Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Út á landsuður. Í austursjónum, austan Eyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Út á Landsuður Í austursjónum, austan Eyja

Einu sinni rerum
einskipa á sjó
fyrir austan Eyjar
sátum þar í ró.
Við vorum að reyna að veiða, veiða
væna keilu úr sjó.
Ólafur Magnússon í Nýborg
(1845-1927).

Oft svaraði faðir minn, Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum (1897-1995) þegar ég spurði hvar hann hefði verið á sjó að hann hefði verið „út á Landsuður" og átti þá við miðin suðaustur af Heimaey, austan og sunnan við Ledd og Nýjahraun.
Um vetrarvertíðina 1925 skrifaði Eyjólfur sem þá var formaður með Hansínu VE 200 en hann tók við skipstjórn á Hansínu 25 ára gamall, vetravertíðina 1923:
„Vertíðina 1925 vorum við með netin undir Sandi til 27. mars. Fluttum þau þá út á djúpið að Eystri-Mannklakk og bættum við þriðju trossunni; 12 neta. Þessa vertíð var verið með netin um allan austursjóinn og út á Landsuður, allt vestur að Súlnaskeri. Lagt var við og á Leddina, við Nýja hraunið og Helliseyjarhraun, Súlnaskersklakkinn og víðar. Eftir þessa vertíð tók alveg fyrir netafiskirí fyrir austan Eyjar um tugi ára þó að oft væri reynt að leggja þar og svo var til 1953 að einn bátur fékk þar yfir 5 þúsund fiska í 5 trossur, en er fleiri bátar lögðu þar fékkst ekkert."

Landsuður er skemmtilegt áttaheiti og minnir okkur á að flestir forfeður okkar komu frá Noregi, en þessi heiti á áttum og stefnum eru miðuð við vesturströnd Noregs þaðan sem flestir landnámsmenn komu. Þessi fornu heiti á áttum og stefnum eru enn notuð hér á landi. Í öllum stærri úteyjum Vestmannaeyja er til Landsuðursnef (SA), Útsuðursnef (SV), sbr. útsynningur; Landnorðursnef (NA) [borið fram sem Lannorðursnef, sbr. lannyrðingur] og Útnorðursnef (NV) hefur t.d. í Bjarnarey á seinni tíð verið kallað Ofangjafarnef en þar hefur fugli og eggjum verið gefið niður á bát og vistir veiðimanna dregnar upp.

Ledd
Um 3 sjómílur suðaustur af Heimaey er þekkt fiskimið, eða réttara sagt apalhraun, allnokkuð um sig og heitir Ledd. Grunnið er um 1200 metrar í þvermál og rís frá um 107 metra dýpi vestan við hraunið og 115-120 metra dýpi að austan upp í um 30 metra hæð. Þar sem hraunið er hæst og grynnst á Ledd er 75 metra dýpi og er grunnið kallað Háledd.
Mið á Háledd er: ,,Hábrandurinn við Suðurey að norðan; elding (skil sjást á milli eyjanna) á milli austureyjanna" (Ellirey rétt laus austan við Bjarnarey) eða: „Faxi og Lögmannssœti (austan í Ystakletti, norðanverðum) jafnjaðra". Einnig er mjög glöggt mið: „Þjófanef á Álsey við Hellutá, syðst á Stórhöfða."

Miðið Bensaklakkur, sem er syðst á Háledd, varð þekkt eftir hið frækilega afrek Guðlaugs Friðþórssonar sem synti frá Ledd og til lands aðfaranótt 12. mars 1984 þegar vélbátnum Hellisey hvolfdi á Ledd og fjórir menn fórust. Guðlaugur synti þá rúmlega 3 sjómílna leið (6 km) í 5-6 stiga heitum sjó. Þetta var einstakt og heimsfrægt afrek sem verður ætíð í minnum haft. Á korti, sem birtist með fréttinni í blöðum og sýndi aðstæður, vildi svo illa til að nafnið Bensaklakkur misritaðist og stóð alls staðar Bersaklakkur í stað Bensaklakkur [sbr. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984]. Því miður var þetta ekki leiðrétt.
Mið á Ledd: Vesturbrún: „Háubœli á Ellirey ydda austur undan Bjarnarey”. Norðurbrún: „Há-Brandur við Suðurey að norðan (inn undan Suðurey). Hafnarbrekkan frammi." Austurbrún: „Ellirey langlaus austur undan Bjarnarey." Suðurbrún: „Brandur suður undan Suðurey. "

