunar.
Landakirkja er, eins og mörgum mun kunnugt, byggð að mestu úr tilhöggnu móbergi úr Heimakletti. Bygging kirkjunnar hófst árið 1774 og stóð í fjögur ár. Kirkjan var formlega vígð árið 1780. Landakirkja er án efa eitt elsta steinhús landsins. Til gamans má geta þess að Landakirkja var teiknuð af Nikolai Eigtved, helsta húsameistara Dana, er frægur var um Norðurlönd. Hann teiknaði meðal annars höllu drottningar Amalienborg, Kristjánsborgarhöll og ýmsar frægar byggingar.

Ég hef heyrt þá sögu að húsið Dvergasteinn, sem stóð við Heimagötu og fór undir hraun 1973, hafi verið byggt úr afgangsgrjóti frá kirkjubyggingunni. Húsið á sér merka sögu. Það var upphaflega byggt sem fyrsti barnaskóli Eyjanna.

Nú er Heimaklettur lýstur upp frá Löngunni upp í Hettu og Þuríðarnef. Ljósm.: Jóhann Jónsson listo

Í bókinni Saga Vestmannaeyja, skráð af Sigfúsi M. Johnsen, segir hann hins vegar Dvergastein byggðan árið 1880. Grjótið, sem notað var, hafði verið til í einhvern tíma, segir Sigfús.
Sama ár var Austurbúðin byggð, verslunarhús J.P.T.Bryde. Húsið var stundum nefnt Fram eftir samnefndu kaupfélagi sem þar var eitt sinn til húsa.
Byggingarefnið var einnig tilhöggið móberg úr Heimakletti. Í Austurbúðinni var síðast netaverkstæði Hraðfrystistöðvarinnar. Húsið fór undir hraun í gosinu 1973.
Árið 1948 tóku sig saman jólasveinar einn og átta, níu frískir Eyjapeyjar undir forystu Bárðar Auðunssonar á Sólheimum og Eggerts Gunnarssonar á Horninu. Þeir fóru í blysför á þrettándanum upp á Heimaklett. Þetta mun vera fyrsta blysför á þrettánda hér í Eyjum. Samkvæmt frásögn ekki ólygnari manns en Hilmis Högnasonar í Vatnsdal, eins blysbera, var hér um mikla glæfraför að ræða því slydda var á og suðaustan þræsingur. Kveikt var á mikilli rörasprengju sem látin var síga niður í bergið ofan Löngu, svona rétt til að vekja athygli bæjarbúa á uppátækinu. Jens Kristinsson á Miðhúsum og Högni Magnússon á Lágafelli teljast því vera upphafsmenn að rörasprengjum hér á landi.
Þegar komið var á Lágukolla var kveikt á blysunum, síðan gengið á Hettu og þaðan upp á Háukolla. Misjafnlega vel gekk að halda eldi í blysunum og vegna hálku voru blysberar misstöðugir á löppunum. Eggert var með mannbrodda og því best búin til fótanna og Högni Sigurðsson í Vatnsdal hafði bundið skeifur undir skó sína til að geta fótað sig. Á leið niður hentu nokkrir þeirra blysum sínum fram af, niður í Löngu. Einhverjir bæjarbúa voru þar með vissir um að nokkrir blysmanna hefðu hrapað. Allir komust þeir þó óskaddaðir frá þessari frægðarför sem margir gamlir Eyjamenn muna enn.
Þegar niður kom, beið þar Stebbi pól ásamt einhverjum aðstandenda. Heldur var lítið um þakklæti frá viðstöddum í garð blysbera. Ekki var um framhald að ræða á þessu tiltæki.
