Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Útgerð Helga Benediktssonar
Dagana 3.-5. desember 1999 var haldin sýning í húsnæði Listaskóla Vestmannaeyja á líkönum allra skipa sem Helgi Benediktsson, útvegsbóndi og kaupmaður átti einn eða með öðrum. Sýningin var haldin til þess að minnast 100 ára afmælis Helga, en hann var fæddur hinn 3. desember 1899. Einnig voru sýndar myndir úr lífi og starfi Helga og fjölskyldu hans ásamt ýmsum ljósmyndum og kvikmyndum af athafnalífi Vestmannaeyinga á árunum 1924 og fram yfir 1950. Vakti sýningin mikla athygli og sóttu hana um 900 manns.
Með sýningunni á líkönum þessum, er þeir smíðuðu, Grímur Karlsson, skipstjóri í Njarðvík og Tryggvi Sigurðsson, vélstjóri í Vestmannaeyjum, fengu menn í sjónhending yfirlit yfir sögu vélbátaútgerðar Íslendinga fyrstu 6 áratugi þessarar aldar. Elsta skipið, sem líkan var af á sýningunni, var smíðað árið 1895 og það yngsta árið 1960. Af þeim 20 skipum, sem Helgi átti, lét hann smíða fimm í Vestmannaeyjum, en þau voru Auður, Skíðblaðnir, Muggur, Helgi og Helgi Helgason. Var það umtalsverður hluti þeirra skipa sem smíðuð voru í Dráttarbraut Vestmannaeyja á árunum 1925 - 1947.
Útgerðarsaga Helga Benediktssonar hefur enn ekki verið rannsökuð, en hún er hluti merkrar atvinnusögu Vestmannaeyinga og þjóðarinnar í heild. Mörg skip hans urðu aflasæl undir stjórn afburða skipstjóra og nokkur skip hans urðu þjóðþekkt. Verður í samantekt þessari stiklað á stóru í þessari miklu sögu, sem nær yfir fjóra áratugi. Í ágætri grein Sævars Jóhannessonar, sem birtist í Morgunblaðinu 3. desember 1999, er gerð nokkur grein fyrir útgerðarsögu Helga og verður stuðst við hana í þessari samantekt.
Skipasmíðar og vaxandi útgerð
Helgi Benediktsson hóf atvinnurekstur sinn í Vestmannaeyjum árið 1919, en þá fór hann sína fyrstu ferð til Vestmannaeyja til þess að selja kol. Skömmu síðar fluttist hann þangað og setti á stofn sína fyrstu verslun.
Árið 1924 stofnaði hann ásamt fleiri Verslunarfélag Vestmannaeyja og í tengslum við það hóf hann útgerð vélbáta. Hann eignaðist síðan eignir Verslunarfélagsins og starfrækti verslun þess allt til ársins 1954.
Um svipað leyti og Verslunarfélagið var stofnað tók hann þátt í stofnun Dráttarbrautar Vestmannaeyja ásamt Gunnari Marel Jónssyni skipasmið. Fyrsta nýsmíði Dráttarbrautarinnar var vélbáturinn Auður VE 3, 15 brl, sem smíðaður var 1925. Ásamt Helga áttu þeir Ágúst Jónsson, Kristján Sigurðsson og Þórður Magnússon hlut í bátnum. Síðar eignaðist Helgi bátinn einn og átti hann til ársins 1948. Sama ár eignaðist hann vélbátinn Freyju VE 60 ásamt Hannesi Hanssyni, skipstjóra í Vestmannaeyjum og Björgvin Vilhjálmssyni. Freyja strandaði við Landeyjasand 30. mars 1927 og fórust tveir skipverjar, en sex björguðust.
Árið 1929 lét Helgi smíða Skíðblaðni VE 287, 16 brl. Helgi átti bátinn til ársins 1950.
Árið 1929 keypti hann einnig norskan línuveiðara, 69 brl., stálskip sem smíðað var í Noregi 1903.. Nefndi hann skipið Gunnar Ólafsson og gerði hann út til ársins 1933. Aðrir bátar í eigu Helga á þessum árum voru Blakkur VE 303, 27 brl, smíðaður árið 1895, Bliki, 22 brl., smíðaður í Vestmannaeyjum 1922, Enok VE 164, 11 brl. smíðaður í Vestmannaeyjum 1912, Leó VE 249, 18 brl. smíðaður 1919, Sigga (yfirleitt kölluð Sigga litla), 5 brl. smíðuð 1909 og Tjaldur VE 225, 15 brl. smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1919.
