Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Síðasti róðurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Pálsson


Síðasti róðurinn


Gísli Pálsson.
Páll Gíslason.

Fátt hefur snert mig meira, allt frá því er ég var smástrákur í Vestmannaeyjum, en fregnir af sjóslysum. Ég minnist þess frá bernskuárum mínum að hafa lesið fréttir dagblaða af sjóslysum aftur og aftur, eins og ég tryði því að glíman við prentsvertuna gerði mig að raunverulegum þátttakanda í þeim atburðum sem verið var að lýsa hverju sinni. Hið ritaða orð var lykillin að sýndarveruleika eftirstríðsáranna og mannlífið snérist um hafið og átökin við það. Ég er auðvitað ekki einn um þessa reynslu; það hef ég sannreynt á jafnöldrum mínum og æskufélögum. Sjóslys hvíldu á árum áður eins og þungur skuggi yfir flestum sjávarplássum við Norður-Atlantshaf, og raunar miklu víðar. Og enn tekur sjórinn sinn toll. Augljóslega hefur þó persónuleg saga sitt að segja í þessum efnum. Sjálfur hef ég ekki orðið beint vitni að sjóslysi, en tvö sjóslys, sem ég rifjaði nýlega upp með föður mínum, hafa stundum sótt á mig. Skáldsaga Einars Más Guðmundssonar Draumar á jörðu og bókin The Perfect Storm (ásamt samnefndri kvikmynd) áttu sinn þátt í að ég festi þessar hugrenningar á blað.
Faðir minn, Páll Gíslason, ólst upp á Norðfirði þar sem hann tók snemma að stunda sjóinn. Sautján ára gamall hélt hann ásamt heilli skipshöfn á vetrarvertíð til Sandgerðis. Þá var hann ráðinn upp á hálfan hlut. Nokkru síðar réri hann frá Neskaupstað og nú sem fullgildur háseti. Og hér var það sem hann slapp naumlega úr greipum Ægis og það fyrir nánast einskæra tilviljun.
Pabba segist svo frá fyrra slysinu, haustið 1942, sem við rifjuðum upp:
„Við vorum búnir að tala okkur saman um það, við Jóhann Sigurðsson frændi minn, að við skyldum taka okkur frí á miðri haustvertíð 1942 og fara til Eyja. Við ætluðum að heilsa upp á fólkið okkar. Ég hugðist gista hjá Mæju systur minni og Villa, manni hennar, á Burstafelli, en Jói hjá Önnu systur sinni á Oddsstöðum. Ég hafði aldrei farið til Eyja og Mæja systir var mikið búin að nauða í mér að koma. Hún gerði mikið að því að skrifa mér austur að láta nú verða af því að koma í heimsókn. Þetta haustið var ég á 14 tonna bát frá Norðfirði, Gandi NK. Við vorum fimm á: auk mín þeir Valdimar Runólfsson, skipstjóri, Óskar Svenssen, Sigurður Jónsson og Herjólfur Magnússon. Síðan er það að við erum að koma úr róðri, staddir stutt frá Norðfjarðarhorni. Við erum að enda haustvertíðina og eigum aðeins einn róður eftir. Við komum í land í indælu veðri og við erum búnir að landa og eigum ekki að róa fyrr en um fjögur að morgni. Það var erfitt að róa á þessum tíma vegna tundurdufla sem voru víða á reki. Við vorum alltaf með lífið í lúkunum. Urðum að fara þetta snemma út á morgnana til að hafa sæmilegt útsýni, en nú um haustið vorum við að verða ónæmir fyrir þessu þótt alltaf yrði einhver að vera með augun opin. Morguninn eftir skyldi haldið í síðasta róður þessarar haustvertíðar.
