Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Fyrsta ferð mín í verið til Vestmannaeyja fyrir hálfri öld

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Fyrsta ferð mín í verið til Vestmannaeyja fyrir hálfri öld


. . . Þá voru Vestmannaeyingar enn sem fyrr þrautgóðir á raunastund og orðstír sá er þeir gátu sér mun aldrei deyja heldur lifa þeim og íslenzku þjóðinni til sæmdar. . .

Frá aldaóðli hefur það þótt frami ungum mönnum á Íslandi að fara í verið eins og kallað var. En fram á síðustu ár var það kallað að fara í verið, er ungir menn víðsvegar af landinu fóru til vertíðarstarfa og sjóróðra í verstöðvum sunnanlands á vetrarvertíð.

Ágúst Þorvaldsson.

Eins og fram kemur í fróðlegri grein eftir Ágúst Þorvaldsson bónda og fyrrum alþingismann var ferðin í verið og dvölin þar mönnum góður skóli og lífsreynsla. Frá fyrstu tíð hafa margir okkar ágætustu og merkustu manna stundað sjóróðra og sjómennsku á þroskaárum sínum. Má hér nefna marka þekkta menn í sögu þjóðarinnar eins og Jón Vídalín, Skálholtsbiskup frá 1698-1720, frægan mælsku- og lærdómsmann, sem reri tvær vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum á sínum æskuárum. Þá má einnig telja Jón Steingrímsson, eldklerkinn fræga, sem var formaður út frá Mýrdalssandi í fimm ár.
Svo að einhverjir séu nefndir frá seinni tíð, má telja höfund meðfylgjandi greinar og Ingólf Jónsson fyrrverandi ráðherra, sem báðir reru á vetrarvertíðum hér í Vestmannaeyjum. Ágúst Þorvaldsson er fæddur á Eyrarbakka 1. ágúst 1907. Hann sat á alþingi samfleytt í 18 ár, eða á 19 löggjafarþingum sem fulltrúi Árnesinga og Suðurlandskjördæmis. Ágúst hóf ungur búskap, árið 1932, að Brúnastöðum í Hraungerðishreppi, í Árnessýslu, og býr hann þar stórbúi með sonum sínum. Hann er kvæntur Ingveldi Ástgeirsdóttur frá Syðri-Hömrum i Holtum. Hafa þau orðið kynsæl og eiga hóp myndarlegra barna, sem eru uppkomin.
Á búi Ágústs að Brúnastöðum eru 76 nautgripir í fjósi; þar af 56 mjólkurkýr, en sauðkindur á vetrafóðrum eru 145 auk 10 hesta.
Ágúst Þorvaldsson hefur látið mikið að sér kveða í málefnum sveitar sinnar og situr í stjórnum fjölmargra samtaka bændastéttarinnar. Eyjafólki hefur hann ávallt sýnt hina mestu tryggð og vinsemd síðan hann var hér á vertíð frá 1925 til 1936. Minnist hann æ síðan þessara ára með ánægju. Við þökkum Ágústi þessa skemmtilegu grein, sem bregður upp glöggri mynd frá liðinni tíð, ótrúlega erfiðum samgöngum og frumstæðum í þjóðfélagi sem var fyrir hálfri öld. Sendum við honum og fjöIskyldu hans kveðjur og árnaðaróskir.

Kirkjubær í Vestmannaeyjum 1920. Myndin er tekin skammt austan við Oddsstaði. Frá vinstri Yztiklettur, Norðurbærinn, hús Guðjóns Eyjólfssonar og Höllu Guðmundsdóttur, yzt til hægri sér á Kirkjuból. Í baksýn Múlinn, Eyjafjöll og Elliðaey.

