Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Saga bátasmíði í Vestmannaeyjum á vélbátaöld
Tryggvi Sigurðsson
Saga bátasmíði í Vestmannaeyjum á vélbátaöld
Mig langar í þessari grein að fjalla um skipasmíðar í Vestmannaeyjum frá upphafi vélbátaútgerðar héðan og fram til ársins 1973 þegar þær lögðust af í gosinu. Það hafa birst margar góðar greinar um þetta efni, t.d. í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, eftir þá Brynjólf Einarsson, Eggert Gunnarsson og Hermann Einarsson. Ég ætla að fara svolítið inn á hverjir voru helstu eigendur þessara báta, þá aðallega þeirra sem smíðaðir voru eftir 1940, og eins hvað varð um þá, hver líftími þeirra varð og hvert þeir fóru.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bátum og öllu tengdu þeim, enda lifði ég og hrærðist í gömlu slippunum á mínum uppvaxtarárum og lék mér mikið í öllum þessum bátum sem þar voru. Að vísu man ég sjálfur ekki eftir blómaskeiði bátasmíðanna en hef mikið heyrt um það talað. Alltaf vorum við peyjarnir velkomnir í slippinn til langafa míns, Gunnars Marels Jónssonar, og smíðaði hann ófáa bogana og sverðin fyrir okkur. Fljótlega upp úr aldamótum, þegar fyrstu vélbátarnir fóru að koma til Eyja, var hafist handa við að smíða slíka báta hér í Eyjum og voru smíðaðir hér um 70 bátar í allt. Fyrstu bátarnir voru smíðaðir undir Skiphellum og voru þeir um það bil 8-12 rúmlestir að stærð. Fljótlega var farið að byggja upp undir 20 rúml. báta og fluttist þá smíðin niður í fjöru á þann stað sem Herjólfsafgreiðslan var, og einnig þar sem gömlu slipparnir voru settir upp síðar.
Helstu frumkvöðlar smíðanna voru Ástgeir Guðmundsson frá Litlabæ (afi Ása í Bæ). Hann smíðaði a.m.k. 12 báta á árunum 1906-1918, alla súðbyrta. Jens Andersen, Dani sem bjó hér í nokkur ár (bróðir Danska-Péturs), smíðaði sex súðbyrðinga í Skildingafjöru á árunum frá 1913-1916, 9-16 rúml.
Magnús Jónsson (bróðir þeirra Guðmundar á Háeyri, Gunnars Marels og Þórðar á Bergi) smíðaði 11 báta, 6-15 rúml., á árunum 1918-1920, en það ár lést hann langt um aldur fram úr berklum. Hann var fyrstur manna til að smíða kantsetta báta hér. Hann var mjög afkastamikill í bátasmíðum og þótti mjög klár smiður. Árið 1919 voru smíðaðir hjá honum sjö bátar og hafa aldrei, hvorki fyrr né síðar, verið smíðaðir jafnmargir bátar hér á einu ári. Sá bátur sem Magnús smíðaði og entist einna lengst var Úndína (síðar Vinur VE 17), 14 rúml. að stærð. Hann var gerður út til ársins 1964 en þá lenti hann í árekstri við annan bát og sökk.
Magnús Magnússon, oft kallaður Mangi gas, smíðaði tvo báta, báða kantsetta, Blika Ve 143, 22 rúml., árið 1922 og ölduna, 18 rúml., árið 1926. Hann stofnaði fyrstu dráttarbrautina árið 1924. Hann seldi slippinn árið 1940 og var þá stofnuð Skipasmíðastöð Vestmannaeyja.
Þórður Jónsson frá Bergi smíðaði einn bát, Enok II. Ve 164, 19 rúml., árið 1921. Hann átti hann sjálfur og reri á honum fyrstu árin.
Guðmundur Jónsson frá Háeyri sá um smíði á fjórum bátum: Helgu Ve 180 12 rúml., 1915, Láru Ve 181, 11 rúml., 1915, Sillu Ve 182, 11 rúml., og Ingólfi Arnarsyni Ve 187, 12 tonna, 1917. Gunnar Marel Jónsson sá um smíði á ellefu bátum. Hann var einn af stofnendum Dráttarbrautar Vestmannaeyja 1925 og veitti henni forstöðu. Hann lærði að smíða undir Skiphellum eins og þeir sem að framan er getið. Fyrstu bátarnir voru Auður Ve 3 og Kristbjörg Ve 70, báðir 15 tonna, smíðaðir árið 1925. Auður var smíðuð fyrir Helga Ben. og gerð út frá Vestmannaeyjum í fyrstu en seld til Reykjavíkur og keypt hingað aftur af Ingibergi á Sandfelli. Hún var dæmd ónýt 1967 og henni sökt. Kristbjörg var smíðuð fyrir Grím Gíslason o.fl. Hún var seld innanbæjar og hét þá Græðir Ve og síðast Auðbjörg Ve. Hún var brennd á Ísafirði 1968.
