Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Merki Sjómannadagsins og Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson:


Merki Sjómannadagsins og Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum



INNGANGUR
Ritstjóri Sjómannadagsblaðsins bað mig um að taka eitthvað saman um merki Stýrimannaskólans og Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum. Mér finnst þetta ágæt hugmynd og ætla að reyna að leggja mitt til. Síðar má þá fylla uppí skörðin þar eð efnið er þess virði að því séu gerð skil.
Merkjafræðin (heraldik), sem snýst þó einkum um sögu skjaldarmerkja, er mikil og merkileg og segir sögu um menn og atburði. Getur víða að líta skjaldarmerki á söfnum og í köstulum fornum erlendis. Þau má rekja allt aftur til grískrar fornaldar. Hagnýtt gildi skjaldarmerkja áður en einkennisbúningar komu til sögu var m.a. að geta greint í sundur stríðandi flokka. Á tímum krossferðanna um og eftir 1200 og á blómatíma riddara varð mikil gróska í skjaldarmerkjum og til þessa tíma má rekja upphaf þjóðfána og grunnfána margra landa.
Fáir hafa sennilega lagt eins mikla rækt við þennan þátt menningar og hefðar hér á landi og Vestmannaeyingar eins og t.d. má sjá á framhlið félagsheimilis sjómannafélaganna o.fl. í Vestmannaeyjum, Básum á Básaskersbryggju. Þarna sakna ég þó merkis Sjómannafélagsins Jötuns í hópi merkja svo tengdum sjómönnum, en þeir hafa sínar bækistöðvar í Alþýðuhúsinu sem kunnugt er.
Væri rétt að gera merkjum sjómannafélaganna í Vestmannaeyjum skil í næsta Sjómannadagsblaði og birta merkin í litum, þá fyrst njóta þau sín.

Merki Sjómannadagsins

1. SJÓMANNADAGURINN — VÍKINGASKIP
Merki þetta hefur frá upphafi verið merki Sjómannadagsins um land allt. Merkið var á forsíðu fyrsta Sjómannadagsblaðsins, sem út kom 6. júní 1938, á fyrsta sjómannadeginum á Íslandi, sem haldinn var að frumkvæði sjómannasamtakanna í Hafnarfirði og Reykjavík. Merkið hefur síðan verið í merki Sjómannadagsráðs þessara samtaka og Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðra sjómanna (DAS), sem ráðið hefur komið upp með miklum myndarskap í Reykjavík og Hafnarfirði og rekur þar. Líklega hefur þetta merki verið fyrsta barmmerki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum og þar til Sjómannadagsráð Vestmannaeyja tekur upp sitt eigið barmmerki. Hvenær það hefur verið eða hvaða merki hefur verið valið hefur reynst mér erfitt að grafa upp, en ef til vill verður þessi grein til þess að leiða það í ljós.

Barmmerki af austureyjunum

2. AUSTUREYJARNAR — ELLIREY OG BJARNAREY
Mér finnst mjög líklegt að fyrsta sérstaka merki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum sé þetta hringlaga barmmerki af austureyjunum Ellirey og Bjarnarey, sem birtast á forsíðu vandaðrar dagskrár Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum 2. júní 1946 (Sjá Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980) og 1947, en bæklinga þessa má telja upphaf að Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, sem var formlega hleypt af stokkunum á sjómannadaginn 1951 undir heitinu Sjómaðurinn.

Sjómaðurinn með heimaklett í baksýn

3. SJÓMAÐUR MEÐ HEIMAKLETT í BAKSÝN
Merkið í blaðhaus Sjómannsins, sem síðan verður merki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum í mörg ár, er teiknað eftir minnisvarða sjómanna og þeirra sem látist hafa í slysförum á sjó, í lofti eða björgum og stendur sem kunnugt er á lóð Landakirkju. Merkið teiknaði Karl Jónsson (Kalli Fjalla), þekktur Vestmannaeyingur. Þetta sama ár, 1951, er minnisvarðinn reistur og afhjúpaður 21. október 1951. Sjómaðurinn mun hafa verið barmmerki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum 1951 og nokkur næstu ár. Merkið er á forsíðu dagskrár Sjómannadagsins a.m.k. 1964-1967 í 4 ár og svo aftur 1976-1982, eða í 7 ár og er þá jafnframt í haus blaðsins.
Dagskrár Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum hin síðari ár hafa margar verið vel upp settar og var snúin kaðalumgjörð rammi um dagskrána árin 1978 - 1980. Guðjón Ólafsson hefur einnig teiknað þetta merki á hvert heiðursskjal Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja undanfarin ár.
Sjómaðurinn með Heimaklett í baksýn hefur áreiðanlega verið oftast í merkjum og á dagskrá Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum, annað hvort einn sér á hringlaga fleti, ferhyrndum eða þríhyrningslaga. Oftast hefur myndin verið litprentuð. Ég hef undir höndum 6 barmmerki með mismunandi litum, fagurrautt merki, dimmblátt, ljósblátt, sægrænt, sem eru öll á hvítum hringlaga bakgrunni, tvö merki eru prentuð á gulan flöt, annað blátt og er bakgrunnur sex-hyrndur, en hitt prentað í svörtu á ferhyrndan flöt og stendur Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum undir myndinni. Ártal vantar á öll þessi merki og sýnir þetta að prentun ártals er nauðsynleg. Ef það er smekklega gert, er það fallegra og svo er í því ákveðin heimild og má í þessu sambandi minna á frímerki.

