Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Lyfjakistur fiskiskipa
Í upphafi langar mig til þess að gera nokkra grein fyrir námi lyfjatœkna.
Lyfjatœkniskóli Íslands er rekinn af ríkinu í samvinnu við Apótekarafélag Íslands og starfar undir stjórn Heilbrigðisráðuneytis. Hlutverk skólans er að tœknimennta aðstoðarfólk í lyfjagerð og lyfjaafgreiðslit. Þetta er 3ja ára nám og er bœði bóklegt og verklegt. Eftir að hafa staðist lokapróf er lyfjatœkmtm veitt starfsleyfi og löggilding frá Heilbrigðisráðuneytinu.
Auk mín eru 2 aðrir lyfjatœknar hér í Eyjum, það eru þœr Kristín Guðjónsdóttir, hún útskrifaðist 1984 og er í starfi í Apóteki Vestmannaeyja og Emelía Hilmarsdóttir, hún útskrifaðist 1985.
Ritgerð þessi er skrifuð sem lokaverkefni í Lyfjatœkniskóla Íslands 1987. Ritgerðarefni var að vali hvers og eins, nema það skilyrði var sett að hún tengdist námi okkar.
Aðdragandinn
Aðbúnaður íslenskra sjómanna fyrr á öldum, var á þann veg að okkur sem í dag byggjum þetta land er það torskilið í meira lagi hvernig menn gátu við það búið.
Hreinlætisaðstaðan var að sjálfsögðu mjög bágborin og á áraskipunum alls engin. Er þess getið að á húkkortunum, sem Danir héldu hér út á öndverðri átjándu öld, var lagt að skipstjórunum að halda mönnum sínum til hreinlætis og lögð áhersla á að þeir þvæðu sér um hendur og handleggi úr fersku vatni. Íslensk þilskipaútgerð hófst ekki fyrr en löngu síðar, eða um miðja nítjándu öld.
Breyting á hreinlætisaðstöðu varð engin eða mjög takmörkuð til batnaðar með tilkomu þilskipaútgerðarinnar og um slysavarnir og öryggismál lítið hirt.
Þó var einn maður til, sem fannst þetta ekki sjálfsagður hlutur. Eitt það fyrsta sem að öryggismálum lítur og ég hef fundið á prenti er að þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson þýddi á íslensku sundreglur Nachtegalls árið 1836.
Seinna skrifaði Tryggvi Gunnarsson um gildi lýsis til bjargráða. Ásgeir Ásgeirsson (f. 1817, d. 1877) stofnandi Ásgeirsverslunar á Ísafirði var einn af þeim mönnum sem fyrst beitti sér fyrir auknum slysavörnum hér við land. Hann lærði stýrimannafræði og tók skipstjórnarpróf í Danmörku árið 1848. Hann beitti sér fyrir stofnun ábyrgðarfélags á skipum um 1850 og var þar brautryðjandi. Í mörg ár barðist hann fyrir stofnun sjómannaskóla og auknum slysavörnum. Í aftakaveðri og haugabrimi við suðurströndina, bjargaði hann skipi sínu og áhöfn, með því að hella lýsisfarmi fyrir borð. Lægði sjóinn þá svo, að skipið brotnaði ekki, en rak á land og mannbjörg varð. Ásgeir var mikill athafnamaður, og Ásgeir sonur hans (f. 1856, d. 1912) bætti enn um betur og gerði ísafjörð að stórútgerðarbæ.
Árið 1885 skrifar svo dr. Jónas Jónassen, landlæknir um heilbrigðismál sjómanna og þýddi „Hjálp í viðlögum" eftir Esmarch.