Þeir, sem þátt tóku í Þessu ævintýri, voru auk áðurnefndra: Halldór Agústsson Vatnsdal, Jón Þórðarson skipasmiður, og Friðgeir Björgvinsson kenndur við Kalmannstjörn. Norðan í Heimakletti er Dufþekja eða Dufþaksskor, mikið brattlendi og mjög laust í sér. Margir hafa farið sér að voða þar við eggjatöku. Talið er að þangað megi sækja allt að tvö þúsund egg. Gamlar sagnir segja frá því að Jökulsá á Sólheimasandi og Dufþekja hafi metist um hvor þeirra hafi náð til sín fleiri mannslífum. Áttu þær að hafa kallast á í hvert skipti sem einhver fór sér að voða á öðrum hvorum staðnum.
Einhvern tíma hef ég heyrt að 17 manns hafi farist á hvorum stað. Binni í Gröf var eitt sinn í eggjum í Dufþekju ásamt félögum sínum. Eitthvað fannst þeim hann fara glæfralega. Binni svaraði athugasemdum þeirra hvatvíslega: „Þið skuluð ekki hafa neinar áhyggjur af mér, nú stendur upp á Jökulsá“. Í Suðurlandsskjálftanum árið 1896 fórst ungur maður þarna við fýlaveiðar. Grjót hrundi á hann og særði til ólífis. Maðurinn hét Ísleifur Jónsson, átján ára, bróðir Þorsteins í Laufási. Enginn bandlaus maður ætti að leggja leið sína í Dufþekju, og aldrei óvanur.
Eins og margir Eyjamenn vita, dregur brattlendið þarna nafn sitt af Dufþaki, einum þræla Hjörleifs landnámsmanns. Samkvæmt frásögn Landnámu skutlaði hann sér þarna fram af, frekar en að lenda í höndum Ingólfs Arnarsonar og manna hans. Sonur Páls Steingrímssonar er eini Íslendingurinn sem ber þetta sterka nafn, Dufþakur eftir því ég best veit.
Þekkt er sögn um Þorgerði í Skel, aldraða konu hér í bæ, sem fór árlega í Dufþekju að slíta hvannarætur sem hún tíndi í brók. Hvannarótin var og er kjarnafæða. Sjálfsbjargarviðleitnin hefir verið sterk hjá aldamótakynslóðinni. Tviburabræðurnir, Óðinn og Örn Hilmissynir. fetuðu í fótspor Þorgerðar langömmu sinnar um tíu ára aldurinn. Drengirnir fóru í söluferð um bæinn að selja fýlsegg. Komu meðal annars heim til Adólfs Óskarssonar og Ástu Vigfúsdóttur konu hans og buðu egg. „Já“, sagði Asta, „fyrir hvern eruð þið að selja“. „Við tíndum eggin sjálfir“, svöruðu peyjarnir hróðugir. „Hvar voruð þið að tína egg“ spurði Ásta ströng á svipinn? „Í Dufþekju“. „Guð minn góður hrópaði konan!“ Tíðindin bárust Öldu, systur Lillu Bjöss, með leifturhraða. Ekki veit ég hvað Hilmir sagði en Alda var drungaleg þegar tvíburarnir skiluðu sér heim.
Af Háukollum í 283 metra hæð, hæsta tindi Eyjanna, er eitthvert fallegasta útsýni á jarðríki, sama hvert litið er.
Norðan Háukolla eru Háukollahamrar. Þar hrynur úr berginu með jöfnu millibili niður í Dufþekju og út í sjó. Skriðan skiptir Dufþekju nánast í tvennt. Í jarðskjálftunum árið 2000 hrundi nokkuð stór spilda úr hömrunum.
Í norðuratt blasa við sjónum, Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull, Hekla, Þríhyrningur, hinar blómlegu sveitir í Landeyjum, Fljótshlíð og Eyjafjallasveit. Inn til landsins má sjá móta fyrir Langjökli í góðu skyggni ásamt flestum sunnlenskra fjalla.
