Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Þegar við fundum Klöppina

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum:


Þegar við fundum „KLÖPPINA”


Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum, formaður á m/b Hansínu.

Þó að liðin sé nú meira en hálf öld síðan ég fór þennan róður er hann mér enn í fersku minni frá upphafi til enda og tel ég hann eina af mínum ánægjulegustu sjóferðum. Ég ætla því að segja hér frá honum eflir minni og þeim skrifuðum heimildum, er ég hefi um hann í mínu róðra- og fiskatali.

Vertíðina 1927 munu hafa verið gerðir út frá Eyjum yfir 80 mótorbátar. Þeir voru allir með línu framan af vertíð eða þar til loðnan gekk á miðin, en þá voru tekin þorskanet og verið með þau fram að vertíðarlokum. Þegar loðnan var komin um allan sjó fékkst aldrei fiskur á línu, því að þá þekktist ekki að beita loðnunni og var það ekki fyrr en löngu seinna sem byrjað var á því og mokfiskaðist þá oftast á hana.
Þessa vertíð, 1927, var ég formaður með m/b Hansínu Ve 200, sem var 11,53 rúmtonn að stærð, með 22 hestafla Alfavél, tveggja strokka. Ég átti 1/5 hluta í bátnum og var þetta fimmta vertíðin mín með hann. Hansína var mjög góður sjóbátur. Hún var tvístefnungur, súðbyrt úr fimm kvart tommu (1 1/4 tommu) þykkri eik, smíðuð sumarið og haustið 1916 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ og fleirum undir Skiphellum. Hansína tók 17 til 1800 af venjulegum Banka (Eyjabanka) netafiski í báðar lestar, þar af um 200 fiska í afturlest, sem var aftan við vélarhúsið. Með þennan farm var báturinn vel fær í venjulegum sjóferðum., þó ekki væri þá alltaf logn og sléttur sjór fremur en nú. Í hagstæðum vindi voru ætíð notuð seglin. Á flestum bátum voru menn þá ótrúlega fljótir og samtaka við að heisa og slaka niður seglum og gera utan að þeim af leikni og kunnáttu.
Þessa vertíð voru með mér á Hansínu eftirtaldir menn: Hjörtur Einarsson frá Geithálsi Vestmannaeyjum vélarmaður, Guðni Grímsson frá Nýborg Stokkseyri háseti, Ólafur Gíslason Björk Sandvíkurhreppi háseti, Sölvi Elíasson frá Stykkishólmi háseti, Ágúst Þorvaldsson Brúnastöðum Hraungerðishreppi beitningarmaður, Grímur Grímsson Haga Vestmannaeyjum, Ísleifur Pálsson Ekru Rangárvöllum beitningarmaður.
Allt voru þetta úrvalsmenn að dugnaði og góðri viðkynningu. Við byrjuðum vertíðina föstudaginn 21. janúar og fórum 28 línuróðra til 15. marz að netin voru lögð „undir sandi”. Gæftir á línuvertíðinni hafa því mátt kallast góðar. Svokallaðir kvöldróðrar byrjuðu óvenju snemma þessa vertíð eða fyrstu dagana í marz.

Hansína Ve 200 að koma að undan sandi 7. mars 1924 með 1564 fiska innanborðs. Ljósm.: Lárus Árnason frá Búastöðum.