Sá maður sem mest barðist fyrir öryggismálum sjómanna á þessum árum var að öðrum ólöstuðum séra Oddur V. Gíslason (f. 8. apríl 1836, d. 10. janúar 1911) sem kenndur var við Stað í Grindavík. Séra Oddur var fyrir margra hluta sakir merkilegur maður. Eftir embættispróf í guðfræði skrýddist hann ekki hempu heldur fór hann til sjós og stundaði sjómennsku í fimmtán ár. Hann var vel ritfær og vel mæltur á enska tungu og samdi eina af fyrstu kennslubókum í ensku hér á landi. Eftir séra Odd liggja ýmis rit sem hann gaf út um hugðarefni sín, hagsmunamál sjómanna. Góður ræðumaður hefur séra Oddur verið, og ferðaðist hann milli verstöðva og stofnaði bjargráðanefndirnar svokölluðu, sem beittu sér meðal annars fyrir auknum slysavörnum. Í bók sinni: Á sjó og landi, sem kom út 1949, segir Ásmundur Helgason frá Bjargi (f. 1872, d. 1949) frá því að séra Oddur hafi á árunum 1884-1888 ferðast milli verstöðva á Austfjörðum til þess að vekja athygli sjómanna á gagnsemi lýsis, sem bjargráði sjómanna í sjávarháska, bæði út á rúmsjó og í brimlendingum.
Þetta framtak séra Odds varð til þess að Landssjóður gaf út ágrip af ræðum hans og erindum. Það er til marks um ótrúlega þraut-seigju hans og brennandi áhuga, að hann réðst í útgáfu tímarits um fiskveiði og slysavarnamál, sem hann nefndi Sæbjörgu, en mun ekki hafa haft fjárhagslegt bolmagn til þess að halda því út nema eitt ár, 1892. Séra Oddur var að mörgu leyti á undan sinni samtíð, hann vildi stofna sjómannafélög um allt land og einnig sjómannaráð fyrir allt landið. Í blaði sínu Sæbjörgu birtir hann frumvarp til laga um Sjómannaráð Íslands.
Prestskap stundaði séra Oddur af alúð eftir að sjómennsku lauk, enda trúmaður mikill. Fyrst að Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík 1878-1894. Hann fluttist síðan vestur um haf á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt og gerðist prestur á Nýja íslandi 1894. Á gamalsaldri fór hann að lesa læknisfræði og stundaði lækningar síðustu ár ævinnar, en hann lést í Ameríku 1911.
En barátta séra Odds varð ekki til einskis, og þó að margir væru honum andhverfir, þá átti hann líka bandamenn, og einn af þeim, Geir Zoéga, helsti maður þilskipaflotans, tók einnig upp öryggisráðstafanir á sama hátt og Oddur og lét útbúa bárufleyg handhægan fyrir þilskip.
Annað sem varð til að ýta við mönnum, þó frekar á óbeinan hátt væri, var útgerð Bandaríkjamanna hér við land á árunum 1886-1898. Þeir komu hingað á 100-150 lesta skonnortum til lúðuveiða. Vistarverur í skipum þeirra voru rúmbetri, og þrifnaður og allur viðurgjörningur annar og betri en menn áttu að venjast á íslensku þilskipunum.
Þeir réðu ávallt tvo til þrjá íslendinga og allt upp í tíu á hvert skip en flest urðu skipin átján. Þar kynntust menn öðrum og betri aðbúnaði, en þeir áttu að venjast, og til dæmis kynntust þeir þar fyrst gúmmístígvélum sem voru ólíkt þægilegri og betri fótabúnaður en skinnsokkar og leðurstígvél.
Þegar Öldumenn og aðrir tóku þessi mál upp á sína arma urðu stórstígar framfarir í öryggismálum sjómanna, en áður var.
Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan var stofnuð 1893. Í fundargerðum Öldunnar má finna ýmsan fróðleik um öryggismál og slysavarnir. Þar er meðal annars fyrst minnst á lyfjakistur eða meðalakassa. Árið 1898 segir þar að meðalakassar í skipum séu lélegir og óheppilegir. Öldumenn skrifuðu dr. og alþingismanni Jónasi Jónassen um þetta efni og var hann sammála Öldunni um að þarna væri úrbóta þörf. Þetta sýnir að þá þegar hafa meðalakassar verið orðnir all algengir í íslenskum skipum þó reglugerð um lyfjakistur komi ekki fyrr en 1901.