Línulagnir við Ledd
Ef lína var lögð við Ledd voru miðin: Vestan við Ledd: „Háubæli hálf austur undan Bjarnarey"; norðan við: „Há-Brandur langlaus innan undan Suðurey"; austan við: „Rauðaskriðan í Hafnarbrekkunni [í Bjarnarey] frammi og stall á Lögmannssœti ber í Faxa"; sunnan við Ledd: „Rauðhamar á Brandi langlaus sunnan úr Suðurey”.

Togslóð í kringum Ledd: Að vestan; „Stallur vestan í Hábarði á Ellirey við Bjarnarey að austan. Beygt er í austur þegar Há-Brandur er kominn vel inn undan Suðurey. Ekki má beygja mjög skart. Láta Rauðhamarinn á Brandi koma inn fyrir Suðurey. Togað undan því austur á 64-65 faðma dýpi, þá er beygt í suður þar til Geirfuglasker er laust suður undan Geldungi. Togað upp á það mið þar til Há-Brandurinn er vel laus sunnan við Suðurey. Togað upp á það þar til stengurnar á Klifinu eru komnar suður fyrir Helgafell. Halda á það inn í fyrsta miðið. "
Við tog umhverfis Ledd varð að athuga vel: Ekki láta Geirfuglasker festast við Súlnasker að norðan, þá er komið í Nýjahraun og vonda festu.
Leddarforir: Austur af Háledd og Bensaklakki. Þóttu góð hákarlamið þar sem áraskip lágu fyrrum í hákarlalegum og dorguðu fyrir hákarl.

Nafngift á Ledd
Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum, sem Jóhann Gunnar Ólafsson safnaði, er sögn um nafnið á Ledd höfð eftir Hannesi Jónssyni hafnsögumanni á Miðhúsum:
,, Í landsuður af Heimaey er fiskimið, sem kallað er Ledd og stundum Katrínar-Ledd. Er það miðað þannig: Hábrandur við Suðurey og Hafnarbrekkan frammi. Hafnarbrekkan er í Bjarnarey og á að sjást í hana af miðinu. Mið þetta er jafnan fiskisælt en slæmt kargahraun í botni og var títt að menn töpuðu þar vaðsteinum sínum eða sökkum.
Það er forn sögn að miðið dragi nafn af því að það bar einhverju sinni við að menn, sem voru þarna á sjó, drógu marbendil. Slepptu þeir honum ekki fyrr en hann hafði sagt til nafns síns. Kvaðst hann heita Ledda og nefndu þeir miðið eftir honum og hefur það haldist síðan. Þó að þessi sögn sé bráðskemmtileg er nafnið þó vafalaust á annan hátt til komið.
Frá því um 1420 stunduðu Englendingar miklar fiskveiðar við Vestmannaeyjar og veiddu einkum með línu. Síðar lagðist sú veiðiaðferð af. Notkun línunnar gleymdist í Vestmannaeyjum enda vantaði Íslendinga á þeim öldum harðinda og óstjórnar, sem í hönd fóru, sárlega snæri! Það kom fyrir að ekki fékkst bein úr sjó á færin svo að fólk leið nærri sult við þá gullkistu sem Vestmannaeyjar og miðin þar um kring voru. Það var ekki fyrr en 10. apríl vorið 1897 að lína var aftur lögð í sjó við Vestmannaeyjar og er það merkisdagur í útgerðarsögu Vestmannaeyja.
Á ensku þýðir orðið „lead", sem er borið fram ledd, blý og blýsakka. Á fyrstu árum þessarar aldar var ledda iðulega notað um sökku á færi (heimild: Eyjólfur Gíslason). Ekki minnist ég þess sjálfur (f. 1935) að hafa heyrt þetta orð notað um sökku. Í 3. bindi ritsafnsins Íslenskir sjávarhættir eftir dr. Lúðvík Kristjánsson segir:
„Á handfæri var ætíð sakka, sem löngum var vaðsteinn, en síðar úr járni eða blýi, kölluð pottsakka, blýsakka, lóð og einnig ledda eða blýledda.” Blýsakka var einnig nefnd fiskiledda ".
Í íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals er orðið ledda (-u, -ur) í merkingunni lóð (dybslod). Á Austfjörðum er ledda hins vegar enn þekkt orð og notað sem heiti á blýlóði eða sökku. Það er því trúa mín og má telja nær víst að nafnið Ledd sé komið frá hinum mörgu blýsökkum sem eflaust hafa tapast á því apalhrauni sem Ledd er, en það er eins og fyrr segir eitt hið versta á Vestmannaeyjamiðum.
Rúmum þrem sjómílum austur af Ledd er talsvert grunn, nafnlaust, sem hefur stundum verið nefnt ,,Hóllin í Háfadýpi".