Hálf öld — það hefði mér þótt langur tími að horfa fram á, þegar ég var unglingur, og varla hefði ég trúað því, að ég ætti eftir að lifa svo lengi. En nú, þegar ég lít til baka og minnist þess, að hálf öld er liðin síðan ég fór í verið í fyrsta sinn, þá finnst mér stutt að horfa um öxl, og þótt ég sé orðinn 67 ára gamall þá langar mig samt enn til að lifa nokkur ár í viðbót og taka ofurlítinn þátt í starfi þjóðar minnar á hinni hraðfleygu stund.
Ég var orðinn 17 ára og vildi flýta mér að verða fullorðinn 67 ára gamall, þá langfeðranna, sem réðust á víkingaskip og í herferðir með konungum og jörlum til að leita sér fjár og frama, hún lifir enn í íslenska kynstofninum og eitthvert brot af henni bjó einnig í mér. En þegar ég var ungur voru fæstum aðrar leiðir færar til að svala útþránni en að fara í verið í leit að gulli og ævintýrum og í fjárleitir um fjöll og dali á afréttum á hausti. Flestir sveitapiltar fóru til sjávar strax og þeir höfðu aldur til. Búin voru óvíða stærri en svo, að aldrað fólk með aðstoð krakka og unglinga gat annast um gegningar og öll nauðsynleg búverk á vetrum, sérstaklega þegar daginn tók að lengja.
Úr því kom fram yfir áramótin fóru stórir hópar og langar lestir vermanna — sem fetuðu, ef færð var þung, í spor hvers annars — að sjást hér á þjóðveginum í Flóanum. Allir stefndu þeir í sömu átt, til vesturs. Vestur yfir Hellisheiði. Þeir komu úr V-Skaftafells- og Rangárvallasýslum hver með sína byrði á baki. Hægt en ákveðið sigu þessir hópar áfram hvernig sem veður var. Ef ár og lækir, sem víða var þá enn ekki farið að brúa, voru ekki á heldum ís, varð að vaða yfir slíkar torfærur. Stundum gátu t.d. Bakkárholtsá og Gljúfurholtsá í Ölfusi verið ferðamönnum erfiðar í leysingum og vatnavöxtum. Má þá geta nærri um hvernig það hefur verið að komast yfir hinar stærri ár í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum.
Man ég eftir einu atviki þar sem kunningi minn, ungur og röskur strákur, ofkældist svo hastarlega við að vaða árnar í Ölfusi milli skara eftir hláku, þegar við vorum á leið í verið, að hann varð að dveljast á spítala alla vertíðina.
Báðar þessar ár eru enn á sínum stað. En hvaða vegfarandi tekur nú eftir þeim? Oftast munu einhverjir hafa verið í hinum stóru vermannahópum, sem lestuðu sig eftir snæviþöktum veginum í skammdeginu og komu aldrei aftur til baka, því að þeir gistu hina votu gröf Ægis. Þeir voru líka margir, sem yfirgáfu átthaga sína fyrir fullt og allt og settust að í nýjum heimkynnum og hlutu þar gæfu og gengi.
Um það leyti sem ég varð 17 ára fór ég að tala um það við fóstra minn og húsbónda, að ég vildi komast til sjávar á vertíð og helst að fá skiprúm á mótorbát eins og þau skip voru þá nefnd, er gengu fyrir vélarafli. Heldur tók fóstri minn þessu seinlega, en fyrir þrábeiðni mína skrifaði hann um haustið útvegsbónda á Suðurnesjum, sem hann þekkti og bað han taka mig eða ráða í skiprúm. Eftir nokkurn tíma fékk hann bréf frá útvegsbóndanum, þar sem hann kvað nóg bjóðast af vonum mönnum og það vildi enginn taka óvanan ungling, sem óvíst væri hvernig reyndist. Þar með var ég dæmdur til að vera heima eða ráða mig fyrir gegningamann á einhvern sveitabæ eins og ég hafði gert veturinn áður, þar sem ég þrælaði alla daga fyrir sama og ekkert kaup.