Fyrsta reglugerðin
Þar kom á tímum þilskipana, að nauðsyn þótti að setja reglugerð um vistarforða áhafnarinnar og tók hún gildi 29. febrúar 1869. Á árunum milli 1880-1890 var vistarforði kominn í fastar skorður. Þó var þetta breytilegt eftir útgerðum. Á þessum árum þekktust kartöflur t.d. ekki á matarskrá sjómanna, nema skipum Engeyinga. Frú Ragnhildur í Engey var um margt á undan sinni samtíð, svo sem í ræktun og smjörgerð.
Í þessari fyrstu reglugerð var matarskammtur hvers skipverja til vikunnar þessi:
2 1/2 kg af skonroki eða þess í stað
3 kg af rúgbrauði
3/4 kg af smjöri eða smjörlíki
1/4 kg af kandíssykri
1/4 kg af púðursykri (í tevatnið)
125 gr af kaffibaunum
40 gr af kaffibæti
30 gr telauf
Auk þess skyldu skipverjar fá soðinn fisk og 375 gr af kartöflum á mann að minnsta kosti fjórum sinnum í viku. Til miðdegisverðar skyldi auk þess eldaður matur á hverjum degi. Tvo daga skyldi vera góðar baunir og hálfpund af nýju kjöti á mann eða saltkjöti, ef ekki fékkst nýtt. Tvo daga skyldi vera grautur, annan daginn úr bankabyggi en hinn úr hrísgrjónum. Tvo daga skyldi vera kjötsúpa með nýju kjöti eða saltkjöti, hálft pund á mann. Einn dag skyldi loks vera fiskisúpa með nýjum fiski og púður-sykri eða saltfiski og jarðeplum. Fiskinn skyldi taka af óskiptum trosfiski og kjötið vegið hrátt. Enginn skipverja gat heimtað meiri mat, en hann neytti sjálfur, og ekki krafist endurgjalds, þó hann borðaði minna en til var tekið. Graut, baunir, súpu og fisk gat hver maður annars fengið eftir þörfum, en hitt var ákveðinn hámarksskammtur.
Þessari matargerð var breytt nokkuð árið 1901 og helsta breytingin að þá var í fyrsta sinn gert ráð fyrir kálmeti nýju, eða þurrkuðum sveskjum og rúsínum. Þá var hverjum manni nú ætlaður 1 lítri af öli á dag, á verslunarskipunum.
Í þessari reglugerð frá 1901 er einnig ákveðið að lyfjakistill skyldi vera í hverju skipi og í honum nokkuð af umbúðum, áhöldum og inntökulyfjum, svo sem laxerolía, kamforudropar og kínínskammtar, þá skyldi hvert skip hafa lækningabók handa sjómönnum.
Má teljast víst að kröfur Skipstjóra og stýrimannafélagsins Öldunnar hafi ráðið mestu að það skyldi nú loks lögfest að hafa lyfjakistu um borð í íslenskum skipum.
Eins og áður hefur komið fram bar öryggismál og slysavarnir oft á góma á fundum Öldunnar. Oftar en einu sinni var talað um nauðsyn þess að sjómenn kynnu sund, meðal annars á fundi með þingmönnunum Guðmundi Björnssyni og Tryggva Gunnarssyni. Þó fannst mönnum það frekar vera mál Alþingis og hins nýstofnaða Stýrimannaskóla að koma á skipu-lagðri sundkennslu fyrir sjómenn.
Á þessu sama fundi árið 1904 eru fyrirlestrar um læknisfræði við Stýrimannaskólann til umræðu. Guðmundur Björnsson læknir og alþingismaður taldi þetta ekki nauðsyn, en vildi gefa út bækur til leiðbeininga. Öldumenn töldu þó að verkleg kennsla væri betri, og lofaði þingmaðurinn að fylgja því eftir, sem félagið taldi réttast.