Skipasmíðar í Vestmannaeyjum
Skipasmíðar Vestmannaeyinga á fjórða áratugnum voru merkilegt framtak í þeirri miklu efnahagskreppu sem dundi þá yfir allan hinn vestræna heim. Eins og sést á upptalningunni hér á undan voru bátarnir fyrst í stað um og yfir 15 brl., en þeir stækkuðu smám saman með bættum hafnarskilyrðum. Árið 1935 lét hann smíða Mugg VE 322, 39 brl og gerði hann út allt til ársins 1965 er hann hætti útgerð. Verður nánar vikið að því síðar.
Um miðjan fjórða áratuginn varð ákveðin viðhorfsbreyting til skipasmíða hér á landi enda höfðu menn þá náð góðum tökum á smíði vélbáta. Haustið 1935 kom Helgi að máli við Gunnar Marel Jónsson, skipasmið, sem hafði verið yfirsmiður allra báta sem Helgi hafði látið smíða, og bað hann að panta efni í skip sem yrði allt að 100 smálestum að stærð. Kom eikin til Vestmannaeyja þá um veturinn og hófst smíði skipsins á útmánuðum 1936. Ýmsir, sem trítluðu um stokka og steina í Eyjum á þessum árum, minnast þess er vélskipið Helgi var í smíðum. Sumir krakkarnir laumuðu sér í tjörukagga og fengu sér storknaða tjöru og tuggðu í staðin fyrir tuggugúmí. Umhverfi skipsins var og leikvöllur og ævintýraheimur barnanna á þessum árum.
Helga var hleypt af stokkunum árið 1939 og var hann 119 brl. Helgi VE 333 var þá stærsta skip sem Íslendingar höfðu smíðað, 25,76 m langt, 6,84 m á breidd og 3,01 m á dýpt. Gunnar Marel smíðaði skapalón af skipinu og var það látið gilda í stað teikningar. Smíði skipsins þótti mikið afrek og mátti furðu sæta að takast skyldi að ljúka smíði skipsins þar sem Helgi Benediktsson fékk ekki styrk til smíðinnar eins og nýsamþykkt lög frá Alþingi kváðu þó á um. Var Helgi VE 333 eina nýsmíðin sem fékk ekki svo kölluð nýsmíðaverðlaun á þessum árum. Bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja neitaði að tryggja skipið þar sem félagið tryggði ekki stærri skip en 100 brl.
Um svipað leyti keypti Helgi Benediktsson vélskipið Skaftfelling, sem hafði verið í förum með vörur og farþega á milli Reykjavíkur, Vestmannaeyja og Víkur í Mýrdal. Tryggingafélag skipsins sagði þá upp öllum tryggingum og greip því Helgi til þess ráðs að mynda eigin tryggingasjóð um Helga og Skaftfelling.
Þessi tvö skip eru sennilega frægust þeirra skipa sem Helgi Benediktsson átti. Sigldu þau með ísfísk til Fleetwood öll stríðsárin og fluttu til Eyja ýmiss konar nauðsynjar svo sem kol, salt, efni til skipasmíða og netagerðar, byggingaefni, vefnaðarvöru og margs konar varning annan.
Þeir Ásgeir M. Ásgeirsson, síðar kenndur við Sjóbúðina í Reykjavík og Páll Þorbjörnsson sigldu Skaftfellingi öll stríðsárin. Frægust varð ferð Skaftfellings í ágúst 1942 þegar Páll og áhöfn hans björguðu 52 skipbrotsmönnum af þýskum kafbáti sem laskast hafði í orrusru við bandaríska herflugvél. Þótti sú björgun einstakt afrek og vitnisburður um fágætt drenglyndi íslenskra sjómanna á tímum sem einkenndust af áróðri og hatri.
Fyrsti skipstjóri vélskipsins Helga var Ásmundur Friðriksson frá Löndum í Vestmannaeyjum. Var hann með skipið fyrstu tvö árin og var fengsæll síldarskipstjóri. En um mitt sumar 1942 tók Hallgrímur Júlíusson við stjórn skipsins og var með það allar stundir síðan. Fór Helgi fleiri ferðir með ísfisk og vörur yfir Atlantsála á þessum árum en nokkurt annað skip. Árið 1946 voru Hallgrimur og áhöfn hans heiðruð þegar skipið hafói farið 60 ferðir til Fleetwood.
Vélskipið Helgi stundaði síldveiðar og vöruflutninga á milli Fleetwood og Eyja auk þess sem það flutti vörur og farþega milli Eyja og Reykjavíkur. Á þeim 11 árum sem Helgi var við lýði sigldi hann rúmlega 200.000 sjómílur og hlekktist aldrei á. Helgi fórst við Faxasker í ofsaveðri hinn 7. janúar 1950 og með honum 7 manna áhöfn og þrír farþegar.