Nýjahraun
Hraun rétt fyrir austan Ledd. Hæsti punktur á grunninu rís bratt upp frá um 120 metra dýpi og er um 50 metra hár. Grynnst er á Nýjahrauni 63 metrar. Norðurbrún Nýjahrauns er í miðinu: „Álsey (Lendin) föst við Vatn á Suðurey" (Vatn er fyrir miðju bergi á norðurbrún Suðureyjar þar sem vistir eru dregnar upp til veiðimanna og oftast sagt ,.Á Vatni"). Álsey fyllir nánast út í Suðureyjarsund, séð frá norðurbrún Nýjahrauns.
Suðurbrún Nýjahrauns: „Þjófanef við Vatn á Suðurey".
Austurbrún Nýjahrauns: „Litli Þríhyrningur i Krosshól".
Vesturbrún Nýjahrauns: „Litli Þríhyrningur í Múlatá".
Krosshóll er lítil þúst mitt á milli Fagrafells og Múlatáar. Múlatá er vestasti endi Seljalandsmúla. Togbleyða er á milli Leddar og Nýjahrauns, suðaustan við Ledd og vestan við Nýjahraun í miðinu: „Geirfuglasker í mitt sund, milli Súlnaskers og Geldungs." Ef ekki átti að lenda í festu var varasamt að Geirfuglasker færi austar en í mitt sund, en óhætt er að fara svo vestarlega að skarð verði á milli Geirfuglaskers og Geldungs.
Togslóð við Nýjahraun: Sunnan við: ,, Veiðikofinn í Álsey sést inn undir Suðurey". Komið er inn fyrir Nýjahraun og Ledd þegar Þúfan á Molda (flaggstöng austan Herjólfsdals) er innan við Helgafell.