Uppúr aldamótum verða miklar breytingar í útgerðarsögu Íslendinga með tilkomu togaranna. Þó að skipstjórarnir á þilskipunum sem orð höfðu fyrir stétt sinni, beindu kröfum sínum fyrst og fremst að umbótum á þilskipunum sjálfum, beindist athyglin nú að nýjum skipum, togurunum. Þó fór það svo, að þilskipaútgerðin átti enn eftir að eflast.
Ekki verður annað séð en að reglugerðin frá 1901 taki einnig til togaranna, árið 1910 eru þeir orðnir sex, en fram að stríðsbyrjun fjölgar þeim ört og eru orðnir tuttugu árið 1915.
Þó þessi reglugerð hafi verið sett hefur vísast víða verið misbrestur á framfylgd hennar.
Árið 1911 ræða Öldumenn enn á fundi um nauðsyn bættra heilbrigðishátta á skipum.
Um svipað leyti og togaraútgerðin festir sig í sessi hefst vélbátaútgerðin, en vísast hefur áðurnefnd reglugerð um lyfjakistur ekki tekið til þeirra, enda er það tekið fram í hinni fyrstu tilskipun um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum sem sett var í desember 1924 og gekk í gildi 1. janúar 1925. að þar væru undanþegnir opnir bátar og vélbátar undir 20 rúmlestum.
1. gr. hinnar nýju tilskipunar hljóðar svo:
„Hvert skip, nema opnir bátar, hreyfibátar undir 20 rúmlestum og bátar í siglingum innanfjarða, skal að jafnaði hafa tiltekin lyf meðferðis. Lyfin skulu geymd á þurrum stað, annað hvort í lyfjakistu, eða í þar til gerðum skáp með skúffum og hillum. Læsing skal vera fyrir lyfjahirslunni. Lyfjakista skal vera tölumerkt samanber 2. gr. Flöskur og glös lyfjakistunnar skulu vera í hólfum með lausum skiljum".
Þó að þessi tilskipun taki ekki til vélbáta undir 20 rúmlestum, er greinilegt að lyfjakistur hafa verið til í mörgum hinna smærri vélbáta. Á Byggðasafni Vestmannaeyja eru tvær lyfjakistur varðveittar frá þessum tíma. Önnur kistan er úr vélbátnum Skuld VE 163 sem Ársæll Sveinsson útgerðarmaður á Fögrubrekku átti að hálfu og var hann formaður á bátnum. Skuldin mun hafa komið til Eyja árið 1912.
Magnús Ísleifsson trésmíðameistari kenndur við London við Miðstræti smíðaði kistuna. Hann var listasmiður og vandaði mjög smíðina á fyrstu lyfjakistunni.
Síðastliðið sumar skoðaði ég kistuna og þá voru í henni: Asperín, bensín, perubalsam, ferristahit liqu., bómull, gazebindi, finger burn dressing og eitthvað af umbúðum. Kista þessi skiptist í tvö hólf.
Hin kistan er úr vélbát sem útgerða- og kaupmaðurinn Helgi Benediktsson gerði út. Það var vélbáturinn Auður Ve 3, Gunnar Marel Jónsson skipasmíðameistari smíðaði bátinn, sem hleypt var af stokkunum 1926. Hann mun einnig hafa smíðað lyfjakistuna. Þessi kista er eitt hólf með renndu loki.
Í viðtali við Eyjólf Gíslason frá Bessastöðum, sagði hann mér að um 1930 hefði hann fyrst haft lyfjakistu um borð í bát er hann réri á. Fyrir þann tíma sagðist hann ávallt hafa haft um borð hjá sér sáraumbúðir og Hoffmannsdropa.