Frá vinstri- Kirkjuból, hús Guðjóns Björnssonar og Ólafar Lárusdóttur, Björnsbær, hús Björns Guðjónssonar, að baki því húsi eru Staðarbæirnir, sér á Ólafsbæ. Smiðja Magnúsar Eyjólfssonar með þríhyrndu þaki, sem endar í reykháfi, þarna var áður Bænhúsið og síðar stóð þarna minnisvarðinn um Jón Þorsteinsson píslarvott. Yzt til hægri Suðurbærinn, sem Ísleifur Guðnason og Sigurlaug Guðmundsdóttir byggðu, en Þorbjörn Guðjónsson og Helga kona hans fluttu í árið 1919, er þau tóku við jörðinni. Í baksýn Elliðaey og Bjarnarey með Eyjafjallajökul að baki. Þarna var ógleymanleg sólarsýn og landslag að morgni dags.

Nú leið tíminn og komið var fram á jólaföstu. Þá var það dag einn, að góðkunnin okkar og heimilisvinur kom í heimsókn. Þessi gestur var lausamaður, en svo voru nefndir þeir menn, sem ekki voru ráðnir árshjú hjá bændum.
Maður þessi var hátt á fertugsaldri, hafði víða verið, þekkti marga og þótti séður í öllum viðskiptum.
Nú kvaðst hann ætla til Vestmannaeyja og vera þar á vertíðinni. Ég fór strax að öfunda manninn, því Vestmannaeyjar voru í mínum huga sá staður á landi hér, þar sem ég taldi eftirsóknarverðast að komast í skiprúm. Ég hafði heyrt svo mikið frá Vestmannaeyjum sagt, sjósókninni, aflasældinni, stórbrotnu landslagi og fegurð eyjanna. Allt þetta og margt fleira heillaði hug minn.
Ég tjáði gesti okkar, að ég hefði mikinn hug á því að komast til sjávar á vertíðinni, en það vildi mig víst enginn. Það hýrnaði heldur betur yfir mér, þegar gesturinn sagði að það væri velkomið að hann tæki mig með sér út í Eyjar og skyldi hann sjá um mig að öllu leyti. Hann kvaðst ekki trúa öðru en honum tækist að koma mér í skiprúm, þótt hann væri að vísu flestum ókunnur þar. Tók ég þessu boði fegins hendi, og var nú farið að prjóna sjóvettlinga og búa mig til ferðar, en fljótlega eftir áramótin skyldi haldið af stað í verið.
Mig minnir það hafa verið 6. eða 7. janúar 1925, sem ég lagði svo af stað. Sammæltist ég tveimur ungum mönnum til Reykjavíkur, en þeir ætluðu að róa á Suðurnesjum. Átti ég að hitta forsjármann minn í höfuðstaðnum og verða honum svo samskipa til Eyja. Burtfarardaginn fór ég af stað löngu fyrir birtingu gangandi með reiðingshest í taumi, sem við ferðafélagarnir þrír áttum að reiða farangur okkar á. Skyldi síðan hestinum komið austur aftur með ferðamönnum. Í klyfjum höfðum við tvö koffort, og átti ég annað þeirra, einnig voru pokar tveir með heyi handa hestinum í ferðinni. Voru þetta allfyrirferðarmiklar klyfjar og nokkuð þungar. Veður var gott, hæg kæla, skýjað loft, nokkur snjór á jörð og þæfingsfærð. Ekkert bar til tíðinda þennan fyrsta dag ferðarinnar, og tókum við okkur gistingu á Kolviðarhóli um kvöldið. Ekki voru þar aðrir næturgestir og var slíkt óvenjulegt. Við gerðum ráð fyrir að hefja ferð okkar af Hólnum seinni part nætur og fara þá alla leið til Reykjavíkur. Vissum við af allþungri færð og þótti því vissara að taka daginn snemma.
Áður en við gengum til náða var okkur tjáð, að á Kolviðarhóli væri geymt naut, sem endilega þyrfti að koma sem fyrst niður að Lögbergi. Vorum við beðnir um að teyma nautið með okkur þangað. Ekki var ég fús til að gera þetta. Bjóst ég við að nautið tefði ferðina, og lagðist illa í mig að fá þennan ferðafélaga. Það varð þó úr, að við lofuðum þessu. Var okkur vísað til hvar tuddi var, svo við fyndum hann, þegar við færum. Klukkan þrjú um nóttina vöknuðum við og klæddumst. Var þá skipt um veður frá deginum áður því nú hvein í húsinu af landsynningsroki og grenjandi rigningu. Ekki mátti láta það á sig fá, og bjuggumst við af stað í skyndi, lögðum á hestinn, létum upp klyfjar, mýldum nautið og héldum út í náttmyrkrið og slagveðrið. Verst var, að komin var flughálka á veginum. Tuddinn reyndist hinn versti í alla staði, var tregur í taumi, sídettandi á hálkunni og tók oft óþægðarköst. Við urðum næstum að þreifa fyrir okkur í myrkrinu.