Mannklakkur grynnri og dýpri
Mannklakkur er frá fornu fari eitt þekktasta fiskimið við Eyjar. Tvö fiskimið hafa þetta nafn, hvort tveggja kennd við Manninn norðan í Klifinu sem er kennileiti í öðru miðinu.
Grynnri Mannklakkur er skammt undan Bjarnarey, um 20 metra hár standur á 38 metra dýpi, suðaustur af Bjamarey. Hann er einnig kallaður heimri Mannklakkur. Miðið er: „Maðurinn (norðan í Stóra Klifi) við Heimaklett. Bólin (tveir stórir steinar) Nyrðri-Hafnarbrekku á Bjarnarey við Suðurbrekkuna."
Dýpri Mannklakkur. einnig kallaður Eystri Mannklakkur, er mjór standur. mjög lítill um sig, 36 metra hár, þ.e. jafnhár Þrídrangavita. Grynnst er á klakknum 48 metrar. Miðið á Eystri Mannklakki er að finna í Örnefnabók Þorkels Jóhannessonar: „Maðurinn (norðan í Klifinu) við Hettu (á Heimakletti) og Hryggurinn á Suðurey þar sem hann er hœstur (Þúfan ) við Stórhöfða. " Hellisey er langlaus. Jón í Sjólyst, sem er einn aðalheimildamaður minn um Dýpri Mannklakk, notar einnig miðið: „Bólin á Bjarnarey (Kindaból norðan í Bunka á Bjarnarey) frammi." Einnig er til miðið: „Maðurinn í Dönskutó" og „Litli Þríhyrningur í Krosshól á Seljalandsmúla”. Dýpri Mannklakkur stendur bókstaflega eins og mastur upp frá sjávarbotni. Hann er mjög lítill um sig og segja sjómenn að kolbrjóti á klakknum í vondum veðrum með brimi svo að skip ættu að varast hann. Fregnir eru um að bátur hafi tiltölulega nýlega fengið af honum brot.

Klakkurinn er gott dæmi um stök grunn og klakka sem hafa komist seint inn í sjókort. Hann komst ekki inn í sjókort fyrr en árið 1977. Sjómælingar Islands unnu sérstaklega góð störf í eldgosinu 1973 og eftir gosið við sjómælingar umhverfis Eyjarnar. Mælingabáturinn var allt sumarið 1973 í Vestmannaeyjum. Jafnframt því sem mælt var við Vestmannaeyjar, austan við Heimaey og suður að Helguskerjum (sem eru tvö), var mælt með suðurströndinni frá Þjórsárósi austur að Kötlutanga. Í Vestmannaeyjum var þetta sumar byggður nýr Urðaviti, austast á hrauninu og nokkru austar en sá sem hvarf í eldgosinu. Kveikt var á vitanum í desember 1973. Þennan vita varð síðan að færa vegna ágangs sjávar og er sá Urðaviti, sem nú stendur, þriðji vitinn á Urðum frá því eldur varð uppi árið 1973.

Þegar unnið var úr sjómælingum sumarsins 1973 þá um haustið kom í ljós að Dýpri Mannklakkur var ekki í gögnunum. Það var þá ætlunin að fara strax um haustið og finna klakkinn með staðkunnugum, en dróst fram á haustið 1977. Farið var á Lóðsinum sem Einar Jóhannesson var með. Ásamt Róbert Dan Jenssyni sjómælingamanni voru í ferðinni Eyjamennirnir Friðrik Ásmundsson skólastjóri, Magnús Grímsson á Felli og Jón í Sjólyst. Róbert hefur oft dáðst að því hvað miðin voru glögg og hvað þeir hittu nákvæmlega á klakkinn undir leiðsögn þessara Eyjasjómanna. Róbert var við dýptarmælinn sem var nokkuð nálægt gólfi en Jón í Sjólyst horfði til miða og leit aldrei á dýptarmælinn. Rétt áður en þeir komu á klakkinn sagði Jón: ,Jæja, nú erum við alveg að vera komnir." Síðan sagði hann við Einar: „Komdu nú hart til stjórnborða." Rétt á eftir fóru þeir beint yfir klakkinn. Um leið og þeir sigldu yfir hann sagði Jón: „Nú eigum við að vera þar." Í sama mund fóru þeir yfir Dýpri Mannklakk en sigldu síðan strax út af klakknum aftur. Hafði þá Lóðsinn farið á að giska hálfa bátslengd eða 10 til 11 metra. Hér í blaðinu er teikning af Eystri Mannklakknum, gerð eftir dýptarmælispappír, og er klakkurinn ótrúlega brattur. Auk miðsins var einnig tekin staðarákvörðun með sextanti, tvö lárétt horn:
Stórhöfðaviti - Blátindur: 24° 06';
Blátindur - Hábarð: 30° 47'.
Ratsjárfjarlægðir:
Suðurey: 7,25 sjómílur,
Ellirey: 2,87 sjómílur.
Í kringum Mannklakkinn og fleiri klakka eru hraun kennd við þá, t.d. Mannklakkshraun dýpra. Réttarklakkur: Austur af Bjarnarey. Miðið er: „Hafnardrangurinn við Flána í Suðurbrekkunni og Hellisey við Bjarnarey."