Í lögum nr. 37 19. júní 1922 um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra er tekið fram að lyfjakista skipa skuli skoðuð af héraðslækni, bæjarlækni eða lyfsala. Skal hann gefa út vottorð að hún sé lyfjum búin samkvæmt 2. grein tilskipunar frá 1. desember 1924, en það bendir til þess að tilskipun þessi hafi verið a.m.k. 2 ár í smíðum.
Þessi fyrsta tilskipun er mjög ítarleg og vekur það furðu hversu litlar breytingar verða frá henni og á þeim reglugerðum sem síðar komu. Þessi tilskipun er felld úr gildi með nýrri tilskipun 26. apríl 1935.
Reglugerð er síðan sett 28. nóvember 1955, næsta reglugerð sem kemur er sett 14. nóvember 1966, fimmta reglugerðin er sett 25. júní 1982 og sú sem nú er í gildi er sett 3. maí 1983.
Ef við höldum okkur enn við hina fyrstu tilskipun frá 1. des. 1924 eru lyfjakisturnar 5 samanber 3. gr. og var skiptingin eftirfarandi:
Vörubátar í strandsiglingum skulu hafa lyfjakistu no. 1, séu skipverjar eigi yfir 8, ella lyfjakistu no. 2.
Seglskip og seglskip með hjálparvél sem stunda fiskveiðar hér við land og eru lengur en sólarhring í senn úr höfn, skulu hafa lyfjakistu no. 2, séu skipverjar eigi yfir 14, ella lyfjakistu no. 3.
Vöruskip, sem eru hafskip og farþegaskip í strandsiglingum skulu hafa lyfjakistu no. 3, sé skipshöfn eigi yfir 15 og farþegar eigi yfir 50, ella lyfjakistu no 4.
Eimskip (hafskip) og farþegaskip í strandsiglingum skulu hafa lyfjakistu no. 4, sé skipshöfn eigi yfir 40 eða farþegar eigi yfir 100, ella lyfjakistu no. 5. Þó skulu botnvörpungar hafa gazebindi, bómul, fingurhettur, hermannaböggla og gaze sem í lyfjakistu no. 5, en þeir skulu ekki hafa Citronsaft, Lýsól né skolkönnu.
Farþegaskip (hafskip) skulu hafa lyfjakistu no. 5, sé skipshöfn eigi yfir 30 og farþegar innan 100. Sé skipshöfn og farþegar 130-300 skal skipið hafa tvær kistur no. 5, og sé fólkstalan yfir 500, skal það hafa lyf í þrjár kistur.
Í hverri kistu skal vera eitt eintak af viðurkenndri lækningabók fyrir farmenn, ennfremur Samræðissjúkdómar og varnir gegn þeim, eftir Guðm. Hannesson og eitt eintak af lögum nr. 16 20. júní 1923 um varnir gegn kynsjúkdómum.
Í dag eru lyfjakisturnar 7 talsins og er skiptingin sbr. 2. gr. reglugerðar frá 3. maí 1983 eftirfarandi:
Lyfjakistur eru 7 talsins og eru auðkenndar með tölunum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7. Skylt er að hafa eina hinna 5 fyrst talinna lyfjakista merkta sinni tölu, um borð í skipum, samkvæmt eftirfarandi:
Fiskiskip allt að 30 brl. hafi lyfjakistu nr. 1.
Fiskiskip 30-130 brl. hafi lyfjakistu nr. 2.
Fiskiskip 130-500 brl. hafi lyfjakistu nr. 3.
Fiskiskip yfir 500 brl. hafi lyfjakistu nr. 4.
Vöruflutningaskip undir 1500 brl. hafi lyfjakistu nr. 4.
Vöruflutningaskip yfir 1500 brl. og farþegaskip hafi lyfjakistu nr. 5. Í björgunarbátum, flekum og gúmmíbjörgunarbátum, sem krafist er að lyf séu í samkvæmt öðrum reglum, skal vera lyfjakista nr. 6 (lyfjapakki).