Burtfarartími báta til línuveiða var þá kl.4 eftir hádegi, þessu var breytt tveimur árum seinna og tímanum seinkað til klukkan átta að kvöldinu. Allir bátar lágu þá við festar úti á Botni (innri höfn) og mátti enginn sleppa festum fyrr en burtfararmerkið var gefið. Formaður Gæslunefndar eða einhver af þeim fjórum samnefndarmönnum hans, sem kosinn hafði verið „blússgjafi" fyrir þá vertíð, brá á lofti fiskistjakanum með áhnýttu flaggi eða dulu, svo að sjá mátti frá öllum bátaflotanum. Á næturtímanum, brottfarartíma línubáta á nóttunni, var olíublautum tvisti vafið á fiskgogg og goggnum brugðið á loft sem logandi kyndli, þegar blússið var gefið. Eftir að bátar fóru að bíða „tímans” utan hafnargarða, á víkinni, var blússið gefið með rafljósi á Skansinum. Bæjarstjórnin kaus fimm bátaformenn í Gæslunefnd í byrjun hverrar vetrarvertíðar og tilnefndi formann hennar. Nefndinni var ætlað að gæta þess stranglega að Fiskveiðisamþykkt Vestmannaeyja væri ekki brotin. Mig minnir, að flestum hafi þótt fremur slæmt að vera kosinn í þessa nefnd, þar eð það var ógaman að þurfa að kæra góðan kunningja, sem gat þó komið fyrir.
Það mun hafa verið 8. eða 9. marz þessa vertíð, að m/b Sigríður Ve 240 fékk óvenjumikinn afla í einum línuróðri. Talað var um tvö þúsund fiska, sem mörgum þótti þó ótrúlega há tala. Ekki fylgdi það fréttinni hvar báturinn var á sjó, nema að hann hefði verið einskipa og enginn hefði séð til ferða hans. Giskað var á, að m/b Sigríður hefði verið langt í vestur frá Einidrang.
Formaður með m/b Sigríði var Eiður Jónsson, harðsækinn og góður fiskimaður. Hann var norðlendingur að ætt, en kom sjómaður á vetrarvertíð til Eyja um 1920, ásamt mörgum fleiri norðlendingum, sem á þeim árum sóttu hingað til vetrarvertíðarstarfa. Eiður var tengdasonur Vigfúsar Jónssonar í Holti og andaðist á besta aldri á Vífilstöðum um 1940.
Fimmtudaginn 10. mars var norðan strekkings stormur fram undir morgunn, en fór þá lygnandi og um hádegi var komið blanka logn og sléttur sjór. Ekki réru nema fáir bátar á næturtímanum, sem var kl. 3.30 eftir miðnótt. Flestir formenn, sem voru í landi hugðust því fara í róður á kvöldróðrartímanum, sem var eins og áður segir kl. 4 eftir hádegi, og ætluðu þeir að liggja úti, sem kallað var. Róið var á „dýpri mið”, ef farið var að:„Holshrauni”, „Opinn Skógarfoss”, „Út á Landssuður" (S og SV af Ledd), „Að Stórahrauninu”, „Suður og vestur af Skerjum” (Súlna- og Geirfuglaskeri), „Hryggjum” og „Bræðrabreka”.

Eiður Jónsson, formaður á m/b Sigríði.

Öll fiskimið frá Súlnaskeri að telja voru þá kölluð einu nafni „Suðursjór” og t.d. tekið þannig til orða „Þeir fiskuðu vel í Suðursjónum". Miðin við Holshraun og þar austur frá voru kölluð „Í Fjallasjónum” og þá t.d. sagt: „hann var tregur hjá þeim í Fjallasjónum”. Holtshraun mun vera upprunalegra og réttara nafn á Holshrauni og fiskislóðin kennd við prestsetrið Holt undir Eyjafjöllum. Ég nota hér myndina Holshraun eins og miðið var kallað í minni tíð. Fáeinir menn voru þá farnir að leggja línu skammt V og SV frá Einidrang og í NV frá Þrídröngum og taldist það einnig til djúpmiða.
Þegar lagt var að kveldi til á heimri miðum svo sem við „Rófu”, „Sandahraun”, „Mannklakkshraun”, ,,í Leirinn", „Við Ledd”, „Miðin”, „Þríhamradjúp”, „klakka" og „Helliseyjarhraun”, var venjan, þegar veðurútlit var gott, að þeir bátar, sem lögðu á þessum miðum, héldu heim til hafnar, þegar búið var að koma línunni í sjóinn, en fóru svo af stað aftur með morgunbirtunni til að draga hana. Á þessum árum var línulengdin á hverjum bát venjulega 12 bjóð, 6 strengja, fyrri part vertíðar fram í byrjun marsmánaðar, en þá bættu flestir við tveimur til fjórum bjóðum, svo að þau urðu 14 til 16 út línuvertíðina. Á flest öllum bátum voru þá svo kallaðir „stubbar” og gátu þeir verið eitt til tvö bjóð samanlagt. Vélamenn voru þá á flestum bátum ráðnir upp á 4 til 5 strengi og voru það þeirra kjör. Skyldu þeir leggja sér til línu og beitu, en hafa svo allt sem á „stubbinn” kom.
Á mörgum bátum höfðu hásetar 2 strengi sameiginlega og voru það hlunnindi fram yfir fastráðið kaup. Sá maður, sem lagði línuna hafði heilan streng fyrir það verk, því að fljótir og góðir línulagningarmenn voru mjög eftirsóttir í skiprúm, en línulögnin þótti eitt versta og erfiðasta verkið í hverjum línuróðri.
Þá voru og fáeinir menn, sem gengu með skipum sem kallað var. Þeir voru hvergi fastráðnir í skiprúm, en fengu að fara róður og róður með bátum og til þeirra var leitað ef hásetar urðu veikir eða handlama. Margur sjómaðurinn fékk graftarígerðir í hendur á þessum árum, því að öllum fiski urðu menn þá að henda berhentir úr bátunum upp á bryggjur, en fiskstingir komu ekki í notkun til þeirra hæginda fyrr en um og eftir 1930.
Þessir lausamenn höfðu 4 til 5 strengi og allt sem á þá kom. Þá áttu nokkur gamalmenni sinn línustreng, sem þau létu beita og báðu formenn á bátum að taka af sér og var því víst sjaldan neitað. Margir bátaeigendur litu „stubbana” óhýru auga.
Þegar komið var út úr Leiðinni eftir brottfararmerkið kl.4 þennan umgetna dag, fimmtudaginn 10. mars 1927, fóru bátarnir fljótlega að dreifast, og hver og einn tók þá stefnu, er formenn þeirra höfðu hugsað sér. Sumir héldu suður með Urðum, djúpt og grunnt, aðrir héldu innan og sunnan við Bjarnarey og nokkrir fóru fyrir Klettinn og vorum við á Hansínu í þeirra hópi. Ég hafði hugsað mér að fara langt vestur fyrir Einidrang, en þar hafði ég aldrei lagt línu áður og potaði því algjörlega blint í sjóinn með það.
Þegar við komum vestur úr Hrauneyjarsundi, var tekin stefna laust sunnan við Einidrang og vorum við syðstir af þeim bátum, sem fóru fyrir Eiðið. Hinir héldu allir á milli Dranga og innan við Þrídranga. Frá Smáeyjum að Einidrang vorum við 1 klst. og 12 mín. á fullri ferð í þessari rjómablíðu. Hansína hafði fyllilega meðalgang í Eyjaflotanum á sléttum sjó, en ekki í mótvindi.
Er komið var að Einidrangi var „Latur í mitt sund”, þ.e. mitt á milli Faxa og Elliðaeyjar. Ég stefndi því undan því miði og stýrisstrikið var V að N 1/2 N. Sama blíðviðri var og ekki sást skýskaf á lofti.