Landnorðursklakkar
Þeir eru norðaustur af Mannklakknum. Gísli Eyjólfsson ritar í sína miðabók: „Landnorður-klakkar á Mannklakkshratmi. "
Jón í Sjólyst segir að þarna sé harður botn og hafi oft slitnað lína á Landnorðursklökkum. Miðið er: „Steinketillinn (austan í Heimakletti) við Bjarnarey að norðan". Þegar Steinketillinn er horfinn er komið á betri botn.

Litli-KIakkur
Suður af Dýpri Mannklakki. Miðið er „Litli Þríhyrningur í þúfu á Fagrafelli. Skötukjaftur á Faxa sunnan við Bjarnarey. "
Austur af Ellirey, norðan við Mannklakk, eru þrjú grunn sem vert er að geta um.
Rófuboði (Einnig ritað Róuboði. Þorsteinn Jónsson í Laufási og sr. Jón Austmann.) Grunnið er talsvert um sig, nærri 60 metra hátt, og grynnst er á það 12 metrar. Rófuboði liggur skv. korti 800-900 metra í stefnu réttvísandi suðvestur-norðaustur.
Í hinni merku grein, sem Þorsteinn í Laufási ritaði í Víði 18. desember 1929 um grunn við Vestmannaeyjar, segir hann um Rófuboða: „Allstór hraunhryggur um 600 metrar á lengd frá norðri til suðurs."
Miðið er: „Háubúr á Sœfjalli við Bjarnarey að austan" og „Hœsti tindurinn á Faxa við Kirkjuhausinn á Elliðaey."

Rófuboði er mjög varasamt grunn.
„Þessi boði er á fjölfarinni siglingarleið þegar farið er innan Eyja. Það þarf ekki mikil aftök til að á þessum boða brjóti" ritar Þorsteinn í Laufási í ævisögu sinni Formannsœvi í Eyjum. Þorsteinn var um hálfa öld formaður á Eyjamiðum, frá því skömmu fyrir aldamótin síðustu til 1948, og gjörþekkti þar öll grunn og mið.
Mikil brot á Rófuboða eru í miðinu: „Háubúrahausinn í Hagaskorulœgðina" og „Faxi í Ellirey að sunnan (rifar aðeins)."

Þorsteinn í Laufási heldur áfram:
Ég hafði fulla ástæðu til að ætla, að þýski togarinn Ísland, sem hvarf hér við land um þessar mundir [snemma á árinu 1928], mundi hafa farist á Rófuboðanum. Greinargóður maður sa
gði mér að hann hefði séð togara, sem kom að austan, hverfa inn í brotið. Meira sá hann ekki." Vetrarvertíðina 1918, sunnudaginn 3. mars, fórust mótorbátarnir Adolf og Frí, báðir með allri áhöfn, samtals níu mönnum. Getgátur voru um að Adolf hefði farist á Rófuboðanum en Frí á (Barnareyjar-) Breka en legufæri bátsins fundust síðar þar nærri.
Nafnið á Rófuboða er skemmtilegt og dregur boðinn nafn af landsheiti miðsins, Rófu, sem var annað nafn á Seljalandsmúla eins og hann sést frá miðunum austan við Eyjar og er ekki ósvipaður rófu á ketti.
Í miðabók sr. Jóns Austmanns er mið á Rófuboða: „Faxi á Sauðagötu (slakkinn á milli Hábarðs og Bunka) á Ellirey" og „Dímon við Rófu" (Rófa: Seljalandsmúli).