Fjöllin í Mýrdalnum eru tignarleg í austurátt svo og gatið í Dyrhólaey þar sem Árni Johnsen flaug í gegn sem frægt er. Ingólfsfjall sést vel. Sjá má gufustrókana frá Nesjavöllum og vestar mótar fyrir Reykjanessfjallgarðinum og Eldey við sjóndeildarhring. Utsýni til suðurs er ekki síðra. Kaupstaðurinn kúrir í skjóli norðurklettanna og eldstöðvanna á austurhluta Heimaeyjar. Þegar horft er til úteyja suður undan, má sjá hvernig eldgígarnir standa í röð eins og risastór kertastjaki.
Síðustu tíu árin hefi ég stundað gönguferðir um klettana hér í Eyjum bæði til heilsubótar og ekki síður til andlegrar íhugunar. Hvergi er betra að lyfta af sér hversdagsokinu en í hressilegri gönguferð. Gönguferð á Blátind, Dalfjall, Klif og síðast en ekki síst Heimaklett er dásamleg upplifun, alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Segja má að þeir Gjábakkabræður, Jón og Elías, séu að nokkru leyti fyrirmyndir mínar að þessum gönguferðum. Menn sem alla tíð hafa gengið mikið um Eyjarnar og fylgst vel með fjölbreytileika náttúrunnar. Fyrir fimm árum fór ég fyrst, um áramót, með kerti á Heimaklett. Kveikjan að því var eins konar persónuleg minningarathöfn um föður minn sem lést veturinn 1998. Að sönnu er ekki hægt að komast nær himnaföðurnum hér í Eyjum en einmitt á Heimakletti.
Í fyrstu voru kertin sex, kveðja frá systkinum og mömmu. Eitt kertið slökknaði fljótlega. Síðan hef ég kveikt á tólf kertum um hver áramót. Voru ekki postularnir tólf ? Eyjabúum hefir líkað skreytingin vel. Nú er svo komið að kerti loga víða á fjöllum um áramót, íbúum til gleði og yndisauka.
Kletturinn hefir frá barnæsku verið mér mjög hjartfólginn. Hugmyndin að lýsingu á hluta Heimakletts hefir verið að brjótast í mér um nokkurra ára skeið. Víða út um heim eru náttúrufyrirbæri og stórkostlegar byggingar lýst upp á svipaðan hátt. Hugmyndin fékk strax góðan hljómgrunn. Friðrik Friðriksson veitustjóri hefir unnið mikið að þessu máli. Án hans vinnu hefði þetta aldrei orðið að veruleika. Fjölmargir aðilar hafa stutt framtakið myndarlega.
Talið er að Heimaklettur sé með elstu jarðmyndunum á Heimaey ca. 25 þúsund ára gamall. Hann er að mestu úr massívu lítt lagskiptu móbergi sem talið er að hafi orðið til úr gosi undir jökli. Efst er hraun, sem hefir storknað inn í gíg. Norðurklettarnir svokölluðu og Stórhöfði eru talsvert eldri en Helgafell. Talið er að gos í Helgafelli fyrir 5 þúsund árum, hafi tengt saman Heimaey og kaupstaðurinn stendur allur á hrauni úr Helgafelli.
Á Lágukollum um miðjan klettinn eru rústir af kofa hlöðnum úr torfi og grjóti. White í Björgvin byggði kofann. Hann var sonur Önnu sem Björn Th. gerir ódauðlega í bók sinni Brotasögu. James White Halldórsson var skírður í höfuðið á enskum fiskkaupmanni sem var mikill velgjörðamaður fjölskyldunnar. Væti í Björgvin, eins og hann var gjarnan kallaður, stundaði mikið lundaveiði í Heimakletti og lá þá gjaman við í kofanum. Það er ljóst að Væti hefir verið nokkurs konar tímamótamaður í lundaveiði hér í Eyjum.
Allir lundaveiðimenn vita hvað vætupinnar eru og vætur eru veiddir fuglar sem notaðir eru til að hæna að ungfugl. Pinnanum er stungið upp í afturendann á fuglinum og upp í haus.