Nú, nú, við erum búnir að ganga frá bát og öllu og svo er bara morgundagurinn eftir. Þá kemur þar maður hlaupandi eftir bryggjunni og er þar kominn Jói frændi minn sem hermir þetta upp á mig að fara nú til Vestmannaeyja. Ég spyr hann hvenær það gæti orðið og hann segir að strandferðaskipið Súðin fari nú bara kl. 6 í fyrramálið. Ég segi að mér lítist ekki vel á þetta. Ég geti varla verið þekktur fyrir að skerast úr leik í síðasta róðri, það verði ekkert róið ef það vanti mann. Jói nauðar í mér: „Talaðu við Valda skipstjóra og vittu hvort þú getur ekki fengið þig lausan!“ Ég fer til Valda, segi að það sé verið að æsa mig upp í það að fara til Eyja. Valdi segir að það sé nú allt í besta lagi, hann fái bara tengdaföður sinn, Bjarna Vilhelmsson¹), sem var landverkamaður og yfirleitt á lausu, til að hlaupa í skarðið.
Svo er ekkert með það, það er farið með Súðinni í sömu blíðunni og verið hafði næstu daga á undan og komið við á Reyðarfirði, Eskifirði og Djúpavogi og aðeins hinkrað við út af Hornafirði. Svo er haldið áfram. Við erum staddir austur undan Meðallandinu um kvöldið og þá er búið að kalla í mat og við erum komnir upp í borðsal um það leyti sem útvarpsfréttir voru að hefjast. Og þá er það fyrsta fréttin sem við heyrum að Gandurinn hafi farist. Mér brá óskaplega mikið við að heyra þetta og missti alla matarlyst.
Ég hafði fengið mann til að róa fyrir mig og hann hafði farist. Þessi hálfsmánaðarferð mín til Eyja varð hálfgerð vandræðaferð. Slysið skyggði á allt.“ Samt var pabbi aftur kominn til Eyja nokkrum árum síðar, og nú til lengri dvalar. Forlögin höfðu ætlað honum að deila kjörum með heimasætunni á Bólstað, Báru Sigurðardóttur. Fyrst stundaði hann sjóinn, en mestallan starfsaldur sinn í Eyjum vann hann í fiskvinnslu eða ók vörubíl. Eflaust hefur slysið vakið áleitnar tilvistarspurningar hjá föður mínum, sem eðli málsins samkvæmt eru nokkuð frábrugðnar þeim spurningum sem rannsóknarnefnd sjóslysa þarf að svara, þótt augljóslega eigi þær margt sammerkt. Af hverju var honum forðað frá síðasta róðrinum með Gandi? Af hverju þurfti Gandur að hverfa í djúpið? Hefði Gandi kanski verið forðað ef hann hefði verið um borð? Svipaðar tilvistarspurningar sóttu raunar á mig þegar pabbi sagði mér fyrst frá þessari sjóferð. Væri ég til frásagnar ef Jói frændi hefði ekki „æst“ pabba upp í að taka sér frí?
