Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Viðtal við Önnu frá Laufási

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Viðtal við Önnu Þorsteinsdóttur frá Laufási

„Ég þótti töluverð frekjudós sem ég er víst enn“


Þær eru ekki ófáar konurnar hér í bæ, sem varið hafa miklum tíma og unnið fórnfúst starf að ýmiskonar velferðarmálum, svo sem bættum aðbúnaði á sjúkrahúsi, dvalarheimilum, að ógleymdu ýmsu fovarnarstarfi og stuðningi við björgunar- og hjálparsveitir. Ein þessara kvenna er frú Anna Þorsteinsdóttir frá Laufási, sem um 20 ára skeið hefur gegnt formennsku í kvenfélaginu Líkn. Á þessu ári lét Anna af formennsku í félaginu, en er ekki allsendis hætt að sinna hugðarefnum sínum. Nú hefur hún snúið sé að því með auknum krafti að bæta hag aldraðra, jafnt í heimahúsum og á dvalarheimilum og rís þar hæst áhugi fyrir auknum byggingum m.a. dvalarheimili aldraðra sjómanna. Að þessu tilefni m.a. þótti við hæfi að eiga orðastað við frú Önnu. en hún er dóttir þeirra merkishjóna, Elínborgar Gísladóttur og Þorsteins Jónssonar frá Laufási. Við byrjum þar viðtalið að biðja frú Önnu að rekja æskuminningar frá heimili sínu og uppvexti, en Laufás var dæmigert heimili útvegsbónda með útgerð, fiskverkun og búskap, þar sem fjöldi fólks var í heimili auk fjölskyldunnar. ,,Ef maður á að fara að rekja æskuminningar sínar, þá finnst mér það vera vandasamt. Hvað á að segja og hvað skal maður ekki segja? Mér finnst ég eiga fullt af minningarperlum innra með mér, en að tjá sig, er nú verri sagan. Ég er fædd í Laufási 1919 og það fyrsta sem ég held ég muni er frá sumardeginum fyrsta 1922. Þá datt ég niður af tröppunum heima í Laufási. og skall það harkalega á stéttina að ég fékk heilahristing. Sennilega er þetta svona fast greypt í vitund mína, að þennan sama dag missti móðursystir mín, dóttur sína úr heilahimnubólgu.
Ég held ég hafi verið mesti hrakfallabálkur, æringi og töluverð frekjudós, sem ég er víst enn þann dag í dag. Þá var ég einnig sögð óþekkust af öllum krakkahópnum, en við vorum 12 systkinin. Annað sem ég man einnig frá þessu ári var að pabbi fór til Danmerkur að sækja nýjan mótorbát. Það var Unnur III. VE 80. Sennilega fór faðir minn út seinnipartinn í ágúst og heim komu þeir í október. Ekki teldist þetta stórt fley í dag. en í þá daga þótti Unnur stór bátur, tæp 14 tonn, smíðuð úr eik og vartvístefnungur. Alla tíð var Unnur grámáluð með gulri rönd.

Unnur III. VE 80 smíðuð í Danmörku 1922 - 13,85 tonn - með 50 hestafla Dan-vél.

Unnur var lengi á leiðinni heim og hreppti vont veður. Ég þykist muna þegar til bátsins sást og þá varð nú uppi fótur og fit í Laufási. Í fyrsta lagi var þungu fargi af fólki létt, því í þá daga fréttist aldrei neitt af ferðum bátanna. fyrr en þeir birtust við sjóndeildarhring. Já, mikill er sá munur. Við krakkarnir fengum ekki að fara strax niður á bryggju, það hefur sennilega átt að ganga úr skugga um að allt væri í lagi um borð. Síðan var farið að skoða skipið. við krakkarnir og Sigga okkar, vinnukona, til að passa hópinn. Sigga var önnur af tveim vinnukvenna heima, en þær voru okkur eins og bestu fóstrur. Það var svo mikið flóð, að það flæddi yfir Bæjarbryggjuna, því var gripið til þess ráðs að skella okkur uppá handvagn og ekið niður að bátnum. Öll fengum við gjafir, ég fékk t.d. brúðu, sem mátti þvo. Hún var úr vaskaskinni með postulínshaus og hreyfanleg liðamót. Ég kallaði brúðuna Sólveigu, sem mér fannst fallegt nafn.

Hjóni í Laufási. Elínborg Gísladóttir og Þorsteinn Jónsson.

