Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Það var sameiginlegt taugakerfi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurgeir Jónsson:

Það var sameiginlegt taugakerfi í okkur
Lalli á Sæfaxa segir frá

Lalli á Sæfaxa

Einhver gamlagrónasta útgerð í Vestmannaeyjum hætti nú í vetur. Þeir félagar og mágar, Þórarinn Eiríksson og Halldór Jónsson, betur þekktir undir nöfnunum Lalli á Sæfaxa og Dóri Ben, seldu Sæfaxa eftir að hafa átt hann og gert út saman í yfir 30 ár. Þeir Smáeyjamenn keyptu bátinn, aðallega í kvótahugleiðingum, óvíst hvort þeir ætla sér að halda honum til veiða. Þeir eru líklega fáir formennirnir í Eyjum sem orðið hafa jafn samgrónir skipinu og Lalli á Sæfaxa, bátur og maður því sem næst eitt og hið sama. Eða eins og Lalli segir sjálfur: „Það var sameiginlegt taugakerfi í okkur báðum."
Forsvarsmaður þessa blaðs rabbaði eina kvöldstund á útmánuðum við Lalla um liðna tíð í útgerð og sjósókn. Lalli á Sæfaxa hefur orðið:

FJÖLSKYLDUFYRIRTÆKI
Við keyptum Sæfaxa í endaðan september 1958, ég, Dóri og tengdafaðir minn, Jón Ben. Við vorum ekki alls kostar ókunnir útgerð, því við áttum saman Búrfell VE sem fór upp í Brimurð árið áður, 1957. Þann bát höfðum við átt saman nokkurn tíma og gengið vel á honum. Ástæðan fyrir því að við fórum saman í útgerð var held ég bara sú að við vorum þetta mikið tengdir, þetta var fjölskyldufyrirtæki. Við Dóri höfðum til dæmis ekkert verið saman til sjós, fyrr en við fórum saman í litgerð. Við vorum á sitt hvorum togaranum, hann á Bjarnarey, ég á Elliðaey. En svo þegar ég kvæntist inn í fjölskylduna, þá æxlaðist þetta svona til, við fórum saman í útgerð. Það samstarf átti eftir að endast lengi og vel. Það sem ef til vill er mest um vert, öll þessi ár liðu án þess að skugga bæri á, engin misklíð, engin illindi, ævinlega allt í sátt og samlyndi. Jón heitinn, tengdafaðir minn, var einhver sú mesta perla af manni sem ég hef verið með til sjós, mikill fiskimaður að auki. Og ekki var Dóri síðri. Ég hugsa að það sé einsdæmi í sameignarútgerð á Íslandi að aldrei skuli hafa kastast í kekki milli aðila. En þetta gekk svona hjá okkur, enda gekk þetta alltaf vel. Við leigðum okkur 17 tonna bát þessa vertíð sem Búrfellið fór upp en strax að vertíð lokinni fórum við að líta í kringum okkur eftir bát. Og fundum hann. Hann hét Faxi, 26 tonna bátur, smíðaður í Njarðvík 1940. Við urðum strax afskaplega hrifnir af honum. En hann var dýr, alveg fokdýr, kostaði 520 þúsund og það var mikið fé á þeim tíma. En Við keyptum hann og þurftum ekki að sjá eftir því, hann skilaði sínu og fyllilega það. Við gátum ekki haldið Faxanafninu þar sem hér var annar bátur sem hét því nafni, svo að við bættum smávegis framan við nafnið. Það var ákveðið í stofunni niðri á Búrfelli að láta hann heita Sæfaxa.

Sæfaxi VE 25, smíðaður í Njarðvík 1940, 26 brúttórúmlestir, 16,9m langur. Mikið afla-og happaskip