Guðjón Eyjólfsson og Halla Guðmundsdóttir.

Við lestuðum okkur þannig, að fyrstur fór sá sem teymdi hestinn, næstur fyrir aftan hestinn var sá sem teymdi nautið og sá þriðji rak á eftir því. Svona silaðist lestin áfram niður eftir Svínahrauni hægt og sígandi með töfum og braski í illviðrinu og hálkunni. Oft þurfti að laga á hestinum og fórum við í skjól við vörður til þess. Hélt einn í tuddann, en tveir fengust við klyfjarnar. Þegar halda skyldi af stað, rak sá, sem passaði tuddann, upp öskur mikið líkast neyðarópi og kvaðst hafa misst tauminn. Var boli fljótur að bregða við og stökk út í myrkrið.
Hófst þarna mikill eltingaleikur í myrkrinu út um hraunið. Var einn eftir hjá hestinum, en tveir eltu bola. Endaði sá leikur með þvi að boli slapp að fullu og hvorki sást né heyrðist meira til hans. Þótti okkur þetta skömm mikil, en við svo búið varð að standa. Héldum við ferðinni áfram og gekk nú allt betur eftir að boli týndist. Þegar kom niður undir Sandskeið sáum við ljóstýru færast í áttina á móti okkur. Þótti okkur slíkt allkynlegt og varla einleikið. Þó var enginn geigur í okkur við þetta. Þar kom, að við mættum ljósi þessu. Þarna voru þá nokkrir bændur úr Flóa á austurleið með marga hesta og vagna, og fór hinn landskunni ferðagarpur Sturla Jónsson í Fljótshólum fremstur fyrir lestinni. Hafði hann neglt á fremsta vagninn allháa stöng og hengt á hana olíulukt svo þeir er aftar voru gætu betur fylgst með og rakið sig í slóð hans. Höfðum við ekki séð slíkan útbúnað áður hjá ferðamönnum. Sagði Sturla okkur, að Sandskeiðið væri orðið eins og stöðuvatn og mjög erfitt hefði verið að halda þar vagnbrautinni, en þá var ekki kominn upphlaðinn vegur þar. Við lögðum nú samt út í þetta og var vatns- og krapaekurinn mjög mikill.
Að Lögbergi komum við í birtingu og sögðum Guðmundi bónda frá óhappinu með bola og vorum við hryggir og sneyptir yfir. Við fengum samt engar ákúrur. En af bola er það að segja — og fréttum við það á næsta sumri — að hann stóð á Kolviðarhólshlaði, þegar fólk kom á fætur. Þegar til Reykjavíkur kom seinni part dags fórum við til Jóns Bjarnasonar kaupmanns á Laugavegi og fengum að geyma dót okkar í kjallara undir versluninni. Hestinum komum við í hesthús hjá munda Ámundasyni kaupmanni á Hverfisgötu.
Allir vorum við blautir inn að skinni. Klæddum við okkur úr hverri spjör í kjallarakompunni, undum föt okkar og hengdum þar upp. Síðan fórum við í koffortin, tókum þurr nærföt og spariföt okkar og klæddumst. Um kvöldið fórum við svo í Gamla bíó okkur til skemmtunar og hressingar eftir ferðavolkið.
Einn dag stóð ég við í Reykjavík og heimsótti kunningjafólk. Nú kom sá góði maður sem heitið hafði mér umsjá sinni, og fengum við okkur farseðla með Norska gufuskipinu Mercúr, sem lét úr höfn um kvöld kl. 9. Margt ferðafólk til Vestmannaeyja var með skipinu. Heyrði ég talað um 300 farþega, flest karla. Lítið eða ekkert farþegarými var á skipi þessu. Lestar þess voru hinsvegar að mestu tómar, og þar var fólkinu sagt að hafast við. Ekki hafði ég fyrr stigið fæti um borð í hafskip eða komið á sjó, en dálítið hafði ég sem smástrákur sullað í fjörunni og í bátum við bryggjur á Eyrarbakka meðan ég átti þar heima.