Ungfuglinn flýgur mest við brúnir eða allt þar til hann fer í varp um það bil fimm ára gamall. Talsverð kúnst er að stilla vætunum upp þannig að fuglinn rati í háfinn.
White fórst með Brimli hafnsögubáti, sem var forveri Léttis, eftir árekstur við vélbátinn Veigu úti af Ystakletti skammt innan við Lögmannssæti. Samkvæmt frásögn Brotasögu var Væti að leita bróður síns sem týndist á trillu sinni við Eyjar. Væti var stoð og stytta móður sinnar. Hún tók, sem vonlegt er, sonarmissinum afar þungt og lagði fæð á þá sem hlut áttu að máli.
Vilborgarstaðajarðirnar átta þ.e. Vilborgarstaðir eystri og vestari, Hlaðbær, Laufás, Vatnsdalur, Heiði, Gjábakki og Miðhús áttu tilkall til fuglatekju, hagabeitar og heyskapar í Heimakletti.
Sauðfjárbændur hafa löngum beitt fé sínu á Heimaklett. Hluti fjárins gengur úti allt áríð. Áðurnefndar jarðir áttu jafnstóran hlut í beitinni og mátti hver um sig hafa 12 kindur í Klettinum. Samtals máttu því einungis vera níutíu og sex rollur í Heimakletti. Kvótakerfi í landbúnaði er því ekkert nýtt fyrirbrigði.
Ótrúleg saga er til af lambi sem bókstaflega sveif ofan af Kletti og niður í Löngu. Vorið 1998 komu hafnarverðir til Gústa Halldórs. og spurðu hann hverju sætti að lítið lamb væri að þvælast eitt og yfirgefið undir Löngu. Gústi sagði það ekki geta staðist og fór þegar að kanna málið. Jú viti menn. Eftir nokkurn eltingarleik tókst honum að handsama lambið. Engin önnur skýring er á tilvist þess þarna en sú að lambið hafi notið suðvestan strekkings og mikils uppstreymis eftir berginu þegar það hrapaði úr Klettinum. Lambið, sem var tíu daga gamalt, var ótrúlega vel á sig komið. Það urðu fagnaðarfundir þegar móðirin endurheimti afkvæmi sitt eftir ævintýri dagsins.
Í Slægjunum svokölluðu, austan til, var talsvert heyjað áður fyrr. Heyinu var slakað niður austur af Danskató|Dönskutó]] við svokallaðan Heyhæl. Heyinu af Hettu og Lágukollum var velt í netum niður í Löngu þangað sem það var sótt. Jóhann Jónsson frá Laufási hefur heimildir fyrir því að afi hans Þorsteinn Jónsson hafi ásamt Guðmundi í Litlu-Uppsölum síðastir manna heyjað í Heimakletti árið 1928.
Þess má geta í framhjáhlaupi að sömu heimildir herma að Þórður í Haga hafi stundað heyskap í Ystakletti síðast árið 1947 og á Klifinu allt til 1954.
Herjólfur Bárðarson heitir góður og gegn Eyjamaður þó ekki landnámsmaðurinn heldur einn hinna íslensku víkinga, sem gerðu hið fræga strandhögg í Nýja-heiminum árið 2000. Hann var einn skipverja á víkingaskipinu Íslendingi. Þegar Herjólfur var um fermingu fór hann, eitt sinn sem oftar, í leiðangur í Dönskutó trúlega í leit að eggjum. Ekki tókst betur til en svo að drengurinn varð innlyksa þar niðri einn síns liðs. Tókst honum ekki að ná taki á bandinu sem nota þarf til uppgöngu. Bandið var nylon-kaðall og hált vegna rigningar.

Herjólfur dó ekki ráðalaus. Hann kom auga á föður sinn og vinnufélaga hans úr Skipaviðgerðum sem voru að vinna í báti á Nausthamrinum. Stráksi, sem er raddsterkur mjög, hrópaði á föður sinn til hjálpar. Bárður fór við annan mann og sótti pilt sem ekki varð meint af.