Þrídrangavitinn

4. ÞRÍDRANGAVITI
Sjómannadaginn 1958 er Þrídrangavitinn í barmmerki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum og framan á dagskrá Sjómannadagsins. Þetta merki minnir mig að hafi verið í barmmerki dagsins í nokkur ár á eftir, en ekki hefi ég fulla vissu fyrir því.
Mig grunar, að hinn þekkti bókaútgefandi og eigandi Þjóðsögu, Hafsteinn Guðmundsson sé höfundur þessa fallega merkis. Hann var alla tíð mikil hjálparhella við útgáfu Sjómannadagsblaðsins og frá 1957 til 1974 var Sjómannadagsblað Vestmannaeyja prentað í prentsmiðju Hafsteins og undir handarjaðri hans; fyrst í Hólum og síðar í Skarði á Seltjarnarnesi, breytt og smekklegra útlit og prentun blaðsins er fyrst og fremst hans verk. Hafsteinn er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hefur alltaf hugsað hlýtt til Eyjanna, þó að nú sé orðið langt liðið síðan hann fór að heiman.

Haus á blaði Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum fyrstu 3 árganga Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja 1951-1953

Haus á blaði Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum fyrstu 3 árganga Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja 1951-1953.
Haus á Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1954

Með 4. árgangi blaðsins, á Sjómannadaginn 1954, er haus blaðsins breytt og er þessi haus á Sjómannadagsblaðinu óbreyttur til og með 9. árgangi blaðsins, árið 1960. Eins og sjá má er nú fylgt nákvæmar fyrirmyndinni á minnisvarðanum á lóð Landakirkju, en frá vitanum geisla stafir blaðsins. Einhver áhrif virðast mér vera þarna frá forsíðu Sjómannablaðsins Víkings, en viti lýsti þar upp heiti blaðsins. Ekki er mér kunnugt um hver teiknaði þennan haus, en tæplega telst hann eins vel gerður og eldra sjómannsmerkið með Heimaklett í baksýn, enda var það merki áfram í barmmerki Sjómannadagsins.

center.

Á 16. árgangi Sjómannadagsblaðsins árið 1967 birtist nýr haus. Aðalmyndin var einstaklega skemmtileg og kröftug mynd af netadrætti, sem Jónas heitinn í Skuld hafði tekið um borð í Ófeigi III. hjá Óiafi bróður sínum. Hafsteinn Guðmundsson teiknaði og útfærði að vanda forsíðuna. Við nafn og árgang blaðsins, en ramma að neðan myndaði gömul miðamynd af Vestmannaeyjum teiknuð austan við Eyjar. Svo óheppilega vildi þó til í öllum flýtinum, sem alltaf var við útgáfu blaðsins, að klisju var snúið við í prentun, svo að mörgum fannst myndin nokkuð torkennileg, en héldu þá að þetta væru eyjarnar séðar vestan frá eða að þetta væri listrænt bragð! Á næstu forsíðu var þetta rétt og sáust þá útlínur eyjanna frá Súlnaskeri og að Hábarði á Ellirey. Þessi haus var á blaðinu næstu 3 árin, en þá man ég eftir, að kominn var nýr stíll á forsíðu blaða og tímarita. Ég vildi því breyta til og var forsíðan 1970 margar myndir úr lífi og starfi sjómanna, en rammi að ofan og neðan voru myndir af bátum á miðunum og á leið til hafnar, 5 bátar öslandi drekkhlaðnir á fullri ferð fyrir Klettinn á úthallandi vertíð. Hafsteinn útfærði að venju mínar hugdettur og raðaði þessu saman.