Fjölskyldur þeirra sem fórust með Gandi áttu um sárt að binda, ekki síst konan sem missti bæði mann sinn og föður í sama róðri. Þótt slys sem þessi minni okkur á þá kaldranalegu staðreynd að stundum er eins dauði annars brauð og sektarkenndin nagi gjarna þá sem hafa betur, ef svo má að orði komast, er næsta tilgangslaust að leita að sökudólgum í mannheimi. Mörg slys verka á mann sem handahófskenndir atburðir þar sem tilviljun ein ræður því hverjir verða fyrir þeim. Menn greindi annars á um hvernig Gandsslysið hefði borið að, en sennilega fórst báturinn af völdum stríðsins. Sumir töldu að hann hefði orðið fyrir dufli, en aðrir töldu sig sjá för eftir sprengikúlur í braki sem fannst úr bátnum.
Í 5. bindi Íslenskra skipa eftir Jón í Bólstaðarhlíð segir um Gand:
„Umbyggður í Mjóafirði 1925. Fura, 5 brl. 8 ha. Hein vél. Eig. Sveinn Ólafsson Mjóafirði, frá árinu 1925. Báturinn var endurbyggður og lengdur í Mjóafirði 1925 og mældist þá 9 brl. Seldur 31. okt. 1931 Magnúsi Tómassyni og Ólafi Jóni Ólafssyni, Mjóafirði. 1932 var sett í bátinn 16 ha. Wichmann vél. Seldur 18. jan. 1941 Svavari Víglundssyni og Haraldi Hjálmarssyni, Neskaupstað, báturinn hét Gandur NK 85. Hann fórst í róðri 4. okt. 1942 með allri áhöfn, 5 mönnum.“ Skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Draumar á jörðu, segir frá svipuðum atburðum og þeim sem pabbi lýsti fyrir mér. Faðir þess sem er látinn segja sögu Einars Más, háseti á togaranum Rex Hammerton, fékk leyfi skipstjórans til að vera í landi einn túr á Vestfjarðamiðum þar sem honum bauðst að leysa af leigubílstjóra í höfuðborginni, en hann hugðist gera akstur að atvinnu sinni í framtíðinni. „Og togarinn Rex Hammerton heldur á veiðar, en pabbi verður eftir í borginni og keyrir leigubíl.“ Annar skipverji, Baldur, var settur í land á Patreksfirði skömmu síðar þar sem hann veiktist á leiðinni á Halamiðin. Togarinn kom aftur til Patreksfjarðar tveimur dögum síðar til að sækja Baldur og lýsistunnur sem höfðu verið skildar eftir. Í sögu Einars Más segir áfram:
„Nítjánda október klukkan fimm síðdegis berst útgerðinni svohljóðandi skeyti frá Jóhanni skipstjóra: „Kem um eða eftir miðnætti.“
Seinna um kvöldið berst annað skeyti: „Kem ekki fyrr en á morgun.“
Síðan hefur ekkert til skipsins spurst; og þetta var skömmu eftir stríð.
Nóttina eftir að skeytin bárust útgerðinni komu Jóhann skipstjóri og Gunnar sonur hans til pabba í draumi. Öll áhöfnin stóð á bak við þá, undarlega þögul og föl.
Þegar pabbi vaknaði var hann ekki í nokkrum vafa um hvað hefði gerst.
Næstu daga leituðu þrjú skip og margar flugvélar að togaranum Rex Hammerton.
Fjörur voru gengnar en aldrei hefur neitt fundist sem gefið gæti upplýsingar um hver urðu afdrif togarans.
Mörgum árum síðar fréttir faðir sögumannsins af manni „undarlegum í háttum“:
Var þar kominn Baldur stýrimaður sem siglt hafði með öðru skipi frá Patreksfirði.
Afdrif Rex Hammerton höfðu lagst þungt á huga hans. Hann ásakaði sjálfan sig, í fyrsta lagi fyrir að hafa veikst en líka fyrir að hafa ekki farið aftur um borð.“

