Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Róður árið 1909

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Páll Scheving:

Róður árið 1909


Á fyrstu árum vélbátaútgerðar hér í Eyjum, voru bátarnir smáir og vélar afllitlar. Flestir þeirra, sem tóku að sér að gæta vélanna, höfðu litla eða enga tilsögn fengið, en urðu að mestu að notast við brjóstvitið eitt. Það komu því líka oft fyrir gangtruflanir og óhöpp, og varð stundum enginn til frásagna um sum þeirra.

Fyrir vetrarvertíðina 1908 bættust 17 vélbátar hér við vertíðarflotann. Flestir voru þessir bátar rúmar 7 rúmlestir að stærð með 8 hk. vélum; sá stærsti var rúmar 10 smálestir, en sá smæsti rúmar 5 að stærð. Einn af þessum litlu bátum hlaut nafnið Haffrú VE 122, og var 7,29 rúmlestir að stærð, með 8 hk. Dan-vél.

Eigendur Haffrúarinnar voru 8, og voru það þessir menn: Vigfús P. Scheving, Vilborgarstöðum, 1/6; Ágúst V. Scheving, Vilborgarstöðum, 1/6; Einar Sveinsson, Þórlaugargerði 1/6; Sveinn P. Scheving, Steinsstöðum, 1/6; Halldór Brynjólfsson, Gvendarhúsi, 1/12; Jón Jónsson, Gvendarhúsi, 1/12; Erlendur Árnason, Gilsbakka, 1/12; og Jón Guðmundsson, Svaðkoti, 1/12.

Sveinn P. Scheving
Ágúst V. Scheving
Hjörtur Einarsson

Formaður með Haffrúna var ráðinn Ágúst V. Scheving, en það kom í hlut föður míns, Sveins P. Scheving, að taka að sér að gæta vélarinnar.
Tveir hásetar á Haffrúnni, sem hér koma við sögu, voru Hjörtur Einarsson, Þórlaugargerði (síðar Geithálsi) og Friðrik Guðmundsson, Batavíu. Friðrik er enn á lífi, þegar þetta er skrifað, og dvelur á Elliheimilinu Grund í Reykjavík. Hvort skipverjar voru fleiri man ég ekki.

Faðir minn hafði ekki áður róið á vélbát og engin kynni haft af vélum. Hann hafði í rúman áratug verið háseti hjá Hannesi lóðs á Gideon, og átti hann góðar minningar, sem hann oft minntist, frá samverunni með ágætum félögum á því fræga skipi.
Faðir minn var mjög lagtækur maður og hafði mikinn áhuga á öllum nýjungum, t. d. var oft til hans leitað með bilaðar klukkur til lagfæringa, en úrsmiðir voru þá ekki fjölmenn stétt. Var tekið til þess, hvað honum tókst oftast vel að lagfæra bilanirnar.

Strax eftir að Haffrúin kom var hún sett upp í Hrófin. Fóru þeir faðir minn og Ágúst þá að taka vélina í sundur, til að kynnast þessu undratæki. Svo kom að því að setja vélina aftur saman. Gekk það vel þar til að þeir ætluðu að setja niður knastásinn með olíudælu og gangráði. Þá fundu þeir fyrir því, að þeim hafði láðst að leita að merkjum eða merkja saman tönn, er grípa átti í tennurnar á hjóli sveifarássins.
En þar fundu þeir tvær tennur merktar. Þegar þeir höfðu lokið við að setja vélina saman og setja átti hana í gang, reyndist knastásinn skakkt innstilltur. Var þá horfið að því ráði að breyta stillingunni um eina tönn í einu, og að lokum kom að því, að vélin fór að snúast eðlilega.
Ég heyrði föður minn segja frá því að þessi skekkja í samsetningu vélarinnar og leitin að feilinu hefði orðið sér dýrmæt reynsla, sem hann hefði búið vel að í starfi sínu við vélgæsluna.

