Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Kaffikannan týndist

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurgeir Jónsson:

Kaffikannan týndist og fannst í kojunni


Elli í Varmadal segir frá sögulegri siglingu á Sjöstjörnunni í desember 1951
það þekkja víst flestir Vestmanneyingar hann Ella í Varmadal. Og það er ekki að sjá að hann verði 76 ára í haust, léttur í spori og eldhress, hvort sem hann skokkar fótgangandi eftir Strandveginum eða rúllar það á brúna Wartburginum sínum.
En fullu nafni heitir hann Elías Sveinsson, fæddur 8. september 1910 á Gamla-Hrauni, miðja vegu milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Hann er því í raun og veru frá Stokkseyrarbakka eins og gárungarnir kalla það stundum.
Fimmtán ára að aldri fluttist hann hingað til Eyja með foreldrum sínum og hér hefur hann búið síðan. Sextán ára hóf hann sjósókn sem kokkur á reknetum á Enok hjá þórði á Bergi og síðan stundaði hann sjó nær óslitið allt fram til 1980, þegar hann reri með Bergþóri Guðjónssyni (Begga á Skuld).
Arið 1929 fór Elli á vélstjóranámskeið sem hér var haldið og 1942 tók hann síðan stýrimannanámskeið (50 tn.). Hann hóf formennsku árið 1943 á Gulltoppi og var síðan lengi formaður hér, þó líklega lengst ú Sjöstjörnunni eða í 11 ár.
Eg tók á þeim hús seinni partinn í vetur, Ella og konu hans, Evu Þórarinsdóttur, í Varmadal við Skólaveginn og erindið var að fá hjá honum frásögn af nokkuð sögulegum túr á Sjöstjörnunni árið 1951. Og hér gefum við Ella í Varmadal orðið:

Egill Skúli Ingibergsson og frú í Kaupmannahöfn

Til Danmerkur
Ég var með Sjöstjörnuna á vertíðinni 1951, en um vorið ákvað Tómas Guðjónsson í Höfn, sem átti bátinn, að hún skyldi fara til Danmerkur. Þar átti bæði að skipta um vél og stýrishús. Ég held að henni hafi verið siglt í júní eða júlí, Páll Þorbjörnsson mun hafa siglt henni, en Jóhann Bjarnason (Jói á Hoffelli) var vélstjóri og var þarna úti meðan vélin var sett niður.
Allt tók þetta nú sinn tíma og báturinn var ekki tilbúinn fyrr en í endaðan nóvember. Ég fór út til Danmerkur 1. desember og kom fyrst til Kaupmannahafnar. Þar tók á móti mér Egill Skúli Ingibergsson, sem síðar varð borgarstjóri í Reykjavík, og það var eins gott, því ekki hefði ég átt gott með að bjarga mér einsamall þarna, mállaus á allt annað en íslensku.
Í Kaupmannahöfn var ég í tvo daga en fór síðan til Grenaa, þar sem báturinn var. Þá var, eins og ég sagði, búið að setja nýtt stýrishús á hann og nýja 200 hestafla Grenaa-vél. Þarna í Grenaa vorum við svo í nokkra daga, áður en lagt var af stað heim. Ég man hvað það var fjári kalt þarna úti. Við bjuggum á Sjómannaheimili í Grenaa, nýlega byggðu og afskaplega illa byggðu. Ég held það hafi ekki verið þétt með einum einasta glugga. En annars var ágætt að vera þarna úti.
Það tók held ég eina þrjá daga að gera bátinn kláran og þann 13. desember lögðum við svo af stað.

