Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Sjómannadagurinn 1988

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Mikill mannfjöldi fylgdist með keppninni við Friðarhöfn í blíðskaparveðri á laugardag. Daginn eftir var veður heldur rysjótt og viðraði lítt til útihátíðarhalda

Magnús Guðmundsson:

Sjómannadagurinn 1988

„Og þar fauk hún.“ Ásta situr uppi sem sigurvegari í koddaslag kvenna
Nokkrir Eyjapeyjar sýndu skemmtileg tilþrif í sprangi á laugardeginum

Sjómannadagurinn 1988 var haldinn hátíðlegur á hefðbundinn hátt. Hófst á laugardeginum með því að Eyjapeyjar sýndu Vestmannaeyingum spranglistir í Spröngunni.
Skemmtidagskráin við Friðarhöfn var eins og venjulega mjög fjörug og spennandi. Þar var saman kominn fjöldinn allur af fólki í þessari líka einmuna blíðu.
Kappróðurinn byrjaði með viðureign sjómannafélaganna. Þar áttust við Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi og Sjómannafélagið Jötunn. (Óneitanlega væri gaman að sjá vélstjórana vera með, þá vantaði eitt árið ennþá). Skemmst er frá því að segja að þeir í Verðanda sigruðu Jötunsmenn glæsilega.
Eiginlega má segja að konurnar í þessu bæjarfélagi hafi komið, séð og sigrað að þessu sinni, því þátttaka þeirra í öllum keppnisgreinum var með eindæmum góð. Í kappróðrinum voru nefnilega mættar fimm sveitir frá jafnmörgum frystihúsum. Stúlkurnar úr FIVE sigruðu þar með glæsibrag, annað árið í röð. Í karlaflokki frystihúsanna voru mættar tvær sveitir, frá FIVE og Hraðinu. FIVE-menn sigruðu, sömuleiðis annað árið í röð. Piparsveinarnir reru einir í sínum flokki, kepptu aðeins við tímann. Að sjálfsögðu náðu þeir besta tímanum þann daginn. Í unglingaflokki fóru með sigur af hólmi piltar sem kalla sig „Oddur Júll og jólatrén“. Róðurinn endaði svo á viðureign Klakks og Halkions. Þar höfðu Klakksmenn betur eftir æsispennandi viðureign.
Hvaða róðrasveit hafði fallegasta áralagið? Það var spurning, sem vissir menn höfðu velt fyrir sér meðan kappróðurinn fór fram. En sá nafnkunni maður Óli Pétur Sveinsson hafði gefið bikar sem veita átti þeirri róðrasveit er hefði fallegasta áralagið. Kom það í hlut þeirra Fiskiðjukvenna að taka við fegurðarverðlaununum.
Í koddaslag karla var mikil barátta en þar sigraði Hörður Ólafsson eftir að hafa lamið alla sína keppinauta í hafið. Ekki var baráttan minni í kvennadeildinni. Þar stóð Ásta Erlingsdóttir uppi að lokum sem sigurvegari. Í tunnuhlaupi karla sýndi Gísli Gíslason hvernig fara átti að. Hljóp hann yfir allar tunnurnar 16 og sigraði þriðja árið í röð. Í tunnuhlaupi kvenna urðu þær að reyna tvívegis með sér, Ásta Erlingsdóttir og Sylvía Daníelsdóttir og þar beið Ásta lægri hlut.
Þá var komið að reiptoginu. Þar ætluðu að reyna með sér „Fyrirmyndarbílstjórar“ og „Oddur Júll og Jólatrén“. Ekkert varð þó úr þeirri viðureign þar sem bílstjórarnir gáfu leikinn.
Síðasta keppnisgrein dagsins, stakkasundið, var á milli þeirra Gunnars Júlíussonar og Sveinbjarnar Guðmundssonar. Sýndu þeir báðir mikil tilþrif en Sveinbjörn sigraði þar með miklum yfirburðum. Sú nýbreytni var höfð á þessum indælis degi að verðlaun voru afhent á Friðarhafnarbryggju jafnóðum og keppni lauk í hverri grein.
Um kvöldið var borðhald í fjórum samkomuhúsum. Sverrir Stormsker, sá landskunni skemmtikraftur, kom fram í öllum húsunum og sá til þess að matargestum leiddist ekki. Eftir matinn var svo stiginn dans fram eftir nóttu. Í Kiwanishúsinu lék stórsveitin Sjöund fyrir dansi. Stefán P og hans menn sáu um fjörið í Hallarlundi. Hljómsveitin Eymenn hélt uppi stuðinu í Alþýðuhúsinu og á Skansinum voru það Stjórnin og Grétar Örvarsson sem fengu fólk til að hreyfa sig og það eftirminnilega. Um þetta kvöld er aðeins eitt hægt að segja; það var vel heppnað.