Séð austur Faxasund. Frá vinstri: Faxasker, Latur, Elliðaey og Faxi.Ljósm: G. Árm. Eyjólfss.

Þegar stímað hafði verið klukkutíma og 40 mínútur frá Einidrang, hægði ég á vélinni og fór nú að líta í kringum mig og athuga hvort ég gæti ekki náð glöggum og góðum miðum, þar sem við vorum nú staddir og hugmyndin var að láta endabaujuna fara og byrja að leggja línuna. Satt best að segja vissi ég þó hreint ekki hvert ég var að fara og datt meira en í hug að snúa þarna við og leggja línuna á heimri miðum, þar sem ég þekkti mig. Það yrði ekki gott til afspurnar fyrir ungan formann að ganga út í hreina óvissu og leggja máske alla eða meiri part línunnar á apalhraun og koma svo línulítill og fisklaus eða með keilurusl að landi í þessari blíðu. En sem fyrr sagði átti ég sjálfur 1/5 hluta í útgerðinni og fannst því að ég offraði jafn miklu frá sjálfum mér og öðrum við að kanna og reyna óþekktar slóðir.
Ég lét því slag standa og byrjaði að leggja. Miðin sem ég tók þá voru þessi: „Þrídrangar vestan til á Eyjafjallajökul” og „Hellutáin á Stórhöfða við Álsey að norðan". Ég stýrði alla línuna út eitt beint strik í kompás vestur. Engir togarar eða önnur fiskiskip voru þarna í okkar augsýn, utan einn heimabátur það langt í norður frá okkur, að við þekktum hann ekki. Seinna fréttum við, að það hafði verið m/b Kap Ve 272, sem Stefán Björnsson í Skuld var þá formaður með. Klukkan um hálf níu um kvöldið var lokið við að leggja línuna. Línulengdin var 14 sex strengja bjóð eða 84 sextíu faðma strengir. Þá var hafður faðmur á milli tauma, svo að 60 önglar voru á hverjum streng. Á línunni voru því samtals rúmlega 5000 önglar. Línan, sem notuð var á þessum árum var þriggja og hálfs og fjögurra punda lína, sem kallað var. Þvermál þessara línu var ca. 4-5mm og var hún úr hampi. Á haustin, við undirbúning vetrarvertíðar, var línan oftast nær koltjörubikuð upp úr sjóðandi tjöru og látin þorna vel þar til hægt var að setja tauma upp á hana.
Línan var látin liggja í tvo klukkutíma, sem venjulega þóttir nægur legutími og byrjuðum við því línudráttinn um kl. hálf ellefu fyrir miðnætti. Veðurblíðan var sú sama, stillilogn. Bjart var af tungli og hafflöturinn eins og glampandi spegill yfir að líta í næturkyrrðinni. Við festum olíulugtartýru utan á öldustokkinn framan við línurúlluna til að lýsa á línuna, því þá var ekki rafljósunum til að dreifa.
Aldrei, hvorki fyrr né síðar á mínum sjómannsferli beið ég með jafnmikilli eftirvæntingu og kvíða að draga veiðarfæri af sjávarbotni og í þetta sinn. Ekki þurfti ég að áminna rúllumanninn, Hjört á Geithálsi, að draga varlega, því það var vani hans að leggja vinstri hönd á og athuga þyngsli, þegar dregin voru færi, hvort sem þau voru á enda eða miðbóli.
Þegar stjórinn kom upp í rúllu, gafst á að líta og glórði heldur betur, í það minnsta andinn, prikið og strollan, eins og þeir komust að orði á áraskipunum, þegar mikil ástaða var á línunni og hún var gráseiluð af fiski. Enginn okkar lét þó sérstaka gleði frá sér heyra, því þeir hafa víst hugsað það sama og ég, að þetta væri bara „stjóragleypa", en svo var það kallað á sjómannamáli, ef vel stóð á fyrsta streng eða hálfu bjóði, þegar byrjað var að draga, en minnkaði síðan, svo að nauðatregt varð og ekkert fiskirí, en þetta varð ekki raunin á hjá okkur í þessari sjóferð.