Hannes Tómasson
Tómas Guðjónsson
Jóhann Bjarnason
Elías Sveinsson

Borgarstjórinn kokkar
Hannes Tómasson frá Höfn var skipstjóri. Hann var að ég held stýrimaður á einhverju af Sambandsskipunum en fékk frí einn túr til að sigla bátnum upp fyrir föður sinn. Tómas í Höfn var svo stýrimaður. Ég held nú að hann hafi ekki haft réttindi til þess, en það var nú ekki verið að spyrja um slíkt. Tómas var búinn að vera lengi þarna úti til að fylgjast með bátnum.
Jói á Hoffelli var fyrsti vélstjóri, ég annar vélstjóri og svo var Egill Skúli fimmti maður, munstraður annaðhvort háseti eða kokkur. Hann var nýbúinn að ljúka prófum í Kaupmannahöfn þegar þetta var, ég hinkraði einmitt í Kaupmannahöfn þessa tvo daga meðan hann tók síðasta prófið. Hann var alveg voðalega sjóveikur til að byrja með.
Við lögðum í hann eins og áður er sagt þann 13. desember. Við fengum alveg þokkalegt veður til Færeyja, þó var mótdrægt alla leiðina, vindur alltaf vestanstæður. Við ætluðum norðan við Færeyjar, það var talið heppilegra upp á vindáttina. En svo stoppuðum við í Færeyjum, ég held í hálfan annan sólarhring. Við vorum með eitthvað af jólatrjám með okkur frá Danmörku og Tómas í Höfn vildi endilega að við settum jólatré upp í bæði möstur. Við vorum nú ekkert ýkja hrifnir af þvi tiltæki, því Sjöstjarnan var mjög hámöstruð, en Tómas lét sig ekki og upp fóru trén. Það lenti held ég aðallega á okkur Jóa og þetta var heilmikið bras. En uppi héngu þau alla leiðina.

Kannan týndist
Svo lögðum við í hann frá Færeyjum og fórum norðan við. Annars hefðum við fengið beint í nefið í Vestmannasundi. Það var suðvestanátt, helvítis rok og læti, og útsynningurinn hélst alla Ieiðina upp.
Það brotnuðu einar tvær rúður hjá okkur í stýrishúsinu en einhver spjöld vorum við með til að setja fyrir.
Hannes var líka kokkur, steikti og brasaði ofan í okkur og einu sinni fór hálf illa. Hann var í lúkarnum og ætlaði að fara að hella upp á. Þegar hann ætlar að fara að hella í könnuna. er hún gjörsamlega týnd en hafði þó staðið á borðinu andartaki áður. Svo fannst hún eftir langan tíma, hafði þá lent upp í koju.
Já, þetta var helvítis bræla alla Ieiðina en báturinn var góður. Hún var gott sjóskip Sjöstjarnan, 55 tonn að stærð og vel lestuð. Það voru held ég fimmtán tonn af sementi í lestinni auk annars varnings. Svo vorum við með tvær smjörtunnur og eitthvað var af bjórkössum undir lúkarsgólfinu, þó ekki væru haft hátt um það.

Þá langaði ekki í krumlurnar á Hannesi
Það var nú reyndar heilmikið mál, þegar skipið var tollafgreitt úti í Danmörku. Ég var einn um borð þegar þeir komu og tók á móti tollinum. Ég taldi það sem sett var um borð en hafði ekki hugmynd um hve mikið það ætti að vera. Síðan kemur Hannes skipstjóri og spyr hve mikið hafi komið og segi ég honum það. Hann segir að það vanti einn kassa af viskíi. Til vonar og vara teljum við allt upp á nýtt og það passar, það vantar einn viskíkassa. Hann fer beint upp á tollstöð og byrjar að rexa í þeim en allt kemur fyrir ekki. Hann kemur aftur um borð og enn er talið. Allt er við það sama, einn kassa vantar. Þá varð minn maður vondur, æddi upp á stöð og heimtaði kassann. Þeir neituðu sem fyrr. Þá fór Hannes inn fyrir í afgreiðsluna og viti menn, þar var kassi af viskíi undir borðinu. Hannes tók kassann umyrðalaust og kom með hann í fanginu um borð án þess að tollararnir segðu orð. Þá hefur sennilega ekki langað í krumlurnar á honum.

Allt í einu heyrðum við í Jónasi frá Skuld
Þær þættu sjálfsagt ekki merkilegar græjurnar sem við höfðu sem siglingatæki. Það var kompás og logg. Að vísu var dýptarmælir um borð en Danirnir höfðu tengt hann allan kolvitlaust, þannig að það var ekkert gagn í honum. Eins var með talstöðina. Þeir tengdu bara í öll göt sem þeir sáu, bæði á batteríinu og stöðinni og svo virkaði ekki neitt. Danirnir virtust ekkert vit hafa á dýptarmælum og því síður á íslenskum talstöðvum. Þetta var náttúrlega prófað úti í Danmörku en það virkaði ekkert svo að það var ekkert verið að hugsa meira út í það og bara lagt af stað. Eitthvað var reynt að laga þetta í Færeyjum en gekk ekki, hafði eitthvað brunnið yfir held ég. Svo var það einn daginn, ætli við höfum ekki verið svona um það bil hálfnaðir á leiðinni milli Færeyja og íslands að við sitjum aftur í, ég, Jói og Hannes. Ég er eitthvað að fikta í stöðinni og tek einhverja leiðslu úr sambandi. Svo sitjum við og spjöllum saman, stöðin opin og við vitum ekki fyrr til en við allt í einu heyrum í Jónasi frá Skuld í viðtækinu. Og hann segist heyra alveg prýðilega í okkur. Og eftir þetta var nú stöðin notuð.