Á 7. áratugnum lenti skoski togarinn Donwood á Hörgaeyri, utan í Heimakletti

Talsverð lundaveiði hefir ávallt verið í Heimakletti. Áðurnefndar jarðir áttu tilkall til veiðinnar áður fyrr. Þeir, sem harðastir eru í veiðinni síðari árin eru Georg Arnarson ættaður frá Skjaldbreið, Árni „Nínon“ Hilmarsson og Ísleifur „Addi“ Vignisson frá London. Veiðistaðir eru valdir eftir vindátt og veðurfari. Einn þekktastí veiðistaðurinn er kallaður „Kristjánssæti“, nefndur eftir Kristjáni Ingimundarsyni frá Klöpp, sem sat þar gjarnan við veiðar. Þarna er aðallega veitt í suðaustan og austanátt. Kristján mun hafa veitt þar langt fram á níræðisaldur. Kristjánssæti er á Efrikleifum upp af Löngu. „Við steininn“ er veiðistaður vestur undan Hettu. Við steininn og uppi í Hettu er veitt í norðvestanátt. Þar má oft sjá veiðimenn sveifla háfnum. Að sögn Árna Hilmarssonar eru ýmsir góðir veiðistaðir í Heimakletti fyrir utan þá sem áður eru nefndir. í Vatnsgili milli Þuríðarnefs og Dönskutóar er gamalt sæti.
Austan til, upp af Klettsvík, er „Siggasæti“, veiðistaður, sem Árni segist sjálfur hafa gert fyrir nokkrum árum. 500 fugla staður eins og Árni orðaði það. Staðinn nefndi hann eftir vini sínum sem var honum hugleikinn. Einnig er „Goggasæti“ á svipuðum stað. Á stígnum á leið í Miðklett eru góðir veiðistaðir að sögn Árna meðal annars Grásteinn. Uppi undir Háukollum, norðan til, nefndi hann sæti sem heitir Steinketill.
Seinni árin hefir nokkuð verið um villiketti í lundabyggðinni. Kettirnir eru mjög grimmir og haga sér eins og tígrisdýr við veiðar. Samkvæmt frásögn í Sögu Vestmannaeyja eru villikettir í Heimakletti ekki nýtt fyrirbæri. Í þá daga voru þessir kettir kallaðir urðakettir. Addi í London hefir sagt mér frá því að hann hafi séð kettina nánast eyða lundabyggð á afmörkuðu svæði á Neðrikleifum.
Nokkru fyrir 1980 varð mikið hrun við Dönskutó. Talið er að þrjátíu og þrjú þúsund tonna bjarg hafi losnað. Bjargið losnaði með gífurlegum hávaða og lenti í sjónum. Engu var líkara en jarðskjálfti hefði orðið og mikil flóðbylgja skall á svæðinu allt um kring. Dýpkunarskipið Vestmannaey var við dýpkun innan hafnar og starfsmenn þar urðu vitni að hamförunum.
Sigrún Karlsóttir, sem var hér félagsmálafulltrúi í kringum 1980 að mig minnir, varð fyrir því óhappi á sínum tíma að fótbrjóta sig í göngu á Heimakletti. Hún gat komið skilaboðum niður í bæ um að hún þyrfti aðstoð til að komast niður Klettinn og undir læknishendur. Eiríkur Heiðar Sigurgeirsson sagði mér sjálfur þessa sögu. Einhverra hluta vegna var hann beðinn um að aðstoða Sigrúnu enda maðurinn heljarmenni að burðum eins og margt ættmenna hans. Eiríkur, oft nefndur „hestur“ trúlega vegna líkamsburða sinna, gerði sér lítið fyrir og bar konuna á bakinu alla leið niður. Hann sagði sjálfur frá því að Sigrún væri eina manneskjan hingað til sem hefði farið á hestbaki niður Heimaklett.
