Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Sjómannadagurinn 1994
Sjómannadagurinn 1994
Hátíð sjómanna 1994 skartaði sínu fegursta. Á laugardaginum var sól, þurrt en talsverður strekkingur sem óneitanlega setti mark sitt á áhorfendahópinn á bryggjunni. Það er svo sem ekkert við því að gera nema klæða sig samkvæmt veðri og vindum. Oft heyrist á tali fólks að því hafi þótt eitthvað leiðinlegt og þá einkum vegna þess að öllum var orðið kalt. Útihátíðir á Íslandi verða fyrst góðar ef fólk klæðist í samræmi við veður en ekki öfugt. Sjómannadagurinn er því kjörinn vettvangur til þess að tengja fjölskyldu sjómanna við starf og hlutverk þeirra.
Hátíðardagskráin við höfnina hefur verið nokkuð hefðbundin og vantar í hana nýjungar og ferskleika en það kemur ekki inn nema sjómenn sjálfir séu tilbúnir til aðgerða og þátttöku. Sjómenn eiga þennan dag, bæði til að minna á lífsbaráttuna og gefa Guði þakkir sem öllu ræður. Mér þótti því góð tilbreytni í því að opna fyrirtæki tengd sjávarútvegi fyrir gesti og gangandi. Ekki bar á öðru en að gestum líkaði það að koma við á Náttúrugripasafninu enda náðist þar metaðsókn.
Á sunnudeginum var síðan hátíðin sett af fulltrúa sjómanna í Landakirkju. Það var vel til fundið að láta sjómann bjóða alla velkomna til kirkju og þannig opna daginn. Ræðan hjá prestinum var kjarnyrt enda öllum til sóma að tala uppbyggjandi orð trúar og sannleika, láta lönd og leið skrúðmælgi og hátíðarbúning sem engan skilning veitir. Enginn sjómaður mætir með „pollagallann“ frá 6 ára aldrinum til sjós, en í lífsins ólgusjó telja menn sig færa í flest klæddir barnatrúnni, óljósri. Allir gátu skilið þessa einföldu mynd.
Við minnisvarðann kvöddum við Einar J. Gíslason og hann heiðraður fyrir 37 ára hlutverk sálusorgara og predikara við ýmis skilyrði þegar minnst var vina og venslafólks er greipar ægis héldu eftir. Ég, undirritaður, var beðinn um að leysa Einar af og fann ég fyrir miklum stuðningi frá samborgurum og sjómönnum til þess. Ég er ákaflega þakklátur fyrir traustið. Minnst var þriggja manna sem höfðu látist af slysförum á síðasta ári og fram til sjómannadagsins. Þeir voru: Ólafur Jóhannesson, vélstjóri, f. 18. mars 1930 lést af slysförum í Vestmannaeyjahöfn 08. febrúar 1993. Geir Jónsson f. 20. desember 1954 fórst með björgunarskipinu Goðanum í Vaðlavík 10. janúar 1994 er verið var að bjarga Bergvík af strandstað. Sigurður Helgi Sveinsson f. 11. febrúar 1981 drukknaði er alda hreif hann af flá við Stafnes þann 14. apríl 1994.
Við höfum átt fáa jafnveðursæla sjómannadaga og á árinu 1994 enda var mannfjöldinn bæði við minnisvarðann og á „Stakkó“ með meira móti. Það gerir einnig daginn hátíðlegri þegar aðsóknin er jafnfrábær og raun varð á. Hátíðarræðuna flutti Sighvatur Bjarnason forstjóri Vinnslustöðvarinnar. Hann kom víða við í máli sínu en helst gekk mál hans út á erfiðleikana í niðurskurði á afla, þegar t.d. þorskafli fer úr 390 þús. tonnum í 167 þús. tonn og þarf samt að standa undir öllum rekstri og mannahaldi. Einnig kom hann inná öryggismál, þyrlukaup og sjálfvirka tilkynningakerfið. En eina færa leiðin í þessum erfiðleikum er að bregðast rétt við og gefast ekki upp, barnanna okkar vegna.
Þá voru þessir heiðraðir fyrir þátt sinn í björgunarstörfum: Guðjón Pálsson og Óskar Mantez fyrir að bjarga Elínu Elísdóttur úr Reykjavíkurhöfn og Haukur Guðjónsson fyrir margar bjarganir á undanförnum árum. Hann keypti Björgvinsbeltið í bílinn til að hafa við höndina þegar bjarga þarf. Sigurður Viktorsson fékk viðurkenningu frá Jötni fyrir vel unnin störf í þágu sjómannastéttarinnar og Jón Maríus Guðmundsson fékk viðurkenningu frá Verðandi fyrir langa og farsæla sjómennsku. Útgerðin á Dala-Rafni fékk afhenta viðurkenningu Siglingamálastofnunar fyrir mjög gott lag á skipi og öryggistækjum. Í sjómannadagsráði sátu: Þorsteinn Guðmundsson, formaður, Elías Björnsson, Njáll Kolbeinsson, Sigmar Sveinsson, Gísli Eiríksson, Ólafur Guðmundsson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson sem sá um Sjómannadagsblaðið. Kynnir á Stakkó var Stígur Ágústsson.
Megi það vera hvatning til allra sem koma nálægt sjávarstörfum að standa klárir á öllum þeim sviðum er lúta að heill og hamingju þjóðarinnar. Blessun Drottins vaki yfir landi og miðum í Jesú nafni.
Snorri í Betel