Aðrir bátar sem Gunnar Marel sá um smíði á voru: Skíðblaðnir Ve 287, 16 tonn, 1929, fyrir Verslunarmannafélag Vestmannaeyja, gerður út frá Eyjum til 1950, seldur þá til Suðurnesja. Hét þá Elín Gk. Afskráð 1960 og fargað.
Muggur Ve 322, 26 tonn, 1935. Hann var lengdur árið 1943 og mældist þá 35 tonn. Helgi Ben. átti hann alla tíð. Hann var dæmdur ónýtur 1967.
Erlingur II. Ve 325, 25 tonn, 1937 (systurskip Muggs). Lengdur eins og Muggur. Hann var gerður út frá Eyjum til 1952 og áttu hann Gunnar sjálfur og Sighvatur í Ási sem var með hann þar til hann var seldur til Reykjavíkur 1952 og þaðan til Ólafsvíkur. Hann var brenndur í Hafnarfirði 1973.
Helgi Ve 333, 120 tonn, 1937-1939. Hann var smíðaður fyrir Helga Ben. og var þá stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi. Helgi fórst í aftakaveðri við Faxasker árið 1950.
Vonin II. Ve 113, 65 tonn, smíðuð 1943. Hún var smíðuð fyrir bræðurna frá Holti, Guðmund, Jón og Guðlaug. Vonin var gerð út frá Eyjum til 1966. Þá fór hún á flakk, m.a. til Gerðahrepps, á Hellissand, austur á Hornafjörð, vestur á Drangsnes og endaði aftur í Garðinum. Þrátt fyrir öll þessi eigendaskipti hélt hún alltaf nafninu sínu og er það mjög sjaldgæft. Hún var brennd um áramótin 1993-1994 í Njarðvíkunum. Jötunn Ve 273, 41 tonn, smíðaður 1945. Hann átti Svavar Antoníusson. Hann var gerður út frá Eyjum alla tíð. Hann brann og sökk út af Alviðruhömrum 1964.
Blátindur Ve 21, 45 tonn, 1947. Hann var gerður út frá Eyjum til 1960. Seldur þá til Keflavíkur og þaðan til Sauðárkróks. Var síðast gerður út þaðan 1989. Blátindur, eins og Vonin, hefur alltaf haldið nafni sínu. Hann var gefinn menningarmálanefnd Vestmannaeyja 1993 og stendur hann nú í gamla slippnum. Upphaflegir eigendum voru Ágúst Ólafsson, Magnús Thorberg, og Páll í Þingholti.
Geir Ve 64, 13 tonn, frá 1958. Hann var súðbyrtur. Smíðaður fyrir Jónatan Aðalsteinsson og Þorleif Sigurlásson. Hann var seldur til Reykjavíkur 1960 og endaði á Hólmavík þar sem hann var afskráður og síðan brenndur. Hét þá Sigurfari St.
Hvítingur Ve 21, 7 tonn. Smíðaður fyrir Jón Gunnlaugsson. Hann var gerður út héðan alla tíð þar til hann fórst með tveimur mönnum árið 1987.
Brynjólfur Einarsson sá um smíði á einum bát, Helga Helgasyni Ve 343, á árunum 1943-1947, 189 tonn, og hefur ekki verið smíðaður stærri trébátur á Íslandi, hvorki fyrr né síðar. Hann var byggður fyrir Helga Ben. og var hér fram yfir 1960. Ég man eftir Helga Helgasyni þar sem hann lá við norðurkantinn í Friðarhöfninni og fannst mér hann taka allan kantinn. Hann endaði í þurrafua og var sagaður í sundur á Akureyri 1965 eða 1966 og brenndur.
Runólfur Jóhannesson var yfirsmiður í Skipasmíðastöð Vestmannaeyja. Hann sá um smíði á sjö bátum: Sá fyrsti var Týr Ve 315, 37 tonn, smíðaður árið 1943. Hann var smíðaður fyrir Einar Sigurðsson „ríka". Hann var gerður út héðan og frá Reykjavík. Tý var fargað 1965.
