Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1971/ Nýir bátar til Vestmannaeyja
Á LIÐINNI vetrarvertíð bættust með stuttu millibili tveir glæsilegir nýsmíðaðir bátar í Eyjaflotann. Innan skamms er svo von á nýsmíðuðum bát, somu gerðar, til Eyja. Er hann eign Björns Guðmundssonar, smíðaður á Akranesi.
Með þessu greinarkorni viljum við fagna komu þessara nýju skipa og lýsa þeim nokkru nánar með máli og myndum.
Bátarnir eru mjög áþekkir að stærð og gerð allri.
Þórunn Sveinsdóttir VE 401 kom til Vestmannaeyja 20. febrúar. Skipið er 105 rúmlestit brúttó. Stálskip smíðað í Stálvík h.f. við Arnarvog. Miðað við eldri mælingu (með þilfarshúsum) er stærð skipsins brúttó 137 rúmlestir. Aðalmál eru þessi: Lengd 26,40 m, breidd 6,70 m og dýpt 3,35 m.
Eigandi Þórunnar Sveinsdóttur er Ós h.f. - fjölskyldufyrirtæki Óskars Matthíassonar.
Skipið er útbúið 800 ha. MWM aðalvél. Ganghraði í reynsluferð var 11,5 sml. Ljósavél er af Bukh-gerð, 57 ha. 25 kw, 220 Volta jafnstraumur. Einnig er við aðalvél 35 kw rafall. Togspil er 13 tonna og eru spildælur við báðar vélar. Togkraftur var reyndur hjá Stálvík og var hann 7100 kg. Það er mesti togkraftur, sem mælst hefur hjá fyrirtækinu miðað við sambærilega stærð skipa. Þetta þýðir að hægt verður að toga á dýpra vatni og með þyngri veiðarfæri.
Í bátnum eru öll nýjustu siglinga og fiskileitartæki, Loran, Decca-radar o. s. frv. Kælikerfi í lest getur kælt allt niður í 15 stiga frost. Bjóðageymsla er afturá, útbúin sérstakri kælivél.
íbúðir eru fyrir 12 manna áhöfn, 3 klefar eru aftur í, 2 neðan þilja og einn í brú. Frammi í eru 2 þriggja manna klefar.
Trésmíðavinnu annaðist Nökkvi h.f. í Garðahreppi og er hún vönduð.
Báturinn kostaði 28 milljónir króna hingað kominn. Hann reyndist prýðilega á vetrarvertíðinni. Óskar Matthíasson var með bátinn, en sonur hans, Sigurjón, stýrimaður.
Eftir vertíðina tók Sigurjón við skipstjórn og verður með bátinn í sumar. Kippir honum í kynið og er mikill fiskimaður; var með Leó í fyrrasumar.
Vélskipið Þórunn Sveinsdóttir er nefnt eftir móður Óskars, eiginkonu Matthíasar Gíslasonar, sem fórst með Má 24. janúar 1930 (sjá þá grein, bls. 22.)
Þórunn var fædd á Eyrarbakka 8. júlí 1894. Hún fluttist til Vestmannaeyja árið 1917; var síðari maður hennar Sigmar Guðmundsson. Bjó hún uppfrá því í Vestmannaeyjum og andaðist 20. maí 1962.
Danski Pétur VE 423 er smíðaður í skipasmíðastöðinni Þorgeir & Ellert h.f, Akranesi. Hann kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum 10. mars. Hófst smíði skipsins í apríl 1970, og var það afhent eiganda, Emil Andersen, 8. mars 1971. Nafnmóðir skipsins var eiginkona hans, frú Þórdís Jóelsdóttir.
Skipið er allt smíðað úr stáli, nema fremsti hluti brúar, sem er úr saltvörðu áli. Skipið er sandblásið frá siglutoppum til kjöls og síðan galvaniserað niður að sjólínu.