Pabbi var með Unni III. í 20 ár og var hún sannkallað happafley, sem okkur öllum þótti mjög vænt um. Það er skrítið þegar maður fer að hugsa til baka. Maður þekkti alla báta, enda sást vel til sjávar að heiman, þegar þeir áttu leið um Víkina. Oft var verið í eldhúsglugganum þegarbátarnir voru að róa, einkanlega á línuvertíðinni. Mótorskellina í henni Unni þekktum við líka áður en hún sást koma norður með Urðunum. Hún var með Skandíavél, en fyrst hafði verið í henni Danmótor.
Pabbi aflaði yfirleitt vel og honum hélst vel á mannskap og hann var áreiðanlega sjómaður fram í fingurgóma. Ahugi hans á sjómennsku, björgunarmálum og öryggi sjómanna hélst fram á hans síðustu daga. Mér finnst ég hafi átt mjög gott og traust æskuheimili og ákaflega góða foreldra. Við höfðum alltaf nóg að bíta og brenna, en það þurfti að hafa fyrir hlutunum. Það var reynt að búa sem mest að sínu og veitti ekki af, þar sem oftast voru um og yfir 20 manns í heimili og nálgaðist stundum 30. Strax og við gátum vorum við látin hjálpa til, það var líka í nógu að snúast, þar sem rekinn var bæði búskapur og útgerð. Það voru venjulega 3-4 kýr, eitthvað af kindum, hestur og hænsni. Alltaf var seld einhver mjólk og ég minnist þess að sumir keyptu aðeins einn pela — hugsið ykkur. Það var hvorutveggja, mjólkurskortur og lítið af peningum til að kaupa fyrir. Þá var einnig unnið úr mjólkinni heima. Það var skilið, strokkað og búið til smjör, einnig var hleypt skyr. Ég má til að skjóta því hér inní, að ég lærði að dansa vínarkrus, þegar verið var að skilja mjólkina. Ekki man ég lengur hvortþað var takturinn í skilvindunni sem bauð uppá slíkt.

Laufás við Austurveg, Elliðaey og Eyjafjallajökull í baksýn.


Það var alveg öruggt mál að manni var kennt að hlýða í þá daga, þetta mátti og annað ekki. Þar voru skörp skil á milli og ef ekki var farið eftir settum reglum, hlaust verra af. Auðvitað þurfti að hafa stjórn og reglu á hlutunum á þessum stóru heimilum. Þar var alltaf mikið um að vera og oftast glatt á hjalla. Foreldrar mínur urðu fyrir ýmsum áföllum í lífinu eins og gengur. Þau misstu 2 börn innan við fermingu og síðar tvær dætur eldri. 1923 misstu þau 13 ára gamlan son úr taugaveiki. Hann þótti mesti efnisdrengur og hvers manns hugljúfi, en þá geysaði þessi skæði sjúkdómur hér og lagði fólk af velli, sem var á besta aldri. Það veiktust heilu fjölskyldurnar og fólkið lá fárveikt svo vikum skipti.
Gúttó, aðalsamkomuhús bæjarins á þeim tíma, var breytt í nokkurskonar farsóttarhús. Þangað var veikt fólk flutt frá heimilum sínum og þar var því hjúkrað. Þar þóttu hafa gengið hvað lengst í fórnfúsu hjálparstarfi O.J. Olsen, síðar prestur hjá Sjöundadags aðventistum og Kathy Hendriksen, sem síðar giftist Oddi Þorsteinssyni, skókaupmanni. Móðir mín minntist þeirra alltaf með hlýhug. Bróðir minn var aldrei fluttur að heiman, en móðir okkar var með hann í einangrun þar til yfir lauk.

Þorsteinn ásamt Elínborgu, dótturdóttur, uppábúinn til kirkjuferðar.