Á 60 föðmum austan við Eyjar?
Svo kom að því að eftir logginu töldum við okkur vera komna upp undir Portlandið. Það var ennþá vitlaust veður og við gerðum lítið meira en að slóa upp í. Klukkan líklega fjögur um nóttina kemur Hannes upp á vakt og milli útsynningséljanna sér hann vita og telur sig geta talið hann út sem Portlandsvitann. Samkvæmt því áttum við að geta verið heima svona um ellefuleytið á Þorláksmessu.
Nú, áfram var keyrt og eitthvað fer okkur að lengja eftir að sjá Iand. Um ellefuleytið erum við Tómas á vakt og honum fannst víst heldur mikið keyrt, ég var búinn að vera að smábæta við. Svo hann hefur orð á því, hvort ekki sé fullmikið keyrt. Þá sló ég aðeins af en báðum finnst okkur það furðulegt að sjá ekki land. Og alltaf er sama helvítis rokið og lætin.
Þá er brugðið á það ráð að reyna að fá miðun frá Eyjum. Páll heitinn Þorbjörnsson miðaði okkur út. Þessi miðunarstöð var í skúr uppi á Eyju, ekki langt frá þar sem flugturninn er núna, og ég held hún hafi ekki oft verið notuð. En eitthvað gekk illa að fá út, hvort við værum fyrir austan eða vestan Eyjar. Svo verður það útfallið hjá okkur að við teljum að við hljótum að vera fyrir austan Eyjar, okkur fannst annað varla koma til greina. Og áfram var keyrt, sömu stefnu eða eitthvað aðeins meira norður á. En það er alveg sama, það sést ekkert land og ekki neitt. Ég man ekki hvað klukkan var, líklega rétt eftir hádegi, þá er farið að reyna að Ióða.
Ég fer aftur á með færi og lóð og það var bölvað að eiga við þetta. En mér telst að við séum á 60 föðmum. Svo ég segi að við getum hvergi verið austan við Eyjar á þessu dýpi, nema þá upp í harða landi. Við séum líklega komnir vestur á Selvogsbanka. Eitthvað var Hannes vantrúaður á það, en ég sat fastur við það, að austan við Eyjar væri hvergi hægt að fá þetta dýpi nema alveg uppi í landi. Og það verður úr að breytt er um stefnu og keyrt í norðaustur, slegið undan. Það er keyrt lengi vel en ekki sést Iand. Það gengur á með útsynningséljum og skömmu fyrir myrkur, líklega eitthvað um fjögurleytið, sjáum við ljós í landi á bakborða. Við gátum ekki fundið annað út en þetta væri annað hvort Stokkseyri eða Eyrarbakki. Og svo rétt á eftir sáum við Knarrarósvitann. Þá létti okkur heldur betur og strikið var sett beint til Eyja.

Sjöstjarnan VE 92 fyrir breytingu
Sjöstjarnan VE 92 eftir breytingu
Elías Sveinsson. Myndin er tekin daginn áður en hann fór af stað til Danmerkur
Varmidalur

Jólatré í Landeyjum
Við komum hingað eitthvað um átta eða níuleytið um kvöldið, og það var náttúrlega ekki allt búið. Það þurfti að tollskoða og Einar Gutt kom líka um borð til að athuga með heilbrigðismálin. A þessum tíma var nefnilega gin- og klaufaveikifaraldur í Danmörku og feiknarlegar varúðarráðstafanir bæði þar úti og hér heima.
Tómas hafði keypt feiknastórt og mikið jólatré úti og ætlaði að gefa KFUM það. Tréð var fastreyrt aftan við stýrishúsið og var allt í fína lagi með það. En það mátti ekki fara í land. Við urðum að skera það niður og henda því í sjóinn inn af Eiðinu. Svo rak það upp í Landeyjar. Og eins fór um jólatrén í masturstoppunum. Við máttum gera svo vel að klifra upp og skera þau niður og í land máttu þau ekki fara.
En allt hafðist þetta og jólin tókst okkur að halda heima.

Hjónin Elías Sveinsson og Eva L. Þórarinsdóttir ásamt börnumTalið frá vinstri: Hörður, Una Þórdís, Hjalti, Sigurður Sveinn, Sœvaldur, Sara, Atli