Öllum bátum styttri en 10 metrar að mestu lengd er heimilt að hafa lyfjakistu nr. 7 í stað lyfjakistu nr. 1.
Heimilt er að skylda skipstjóra til þess að varðveita fíknilyf sérstaklega undir lás og loku og skal skipstjóri hlýta fyrirmælum siglingamálastjóra í þeim efnum.
í hverju fiskiskipi með þilfari skal vera tæki af viðurkenndri gerð (öndunarbelgur) til lífgunar úr dauðadái. Tækinu skal fylgja leiðarvísir um notkun á íslensku.
Uppistaðan í þessum tilskipunum og reglugerðum er í raun sú sama. Þó að nýrri og fullkomnari lyf og umbúðir hafi tekið við af mörgum eldri, þá eru nokkur lyf sem eru í fyrstu tilskipuninni enn í dag, t.d. asperín, laxerolía, joðáburður og zinkduft. Í fyrstu tilskipuninni er allt það helsta svo sem: verkjatöflur, róandi töflur, hóstapillur, hægðartöflur, brjóstdropar, laxerandi duft og olía, sterkir verkjastillandi dropar, stoppandi dropar, sótthreinsandi bæði á húð og áhöld, tanndropar, augnvatn, augnáburður og handáburður. Allar þessar helstu umbúðir svo sem gazebindi, bómull, hermannabögglar, teygjubindi (þá kallað stífelsisbindi), fingurhettur, kviðslits- og pungbindi. Af áhöldum, þvagleggir, sáratangir, skæri, sprautur lekanda og eyrna, sáranálar (þær áttu að geymast í vaselíni), surtusilki meðalþykkt í vinslum, hitamælir og þvagglös.
Eitt langar mig að minnast á sem er aðeins í fyrstu tilskipuninni frá I. des. 1924, en það er vínandi. sem átti að vera í kistum 2, 3, 4 og 5. Viðauki við tilskipunina frá 1. des. 1924 kemur 15. apríl 1930 og þar kemur fram að skipin sem hafi lyfjakistur 2, 3, 4 og 5 skuli hafa áfengisviðskiptabók löggilta af lögreglustjóra. Í þessa bók átti lyfsalinn að skrá skammtinn af vínandanum og afhendingardaginn, en skipstjóri eða stýrimaður að fá lyfsalakvittun fvrir afhendingunni. Ekki mátti afhenda áfengisskammt oftar en að tveir mánuðir minnst liðu á milli og áttu lyfsalar að fylgjast með að þeim tíma væri framfylgt samkvæmt viðskiptabókinni. Lögreglustjóri skyldi votta í bókina í byrjun hvers árs eða vertíðar að skipið sé í gangi.
Með hverri nýrri reglugerð, hefur verið reynt að betrumbæta lyfjaforðann, taka út eldri lyf, þegar ný og betri hafa komið og bætt inní eins og t.d. hjartatöflum sem komu í reglugerð 1966, penicillintöflum sem einnig koma 1966, en áður höfðu verið súlfatöflur og eru þær enn í dag. Penicillin til innstungu kom reyndar í reglugerð 28. nóv. 1955, einnig eru sjóveikitöflur í fyrsta skipti í þessari sömu reglugerð.
Ópíumdropar eru í fyrstu þremur reglugerðunum, en í reglugerðinni 14. nóv. 1966 eru þeir teknir út og ópíumtöflur settar í staðinn, þá koma einnig inn Morfíntöflur 10 mg. og Morfínlausn til innstungu. En Ópíumtöflurnar, Morfíntöflurnar og Morfínlausnin eru tekin út í reglugerðinni frá 25. júní 1982 og sett í þess stað Fortral töflur og Fortral til innstungu, sem eru við miklum þrautum.
Í reglugerðinni frá 14. nóv. 1966 kemur einnig Insulin við sykursýki til inndælingar undir húð og Lidocainlausn innstunguvökvi til staðdeyfingar.