Stærð: 102 rúmlestir brúttó (skv. gömlu reglunum 140 rúmlestir.) Aðalmál: Lengd 27,60 metrar, breidd 6,60 metrar og dýpt 3,30 metrar. Lestarrými er ca. 105 m3.
Aðalvél er B.W. Alfa, 500 hestöfl og vax ganghraði í reynsluferð 11,7 sjómílur. Ljósavél er af Bukh-gerð - 54 hestöfl, 30 kw, 220 Volt riðstraumur. Við aðalvél er einnig 26 kw rafall. Arkas sjálfstýring og stýrisvél af gerðinni Frydenbö, raf- og vökvadrifin er í bátnum.
Í Danska Pétri eru öll nýjustu siglinga- og fiskileitartæki. Sérstaka athygli vekur Atlasfisksjá af gerðinni Krupp; er slíkt tæki nýjung í íslenzkum fiskibátum.
Íbúðir eru fyrir 13 manna áhöfn; 2 tveggja manna klefar í káetu og 2 fjögurra manna klefar frammi í. Skipstjórnarklefi er í þilfarshúsi.
Danski Pétur er tryggður hjá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja. Er hann fyrsti báturinn, sem tryggður er í nýrri tryggingardeild félagsins yfir skip stærri en 100 rúmlestir; en nýjar reglur hafa verið settar um tryggingu þeirrar stærðar skipa.
Emil Andersen hefur rekið útgerð óslitið síðan árið 1935. Danski Pétur er fimmti báturinn, sem hann gerir út. Áður hefur Emil átt Skógafoss elsta, Metu, Skógafoss yngra og Júlíu, sem hann á enn.
Emil var með bátinn í vetur og reyndist hann í alla staði mjög vel. Jóel sonur hans var stýrimaður og verður hann með bátinn í sumar.
Danski Pétur er skírður í höfuðið á föður Emils og þeirra systkina. Danski Pétur var hér merkur maður á sinni rið. Hann hét fullu nafni Hans Peter Andersen, fæddur í Frederikssund í Danmörku 31. mars 1887, og var hér aldrei kallaður annað en Danski Pétur.
Hann mun hafa komið til Vestmannaeyja frá Eskifirði þar sem hann dvaldi sumarið 1906 til þess að leiðbeina mönnum við meðferð mótorvéla og setja þær niður í fiskibáta. Hafði Pétur verið sendur til Austfjarða frá dönsku mótorverksmiðjunni DAN, sem seldi hingað til Íslands flestar vélar á fyrstu árum vélbátanna hét á landi.
Fyrstu vertíðina, sem Pétur dvaldi í Vestmannaeyjum, var hann til heimilis hjá Margréti og Guðlaugi í Gerði. Þetta var vertíðina 1907 og var Pétur þá mótoristi á mb. Friðþjófi VE 98, sem var 7,53 tonn að stærð með 8 hestafla Dan. Formaður var hinn miklu aflamaður og sjósóknari Friðrik Svipmundsson, Löndum.
Pétur fékk fljótt á sig mikið orð fyrir góða sjómennsku og hæfileika til vélgæslu.
Vertíðina 1909 var Pétur mótoristi á nýkeyptum bát, Lunda VE 141, og á þeim báti var hann í 12 vertíðir. Fyrstu 3 vertíðirnar sem mótoristi, en þá tók hann við skipstjóri og gerðist meðeigandi.
Danski Pétur var formaður í nær 20 ár og var í hópi þeirra, sem luku hér fyrsta skipstjórnarnámskeiðinu árið 1918. Hann var ágætur fiskimaður og fískikóngur Eyjanna varð hann vertíðina 1924.
Pétur var kvæntur Jóhönnu Guðjónsdóttur frá Sigluvík í Landeyjum.
Pétur rak útgerð alla ævi og var sérstakur hirðumaður um bát og veiðarfæri. Hafa synir hans sannarlega erft þann eiginleika hans. Pétur andaðist í Vestmannaeyjum 7. apríl 1955.