Á stríðsárunum lét Helgi enn efna til smíði nýs skips. Var því hleypt af stokkunum 7. júní 1947 og hlaut nafnið Helgi Helgason. Skipið var 189,6 brl., 34,04 m á lengd, 7,35 m á breidd og dýptin 3,11 m., stærsta tréskip sem smíðað hefur verið á Íslandi. Brynjólfur Einarsson, skipasmiður, teiknaði skipið og var yfirsmiður þess. Arnþór Jóhannsson, landskunnur aflaskipstjóri frá Siglufirði, var fenginn til þess að taka við skipinu. Gengu ýmsar sögur af því hversu hátt Helgi Benediktsson hefði „boðið í hann“. Arnþór var með Helga Helgason á meðan hann lifói, en hann fórst með vélskipinu Helga árið 1950. Helgi Helgason var aflasælt skip og var í eigu Helga Benediktssonar til haustsins 1964.
Nýsmíðar í Svíþjóð
Eins og vikið hefur verið að í grein þessari stunduðu sum skip Helga jöfnum höndum fiskveiðar og vöruflutninga. Árið 1950 gerðist Helgi meðeigandi Guðmundar Oddssonar í flutningaskipinu Oddi, 245 smálesta skipi sem smíðað var í Noregi árið 1948. Oddur var úr furu og var í förum með ýmiss konar varning hér við land og með fisk milli Íslands, Frakklands og Spánar. Oddur strandaði árið 1957, kjölbrotnaði og var dæmdur ónýtur.
Ymsar aðstæður réðu því að Helgi Benediktsson lét ekki smíða fleiri skip í Vestmannaeyjum. Reynslan af smíði Helga Helgasonar sýndi að ekki fengust lán frá Fiskveiðasjóði til innlendra skipasmíða. Á þessum árum var mikill fjöldi fiskiskipa smíðaður fyrir íslendinga erlendis og voru lán til þeirra auðfengin.
Helgi sagði því að hann hefði látið smíða fimm skip í Vestmannaeyjum án þess að fá til þess nokkra styrkí og því skyldi hann láta smíða önnur fimm í Svíþjóð og fá til þess fjármagn. Gekk það eftir að Fiskveiðasjóður veitti styrki til smíði þeirra. Er þetta glöggt dæmi um það hvernig íslensk stjórnvöld hafa lagt stein í götu iðnaðar hér á landi með ýmsum ráðum.
Á árunum 1954 - 1960 lét Helgi smíða 5 báta í Svíþjóð en þeir voru: Frosti VE 363 árið 1954, 54 brl.. Fjalar VE 333 árið 1955, 49 brl., Hildingur VE 3 árið 1956, 56 brl, Gullþórir VE 39 árið 1959, 58 brl. og Hringver VE 393 árið 1960, 126 brl. stálskip. Hringver var síðasta skipið sem Helgi lét smíða og gerði út. Hann sökk á Síðugrunni í janúar 1964 og bjargaðist áhöfnin í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Árna Þorkelsson KE.
Gerð út 8 skip samtímis
Helgi Benediktsson gerði þegar þau voru flest, hann umfangsmikla smíðaverkstæði þar skipa og fasteigna, í tengslum við útgerðina rak saltfísk- og skreiðarverkun, sem unnið var að viðhaldi netaverkstæði, verbúðir og mötuneyti. Um þetta leyti voru starfsmenn hans um 160 - 180 og áttu tugir fjölskyldna afkomu sína undir útgerðinni. Hann átti og hlut að fjölda fyrirtækja sem tengdust sjávarútvegi og má þar nefna Netagerð Vestmannaeyja sem sá Íslendingum að mestu fyrir efni í net og tauma á stríðsárunum. En um miðjan 6. áratuginn varð Netagerðin aö láta í minnipokann vegna innflutnings á erlendum netum.
Þegar kom fram á 7. áratuginn urðu ýmsar aðstæður til þess að halla tók undan fæti. Helgi var neyddur til þess að hætta rekstri skipa sinna haustið 1964 og voru þau öll seld.
Þegar litið er yfir útgerðarsögu Helga Benediktssonar vekur athygli að 5 af skipum sínum lét hann smíða í Vestmannaeyjum. Mun fátítt að íslenskir útgerðarmenn hafi stutt jafnvel við innlendar skipasmíðar. Útgerðarsaga hans gefur fullt tilefni til þess að Vestmannaeyingar hugi að þætti athafnamanna í sögu sinni. Um leið hljóta menn að vilja varpa ljósi á þátt skipstjóra og annarra sjómanna í þeirri velgengni sem útgerð í Vestmannaeyjum átti að fagna um árabil.
Arnþór Helgason deildarstjóri