Systurskipin Friðrik Jónsson Ve 115 og Jökull Ve 163. Þeir voru 49 tonn. Smíðaðir 1943, Jökull fyrir Lárus og Svein Ársælssyni og Steingrím Björnsson, og Friðrik fyrir Ármann og Kristin Friðrikssyni. Jökull hét síðan Guðrún Ve og fórst hún í róðri 1953. Friðrik Jónsson var fyrst gerður út héðan úr Eyjum, síðan á fastalandinu, og var svo aftur keyptur hingað 1953 og hét þá Farsæll Ve 12. Hann lá lengi inni í Friðarhöfn ónýtur og var sökkt 1969.
Haddi Ve 50, smíðaður 1943,7 tonn. Hann var fljótlega seldur héðan og endaði á Siglufirði. Hét þá Viggó. Honum var fargað 1979.
Kári Ve 47, 63 tonn, smíðaður 1944. Eigendur voru Sigurður Bjarnason Hlaðbæ o.fl. Hann var gerður út frá Eyjum fram undir 1960. Seldur Einari Sigurðssyni og endaði í Reykjavík. Hann brann 1965 og var sökkt stuttu síðar.
Björk Nk 103, 65 rúml. Hún var smíðuð 1946 fyrir Norðfirðinga. Hún endaði í þurrafúa í Njarðvíkum 1967 og var brennd þar.
Jón Stefánsson Ve 49, 65 tonna systurskip Bjargar. Smíðaður 1947 fyrir Björgvin í Úthlíð. Hét síðar Bjarnarey Ve 17. Var hér til 1970 og var svo seldur til Ólafsvíkur þar sem hann var dæmdur ónýtur 1979 og sökkt.
Árið 1947 var eitt stærsta árið í sögu skipasmíða í Vestmannaeyjum, en botninn datt alveg úr skipasmíðunum eftir það og var ekki smíðaður bátur hér eftir það næstu fimmtán árin ef undan er skilinn Geir sem smíðaður var 1958.
Fljótlega eftir 1960 var stofnað hér nýtt fyrirtæki, Skipaviðgerðir hf., undir stjórn Bárðar Auðunssonar og Eggerts Ólafssonar. Þeir byrjuðu á að smíða 35 tonna bát, Harald Sf 70,1962, fyrir Hornfirðinga. Hann var seldur til Grundarfjarðar. Fórst hann þar með 2 mönnum árið 1977.
Næsti bátur var Gullberg Ns 11, seinna Ve 292, 162 rúml., 1964. Hann var seldur til Seyðisfjarðar en keyptur aftur hingað. Heitir nú Glófaxi Ve 300 og er enn gerður út héðan.
Síðan liðu nokkur ár en svo var farið að raðsmíða 12-18 tonna báta og var verið að því alveg fram að gosi. Sá fyrsti var Bára Ve 141, 12 tonn, 1970. Hún var smíðuð fyrir Háagarðsbræður. Þeir gerðu hana út héðan fram að gosi og svo frá Garðinum þar sem hún fórst 1981 með eigendum. Annar var Rósa Ve 294, 12 tonn, 1970. Eigandi var Haraldur Magnússon. Heitir nú Sæbjörn Ís 121 og er gerður út frá Bolungarvík. Þriðji var Ingi Gk 148, 14 tonn, smíðaður 1971 fyrir aðila í Garðabæ. Heitir nú Tindur ís og er á Ísafirði. Sá fjórði var Ólafur Björn Re 45, 15 tonn, 1971. Nú heitir hann Þorkell Björn og er á Neskaupstað. Fimmti var Gunnhildur St 29, 15 tonn, smíðuð 1972 fyrir aðila á Drangsnesi og er þar enn. Sá síðasti, sem klárað var að smíða, var Votaberg Þh 153, 18 tonn, smíðað 1973 fyrir aðila á Þórshöfn. Hefur alltaf verið þar og heitir nú Faldur Þh 153.
Síðan eru liðin rúm 20 ár og við Eyjamenn misstum alveg af stálbátasmíðum sem blómstruðu á 8. áratugnum, m.a. á Akranesi, Akureyri og á Seyðisfirði, og ekki lítur vel út með nýsmíði í framtíðinni eins og málum er háttað.
- Tryggvi Sigurðsson
HEIMILDIR:
Aldahvörf í Eyjum, eftir Þorstein Jónsson.
íslensk skip, eftir Jón Björnsson.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966, 1977, 1982 og 1988.
Munnlegar heimildir:
Emil Andersen, Jón Gunnarsson, Tryggvi Gunnarsson, Gunnar Ólafsson.