Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Einar Sveinn Jóhannesson, skipstjóri á Lóðsinum, heimsóttur
Það segir einhversstaðar að það sé of seint að iðrast eftir dauðann.
Sannleíksgildi þessara orða fann ég glöggt þegar ég hafði lofað ritstjórn Sjómannadagsblaðsins að eiga stutt viðtal við Einar Svein Jóhannesson, skipstjóra á Lóðsinum.
Að ætla sér að lýsa lífshlaupi hans í stuttu viðtali hlýtur að verða þess valdandi að of lítið kemst til skila af því til ykkar, lesendur góðir. Þar á ég einkum við þau sterku tengsl, sem 22ja ára gæfuríkt starf hans sem skipstjóra á Lóðsinum, við aðstoð og björgunarstörf við Vestmannaeyjaflotann, hafa skapað milli hans og sjómannastéttarinnar hér í Eyjum. Þau frábæru störf eru efni í heila bók.
Við skulum nú droppa við hjá karli og heyra hvað hann hefur að segja okkur.
Einar, þú byrjaðir ungur að stunda sjóinn og hefur helgað honum þitt lífsstarf.
Hvers vegna valdir þú sjómennskuna?
Í þá daga kom lítið annað til greina en að stunda sjóinn. 14 ára byrjaði ég að róa á litlum árabát og síðan þróaðist þetta með þeirri breytingu sem varð í sjávarútvegnum í vélbátana. Fyrstur af þeirri gerð hjá mér var Trausti Ve, 9 tonna bátur. Þá var ég 15 ára.
Hvenær fluttist þú til Vestmannaeyja?
Það er nú saga að segja frá því. Það sannaðist þá á mér máltækið „að fáir ráða sínum næturstað."
Það var hrein tilviljun þegar ég kom fyrst til Vestmannaeyja. Ég var þá vélstjóri á vélbátnum Sindra frá Seyðisfirði, sem var um 30 tonna bátur, við vorum á leið til Reykjavíkur, en áttum að róa frá Akranesi á vertíðinni.
Skipstjórinn sem vera átti með hann var þaðan. Þegar við komum vestur á móts við Portland var komið austan hvassvirðri, versta veður, og var þá ákveðið að fara inn til Vestmannaeyja og bíða þar af sér óveðrið.
Í Eyjum var stoppað í tvo daga. Þá hitti ég hér gamla og góða kunningja, sem höfðu verið heima á Seyðisfirði við róðra í mörg sumur, en þá komu margir Vestmannaeyingar austur yfir sumarið.
Mér leist strax vel á mig í Eyjum og bað vini mína, meira í gríni en alvöru, að horfa eftir plássi fyrir mig á bát héðan ef það skyldi nú detta í mig að skipta um.
Þegar veðrinu slotaði var haldið áfram til Reykjavíkur. Þegar þangað kom hitti ég væntanlegan skipstjóra minn á Sindra og útgerðarmanninn. Ég veit ekki út af hverju, en það sló mig þegar skipstjórinn segir: „Ég er með vélstjóra með mér, sem er mikill vinur minn og að auki er hann þaulkunnugur á Akranesi," en þaðan áttum við að róa, sem fyrr segir. Mér þótti þetta ekki í alla staði gott þar sem ég hafði ráðið mig sem vélstjóra á bátinn og verið ráðinn út árið.
Útgerðarmaðurinn sagðist ekki svíkja sinn samning við mig og ég fengi sama kaup og ég væri vélstjóri. En ég ákvað að sætta mig ekki við þessa ráðstöfun. Ég bauð útgerðarmanninum að koma að vori og fara með bátnum austur og vera vélstjóri á honum yfir sumarið, eins og ég hefði verið ráðinn til, en á vertíðinni yrði ég ekki á bátnum, og var þetta fastmælum bundið.