Hæringsklakkur
Um eina sjómílu suður af Rófuboða er brattur klakkur, Hæringsklakkur, um 70 metra hár standur, sem rís upp af 90 metra dýpi. Hann er lítill um sig og er grynnst á honum 34 metrar.
Ég hefi ákaflega lítið heyrt um þennan klakk og kort. Hann er eina og hálfa sjómílu austur af Ellirey. Hugsanlega á hann þó lengri sögu en almennt er vitað og væri f´roðlegt að heyra hana. Mér virðist að unnt væri að nota miðið ,,Blátindur við Dönskutó ber yfir Klettsnef” og ,,Helgafell ber yfir Urðavita og Álkustall syðst á Bjarnarey.”
Ekki er minnst á þennan boði í Leiðsögubókinni frá 1932, en í ,,Den Islandske Lods” (Leiðsögubók fyrir Ísland frá 1911, sem var útgefin af danska Sjókortasafninu, segir í kafla um grunn á milli Vestmannaeyja og fastalandsins: ,,Hevringsklakkur er en Grund með 24 m som ligger i c. 70 m Vand c.2 Sm ØNØ. fra Elliðaey N. – Pynt.” Eða: „Hevringsklakkur (sem gæti verið afbökun úr Hæringsklakkur) grunn með 24 m dýpi, rís upp af 70 m dýpi, um það bil 2 sjómílur ANA frá norðurenda Elliðaeyjar." Þarna gæti einnig staðsetningu og dýpi verið ruglað saman við Rófuboða sem ekki er nefndur. Hæringur merkir síld eða karlfiskur loðnu. Hæringsklakkur er þvi gott nafn á grunni.

Vorsabæjarmið
Um þetta mið, sem er merkt austan við Hæringsklakk, hefi ég þessa sögu sem frændi minn, Stefán Guðlaugsson skipstjóri í Gerði, sagði mér þegar ég spurði hann um nöfn á grunnum og ósléttum botni sem við höfðum orðið varir við í sjómælingum austan við Ellirey á sjómælingabátnum Tý sumarið 1961. Sagan er þannig:
Sigurður í Sjónarhól í Vestmannaeyjum var á sinni tíð einn af sérstæðum kvistum í Eyjum. Eitt sinn tók hann að sér formennsku á bát og hafði róið tvo róðra með línu og fiskað allvel; lagði hann línuna fyrir austan Ellirey. Í þriðja róðri tapaði Siggi nær öllum sínum veiðarfærum í Ellireyjarhraun og var þar með úti hans formannstíð. Hann lenti þarna á hrauni og ef til vill einnig í Hæringsklakki. Sigurður náði aðeins bólunum af línunni og sagði svo að í minnum var haft: „Guði sé lof, við náðum þó bólunum." Siggi í Sjónarhól var ættaður frá Vorsabæ í Flóa og var þetta svæði síðan að sögn Stefáns kallað Vorsabæjarmið. Þarna í kring voru snurvoðarbleyður, en slæmar festur á Vorsabæjarmiði. Ellireyjarhraun er nefnt hraun og festur í kringum þessa klakka, austur af Ellirey.

Sandahraun
Fimm sjómílum austur af Ellirey, 5,8 sjómílur í Vatnsdæluhúsið á Bakkafjöru. „Lögmannssæti í mitt sund á milli Ellireyjar og Bjarnareyjar" og „Krosshóll í austurjaðarinn á Stóra-Þrihyrningi". Samkvæmt kortinu um 800 metra langur hryggur, nærri því 40 metra hár. Grynnst er á Sandahrauni 45 metrar. „Á milli hrauna": Sagt var að bátar væru „á milli hrauna" eða „austur á milli hrauna" þegar þeir voru á veiðum á milli Holtshrauns að austan og Sandahrauns og Mannklakks að vestan. Þarna var oft ágæt veiði hvort sem var í þorskanet, á línu eða í botnvörpu en togslóð er í hraunkantinum.