SLÆM BYRJUN
Ekki er hægt að segja að úthaldið hafi byrjað gæfulega hjá okkur. Þannig var að við tókum við bátnum í Þorlákshöfn og var hann þá klár til humarveiða. Vélstjórinn á honum, hann hét Guðfinnur, bauðst til að koma með okkur til að sýna Dóra vélina og annað sem að henni laut og þáðum við það. Svo tókum við ís og drifum okkur út á humar um morguninn. Svo gerist það þegar við erum að hífa eftir fyrsta holið að Guðfinnur lendir með annan fótinn inn á spilið og mölbrotnar. Við fórum auðvitað strax í land og hann var lagður á spítala. Ég held að hann hafi legið þar í þrjár vikur. Þetta fékk mikið á okkur, þótti þessi byrjun ekki lofa góðu. Ég man að Jón heitinn var niðurbrotinn eftir þetta, að fá svona á sig í fyrsta túr á bátnum. En þetta var líka það eina, eftir þetta gekk allt að óskum. En Guðfinnur varð ekki langlífur, hann fór á síld sumarið eftir, féll útbyrðis og drukknaði.
Við stunduðum línu- og færaveiðar á vetrum eu humarveiðar á sumrin lengi vel, þar til þetta þróaðist upp í það að vera á trolli allt árið. Þá gerðum við hann út á snurvoð um tíma og gekk alveg prýðisvel á henni. Þá gekk okkur líka vel á línunni, oft sem við rótfiskuðum. Það má raunar segja um allan þann veiðiskap sem við stunduðum á Sæfaxa, það gekk alltaf vel, misvel náttúrlega, en alltaf vel.

Halldór Ben Jónsson, Dóri Ben. Varð að fara í land 1970 vegna heilsubrests. Hefur þó ekki setið auðum höndum, starfar sem baðvörður í sundhöllinni auk þess sem hann sá um allt sem útgerðinni viðkom í landi.

MINNISSTÆÐUR TÚR
Þau eru mörg minnistæð úthöldin og margir róðrarnir sem maður man vel eftir. Mér er það sérstaklega minnistætt einhverju sinni á vetrarvertíð, við vorum þá á trolli. Það var búið að vera virkilegt ruddaveður, suðvestan. Ég var yfirleitt nokkuð fljótur út ef dúraði á milli og þarna kom útskot. Það var rótarbrim man ég, braut á Sandagrunninu. Við létum það fara hérna inn af og þegar við erum hálfnaðir með togið, kemur Ingólfur á Haferninum út og lætur það fara. Ég held að það hafi verið um hálft tonn í, svo sem ekkert sérstakt en aftur var togað og þá var aðeins skárra, sjö eða átta hundruð kíló. Eftir það förum við í land og ég man að ég var dauðþreyttur eftir skaksturinn. Ingólfur hífði um leið og við og við urðum samferða í land. Þegar við komum upp undir Eiðið er Matti á Þóri að fara út. Þá var farið að slétta heilmikið. Hann sagðist ætla að reyna vestur undir Mel og Ingólfur bað hann að hafa samband ef eitthvað yrði að hafa. Ég var kominn heim um níuleytið og settist framan við sjónvarpið. Svo eitthvað klukkan að ganga tólf er bankað. Þá er þar Ingólfur Matt og segir mér að Matti sé að fá gott vestur við Mel. Hann sé að fara. Ég auðvitað æsist upp og hringi í strákana. Þarna var komið blíðuveður, við förum út og vestur eftir. Klukkan fjögur um nóttina erum við byrjaðir á fyrsta holinu. Það var gott í því og enn betra næst og ekki að orðlengja það að klukkan þrjú næsta dag erum við búnir að kjaftfylla lestina og komið töluvert á dekkið líka af fiski. Þetta gerðist á innan við tólf tímum, alveg kraftafiskirí. Ég kalla í Vestmannaeyjaradíó og segist ætla að verða í landi um áttaleytið. Þegar við erum að taka síðasta holið var svo mikið blankalogn að ég man að ég vissi ekkert hvernig ég átti að láta snúa. Svo leggjum við af stað heim. Eftir klukkutíma stím byrjar að hvessa af suðaustri og eftir hálftíma til viðbótar er komið öskurok. Ég ætlaði að fara þetta beint, ekkert að fara neitt upp undir. En tíminn varð heldur lengri en við höfðum ætlað í heimstímið, í land komum við ekki fyrr en kl. hálftvö um nóttina. Þarna stóð mér hreint ekki á sama, með kjaftfullan bát í vitlausu veðri, þó svo að ég væri á honum Sæfaxa mínum. En þarna kom í ljós hvílíkt listaskip hann var. Þrátt fyrir þetta veður, fór ekki tittur út af aflanum sem var á dekki, svo vel fór hann með þetta. En ég held að aldrei á ævinni hafi ég verið eins þreyttur og þegar við komum inn í höfn.

