Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 1968
Sjómannadagur var haldinn um allt land dagana 25. og 26. maí. - Fór hann fram með hefðbundnum hætti. Hið merkasta má telja, að um sjómannadaginn var opnuð í Reykjavík stærsta og merkilegasta sjávarútvegssýning, sem hér hefur verið haldin til þessa - sýningin Íslendingar og hafið. Svonefndur H-dagur, er Íslendingar skiptu yfir til hægri umferðar, var 26. maí og skyggði mjög á sjómannadaginn. Í þessu sambandi er það reyndar eftirtektarvert, hve sjómannadagurinn skipar æ minni sess meðal íbúa höfuðstaðarsvæðisins. Má þetta undarlegt teljast í landi umgirtu hafi þar sem enginn hefur í sig né á, nema eitthvað fáist úr sjó. Þetta afskipta- og þátttökuleysi á sjómannadaginn vekur undrun margra.
Í Vestmannaeyjum hefur þessu ávallt verið á annan og heilbrigðari hátt farið, enda skilja hér allir og meta, hvar sem þeir ella í stétt standa, gildi sjómannastéttarinnar og sjávaraflans. Var hér eins og venjulega almenn þátttaka í hátiðahöldum dagsins og sjómannadagurinn einn af helztu hátíðisdögum Eyjamanna.
Að venju stóðu hátíðahöldin í tvo daga og hófust á laugardeginum eftir hádegi inni í Friðarhöfn. Var þar keppt í ýmsum íþróttum. Skal þá fyrst telja höfuðíþróttagrein sjómannadagsins, kappróðurinn, en þar var keppt í 7 riðlum, og þreyttu 17 sveitir róður. Er þessi mikli áhugi á kappróðrinum sérstaklega ánægjulegur og lofsverður. Þessi keppnisgrein er líka burðarás í skemmtun laugardagsins. - Að þessu sinni vakti þátttaka stúlkna úr fiskvinnslustöðvunum sérstaka athygli, og þóttu þær sýna ágætan róður. Var þetta skemmtileg tilbreytni, sem væri óskandi, að yrði áframhald á. Róðrarkeppnin var að venju mjög tvísýn og hörð. Róin var 300 metra vegalengd, og var endamark inni í Friðarhöfn. Veður var ágætt, austan golukaldi, glaðasólskin og góðviðri.
Úrslit í kapprórðrinum urðu sem hér segir (nafn róðrarbáts í sviga):
Sveitir skipshafna (2 riðlar):
Gullberg (Ólafur) - 1:27,2 m
Lundi (Hreyfill) - 1:29,3 m
Halkion (Ólafur) - 1:30,3 m
Huginn II (Hreyfill) - 1:36,0 m
Sveitir Fiskvinnslustöðva:
Hraðfrystistöð - 1:31,6 m
Vinnslustöð – 1:33,2 m
Ísfélag - 1:40,0 m
Sveitir fyrirtækja:
Neisti - 1:31,1 m
Magni - 1:31,5 m
Sveitir unglinga:
Steinaldarmenn - 1:32,5 m
Skátar - 1:33,4 m
Gagnfræðaskólinn - 1:38,5 m
Sést af þessu, að róðurinn er Eyjamönnum í blóð borinn og þeir hafa kunnað að róa strax á steinöld!
Sveitir blómarósa úr frystihúsunum(reru mjög vel!):
Ísfélag - 1:51,8 m
Vinnslustöð - 1:58,7 m
Fiskiðjan - 1:58,7 m
Sveitir drengja:
Vesturbær - 1:36,2 m
Austurbær — 1:40,2 m
Þetta er glæsilegur hópur, og vill blaðið hér með stinga upp á, að sérstök aukaverðlaun verði veitt fyrir bezta tíma allra sveita.
Þá fór fram tunnuhlaup með líku sniði og í fyrra, og var hlaupið yfir samanbundnar fljótandi tunnur. - Þátttakendur í tunnuhlaupinu voru: Már Lárusson, Eiríkur Heiðar Sigurgeirsson, Grímur Magnússon, Ragnar Sigurjónsson og Luvis Pétursson. Vann Luvis hlaupið, hljóp yfir 6 tunnur.
Í koddaslag var harðvítug keppni, og varð sigurvegari Björn Kristjánsson (Georgssonar), sem sló alla af sér. Aðrir keppendur voru Sigurður Ragnarsson, Sigmar Benediktsson, Sigmar Sveinbjörnsson, Tómas Jónsson og Ólafur Kristinsson. Að loknum þessum ágætu íþróttum var knattspyrnuleikur á íþróttavellinum við Hástein milli 1. deildar ÍBV og Íslandsmeistara Vals. -Vann lið ÍBV verðskuldaðan sigur með 3 mörkum gegn 1 eftir mjög skemmtilegan og spennandi leik. Var hið glæsilega 1. deildarlið ÍBV hér að hefja sigurgöngu sína sumarið 1968, sem lauk með því, að á haustdögum komu þeir færandi hendi heim með eftirsóttan bikar í bikarkeppni KSÍ. Varð lið ÍBV bikarmeistarar Íslands árið 1968, og veitir þessi eftirsótti sigur liðinu rétt til þátttöku í bikarkeppni Evrópuliða í sumar. Fylgja þeim góðar óskir.
Um laugardagskvöldið var kvöldskemmtun í Samkomuhúsi Vestmannaeyja með ágætis meðlæti og skemmtikröftum, Magnúsi Jónssyni óperusöngvara og leikurunum Árna Tryggvasyni, Ómari Ragnarssyni og Klemensi Jónssyni, en hljómsveitin Gautar frá Siglufirði lék fyrir dansi.
Á sunnudagsmorgun hófust hátíðahöldin aftur við Samkomuhúsið. Var gengið þaðan í skrúðgöngu að minnismerki hrapaðra og drukknaðra og síðan til kirkju. Flutti Einar J. Gíslason ræðu við minnismerkið og Magnús Jónsson söng. Sr. Þorsteinn Lúther Jónsson sóknarprestur sá um sjómannamessuna.
Nokkuð spilltist veður, en síðdegis voru að venju skemmtiatriði og ræður á Stakkagerðis túninu, og voru sigurvegarar í íþróttagreinum dagsins verðlaunaðir. Þá voru og veitt heiðursverðlaun og skjöl sjómannadagsins. Á kvöldskemmtun dagsins voru aflakóngur og fiskikóngur ásamt skipshöfnum þeirra hylltir og hæsta nemanda við brottfararpróf Stýrimannaskólans afhent Verðanda-úrið.
Dunaði síðan dansinn til klukkan 4 að morgni. Í alla staði voru hátíðahöldin hin ánægjulegustu og fóru vel fram.