Fjölskyldan í Norðurbænum á Kirkjubæ og vinir þeirra í skemmtigöngu. Ágúst Þorvaldsson greinarhöfundur fremst til vinstri.

Enginn aðbúnaður fyrir farþega var í lestinni á Mercúr ofan á og utan með honum. Þegar kom út fyrir Gróttu fór skipið strax að velta og taka dýfur og jókst það mjög þegar kom fyrir Garðskaga. Stormur var og talsverður sjór og lét skipið enn verr vegna þess að lestarnar voru tómar. Brátt varð sjóveiki mjög almenn meðal farþega. Varð ástandið þarna í lestinni mjög Helst hreiðraði fólk um sig út við síður skipsins. Á einum stað var dálítill stafli af kartöflupokum. Settust sumir ofslæmt. Ekkert vatn var þar, salerni né hjálp að fá af neinu tagi. Spýjan úr fólkinu flaut um lestargólfið, sem gerðist af þeim sökum flughált. Í takt við veltur skipsins fóru spýjubylgjur um lestargólfið, og lágu sumir, sem veikastir voru, ofan í þessum óþverra. Ég var svo heppinn að fá ekki uppköst, en þó leið mér illa af veltingnum og óloftinu. Nokkurn tíma tók það mig að finna úrræði til að verjast því að lenda ofan í gumsinu á gólfinu. Afréð ég loks að taka einn kartöflupoka úr staflanum traustataki. Lagði ég hann á lestargólfið og síðan hnipraði ég mig saman á pokanum og lét hnakktösku, sem ég hafði með smádóti í, undir höfuðið. Ekki leið á löngu þar til kartöflupokinn fór á fleygiferð með mig um flughált spýju slepjað lestargólfið eftir því sem skipið valt. En þarna lá ég steinsofandi og svaf vært og lengi, en rumskaði þó stöku sinnum við hávaða; t. d. vaknaði ég einu sinni við sárt og skerandi vein í stúlku, sem fékk krampa af sjóveiki. Sóttu skipverjar hana og hjúkruðu í íbúð stýrimanns. Þarna svaf ég á kartöflupokanum megnið af ferðinni. Vaknaði ég loks við högg, sem ég fékk í höfuðið. Fannst mér í svefnrofunum eins og þessi högg kæmu frá priki eða spýtu. Skildi ég fyrst ekkert í því hvaðan högg þess gætu komið. En nú glaðvaknaði ég, og sá þá hvers kyns var. Kartöflupokinn minn hafði í einni ferðinni um lestargólfið strandað út við suð og lent þar milli fóta á skeggjuðum karli sem þar sat. Horfði karlinn heiftarlega á mig og danglaði staf sínum í höfuð mér um leið og hann þuldi eitthvað, sem áreiðanlega voru ekki nein blessunarorð. Þegar ég gætti betur að, þá sá ég að þessi karl var enginn annar en sá frægi Oddur hinn sterki af Skaganum, sem skáldið góða Örn Arnarson orti um hinar snjöllu Oddsrímur. Ég var nú fljótur að ýta poka mínum úr klofi Odds og þóttist hafa vel sloppið. Tekið var að halla degi og byrjað að rökkva þegar Mercúr lagðist loks á Víkina milli Miðkletts og Urða í Vestmannaeyjum. Mótorbátar komu fljótt út að skipinu til að sækja fólk og farangur. kyrrð var allmikil í sjónum á Víkinni. Þótti mér ekki árennilegt að verða að klifra niður dinglandi kaðalstiga utan á hinni háu síðu skipsins ofan veltandi bát. Þetta tókst þó, og eftir litla stund stóð ég á Edinborgarbryggjunni ásamt öðrum farþegum. Þangað voru margir Eyjamenn komnir að sækja sína vertíðarmenn, sem þeir áttu von á með Mercúr. Þar á meðal var útvegsbóndinn, sem forsjármaður minn var ráðinn hjá. Sagði hann útvegsbóndanum að með sér væri óráðinn piltur og baðst gistingar fyrir mig um nóttina. Ekki kvað hann mögulegt fyrir sig að veita mér húsaskjól. Horfði nú ekki vel fyrir mér, en þá gaf sig fram maður, sem heyrt hafði hvað fram fór og bauðst til að útvega mér gistingu um nóttina. Sagðist hann telja víst, að mér yrði ekki úthýst, ef leitað væri gistingar á Kirkjubæ hjá þeim hjónum Guðjóni Eyjólfssyni og Höllu Guðmundsdóttur, þó þar væri margt í heimili og húsakynni ekki stór. Fylgdi hann mér svo þangað, og fannst mér það vera alllöng leið, en svo fór sem hann hafði til getið, að gistingin var veitt.