Það var hrein verkaskipting hjá öllum heima og alltaf nóg að starfa. þar gekk hver að sínu verki og engin orð þurfti að hafa um það. Það voru t.d. tvær vinnukonur, sem voru alla tíð hjá foreldrum mínum. Þær hétur Kristín Einarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Báðar þessar ágætu konur voru trúar og dyggar sínum húsbændum og voru heimilisfastar í Laufási til dauðadags. Það er ekki hægt að minnast heimilis okkar, án þess að minnast þeirra, svo nátengdar voru þær okkur og vildu hag okkar allra sem bestan. Eg held að þessi tilfinning, sem maður bar til þessa fólks, sé ekki lengur til hjá fólki.
Það fór mikill tími í þjónustubrögð á þessu mannmarga heimili og ef ég byrja á því að lýsa haustinu þá var það sláturtíðin. Það var alltaf gertmikið slátur á heimili okkar, einnig sviðasulta. Síðan var það allur rúmfatnaðurinn, sem dittað var að og saumað nýtt. Það þurfti töluvert til því húsbændurnir sköffuðu allt sem þurfti af svona löguðu. Ég held að vermenn hafi bara komið með fötin sín með sér þ.e. þeir sem dvöldu á heimili formanna. Þá voru nú oftast tveir og tveir í rúmi og jafnvel 6 manns í herbergi. Skildi vera þakkað fyrir það í dag. Allt blessaðist þetta samt einhvern veginn, ekki man ég eftir öðru.
Þegar fór að nálgast vertíð, hálf kveið maður fyrir að fá allt þetta fólk inná heimilið, en á vorin þegar flestir voru farnir, fannst manni hálf tóm-legt og söknuður bjó í brjósti. Því öllu þessu fylgdi líf og fjör. Á haustin þurfti að koma miklu í verk auk sláturtíðar, sem fyrr er frá greint. Það var spunnið, prjónað og saumað af kappi og allt var þetta unnið í borðstofunni. Við stóra borðstofuborðið var oft þröngt setinn bekkurinn og glatt á hjalla. Því þrátt fyrir allt annríkið, gaf fólk sér tíma til að sinna sínum hugðarefnum og pabbi var sílesandi, þegar stund gafst til.Stundum var hann aö tálga klemmur eöa hnýta á tauma og ég minnist þess aö hann hafi verið að hvippa (eitthvað í sambandi við lúðulínu). Það gat verið gaman þegar hann var að segja okkur sögur, mest svolítið prakkaralegar sögur, frá því hann var strákur. Þá sagði mamma: „Vertu ekki að segja krökkunum þetta, það er nefnilega ég sem þarf að banna þeim og aga þau". Þetta var líka alveg rétt hjá henni. Það kom í hennar hlut að hafa stjórn á krakkahópnum ásamt því að stjórna þessu stóra heimili. Ég held ég geti sagt með sanni að hvorutveggja tókst henni með mestu ágætum.

Þessir fjórir mektarmenn voru samherjar miklir og m.a. stunduðu þeir sumarróðra saman til margra ára. Sitjandi fyrir miðju Þorsteinn Jónsson Laufási. Standandi frá vinstri Þorleifur Einarsson, Túnsbergi, Sigurður P. Oddsson, Skuld, Jónatan Snorrason, Breiðholti.

Á sumrin var mikið að snúast. Þá þurfti að heyja handa skepnunum, þurrka fiskinn á stakkstæðum að ógleymdum sundmaganum, sem var breiddur til þerris á girðingar og garða og uppá þök. Já, þök, það er að segja þau þök, sem ekki var safnað rigningarvatni af, því á þessum árum þurfti að halda vel utan um hvern dropa af vatni, sem úr lofti féll. Þegar þurrkur var mátti maður rísa árla úr rekkju til að breiða fisk og hey. Allir sem vettlingi gátu valdið tóku þátt í þessum störfum, og vorum við ekki há í lofti, þegar við byrjuðum að breiða fisk. Þetta gat verið hin mesta bakraun og svo varallt tekið saman að kveldi. Stundum var „hrúgað", sem kallað var, það var helst eftir mjög hlýjan dag og fiskurinn á hættumörkum með að soðna. Nú, þá þurfti einnig að vera einsýnt með þurrk næsta dag, en eins og allir vita, geta fljótt skipast veður í lofti. Ég minnist þess að við vorum stundum vakin um miðja nótt til að taka saman, því þá leit út fyrir regn. Þegar fiskurinn var tekinn saman á kvöldin var nú aldeilis ekki sama hvernig honum var stakkað. Það var gert eftir kúnstarinnar reglum, svei mér þá, ég held bara að karlarnir hafi lagt metnað sinn í útlit fiskstakkanna. Þeir áttu sko að líta vel út og umfram allt mátti ekki vera brot í fiskinum, því þá féll hann í verði og vöruvöndun var nokkuð sem þá var haft í hávegum, sem vonlegt var, því á þessu lifði fólkið, að fá sem mest og best fyrir afurðir sínar.

Hjónin Jón Guðleifur Ólafsson og Anna Þorsteinsdóttir.