Sjómaðurinn í breyttri mynd

5. SJÓMAÐURINN í BREYTTRI MYND
Árið 1968 er stíliseruð mynd af sjómanninum framan á dagskrá Sjómannadagsins.

Heimaey og sjómaðurinn

6. HEIMAEY OG SJÓMAÐURINN´
Sennilega er þetta barmmerki frá sama ári, 1968. Stíliserað sjómannamerki er sett til hliðar við Heimaey. Þessi uppsetning í mismunandi útgáfum með sjómanninn prentaðan yfir og til hliðar við Heimaey er sennilega á barmmerkjum Sjómannadagsins árið 1966 og 1967.

7. HEIMAEY MEÐ YFIRPRENTUÐU ÁRTALI
Árið 1969 er þetta merki notað í fyrsta skipti eitt sér á dagskrá Sjómannadagsins. Merkið er algerlega hugsað og hannað af Hafsteini Guðmundssyni. Man ég eftir því, að þó að ég væri ritstjóri blaðsins og sæi um prentun þess og umbrot, þá sá Hafsteinn alveg um dagskrána og kom ég þar hvergi nærri. Eins og Hafsteins er von og vísa er þessi dagskrá óvenju smekkleg, vandaður brúnleitur pappír, en framan á miðju er Heimaeyjarmerkið í hafbláum lit, sem allur texti dagskrárinnar er prentaður í. Þetta merki er síðan framan á dagskrá Sjómannadagsins í 4 ár, 1969 -1972. Heimaeyjarmerkið var barmmerki Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum árið 1969 og næstu árin. Árið 1969 er merkið á appelsínugulum hringlaga grunni, árið 1970 er hringurinn um Heimaey fagurrauður, en allt merkið er á ferköntuðum hvítum fleti. Árið 1971 er Heimaey í fjólubláum grunni. Þetta merki er í haus blaðsins, yfir ritstjórn og stjórn Sjómannadagsráðs í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja þessi ár. Um þetta leyti er Heimaeyjarmerkið tekið upp í bréfhaus Sjómannadagsráðs.

Aðgöngumiðar á skemmtanir Sjómannadagsráðs
Bréfhaus Sjómannadagsráðs
Heimaey eftir gos

8. HEIMAEY EFTIR GOS
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, 23. og 24. árgangur kom út síðsumars 1974, um Þjóðhátíð Vestmannaeyja og stuttu eftir Þjóðhátíð þá hina miklu, er haldið var upp á 1100 ára byggð í landinu á Þingvöllum við Öxará. í haus blaðsins er notuð þessi breytta mynd af Heimaey og ekki óeðlilegt eftir hamfarir eldgossins 1973 og breytta ásjónu Heimaeyjar. Merki þetta er einnig í haus blaðsins árið 1975. Myndin er tekin úr bók minni, Vestmannaeyjar — Byggð og eldgos, sem út kom í nóvember 1973. Dagskrá Sjómannadagsins þetta ár er án merkis og prentuð á ódýran pappír.

Merki stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum
Merki stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum
Merki stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum

MERKI STÝRIMANNASKÓLANS í VESTMANNAEYJUM
Merki Vestmannaeyjakaupstaðar var valið á skírteini og í stimpil Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum við stofnun hans árið 1964. Stýrimannaskóli Vestmannaeyja var þá bæjarstofnun og rekstur hans og stofnkostnaður allur var greiddur af Bæjarsjóði Vestmannaeyja. Nokkur styrkur fékkst þó til skólans frá ríkinu strax á fyrstu árum hans og nam styrkurinn orðið a.m.k. helmingi rekstrarkostnaðar, þegar skólinn fór alveg yfir á ríkissjóð með lögum nr. 1 frá 1973.
Kaupstaðarmerki Vestmannaeyja var ásamt merkjum fleiri kaupstaða og sýslna teiknað fyrir Alþingishátíðina 1930 og gerði það sá ágæti listamaður Baldvin Bjömsson, sem var búsettur í Vestmannaeyjum í 14 ár frá 1922 - 1935. Kaupstaðarmerki Vestmannaeyja var eitt af fáum kaupstaðar- og sýslumerkjum^ sem var sent fullfrágengið frá hendi Baldvins til Alþingishátíðarinnar (Sbr. ummæli Magnúsar Jónssonar bls. 75 í bókinni Alþingishátíðin 1930). Einnig er merkið hárrétt skv. reglum um skjaldarmerki. Baldvin Björnsson málaði mörg sérstök og falleg málverk, en að atvinnu var hann silfursmiður og gerði einnig þar margt snilldarverkið. Hann var faðir Björns Th. listfræðings og þeirra bræðra og var þátttakandi í Gottu-leiðangrinum fræga til Grænlands um 1930, þegar moskunaut voru flutt þaðan og hingað til lands.
Þegar Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum fór að nota kaupstaðarmerkið, m.a. á umslög skólans, var merkið ekkert notað af öðrum stofnunum bæjarins. í dag er notkun þess almenn, enda er merkið fallegt. Mér fannst alltaf að nauðsynlegt væri fyrir skólann að eignast sitt eigið merki og strangt tiltekið var ekki löglegt að nota merki kaupstaðarins, en ekki var þó að því fundið.
Ég var alltaf óánægður með stafina sem mynduðu umgjörð um merkið á stimplinum. Þeir voru gerðir í stimplagerð, en ekki af teiknara, sem hefði verið nauðsynlegt. Ég kom því að máli við vin minn Guðjón Ólafsson frá Gíslholti og bað hann um að gera tillögur að merki, sem jafnframt minnti á seglskipið í kaupstaðarmerkinu eða annað varðandi Eyjar. Guðjón hafði þá m.a. teiknað mjög fallegt merki fyrir ÍBV.
Hann kom að mig minnir með 3 tillögur að merki, allar ágætar. Við völdum svo í sameiningu eitt merkið, sem ég var ákveðinn í að nota síðan í stimpil skólans, á bréf og umslög. Ég held að þetta hafi verið haustið 1970, en einmitt í félagsskírteini málfundarfélags Stýrimannaskólans, Breiðabliki, sem var stofnað 4. desember 1970, er merkið fyrst notað opinberlega. Merki þetta var í auglýs-ingum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum um skólavist á baksíðu Sjómannadagsblaðsins árin 1971 og 1972 og inni í blaðinu árið 1974.
Þegar skólinn var tekinn að fullu til starfa eftir eldgos var þetta fallega merki tekið upp sem merki Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, en nú í breyttri mynd með nafni skólans í sjálfu skipinu. Ekki finnst mér sú gerð jafn falleg og upphafleg gerð frá hendi Guðjóns í Gíslholti.

EFTIRMÁLI
Það hefur orðið meira verk og erfiðara en mig grunaði að taka saman þennan pistil um merki Sjómannadagsins og Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum eftir því sem ég gat best grafið upp og sannast veit. Mér finnst þó mörgum spurningum ósvarað og birti þetta í trausti þess, að greinarkomið muni hreyfa við einhverjum og vekja alla til umhugsunar um að vanda bæði gerð merkja og dagskrár og ekki síst að bæta í þær eyður, sem eru í grein minni. Það vita allir, sem hafa áhuga á söfnun bóka og blaða, að erfiðast er að ná til smárita og bæklinga. Samantekt þessarar greinar hefur orðið mér og vonandi verður lestur hennar einhverjum, hvati til að halda betur utan um dagskrár og merki Sjómannadagsins. Ekki hvað síst ætti Sjómannadagsráð að eiga öll þessi gögn.
Í sambandi við barmmerki Sjómannadagsins dettur mér í hug, einkum þó með hin gömlu, fallegu merki í huga, sem gerð eru eftir ljósmyndum af austureyjum og Þrídröngum, hvort það væri ekki athugandi til að auka fjölbreytni og fegurð merkja að hafa barmmerkin hvert ár með mismunandi myndum frá hinni stórkostlegu og fögru náttúru Vestmannaeyja, og ekki má þá gleyma ártalinu á smekklegum stað. Fyrirmyndir skortir ekki og með tímanum yrði þetta fallegt safn, sem væri eftirsóknarvert að eiga. Verðlaunapeninga hvert ár mætti móta eftir fyrirmynd barmmerkis hvern sjómannadag. Einnig mætti gera sérstaka heiðursskildi Sjómannadagsins hvert ár eftir sömu fyrirmynd í stað áritaðra skjala, sem eru öll með sama svip frá ári til árs. Skildi þessa mætti gera eftir barmmerkinu annað hvort í formi skála úr brenndum leir (sbr. hina sérstæðu verðlaunaskildi, sem Einar heitinn Sigurðsson veitti hæsta nemanda Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum hvert ár) eða einhverju enn varanlegra efni eins og málmi.

Sigurjón Óskarsson og skipshöfn hans á Þórunni Sveinsdóttur varð þeirrar gœfu aðnjótandi, að bjarga áhöfn mb. Jóhönnu Magnúsdóttur eftir að hún hafði brunnið og sokkið á Meðallandsbugt.

Guðjón Ármann Eyjólfsson