Árið 1962 var lagður rafstrengur ofan af landi til Eyja. Strengurinn var tekinn á land í Klettsvík. Þaðan var hann strengdur upp á Heimaklett og af Klettinum í staura á Skansinum. Verktaki við framkvæmdirnar var Bóas Emilsson frá Eskifirði. Hann fékk til liðs við sig vaska menn úr Eyjum. Þetta voru Sigurður Jóelsson frá Sælundi og þeir Suðurgarðsfrændur Sigurgeir Jónsson, Árni Óli Ólafsson og Árni Johnsen. Vinnan við línuna var mikið puð eins og gefur að skilja. Frændurnir sáu að mestu um flutning á efni í undirstöður fyrir spil sem notað var við verkið. Að þeirra sögn komust þeir í að fara allt að fimm ferðir á dag klyfjaðir byggingarefni.
Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvers konar verkfræðidæmi þessi lagning um Klettinn hafi verið. Nokkrum sinnum hefi ég spurt mér vitrari menn um ástæður þessa. Sumir halda því fram að verkfræðingarnir, sem önnuðust verkið og voru að sögn sérhæfðir í loftlínum, hafi haft þörf fyrir að sýna einhver stórfelld mannvirki til þess eins að vekja athygli á tæknikunnáttu sinni. Dæmi svo hver fyrir sig.
Lillý, dóttir Jóhannesar pól Albertssonar, sem búið hefir í Ástralíu um áratuga skeið, var eitt sinn í útvarpsviðtali frá Eyjaálfu. Spyrillinn bað Eyjastelpuna að nefna eitthvað sérstakt sem hún saknaði að heiman. Hún hugsaði sig um stutta stund og svaraði: „Ef það væri eitthvað sem ég hefði viljað taka með mér að heiman, væri það Heimaklettur.“
Nú er mál að linni. Segja má að Heimaklettur sé sameiningartákn og þjóðarsál Vestmannaeyinga. Eitthvað svo táknrænn og traustur að sjá, stendur af sér alls kyns hamfarir hvort sem er af mannavöldum eða móður náttúru. Til er fólk hér sem telur Heimaklett geyma náttúrivætti Eyjanna.
Það er gjarnan sagt um Eyjamenn, sem af öðrum bera, að þeir séu sem Heimaklettur úr hafinu.
Það er auðvitað sammerkt allri sagnfræði að hún er ekki og verður aldrei neinn stóri sannleikur. Vel má vera að hér sé einhvers staðar hallað réttu máli. Það væri mér sönn ánægja að leiðrétta ef einhver hefir athugasemdir við það sem hér var sagt.


Heimildir: Ísleifur Vignisson, Helgi Bragason, Einar Benediktsson, Jóhann Gunnar Ólafsson, Trausti Jakobsson, Jessý Friðriksdóttir, Bragi Steingrímsson, Kristján Björnsson, Erna Þórarinsdóttir, Ólöf Þórarinsdóttir, Stefán Jónasson, Andrés Sigmundsson, Hilmir Högnason, Alda Björnsdóttir, Arnar Sigurmundsson, Jón Þórðarson, Jens Kristinsson, Högni Sigurðsson, Magnús Grímsson, Örn Hilmisson, Jón Gunnlautgsson, Elías Gunnlaugsson, Guðmundur Kjartansson jarðfr., Eiríkur H. Sigurgeirsson, Guðni Grímsson, Magnús Bjarnason, Jóhann Jónsson, Örn Einarsson, Ágúst Halldórsson, Anna Þorsteinsdóttir. Sigfús M. Johnsen, Sigurgeir Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Guðnason, Þorsteinn Jónsson, Friðrik Ásmundsson, Eyjólfur Martinsson, Ólafur Nielsen fuglafr.

Sigurður Jónsson, Diddi Jóns og Matthías Ingibergsson, Matti á Sandfelli