Skipshöfn mb. Hansínu VE 200 vertíðina 1928. Fremri röð fræa vinstri: Ólafur Gíslason Björk, Flóa, Hjörtur Einarsson vélstjóri Geithálsi, Eyjólfur Gíslason skipstjóri, Búastöðum, Valdimar Guðmundsson Kílhrauni, Skeiðum. Aftari röð frá vinstri: Ágúst Gissurarson Byggðarhorni, Flóa, Ágúst Þorvaldsson Brúnastöðum, Flóa, Guðni Gestsson Mel, Þykkvabæ, Ísleifur Pálsson Ekru, Rangárvöllum.

Á þessu góða heimili var mér ókunnum vel tekið, og fann ég, að hjónin vorkenndu mér að koma óráðinn. Guðjón Eyjólfsson var útvegsbóndi, því hann átti 1/4 í mótorbátnum Hansínu. Aðrir eigendur voru: Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, Hannes Jónsson hafnsögumaður á Miðhúsum og Sigurður Hróbjartsson á Litlalandi. Formaður á Hansínu var ungur maður, Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum, bróðursonur Guðjóns á Kirkjubæ. Ég vaknaði fyrsta morguninn í Eyjum eftir væran nætursvefn. Einhvern veginn fannst mér á hjónunum, að þau væru með ráðagjörðir í sambandi við mig, og sögðu þau mér, að ég mætti vera þar þennan fyrsta dag og næstu nótt. Um daginn kom formaðurinn á Hansínu. Eyjólfur Gíslason, að Kirkjubæ, og áttu þeir tal saman frændurnir. Sá ég Eyjólf þá í fyrsta sinn. Oftast hafa mér reynst þau áhrif sem ég verð fyrir af fólki, er ég sé það í fyrsta sinn, örugg vísbending um mannkosti þess, og svo varð hér. Þau Kirkjubæjarhjón tel ég hiklaust meðal hinna bestu manna er ég hef kynnst og Eyjólfur Gíslason þannig gerður, að um hann get ég sagt það sama og Flosi á Svínafelli sagði um Kára Sölmundarson: „Fám mönnum er Kári líkur, og þann veg vildi ég helst skapi farinn vera sem hann er.“ Eyjólfi var það íþrótt og skemmtun að eiga leik við Ægisdætur og aldrei gátu þær gert honum mein á hálfrar aldar sjómennskuferli.
Brátt kom í ljós þarna á Kirkjubæ, að það sem þeir frændur Guðjón og Eyjólfur formaður töluðu um var það, hvort þeir ættu að taka mig á Hansínu, en þar var enn óráðið í eitt hásetarúm. Hygg ég að Halla húsfreyja hafi fremur hvatt til þess. Fyrir góðvild þessa fólks var þetta ákveðið. Þótti mér vel til takast og ferð mín orðin harla góð því svo vel gast mér að þessu fólki. Var ég látinn beita á línuvertíðinni, en róa eftir að net voru lögð. líkaði mér í alla staði vel bæði við félaga mína á sjó og landi.
Við, sem vorum aðkomumenn á Kirkjubæ á vertíðum, vorum á allan hátt meðhöndlaðir eins og við værum hluti af fjölskyldunni. Oft var glatt á hjalla á heimilinu, því bæði voru hjónin glaðlynd, þrátt fyrir miklar raunir vegna barnamissis. Þrjár dætur og þrír synir voru þá enn með foreldrum sínum öll glöð og skemmtileg og vorum við aðkomumennirnir eins og í eigin systkinahópi með þeim.