Síðan hringdi ég til Eyja og bað vin minn Halldór Jónsson frá Garðstöðum að bregða nú skjótt við og útvega mér pláss á góðum bát. Halli gerði það og réð mig á Skíðblaðni hjá Jónasi í Skuld og var ég ráðinn vélstjóri. Báturinn átti að fá nýja vél, svo ég hlakkaði til vertíðarinnar. En úr vélaskiptum varð nú ekki þetta árið. Þessi vertíð 1935, með Jónasi í Skuld, réð úrslitum um það að ég varð eyjamaður. Eins og ég sagði áður leist mér vel á mig í Eyjum. Ég réðst hjá frábærum formanni. Til húsa var ég hjá Helga heitnum Benediktssyni og Guðrúnu konu hans og ekki var hægt að hugsa sér betra viðmót og aðhlynningu en ég fékk þar. Síðast en ekki síst kynntist ég þessa vertíð konunni minni, Sigríði Ágústsdóttur, þau kynni gerðu gæfusamt útslag á það að hér hef ég verið síðan. Um vorið fórum við Sigga saman austur á Seyðisfjörð, þar sem ég vildi efna það loforð sem ég hafi gefið, haustið áður, um að verða vélstjóri á Sindra yfir sumarið. Um veturinn hafði hann strandað og fór eftir það í viðgerð og var nýkominn austur þegar við komum þangað. Sigga undi ekki á Seyðisfirði og því var ekki um annað að tala en að fara aftur til Eyja.
Þú hefur bæði vélstjóra- og skipstjóraréttindi. Sóttir þú þessa skóla hér í Eyjum?
Vélstjóranámskeið sótti ég á Norðfirði. Þó með smáklækjum, því að ég var þá ekki nema 17 ára, en hefði þurft að vera eldri til að falla löglega inn í kröfur kerfisins. En sleppum því. Skipstjórapróf tók ég hér í Vestmannaeyjum hjá Friðrik Steinssyni. En hann fór víða um landið og hélt skipstjórnarnámskeið á vegum Fiskifélags Íslands. Við vorum 19 skipstjóraefnin sem útskrifuðumst af þessu námskeiði hér árið 1939.
Þegar litið er yfir þinn lífsvettvang er fljótséð að þú hefur ekki verið bundinn eingöngu við fiskinn þína sjómannstíð.
Nei, ekki er hægt að segja það, þó fyrri partur minnar sjómannstíðar hafi verið bundinn honum.
Þegar ég fluttist til Eyja alkominn byrjaði ég aftur hjá mínum ágæta formanni, Jónasi í Skuld, og er hjá honum eina vertíð á Skíðblaðni. Næstu vertíð er ég hjá Oddi bróður Jónasar á Maí. Eina vertíð er ég á Glað hjá frænda mínum Guðjóni á Heiði, síðan er ég eina vertíð með Njörð. Mér líkaði ekki við hann, fannst hann krankur og leiðinlegur.
Um vorið réðst ég með Skíðblaðni, sem þá var kominn með nýja vél, þá sem átti að koma í hann þegar ég kom fyrst til Eyja árið 1935. Næstu 13 árin var ég að mestu hjá Helga Benediktssyni - undanskilin eru þó þau tvö ár sem ég var hjá þeim Holtsbræðrum á Voninni. Síðustu fjögur árin sem ég var hjá Helga var ég með Skaftfelling, ýmist á trolli eða í flutningum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Síðustu tvö árin á Skaftfelling vorum við eingöngu í flutningum, það var lestað og losað að deginum en siglt á nóttinni, en við komum að því síðar. Eftir þessi 13 ár hjá Helga Benediktssyni kaupi ég mér bát sem ég átti og var með í fjögur ár. 1960 ræðst ég fyrir Lóðsinn, sem var þá í smíðum og þar er ég enn.
Þú varst langan tíma í vöru og fólksflutningum. Fyrst á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur á Skaftfelling síðan á Vonarstjörnunni, sem þú gerðir út sjálfur, tíl vöru og fólksflutninga milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Voru þetta ekki oft mannmargar og erfiðar ferðir?