Mig minnir, að það hafi verið á vertíðinni 1909, sem atburður sá gerðist, sem er tilefnið að þessari frásögn. Þessa vertíð var brennsluolían, sem vélarnar notuðu, ekki af bestu tegund. Urðu margir fyrir vélastoppi og róðratapi vegna þess að sót vildi myndast í innspýtingaroddi og glóðarhaus, og líka kom fyrir að bullurnar urðu fastar.
Faðir minn tók eftir því, að væri glóðarhausinn alveg glóandi heitur, var gangur vélarinnar allur léttari og eðlilegri. Hann hafði þess vegna þann hátt á að láta loga á prímuslampanum þegar vélin var í keyrslu, og varð hann aldrei fyrir neinu óhappi af óeðlilegu sóti.
Að líkindum hefur vélamanni, strax frá byrjun, verið greitt eitthvað fyrir að hugsa um vélina. Var það þó víst af sumum varla talið launavert starf, „þeir hefðu þó alltaf hlýjuna fram yfir hásetana." Faðir minn hafði afla af hálfum streng fyrir vélamannsstarfið, á móti Hirti Einarssyni, sem líka hafði afla af hálfum streng fyrir að leggja línuna.

Friðrik Guðmundsson

Það var seinnipart vertíðar, að þeir á Haffrúnni fóru í róður. Veður var frekar gott, suðaustan kaldi og dálítil alda. Var línan lögð við Helliseyjarhraunið og látin liggja venjulegan tíma. Eins og áður var getið var tals-erð alda, og þegar farið var að draga línuna, urðu þeir fyrir því óhappi að línan lenti í skrúfunni og vélin stöðvaðist. Faðir minn setti vélina strax aftur í gang, margreyndi að tengja við skrúfuna, en það bar ekki árangur, skrúfuaxelið var alveg fast. Vélina lét hann samt vera í gangi.
Voru nú sett upp segl og sigling hafin til lands. Þeir Friðrik og Hjörtur reyndu strax að skera úr skrúfunni með þar til gerðum skrúfuhníf, og eftir að farið var að sigla heim bundu þeir sig við rekkverkið og héldu áfram við þær tilraunir. Ágúst ætlaði að sigla bátnum heim fyrir austan Eyjar. En eitthvað hefur farið öðruvísi en hann reiknaði með, því báturinn lenti í lognhviðum af Suðurey, og bar bátinn fljótlega nær og nær eyjunni og var ekkert sýnna en að hann mundi fljótlega reka upp í brimið við bergið. Ágúst, sem stóð við stýrið, segir þá við föður minn, sem var þarna hjá honum: „Stoppaðu rokkinn, Sveinn. Það þýðir lítið að láta hann vera að gelta þetta lengur." Faðir minn svaraði þá:
„Vélargreyið er og hefur verið í lagi, þó það hafi ekki alltaf verið álitið neitt þýðingarmikið eða mikils virði." Fór hann síðan niður í vélarrúmið og ætlaði að stöðva olíudæluna. En um leið og hann gerir það, er eins og honum sé sagt að tengja skrúfuna, og hann tók eftir því, að skrúfuásinn mjakaðist lítið eitt um leið og vélin stöðvaðist. Hann setti því vélina strax aftur í gang og gaf henni fulla olíu og tengdi við skrúfuásinn. Og nú stöðvaðist vélin ekki. Að vísu gekk hún mjög hægt fyrstu snúningana, en reif svo úr sér og þar með var þeim borgið.
Nærri lá, að þarna yrði stórslys. Báturinn var alveg að lenda upp í bergið, þegar hann lét að stjórn fyrir vélaraflinu. Dugnaður þeirra Friðriks og Hjartar við að skera úr skrúfunni svo um hana losnaði, var árangursríkur.

Þau voru mörg slysin, sem hentu þessa litlu báta á fyrstu árum þeirra hér. Margir lentu í hrakningum og erfiðleikum, og sumir komu aldrei aftur. Á sjómannadegi minnumst við þessara manna, feðra okkar og frænda, er á þessum litlu bátum drógu þá björg í bú, er breytti þessu fámenna sjávarþorpi í blómlegt bæjarfélag.