Þá var það blessuð taðan, sem var svo lengi að þorna, miklu lengur hér úti í Eyjum, en uppi í sveit. Heyið af gömlu túnunum hér var svo þvælukennt. Mér er í minni hvað mérþótti hann pabbi minn vera sterkur, þegar hann vippai heybagga uppá herðar sér og bar heim í hlöðu.
Pabbi var mjög trúhneigður maður og kirkjurækinn. Hann sótti messu hvern sunnudag, sem hann gat og sat alltaf á sama stað inni í kór. Ég held hann hafi kunnað flesta sálma í sálmabókinni sinni og raulaði þá oft fyrir munni sér. Hann sagði einhvern tíma: „Á meðan ég get gengið til kirkju, þá geri ég það." Við sögðum að það mætti nú keyra hann, en svar hans var afdráttarlaust, „Nei". Mamma fór aftur á móti sjaldan til kirkju, en hún gaf sér tíma til að setjast niður og hlusta á útvarpsmessurnar og vildi þá hafa frið og ró. Hún flíkaði ekki tilfinningum sínum, mér fannst hún alltaf vera eins og klettur, sem allir gátu leitað skjóls hjá, hvað sem fyrir kom. Ég man að einu sinni kom presturinn okkar heim, það var séra Sigurjón Árnason. Þau ræddu saman og kom þar tali þeirra, að hún sagðist ekki vera kirkjurækin og kannski ekki nógu trúuð heldur. Ég man alltaf hvað séra Sigurjón sagði: „Kristindómurinn og Guðstrúin fer ekki alltaf eftir kirkjusókn, þó auðvitað sé æskilegt að fólk komi til kirkju".Mamma breytti áreiðanlega við sjálfa sig jafnt og aðra, eins og góðri kristinni konu sæmdi.
Mamma sinnti talsvert félagsmálum og ekki veit ég hvort ég hef félagsmálaáhugann frá henni, þvíég ætlaði aldrei í neitt félag. Vafalaust á hún þó einhvern hlut að máli þar. Ég gekk í tvö félög, það eru Kvenfélagið Líkn og slysavarnadeildin Eykyndill, falleg nöfn á báðum og góður málstaður. Mamma mín var mjög áhugasöm um hag þessara beggja félaga, sem hún vann af ósérplægni og fylgdist vel með á meðan aldur og heilsa leyfði. Mamma var oft búin að biðja mig að ganga í Líkn, en ég var treg til. Þá tók hún til sinna ráða og fékk bónda minn til liðveislu við sig, því hún vissi sem var, að ég átti bágt með að segja nei við hans óskum, og svo fór sem fór. Áður en ég vissi af var ég komin á bólakaf í þetta allt saman. 1956 var ég fyrst kosin í stjórn, varð svo gjaldkeri og formaður Líknar 1966, sem aðeins átti að vera í eitt ár, en þau urðu nú 20.Starf þetta hefur gert mig reynslunni ríkari og átt stóran þátt í að þroska mig á ýmsa lund.Síðast en ekk síst,hef ég eignast stóran hóp vina og kunningja hér í Eyjum og vítt og breitt um land.“

Saltfiskurinn tekinn saman og „Stakkaður“. Myndina málaði Gísli Þorsteinsson frá Laufási.


Þú minnist á sjúkrahús og velferð aldraðra. „Ahugi minn fyrir bættum hag sjúkrahússins vaknaði fyrir alvöru 1958. Þá varð ég veik og lá á sjúkrahúsinu talsverðan tíma og var ansi langt leidd. Kynntist ég þá af eigin raun aðbúnaði sjúklinga og starfsaðstöðu hjúkrunarfólks. Ég gleymi seint þegar verið var að drösla mér sárþjáðri í myndatöku niðri í kjallara. Þegar ég tók svo að hjarna við aftur, hét ég því að ef ég hefði tækifæri til, skyldi ég gera allt sem ég gæti til að bæta hag sjúkrahússins og það hefur verið á stefnuskrá Líknar.höfði sínu að halla. Veit jafnvel ekki hvað verður þegar kraftar þverra. Kannski þurfa aldraðir að sýna meira eigið frumkvæði. Hún er afleit þessi sífellda mötun á öllu mögulegu, jafnt góðu sem slæmu. Ég held þetta leiði til þess að smá saman missum við þá litlu dómgreind. sem við fengum í vöggugjöf. Mér finnst að þjóðin öll standi í þakkarskuld viðaldraða á hverjum tíma, þess vegna þurfum við að búa vel að öldruðum og hlúa að lasburða.“

Viðmælandi Sjómannadagsblaðs að sinna félagsmálum.