Á humarveiðum í Háfadýpi, „Mér fannst alltaf hálfleiðinlegt á humrinum,“ sagði Lalli. Ekki er þó annað hægt að ráða af sviðnum en hann kunni bara bærilega við sig.

GOTT PÁSKASKOTT
Í gosinu lönduðum við í Þorlákshöfn, hjá Meitlinum og vorum við heppnir þar. Flestir Eyjabátar voru fyrir sunnan. Það var á skírdag sem við lönduðum, ágætum afla, þrettán eða fjórtán tonnum minnir mig. Ég sagði strákunum að ég ætlaði út á miðnætti á föstudaginn langa og svo var gert. Ég hélt nú að við ætluðum ekki að komast út úr höfninni, það var háfjara, höfnin full af skipum en einhvern veginn skröngluðumst við þetta. Það var svartaþoka, sást varla fram fyrir stefni alla leiðina að Þrídröngum og raunar allan tímann sem við vorum þar að veiðum. Við tókum þrjú og hálft hol við Drangana og það dugði til að fylla lestina og dekkið líka. 26 tonnum lönduðum við í Þorlákshöfn á laugardagskvöldinu. Það var Sandgerðisbátur í Þorlákshöfn sem fór út um leið og við og var í nágrenni við okkur þennan laugardag, bara talsvert norðar. Svo leggst hann utan á okkur um kvöldið og ég spyr skipstjórann hvort þeir hafi verið að lá hann og svarar játandi, þetta hafi verið ágætur dagur, fimm og hálft tonn. Svo spyr hann hvað við höfum verið með og ég sagðist vita það nákvæmlega, væri ekki búinn að fara á vigtina en báturinn hefði verið kjaftfullur. Ég man að ég hálfvorkenndi honum þegar hann fór upp á bryggjuna, honum brá við þetta. Það sem þarna skipti sköpum var, að ég þekkti betur til en hann á þessum slóðum, ekki það að ég væri endilega meiri fiskimaður en hann. Þarna höfðum við heppnina með okkur eins og svo oft reyndar.

DÓRI VAR HLUTI AF BÁTNUM
Við vorum svo heppnir að vera alltaf með úrvaldsmannskap, sérlega gott fólk um borð. Dóri varð að fara í land 1971, vegna heilsunnar. Ég veit ekki hvorum okkar fell það þyngra, honum eða mér. Þetta var erfitt fyrir annan eins hörkumann, að geta ekki lengur stundað sjó. Og ég var alveg ómögulegur í langan tíma á eftir, það vantaði eitthvað mikið um borð þegar þegar Dóri var ekki þar, hann var hluti af bátnum og lífinu um borð og ég var lengi að jafna mig á að hann var ekki lengur með. En Dóri lét ekki deigan síga þótt heilsan leyfði ekki lengur að hann stundaði sjó. Hann fór að vinna í landi og sá um allt sem útgerðina varðaði, var forstjóri fyrirtækisins í landi. Og það var gert með miklum ágætum eins og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur, ekki slegið slöku við. Þegar við réðumst í útgerð um árið, var mikill vöxtur í útgerðinni, hafði gengið vel á færunum og margir sem ætluðu sér að verða ríkir á útgerð. En þeir voru ekki margir sem sluppu með allt á hreinu út úr því, margir sem lögðu upp laupana. Við vorum aftur á móti í hópi þeirra heppnu og auðvitað var það ekki bara heppni, við gerðum okkur grein fyrir því að það yrði enginn ríkur á útgerð nema leggja hart að sér. Og raunar urðum við ekki ríkir af útgerðinni en þetta gekk hjá okkur. Við stunduðum ekki útgerðarmannaleik eins og sumir sem höfðu voða gaman af því að láta sjást í tékkheftið upp úr buxnavasanum. Við stunduðum þetta eins og hverja aðra vinnu. Þess vegna þraukuðum við, sumir gáfust upp. Við vorum líka ákaflega samrýmdir allir, Jón heitinn, meðan hans naut við og svo við Dóri. Það hraut aldrei styggðaryrði á milli. Auðvitað hefur það átt sinn stóra þátt í því hve vel okkur gekk, öðruvísi hefði þetta ekki blessast.