Ingólfur Arnarson Ve 187. Ingólfur er að koma úr róðri á línuvertíð1926.

Á fyrsta bjóðinu, sem við drógum, voru 92 ríga stórir þorskar, og fór fiskitalan heldur vaxandi með hverju bjóði, sem dregið var. Þegar við höfðum dregið 6 bjóð fór að koma vargstór blöðrukeila með þorskinum, svo að ekki var um að villast að dregið var af ósærðu hrauni, þar sem ekki hafði verið lögð lína áður og nú mátti heita að línan væri seiluð af ríga stórum þorski og keilu, sem var á stærð við meðal stóran þorsk.
Þegar við höfðum dregið 7 bjóð slitnaði línan, en okkur heppnaðist að finna næsta ból, enda stutt í belginn eða rúmlega hálf bjóðlengd. Báðar álmur línunnar komu upp með stjóranum og settum við þá reyrstangar bauju á fasta enda línunnar.
Ekki höfðum við nema eina reyrstöng og var hún venjulega höfð á miðri hnunni. í þá daga voru notaðir tjargaðir strigabelgir og voru bólfærin undin upp á þá. Þegar línan var lögð var belgjum kastað út með ávöfðum færunum, sem þeir veltu svo af sér. Þessir belgir vildu oft gefa vind og varð þá að blása þá upp með því að setja munninn að tjörugu tappagatinu á belgbotninum, sem var úr tré. Ekki þótti það mjög lystugt eða gott fyrir þá sem voru sjóveikir.
Þegar við höfðum dregið inn lausa endann, tókst fjótlega að finna reyrstangarbaujuna. Við höfðum þá ekki dregið nema rúman streng, þegar ennþá slitnaði og nú heppnaðist mér ekki að finna meira, þó að ódregin væru 5 1/2 bjóð með 4 bólum á. Við biðum svo birtunnar þar til að við sáum Einidrang og stímuðum langleiðina heim að honum. Ég tók svo strikið þaðan út aftur og komum við þá beint á holbaujuna á innenda línunnar, en þá voru svonefndar holbaujur á báðum endum línunnar.
Á innendanum var svipaður afli og verið hafði. Þegar við höfðum dregið inn síðasta bólið og ódregnir voru 8 strengir voru báðar lestar fullar. Þá slitnaði línan rétt neðan við rúllu og var að sjá hvítur stólpi niður eins og þegar mikil ístaða er í þorskanetum. Ég var þá sjálfur við rúlluna með gogginn og þóttist draga mjög varlega, á hægari hraða dráttarspilsins - netahraðanum-, en nú vorum við komnir á hraunið, það sýndi keilan. Aldrei hefi ég séð meira eftir að tapa veiðarfærum en þessum 8 línustrengjum í þetta sinn.
Þennan róður vorum við ekki nema fjórir á Hansínu, því að Stefán Guðlaugsson í Gerði, sem þessa vertíð var formaður með m/b Auði Ve 3, fékk Guðna Grímsson lánaðan til að leggja línuna á Auði, þar eð hans eini lagningarmaður var lasinn, en hjá mér voru þrír góðir lagningarmenn, Hjörtur, Guðni og Sölvi. Við komum ekki að úr þessum róðri fyrr en um hádegi, en höfðum flot upp að endanum á Bæjarbryggjunni, sem ekki var nærri alltaf á lágsjávuðu. Þetta flýtti mjög fyrir og létti löndunina. Ég man, að ég fór í afturlestina og fleygði upp úr henni á þilfarið. Ég bað Guðjón frænda, föðurbróður minn, sem átti 1/5 hluta í Hansínu, að skipta aflanum á bryggju, en það var þá verk formannsins á hverjum Eyjabát. Hann varð við þeirri bón minni, en fannst það ekki gott að lána minn besta mann á annan bát. Var svo ekki meira um það rætt, því allir vorum við í glöðu og góðu skapi yfir þessum mikla afla.