Langanes NK 30.
Einar G. Guðmundsson.

Hitt sjóslysið, sem ég rifjaði upp með föður mínum, gerðist við Eyjar 21. febrúar 1959. Að þessu sinni vorum við feðgarnir báðir býsna nærri vettvangi þótt hvorugur okkar væri á sjó. Ég var níu ára gamall þegar hér var komið sögu. Dag einn birtist ungur skipstjóri frá Neskaupstað inni á heimili okkar á Bólstað og fékk að gista í nokkra daga. Pabbi kom með hann heim fatalausan, en hann hafði misst allt sitt með bát sínum, Langanesi NK, sem sökk við Eyjar þennan sama dag. Og amma mín, Auðbjörg, sem hafði stærra hjarta en flestir aðrir, gekk í það að útvega föt á manninn í verslunum í bænum og hjá grönnum og vinafólki. Ef ég man rétt færði hún honum m.a. gljáfægða Gefjunarskó úr Kaupfélaginu. Þessi maður var Einar G. Guðmundsson, kunningi pabba að austan. Einar hafði oft komið til okkar þegar bátur hans var í landi. Pabbi náði stundum í hann niður í bát, sérstaklega um helgar.
Mannbjörg varð þegar Langanesið sökk, en nærvera skipsbrotsmannsins á heimilinu, umkomuleysi hans og vissan um að miklu verr hefði getað farið. Minnti nöturlega á þann toll sem hafið tók nánast hverja vertíð.
Leki hafði skyndilega komið að Langanesinu í besta veðri þennan örlagaríka dag og áhöfnin bjargast naumlega. Í einni af bókum Steinars J. Lúðvíkssonar, Þrautgóðir á raunastund, segir svo frá slysinu:
„Um kl. tvö 21. febrúar 1959 sendi vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað neyðarskeyti út, en báturinn var þá staddur um 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum, en þaðan var báturinn gerður út á vetrarvertíðinni. Sex manna áhöfn var á Langanesinu og voru skipverjar allir á þilfari við línudrátt.“ Smári Geirsson skráði viðtal við skipstjórann („Ég hef alltaf verið bátamaður: Einar G. Guðmundsson segir frá sjómannsferli sínum,“ Sjómannadagsblað Neskaupstaðar 1984), þar sem m.a. er vikið að hinstu sjóferð Langanessins:
„Þegar við vorum að kanna hve mikill sjór væri kominn í bátinn lenti hann hliðflatur í ölduna. Ég var hræddur um að hann myndi einfaldlega rúlla yfir og því var ákveðið að fara í gúmmíbjörgunarbátinn. Við vorum sex á bátnum og fórum allir í björgunarbátinn og það var síðan Goðaborg NK sem bjargaði okkur, en allmargir bátar voru þá komnir á staðinn. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn sem norðfirskir sjómenn notuðu gúmmíbjörgunarbát til að bjarga sér.“
Mörgum árum eftir að Langanesið hvarf í sæinn og Goðaborg kom með áhöfnina til Eyja gefur sig á tal við mig ungur mannfræðinemi þar sem ég var við kennslu í Háskóla íslands, en ég hafði þá nýlega hafið störf við þá stofnun.

Níels Einarsson.

Nemandinn hét Níels og reyndist vera sonur Einars G. Guðmundssonar, sjómannsins sem bjargaðist naumlega við Eyjar forðum og gist hafði hjá foreldrum mínum á Bólstað nokkra daga, áður en hann hélt aftur austur á Norðfjörð á glansandi Gefjunarskóm. Á undanförnum árum höfum við Níels starfað náið saman á vettvangi fræða okkar, en Níels veitir nú forstöðu Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Kannski er það ekki tilviljun að við höfum báðir haft gaman af því að fjalla um fiskveiðar og sjómennsku.
Hafið heggur sín skörð, tortímir og sundrar vinum og fjölskyldum, en það er jafnframt skapandi þáttur í mannheimi sem tengir fólk nánum böndum, oft með óvæntum hætti.
¹) Leiðr. (Heimaslóð).

Gullborgin



left thumb
Frá vinstri: Kristinn Óskarsson, Gísli Björgvin Konráðsson skipstj., Benóný Benónýsson, Jóhannes Þór Sigurðsson, Sigurbjörn Ingólfsson, Þorvaldur Hermannsson.

Á síðasta ári seldu bræðurnir Benóný og Friðrik Benónýssynir Gullborgina.
Kaupandi var Menningarsjóður stafkirkjusvæðis, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og Vestmannaeyjahöfn.
Fyrirhugað var að koma skipinu fyrir við Skanssvæðið til sýnis og minningar um liðna tíma. Frá því hefur nú verið horfið, og óákveðið er hver framtíð Gullborgarinnar verður. Útvegsbændafélagið gaf Menningarsjóði stafkirkjusvæðis sinn hlut skömmu eftir kaupin, sem aftur afhenti Vestmannaeyjahöfn skipið, og er höfnin nú eigandi þess.
Guðmundur Sigfússon fór með þessu fræga aflaskipi í síðasta róðurinn, þegar það var í eigu bræðranna.