Eins og áður er sagt byrjaði ég þessar ferðir á Skaftfelling. Þetta fjögurra ára tímabil fór að mestu í flutninga. Fluttur var allskonar varningur, en aðalatriðið voru mjólkurflutningarnir, því að við fluttum til Eyja alla þá mjólk sem þangað var flutt. Oft var í þessum ferðum mikið af farþegum. Þetta voru oft erfiðar ferðir, en Skaftfellingur var frábær bátur og var oft hreint ótrúlegt hvað mátti bjóða honum án þess að verða fyrir áföllum þó að oft væri hann þrauthlaðinn. Það var, eins og sagði áður, lestað og losað á daginn en farið á milli á nóttinni, það var oft slabb í þessum ferðum þó ekki sé meira sagt. Ótrúlega fáar ferðir féllu niður þessi ár.
Á árinu 1954 hvöttu þeir mig, Guðlaugur Gíslason, sem þá var bæjarstjóri, og forstöðumaður Mjólkursamsölunnar til þess að kaupa bát til mjólkurflutninga milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og lofuðu þeir mér stuðningi við kaupin.
Um áramótin 1954 og 1955 hafði ég fest kaup á 45 tonna bát sem ég gaf nafnið Vonarstjarnan Ve 26. 3. janúar 1955 kom ég hingað til Eyja mína fyrstu ferð með mjólk á Vonarstjömunni. Síðustu ferðina á henni sömu erinda, fór ég 18. desember 1959, þá var gamli Herjólfur kominn til að taka við. Samtals var ég þá búinn að vera tæp 10 ár í þessu flutningaslarki.
Frá þessum árum á Vonarstjörnunni er margs að minnast. Hafnarskilyrðin í Þorlákshöfn vora þá mjög slæm. f fyrstu var ekki nema einn bryggjustubbur sem var meira, ef nokkuð hreyfði veður, undir sjó en upp úr. Oft var erfitt að hemja bátinn við þessa bryggju og athafna sig við hana. Tvisvar hálffylltum við lestina af sjó þarna við bryggjuna. Mörgum þótti Vonarstjarnan of lítil í þessar ferðir en hún mátti ekki stærri vera svo að hægt væri að hemja hana við bryggjustubbinn. Oft var hún lek greyið eftir þessi átök og ekki alltaf þessleg að vera fýsileg sem farþegaskip, en þetta fór allt vel með guðshjálp og góðra manna. Við skulum ekki reyna hér að lýsa því með orðum hvernig margar þessar ferðir voru milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, ferðast á nóttinni, skammdegið er oft hart við okkur á Íslandi. Oft var járn í flutningum og þá var það á dekkinu, sjómenn þekkja hvað það er hollur farmur fyrir kompásinn, siglingatæki engin, nema lélegur dýptarmælir. Aðbúnaður fyrir farþega var nánast enginn, nema góður vilji til að láta þeim líða sem best, eftir því sem aðstæður leyfðu.
Á eftir manni rak svo sú knýjandi nauðsyn að láta ekki standa upp á sig, láta ekki heilt bæjarfélag verða mjólkurlaust.
Jú, Siggi, þetta var oft erfitt og ekki hægt nema með góðum mannskap. Ég vil koma hér á framfæri þakklæti til þeirra manna sem drösluðust í þessu slabbi með mér öll þessi ár. Mér verður nú oft hugsað til þessa tíma, þegar fólk er að agnúast út í hann Herjólf okkar. Það eru tvennir tímar. Hvílíkur reginmunur sem orðinn er á þessum hlutum með komu hans hingað.
Lóðsinn siglir inn í líf þitt árið 1961 og þú hefur verið skipstjóri á honum síðan hann kom hingað til Eyja. Þú hefur á þessum bát unnið mörg stórvirki og þið saman hafið skapað hjá sjómönnum hér öryggiskennd sem seint verður fullþökkuð. Voru það ekki mikil viðbrigði hjá þér að koma á Lóðsinn, sem jafnframt því að vera hafnsögubátur er björgunar- og aðstoðarbátur fyrir Eyjaflotann?