Hansína VE 200 mæld 11,53 tonn; súðbyrt. Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ og fleiri smíðuðu bátinn í Eyjum sumarið og haustið 1916. Eyjólfur Gíslason Búastöðum (síðar Bessastöðum) var formaður með Hansínu í 7 vertíðir, 1923-1929. Hann lét eftirfarandi skýringu fylgja þessari mynd: „Hansína VE 200 að koma að úr róðri undan Sandi, sunnudaginn 7. marz1924. Hafði dregið öll sín veiðarfæri, tvær 11 neta trossur (22ja möskvasjúp hampnet). Í bátnum eru 1564 fiskar, (einnar náttar). Önnur trossan lá á 18 faðma dýpi og fengust í hana 107 fiskar. Hin lá á 23ja faðma dýpi og voru í henni 1457 fiskar. Er fyrri stjóri var innbyrtur, flaut öll trossan uppi af fiski, logn var og stilltur sjár.“ Myndina tók Lárus Árnason, Búastöðum.

Það var eftirtakanlegt einkenni á Vestmannaeyingum hversu þeir voru trygglyndir og vinfastir og létu sér annt um það fólk, sem hjá þeim vann. Ég var 12 vertíðir í Eyjum á þremur heimilum og alls staðar reyndi ég hið sama, vináttu og tryggð. Fólkið lét í ljós söknuð, þegar vermenn fóru á vorin, og fagnaði þeim af einlægni, þegar peir komu aftur á vetrum.
Margar minningar sækja á hugann frá dvöl minni í Vestmannaeyjum og ferðalögunum í verið, sem oft voru erfið. Meðal annars kom það einu sinni fyrir mig að lenda í bílveltu í Kömbum á leið í verið og meiðast mjög mikið svo ekki varð úr Eyjadvöl þá vertíðina. Ég tel að starf mitt og kynni af mönnum í Vestmannaeyjum hafi orðið mér mikill og góður lífsreynsluskóli og gert mig hæfari en ella hefði orðið til að takast á við önnur störf síðar á lífsleiðinni. Er ég því þakklátur fyrir þennan þátt ævi minni.
Vestmannaeyjar eru áreiðanlega ein mesta perla íslenskrar náttúrufegurðar. Tign og hrikaleikur náttúruaflanna er óvíða meiri og nágrenni eyjanna eitthvert fiskauðugasta hafsvæði sem til er. Slíkt umhverfi hlýtur að móta stórbrotið fólk og kjarkmikið. Náttúruuöflin setja mark sitt á mennina, meitla svip þeirra og stæla kjarkinn. Ótal sinnum hefur fólk í Vestmannaeyjum orðið að þola þungar raunir því slysfarir hafa verið tíðar. Stærsta raunin var þó eldgosið, sem færði hálfa byggðina undir hraun og flæmdi fólkið á braut um sinn. Þá voru Vestmannaeyingar enn sem fyrr þrautgóðir á raunastund, og orðstír sá, er þeir gátu sér mun aldrei deyja, heldur lifa þeim og íslensku þjóðinni til sæmdar.
Sjómönnum og öðrum íbúum Vestmannaeyja sendi ég árnaðaróskir.

Ágúst Þorvaldsson.