Mesti munur á milli reglugerða er á reglugerðinni frá 28. nóv. 1955 og reglugerðinni frá 14. nóv. 1966, en í þeirri bætist einnig við mikið af umbúðum og hjúkrunargögnum, þannig að í dag hafa bátar öll áhöld til minni háttar skurðaðgerða.
Í reglugerðinni frá 14. nóv. 1966 bætist einnig við súrefni í hylkjum sérstaklega ætlað til innöndunar.
Í nýjustu reglugerðinni frá 3. maí 1983 kemur inn öndunarbelgur, en árið 1972 hafði Slysavarnadeildin Eykyndill hér í Vestmannaeyjum keypt og gefið öndunarbelgi um borð í hvern einasta fiskibát hér í Eyjum en þá voru bátarnir 77 að tölu.
Í reglugerðinni frá 14. nóv. 1966 er í fyrsta skipti lyfjakista sem ætluð er í björgunarbáta og var í henni meðal annars sett Amfetamíntötlur og Morfínlausn til innstungu ásamt sjóveikitöflum, verkjatöflum, sótthreinsandi áburður, umbúðir og áhöld, einnig prentaðar leiðbeiningar um hjálp í viðlögum og leiðbeiningar um notkun lyfjanna. Í reglugerðinni frá 25. júní 1982 er búið að taka út Amfetamíntöflurnar og Morfínlausnina. Ástæðan er sú að mikil brögð voru að því að brotist var inn í bátana og gúmmíbátarnir oft skornir í sundur og gjörsamlega eyðilagðir við leit að þessum lyfjum. Það var því ekki spurning um að taka þessi lyf út úr reglugerðinni, því aðal björgunartæki skipanna (þ.e. gúmmíbjörgunarbátarnir) urðu að vera í lagi.
En hvers vegna voru þessi lyf þá sett í bátana í upphafi, getum við spurt. Jú, það er vegna þess að Amfetamín var notað til að halda mönnum vakandi og Morfínið við miklum þrautum og hafði mönnum fundist þörf á að hafa þetta í björgunarbátunum.
- Hefur hér aðeins verið stiklað á stóru í sambandi við lyfjabúnað íslenskra skipa.
LOKAORÐ
Í þessari ritgerð hef ég leitast við að rekja sögu lyfjakistunnar í íslenskum skipum. Við fyrstu athugun bjóst ég við að það yrði nokkuð auðvelt viðfangsefni, en reyndin var önnur. Mjög lítið hef ég fundið á prenti um lyfjakistur í íslenskum skipum fyrir síðustu aldamót, en eftir að fyrsta reglugerðin var sett, og lyfjakistur í íslenskum skipum urðu að skyldu, var auðveldara að leita fanga. Með því að bera saman reglugerðirnar er hægt að sjá þá þróun sem átt hefur sér stað í skipakistulyfjunum. Í hverri nýrri reglugerð sem sett var, voru alltaf einhverjar breytingar með tilkomu nýrra og fullkomnari lyfja. Og eiga sé enn stað, því nú í er undirbúningi ný reglugerð, en við vitum ekki hvenær hún tekur í gildi.
Skifað í Vestmannaeyjum
17. september 1987.
Guðfinna Sveinsdóttir
HEIMILDASKRÁ:
Sjómannasaga. Vilhjálmur Þ. Gíslason - 1945 Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan 1893-1943. - 1983 Tilskipun um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum nr. 56 í des. 1924
Tilskipun um viðauka nr. 13. 15. apríl 1930
Reglugerð um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum nr. 136. 28. nóv. 1955 "
Reglugerð urn lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum nr. 242. 14. nóv. 1966 "
Reglugerð um lyf oa læknisáhöld í íslenskum skipum nr. 469. 25. júní 1982
Reglugerð um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum nr. 302. 3 maí 1983