Á milli þess að ég hætti með Vonarstjörnuna og þar til að Lóðsinn kemur vinn ég einn vetur í Fiskiðjunni. Um sumarið er ég með Farsæl Ve 12 á humartrolli og um haustið á fiskitrolli. Uppúr áramótum 1961 fer ég út til Þýskalands að sækja Lóðsinn. í þeirri ferð voru, auk mín, Tryggvi Blöndal, sem þá var skipstjóri á Herjólfi, en fékk frí til að sigla Lóðsinum hingað, Jón Í. Sigurðsson hafnsögumaður og Erlendur Ólafsson frá Gilsbakka, sem var vélstjóri. Til Vestmannaeyja komum við 4. apríl kl. 9 að morgni.
Jú, víst voru þetta mikil viðbrigði og mikil ábyrgð sem ég tók á mig þegar ég réðst fyrir Lóðsinn. Á Lóðsinum er sjómennskan allt önnur en ég hafði vanist. Áður réri ég til fiskjar og seinna voru það flutningarnir, en á Lóðsinum er farið út annarra erinda. Ég hef farið lauslega yfir hvað Lóðsinn hefur aðstoðað marga báta frá því að hann kom hingað. Mér sýnist það vera um það bil 1670 útköll. Mest af þeim er utan hafnar. Í þessari tölu eru ekki ferðir með hafnsögumenn út í skip eða úr þeim og sú þjónusta sem skipum er veitt innan hafnar. Í þessari aðstoð við bátaflotann eru margs konar ferðir, ferðir með kafara til að taka úr skrúfu, eða sækja báta sem draga þarf að landi, einnig hefur verið farið til aðstoðar bátum sem eldur hafði komið upp í, bátar dregnir á flot sem höfðu strandað o.fl. o.fl. Einnig hefur Lóðsinn verið til aðstoðar grafskipinu í prammaslefi og fjöldi ferða farinn til ýmissa erinda í Þorlákshöfn, Surtsey og víðar.
Gosárið 1973 erum við hér samfellt allt gostímabilið og bann við að báturinn færi út úr höfninni nema með sérstöku leyfi. Allan gostímann var vakt í bátnum og voru sex menn um borð í einu. Ef ekki var verið að sinna einhverjum verkefnum var báturinn alltaf tilbúinn við bryggjuna, hvaða tíma sólarhringsins sem var, að undanskildum nokkrum nóttum þegar ekki mátti neitt skip vera í höfninni af ótta við að hún lokaðist. Gosvertíðina voru alltaf tiltækir hér tveir kafarar, þeir Garðar Gíslason og Jóhannes Kristinsson, ef á þyrfti að halda fyrir bátaflotann, sem allur sótti á sín heimamið.
Þegar Lóðsinn var í byggingu og fyrst eftir að hann kom hingað, þótti sumum mönnum í of mikið ráðist.
Hvað finnst þér sjálfum þegar þú lítur yfir samveru ykkar?
Eftir mína reynslu og hafnsögumannanna finnst mér Lóðsinn síst of stór. Ég man ekki eftir því að síðan hann kom hafi verið hikað við að taka inn skip vegna veðurs. Með komu hans skapaðist ómetanlegt öryggi við að taka skip inn í höfnina, bæði við að koma um borð í þau hafnsögumanni og snúa þeim inn í höfninni og aðstoða þau að bryggju. Gagnvart þjónustu Lóðsins við bátaflotann held ég að enginn sé lengur í vafa um nauðsyn á komu hans hingað og nauðsyn þess að hann var hafður þetta stór. Annars er það kannski ekki mitt að dæma um þetta, það er reynsla sjómannanna sem notið hafa hjálpar hans í gegnum árin sem fellir dóminn, en margar ferðir höfum við farið saman ýmissa erinda og okkur báðum fylgt mikil gæfa í þessum ferðum.