ÁLSEYJARBLEYÐAN UPPÁHALDIÐ
Ég held að enginn blettur sé mér jafn nærri hjarta og Álseyjarbleyðan. Ég þekki hana orðið eins vel og fingurna á mér enda hef ég oft fengið góðan afla þar. Ég hef oft hugsað með mér að þegar ég verð allur, skuli ég láta brenna mig og strá öskunni yfir Álseyjarbleyðuna. En ætli það verði nú nokkuð af því, þetta er svona meira hugsað í gríni.
Okkur gekk líka alltaf vel á humrinum, vorum alltaf í toppinum þar. En við fórum illa út úr því þegar kvótinn var settur á. Það ár, sem við fengum í viðmiðun, vorum við lítið sem ekkert á humarveiðum, þá var gott fiskirí við Álseyna, við vorum þar megnið af sumrinu og vöknuðum svo upp við vondan draum þegar farið var að úthluta humarkvóta að þetta ár var tekið sem viðmiðun á okkur. Ég var langt í frá sáttur við þá ákvörðun. Við höfðum alltaf verið með hæstu humarbátum og allt í einu vorum við með minni kvóta en flestir aðrir. En svo er nú það, jafn mörg ár og ég er búinn að vera á humrinum, að mér hefur alltaf leiðst sá veiðiskapur. Það er enginn spenningur sem fylgir honum, maður veit alltaf nokkurn veginn hvað mikið er í og svo er þetta rétt eins og verið sé að hvolfa úr ruslatunnu. Það er miklu meira gaman á fiskitrollinu, meiri spenningur yfir því.

Síðasta löndunin úr Sæfaxa. Lalli við kolakarið, íklæddur stakk að venju upp á gamla móðinn, „Kunni aldrei við mig í nýju göllunum, vildi heldur stakk og klofhá stígvél“

STERK TILFINNINGATENGSL
Ég er mjög sáttur við lífið eins og það hefur verið. Væri alveg til í að rifja þetta allt upp aftur ef það byðist. Það hjálpast allt að, þetta er svo skemmtilegur bátur, hann Sæfaxi, og þetta gekk vel. Við þurftum til dæmis aldrei nokkurn tíma að taka útgerðarlán, aldrei nokkurn tíma. Við stóðum í skilum með okkar hluti, vildum ekki skulda öðrum. Eitt lagði ég alltaf mikla áherslu á, að vera með góð tæki um borð. Brynjúlfur í Neista var alla tíð minn ráðgjafi í þeim málum og það reyndist mér vel. Ég sparaði aldrei þegar tæki voru keypt, keypti frekar betri tæki þótt það væri dýrara og það borgaði sig.
En ég sé eftir honum Sæfaxa, það verður að viðurkenna það. Mér finnst það undarleg tilfinning að keyra fram hjá honum, bundnum við bryggju og geta ekki farið um borð og fengið sér kaffi. Rétt eftir að við gengum frá sölunni á honum, þurfti ég að fara um borð að sækja meðul sem ég hafði gleymt frammi í. Og þar sem ég átti bátinn ekki lengur, fannst mér rétt að hafa samband við nýja eigandann og biðja um leyfi til þess. Auðvitað var leyfið auðsótt. En það var skrýtin tilfinning að þurfa að biðja um leyfi til að fara þarna um borð, tilfinning sem varla er hægt að lýsa. Bátur, sem maður er búinn að vera með allan þennan tíma, er orðinn félagi manns. Ég get alveg sagt það, Sæfaxi og ég við erum félagar og auðvitað er svona viðskilnaður sár, alla vega fyrir mig, ég hugsa fyrir hann líka. Á svona löngum tíma myndast tengsl og þegar þau allt í einu rofna, er erfitt að sætta sig við það. Þetta er svipað og að missa náinn ástvin þótt auðvitað komist maður yfir það eins og annað. En allar þær góðu minningar sem honum eru tengdar, fær enginn frá manni tekið og það er gott að geta yljað sér við þær.
Þetta sagði lalli á Sæfaxa eftir þrjátíu ára samveru manns og skips á sjó. Og Lalli er aldeilis ekki á þeim buxunum að fara að setjast í helgan stein, ekki nema 65 ára, á besta aldri eins og hann segir sjálfur. Ég kvíði ekki atvinnuleysi, segir hann: það eru ýmsir búnir að hafa samband við mig, ég verð ábyggilega ekki aðgerðarlaus lengi. Svo gæti það verið gaman að fá sér trilluhorn til að skjótast á þegar vel viðrar. Maður má ekki detta út úr þessu.