Vestmannaeyjahöfn. Bátar við ból á Botninum 1920-1930.

Fiskatalið úr þessum róðri var 1265 þorskar og um 200 keilur. Við höfðum því fengið fisk á nærri því þriðja hvern krók.
Allur var þorskurinn jafn stór eins og alstærsti hraunafiskur á netavertíð. Það var ekki búið að beita nema 3 bjóð, sem venjulega voru kölluð landbjóð, þegar við komum að, en það var föst venja og nær ófrávíkjanleg að beita ekki meira fyrr en báturinn kæmi að landi. Þessi venja hélst þangað til lagningsrennan kom til notkunar og farið var að beita í stampa vertíðarnar 1928 og 1929. Eftir það var fljótlega farið að nota tvær setningar (ganga) af línu og beitt stanslaust þar til lokið var hverju sinni.
Nú var heldur en ekki tekið til hendi við beitninguna á Hansínu og tveir fljótir beitningarmenn fengnir til viðbótar, svo við töpuðum ekki róðri. Við náðum þó ekki róðrartímanum og urðum rösklega klukkutíma á eftir honum úr höfn með 12 bjóð beitt, því ekki vannst tími til að hafa þau 14.
Það var auðvitað ætlun mín að leggja línuna á sömu miðum og róðurinn áður, en ekki lánaðist það, því þegar við vorum komnir langleiðina að Einidrang fór að þykkna í lofti með sunnan golu og suddaregni, svo að ekki sá til miða. Þegar við höfðum stímað einn og hálfan tíma frá Einidrang komum við að tveimur endabaujum og skammt norðan við þær byrjuðum við að leggja. En nú varð ég að stýra línuna út í kompás V að N til þess að lenda ekki yfir línum annarra. Við lentum þar með á leirbotni og krossfiskableyðum og aflinn varð aðeins 140 fiskar.
Fáir bátar fiskuðu vel þennan róður, nema vinur minn Guðjón Tómasson, sem var þá formaður með M/b Ingólf Arnarson Ve 187, og fékk hann um 800 fiska. En Guðjóni sagði ég rétt og satt frá hvar við vorum á sjónum daginn áður, en aðrir og víst flestir, sem spurðu mig þess sama fengu um það loðin svör.
Um sumarið spurði svo Þorsteinn í Laufási mig um þessa fiskislóð, en hann stundaði þá lúðulínuveiðar eins og hann gerði í fleiri sumur. Ég sagði Þorsteini það sem ég vissi og þau mið, sem ég hafði tekið á hrauninu. Það var Þorsteinn í Laufási, sem gaf þessu fiskimiði nafnið „Eyyjólfsklöpp”, sem síðar var stytt í orðið „Klöpp”. Þorsteini blessuðum voru hæg heimatökin, því króin hans, sem stóð norðan við Strandveginn var byggð yfir stórri grjótklöpp, sem kölluð var Eyjólfs-klöpp.
Eftir vertíðina 1927 var „Klöppin” mjög eftirsótt fiskimið, var svo um fleiri tuga vertíða og er jafnvel enn.
Fljótlega komust menn upp á að leggja með hrauninu að norðan og var línan þá lögð í kompás NV, því að hraunið liggur þannig. Besta lögnin þótti að hafa Stórhöfðavitann eina alin til hálfan faðm lausan við Álsey að norðan og leggja undan því miði.
Eftir að „Klöppin” varð alþekkt og eftirsótt fiskislóð gátu aðeins gangmestu bátarnir sótt þangað og náð þar góðri lögn. Frá Smáeyjum að „Klöppinni” voru um 18 sjómílur.

Með góðri kveðju og heillaóskum til allra sjómanna.
Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.