Einar, þér finnst þessi spurning mín kannski skrýtín, en ég spyr samt: Hefur tuttugu og tveggja ára samspíl, þitt og Lóðsins, ekki skapað á milli ykkar næma strengi?
Jú, Siggi. Það þarf ekki að lýsa fyrir þér því sambandi sem verður milli báts og manns á svo löngum tíma. Í þessu tvennu býr ein sál og þeir strengir sem tengja þá saman eru svo næmir að þá skilur enginn nema sjómaður. Svo er meira í þessu sambandi, það eru tengslin við þá menn sem með manni hafa starfað. Ég skal nefna til dæmis að á Lóðsinum hafa aðeins verið tveir vélstjórar síðan hann kom. Þeir eru Sigurður heitinn Sigurjónsson, sem var til ársins 1977 en þá tók Einar Hjartarson við. Þá hafði Einar leyst Sigga af, má segja frá byrjun. Það eru mikil og sterk tengsl milli mín og þessara manna og ég á þeim margt að þakka í gegnum tíðina. Sama er með áhöfnina á grafskipinu, sem alltaf hefur mátt kalla til þegar á hefur þurft að halda. Við erum búnir að standa marga vaktina saman við Beggi frá Garðstöðum. Þessi ár hefur skapast sterkt vináttusamband milli mín og þessara manna, sem gera þá strengi næmari sem tengja mig við Lóðsinn og starf mitt á honum.
Öryggismál sjómanna hafa alla tíð verið ofarlega í þínum huga og þær stundir ótaldar sem þú hefur eytt í þau mál. Varst þú ekki lengi í stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja?
Jú, mér hafa alla tíð verið ofarlega í huga öryggismál sjómanna og mikið um þau hugsað. í stjórn Björgunarfélagsins var ég í fjölda ára, en man ekki hvað lengi, en ég hætti í stjórninni 1982, en er ennþá starfandi í Björgunarfélaginu. Ég var fyrstu árin, ásamt Kristni Sigurðssyni, í stjórn áhaldanefndar félagsins, en hún sá um viðhald á björgunartækjum og hélt allar björgunaræfngar sem haldnar voru á vegum félagsins. Ekki veit ég hvað mörgum línubyssuskotum ég hleypti af á þessum árum, en þau eru mörg. Mjög gott samband hefur verið á milli mín og þessa félags og á ég alltaf tiltækt gott lið frá því ef á þarf að halda gagnvart Lóðsinum.
Það væri hægt að hafa langt samtal um öryggismál, en það gerum við ekki núna. Ég fagna innilega þeim stórkostlegu framförum sem orðið hafa í öryggjsmálum sjómanna frá því að ég byrjaði að stunda sjóinn. Þar mætti margt telja upp, en ég nefni sem dæmi Sigmundsgálgann, sem fullkomnaði þá byltingu sem varð með komu gúmmíbátanna, neyðarsendana sem nú er búið að lögskipa í þá o.fl. o.fl. Í dag þekkjum við og höfum reynt þá stórkostlegu möguleika sem þyrlurnar gefa til björgunar og margt annað gæti ég talið upp sem ég fagna í þessum efnum.
Nú ert þú fæddur og uppalinn á Seyðisfirði, en í dag teljum við þig Vestmannaeying og erum stolt af. Ertu sáttur við skiptín og lífshlaup þitt hér í Eyjum?
Já, ég er mikið vel sáttur við allt saman. Hingað sótti ég mína dásamlegu konu. Hér höfum við búið alla tíð að undanskildum þessum dögum í gosinu. Hér höfum við átt og alið upp okkar börn og átt hér dásamlega daga. Ég met Vestmannaeyjar mikils, hvernig ætti ég að geta verið annað en sáttur við guð og menn.
Í lokin á þessu spjalli okkar bið ég fyrir þakklæti til allra minna samstarfsmanna og Vestmannaeyinga alla fyrir gott og ánægjulegt samstarf og samveru og bið algóðan guð að halda verndarhendi sinni yfir okkar fögru eyju og íbúum hennar ókomin ár.
Sigurgeir Ólafsson