Fjallasjór
Þegar komið er austur fyrir Sandagrunn er komið austur í Fjallasjó, kenndan við Eyjafjöllin. Þar er þekktast Holtshraun. Frá Ellirey eru um 9 sjómílur í vesturbrún á Holtshrauni. Meðal sjómanna í Eyjum var það alltaf kallað „Holshraun" og t-inu sleppt í framburði. Þetta er hraunfláki og harðastur botn að innanverðu. Komið er á vesturbrún af Holtshrauni þegar „Suðurey er laus við Stórhöfða".
Hér eru svo að lokum tvö mið á Holtshrauni úr miðabók Friðriks Ásmundssonar:
Skálakotsklakkur: Ellirey - fjarlægð 10,0 sjómílur. Sandurinn - 2, 0 sjómílur. Dýpi 30 faðmar.
Hólakotsklakkur: „Kirkjuhausana ber í Faxa". Ellirey - fjarlægð 8,5 sjómílur. Dýpi 41 faðmur.
Sandagrunn
Stakt grunn inn af Eyjum; 4,5 sjómílur NNV úr Faxasundi og um 2,4 sjómílur undan landi (Sandinum). Miðið er: „Sauðagata á Suðurey (austast á Suðurey) við Dalfjall að vestan" og „Gerði (Stóra-Gerði) við Kleifar" eða „Búðarhól (bær í Landeyjum) ber í Dimon ". Nú er Gerði horfið svo að í stað þess má nota hæstu bunguna á öxlinni á Helgafelli.
Sandagrunnið er þverhnípt að austan, um 40 metra hátt, og hallar vestur af því. Á því brýtur í suðvestan brimum og er grynnst 14 metra dýpi.

Heimildir
Við samantekt og ritun þessarar greinar hef ég að sjálfsögðu auk eigin athugana stuðst við fjölda heimilda. Ritaðar heimildir:
1.Sjókort Sjómælinga íslands nr. 321 af Vestmanneyjum.
2.Örnefni í Vestmannaeyjum eftir Þorkel Jóhannesson.
3. Sögur og sagnir í Vesimanneyjum, safnað hefurJóhann Gunnar Ólafsson.
4. Formannsævi í Eyjum. Þorsteinn Jónsson í Laufási.
5.Den Islandske Lods 1911. Det Kgl. danske Søkortarkiv.
6. Skipsdagbók Eyjólfs Gíslasonar (óprentað).
7. Íslenskir sjávarhættir 3. Dr. Lúðvík Kristjánsson
8. Íslensk-dönsk orðabók. Sigfús Blöndal.

Það sem mér hefur þó þótt mestur fengur í er aðstoð vina minna frá Eyjum. Friðrik Ásmundsson skólastjóri sýndi grúski mínu mikinn áhuga og sendi mér ljósrit og heimilaði afnot af miðabókum sínum. Haukur Sigurðsson, stýrimaður frá Stakkagerði, og Róbert Dan Jensson, sjómælingamaður og fyrrv. forstöðumaður Sjómælinga Íslands, svo og bróðir minn, Gísli Eyjólfsson, veittu mér mikilsverðar upplýsingar og Gísli aðgang að miðabók sínni og nótum. Er þá ótalinn frændi minn, Jón Guðmundsson í Sjólyst. Þó að ég ætti aðeins samtal við hann í síma var eins og maður væri kominn austur fyrir Eyjar eða suður í sjó þegar ég ræddi við Jón.

Greinin hefði ekki orðið svipur hjá sjón ef ég hefði ekki notið aðstoðar þessara heimildarmanna og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. En að venju þeirra sem leggja á sig þann sjálfvalda kross að skrifa, sem er þó æði skemmtilegt, ber ég að sjálfsögðu einn ábyrgð á því sem missagt kann að vera. Ég vona að ungir og gamlir Eyjamenn, og þá sérstaklega sjómenn, finni hér einhvem fróðleik og skemmtan.
Öllum sjómönnum og Vestmanneyingum sendi ég bestu hátíðarkveðjur í tilefni sjómannadagsins sem er sextugur á þessu vori. - G.Á.E.