Þær sýndu fallegasta áralagið og hlutu að launum bikar sem Óli Pétur Sveinsson gaf til keppninnar. Kvennasveit Fiskiðjunnar


Ekki er hægt að segja að blásið hafi byrlega á sunnudeginum, hann heilsaði með þoku og rigningu. En fjölmennt var svið sjómannamessu í Landakirkju þar sem séra Jóhann S. Hlíðar messaði. Að messu lokinni minntist svo Einar J. Gíslason drukknaðra á sinn einstæða máta. Þá voru afhjúpaðir bautasteinar með nöfnum þeirra sem farist hafa í sjó- og flugslysum frá árinu 1950. Munu það vera um eitthundrað manns.
Sú nýbreytni var höfð þennan sjómannadag að sameina skemmtun dagsins og heiðrun aflakónga. Átti skemmtidagskráin að fara fram á Stakkagerðistúni að deginum til. En vegna veðurs voru hátíðarhöldin færð inn í Hallarlund. Þar hófst dagskráin með því að þrír miklir sjómenn voru heiðraðir, þeir Már Pálsson, Guðmann Guðmundsson og Einar S. Jóhannesson.
Áhöfnin á Guðmundi varð þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga tveimur félögum sínum úr sjónum eftir að þeir höfðu fallið útbyrðis er skipið var á loðnuveiðum. Ennfremur var það samdóma álit þeirra á Guðmundi að vinnuflotgallar, sem allir skipverjar klæðast við vinnu, hefðu bjargað lífi þeirra er í sjóinn féllu. Fyrir þetta afrek fékk áhöfnin á Guðmundi viðurkenningu er Garðar Ásbjörnsson veitti viðtöku.
Þeir standa fyrir sínu, lögregluþjónarnir í Vestmannaeyjum. Einn þeirra, Geir Jón Þórisson, var svo lánsamur að vera nærstaddur er maður féll í Vestmannaeyjahöfn. Fyrir þessa frækilegu björgun var Geir Jóni færð viðurkenning.
Sigurður Georgsson og áhöfn hans á Suðurey VE urðu aflakóngar Vestmannaeyja þetta árið og það ekki í fyrsta skipti.
Garðar Ásbjörnsson, útgerðarstjóri, tók við viðurkenningu fyrir hönd áhafnar Guðmundar en þeir á Guðmundi voru með mesta aflaverðmæti báta.
Enn einu sinni voru það Logi Snædal og hans menn á Smáey sem voru með mest aflaverðmæti togbáta undir 200 rúmlestum. Kom það engum á óvart.
Hjalti Hávarðsson, stýrimaður og Sigurður Vignisson, vélstjóri tóku við viðurkenningu fyrir hönd skipsfélaga sinna á Breka, fyrir mesta aflaverðmæti togara. Er þetta árviss atburður hjá þeim Brekamönnum.
Vart þarf að taka það fram að Einar J. Gíslason sá um afhendingu verðlauna og viðurkenninga og gerði það eins og honum einum er lagið.
Þegar þessu var lokið steig Sverrir Stormsker á svið og skemmti fólki með söng og spili en skemmtunin endaði með því að hin ágæta hljómsveit Sjöund kynnti tónlist af nýrri plötu sem þeir voru að gefa út. Slógu þeir síðan botninn í sýninguna með Presleysýningu.
Í Safnahúsinu var mikið um að vera þennan dag. Í tilefni dagsins var komið á sýningu í Byggðasafninu á bátateikningum og líkönum og í anddyri Safnahússins sýndu sjómenn landmönnum snilld sína í taflmennsku eða öfugt.
Þessi frábæra helgi endaði svo með dansleikjum í Hallarlundi og á Skansinum.

„Er það nú ekki ólíkt þægilegra að geta fylgst með hátíðarhöldum sjómannadags af sjó? Það finnst okkur.“ Erlendur Pétursson og Tóti í Geisla Makindalegir á laugardeginum. Skyldi eitthvað búa undir þessu brosi?